Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 30/2008

Fimmtudaginn, 20. nóvember 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 14. júlí 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá Bjarka M. Baxter hdl., Málþingi ehf., f.h. A, sem dagsett er sama dag.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði mánuðina mars og apríl 2006 sem birt var kæranda með greiðsluáskorun dagsettri 15. apríl 2008.

 

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Vinnumálastofnunar- Fæðingarorlofssjóðs um að kæranda verði gert að endurgreiða sjóðnum X krónur (X krónur auk 15% álags) verði felld úr gildi.

Til vara krefst kærandi þess, ef niðurstaða úrskurðarnefndarinnar verður sú að endurgreiðslukrafa Fæðingarorlofssjóðs verði tekin til greina að einhverju eða öllu leyti, að 15% álag sem Fæðingarorlofssjóður hefur lagt í endurgreiðslukröfuna verði fellt niður.

 

Um málsatvik segir í kærubréfi:

„... X. maí sl. fæddist kæranda og eiginkonu hans barn. Kærandi hafði af því tilefni lagt fram umsókn til Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu fæðingarorlofs úr sjóðnum á grundvelli laga nr. 95/2000. Með bréfi, dags. 1. apríl 2008, sbr. skjal 2, var kæranda tilkynnt að ekki væri hægt að afgreiða umsóknina, m.a. vegna þess að kærandi hefði þegið laun í mars og maí árið 2006 á sama tíma og kærandi naut greiðslna frá sjóðnum vegna barns síns sem fæddist þann X. janúar 2005. Óskaði Fæðingarorlofssjóður annars vegar eftir launaseðlum fyrir umrædda mánuði sem og útskýringum vinnuveitenda vegna launagreiðslnanna.

Í framhaldinu útvegaði kærandi þau gögn sem óskað var eftir í bréfi sjóðsins. Þrátt fyrir það og að kærandi útskýrði málin munnlega fyrir starfsmanni Fæðingarorlofssjóðs var kæranda send greiðsluáskorun þann 15. apríl sl. þar sem því er m.a. ranglega haldið fram að kærandi haft verið í 100% starfi í mars og maí árið 2006. Því væri kærandi krafinn um greiðslu á X krónur innan 4 vikna ellegar bætist við 15% álag, þannig að fjárhæðin yrði X krónur. Með kæru þessari er þess krafist að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um meintar ofgreiðslur úr sjóðnum verði felld úr gildi.“

Um málsatvik að því er varðar starf kæranda í mars og maí árið 2006 segir í kærubréfi:

„Kærandi lagði fram umsókn til Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. apríl 2006, sbr. skjal 8, um greiðslur úr sjóðnum vegna barns síns og eiginkonu sinnar sem fæddist þann X. janúar 2005. Þegar kærandi útbjó umsóknina gerði hann ráð fyrir því að taka 100% fæðingarorlofi í mars og maí árið 2006.

Á þessum tíma starfaði kæranda hjá fyrirtækinu B, og gegndi starfi sölustjóri. Hafnar voru viðræður fyrirtækisins um kaup á öðru félagi í samskonar rekstri, D. Viðræður félaganna leiddu til þess að félögin voru sameinuð þann 26. júní 2006 undir merkjum D og var félagið B lagt niður. Kærandi hélt starfi sínu sem sölustjóri hjá hinu sameinaða félagi.

Vegna yfirvofandi kaupa og sameiningar framangreindra félaga breyttust forsendur kæranda og samdist svo á milli hans og vinnuveitanda að kærandi yrði í 49% starfi þessa mánuði. Það var vegna þess að kærandi gegndi ábyrgðarstöðu hjá vinnuveitanda sínum sem sölustjóri og hafði nokkra aðkomu að sameiningarferlinu að því er hans starfssvið varðaði. Í mars og maí var kærandi því í 49% starfi og sinnti starfi sínu aðallega á starfsstöðu fyrirtækisins eftir þörfum og ósk vinnuveitanda. Þáverandi framkvæmdastjóra B, E hefur staðfest þetta skriflega, sbr. meðfylgjandi skjal nr. 14. Vegna mjög svo aukinnar ábyrgðar kæranda í starfi og þó sérstaklega aðkomu hans að sameiningarferlinu hækkuðu laun kæranda á þessum tíma. Til upplýsingar skal tekið fram að umsvif hins sameinaða félags voru töluverð, þannig varð kærandi sölustjóri hjá félagi sem seldi vörur fyrir um milljarð króna á ári.

Laun kæranda voru X krónur fyrir hvorn mánuð fyrir 49% starf. Því er það rangt sem segir í greiðsluáskorun Fæðingarorlofssjóðs, að kærandi hafi verið í „fullu starfi" umrædda mánuði. Sú fullyrðing styðst ekki við gögn málsins eða staðfestingu þáverandi vinnuveitanda hans. Þykir kæranda því furðu sæta að því skuli vera haldið fram í greiðsluáskoruninni að hann hafi verið í fullu starfi, enda hafði hann gert sitt ýtrasta til að skýra málið fyrir starfsmönnum Fæðingarorlofssjóðs, m.a. með því að afla staðfestingar þáverandi yfirmanns síns.

Það skal tekið fram að kærandi tilkynnti um 49% starfshlutfall sitt í umræddum mánuðum til umboðsmanns Tryggingastofnunar á X-stað á sinum tíma. Af einhverju ástæðum hafa gögn um þá tilkynningu ekki fundist í fórum Fæðingarorlofssjóðs en þess er óskað að úrskurðarnefndin afli þessara gagna, sbr, og 10. gr. stjórnsýslulaga. Hafi kærandi tilkynnt þetta munnlega/símleiðis ber stjórnvaldi að skrá upplýsingar um málsatvik sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og þær er ekki að finna í öðrum gögnum þess, sbr. 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.“

 

Þá segir um röksemdir fyrir kröfum kæranda í bréfinu:

„Kærandi telur að endurgreiðslukrafa Fæðingarorlofssjóðs byggi ekki á viðhlítandi lagagrundvelli og þegar af þeirri ástæðu beri að fella hana úr gildi. Þá telur kærandi að krafan sé reist á forsendum sem eru rangar og kærandi hefur þegar leiðrétt og skýrt í samskiptum sínum við stofnunina.

Nánar tiltekið eru röksemdir kæranda fyrir kröfum um ógildingu ákvörðunar Fæðingarorlofssjóðs á endurgreiðslukröfunni þessar helstar:

Kærandi útvegaði þau gögn sem starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs óskaði eftir í bréfi 1. apríl 2008. Í greiðsluáskorun dags. 15. apríl er af einhverju ástæðum ekki fallist á „útskýringar“ kæranda sem birtust m.a. í launaseðlum og skriflegri staðfestingu fyrrum vinnuveitanda sem kærandi sendi sjóðnum. Kærandi telur að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, að taka ekki tillit til gagnanna, styðjist ekki við lagaheimild heldur byggi á óútskýrðu og ómálefnalegu huglægu mati sem ekki hefur verið rökstutt að neinu leyti þrátt fyrir ítrekaðir óskaðir kæranda þar um. Þá hefði sjóðnum verið í lofa lagið, og raunar lögskylt samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, að kanna atvik með nánari hætti, t.d. með símtali til fyrrum yfirmanns kæranda, ef sjóðurinn taldi umbeðin gögn ekki nægjanlega skýr. Telur kærandi að fella beri ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um endurgreiðslu meintra ofgreiðslna úr gildi þegar af þessum ástæðum.

Þá verður að hafna því sérstaklega að „upplýsingar frá Ríkisskattstjóra“ beri með sér að kærandi hafi verið í 100% starfi í umrædda mánuði. Ríkisskattstjóri heldur ekki skrá yfir starfshlutfall skattgreiðenda hjá vinnuveitendum sínum!

Þá vísar kærandi einnig til þess að hann á lögbundinn rétt til fæðingarorlofs, sbr. 8. gr. ffl., sem og lögbundinn rétt til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. 1 6. mgr. sömu greinar segir að greiðslur til foreldra í ákveðnum starfshlutföllum skuli aldrei nema lægri fjárhæðum en þar eru greindar. Samkvæmt framangreindu var kærandi í 49% starfi og átti hann því rétt á greiðslum samkvæmt því. Endurgreiðslukrafa Fæðingarorlofssjóðs lítur að því að kærandi endurgreiði að öllu leyti þær greiðslur sem hann fékk í mars og maí 2006, en sú krafa brýtur gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sem og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, sbr. framangreint er endurgreiðslukröfunni því einnig mótmælt á þeim grunni.

 

Í kæru þessari krefst kærandi þess til vara að 15% álag á meintar ofgreiðslur verði fellt niður. Kærandi styður þá kröfu sína aðallega við þau rök að hann hefur frá því að hann fékk senda greiðsluáskorun Fæðingarorlofssjóðs ítrekað reynt að fá fullnægjandi svör við hvaða lagaheimildir og gögn krafa sjóðsins styðst við. Vísast um þetta til bréfa og tölvupósta sem kærandi hefur sent sjóðnum og fylgja með kærunni. Að mati kæranda hefur Fæðingarorlofssjóður ekki sinni beiðni hans um rökstuðning með fullnægjandi hætti, sbr. 21. og 22. gr, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þó sérstaklega 1. mgr. 22. gr. Ótækt er að kærandi verði látinn greiða álag á greiðslur sem hann hefur: aldrei fengið fullnægjandi útskýringar á þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.

Að öðru leyti en að framan greinir er þess óskað að úrskurðarnefndin skoði önnur þau atriði og afli þeirra gagna sem nauðsynleg eru svo rétt niðurstaða fáist í kærumáli þessu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Kæranda finnst á rétti sínum brotið í samskiptum við stofnunina en þó verst að hafa aldrei fengið fullnægjandi upplýsingar með tilvísun til laga og réttarreglna um þá endurgreiðslukröfu sem honum var send með greiðsluáskorun.“

 

Með bréfi, dagsettu 22. ágúst 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 5. september 2008. Í greinargerðinni segir:

„Við vinnslu umsóknar kæranda vegna yngra barns hans er fæddist X. maí 2008 kom í ljós að svo virtist vera sem kærandi hefði ekki lagt niður launuð störf mánuðina mars og maí 2006 á sama tíma og hann þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna eldra barns sem fæddist X. janúar 2005.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 1. apríl 2008, var óskað eftir launaseðlum fyrir mars og maí 2006 þar sem kærandi hafði komið fram með laun frá vinnuveitanda í staðgreiðsluskrá RSK á þeim tíma sem hann var í fæðingarorlofi og þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Einnig var óskað útskýringar vinnuveitanda kæranda á laununum. Umbeðnir launaseðlar bárust 14. apríl 2008 sem og útskýringar frá kæranda, dags. 9. apríl 2008, ásamt bréfi frá fyrrum vinnuveitanda kæranda, dags. 11. apríl 2008. Auk þess lágu fyrir við ákvörðunina upplýsingar úr staðgreiðsluskrá RSK (í kæru merkt nr. 1-6), greiðsluáætlun með tilhögun fæðingarorlofs dags. 21. mars 2006, samskipti stofnunarinnar við kæranda með báðum börnunum (í kæru nr. 7-8), umsóknargögn í fæðingarorlofi með barni fæddu X. janúar 2005 og upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með 1. gr. reglugerðar nr. 826/2007, um breytingu á reglugerð nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, var Vinnumálastofnun falið að annast eftirlit með framkvæmd laganna skv. 15. gr. b. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004.

Í 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram að greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. skulu koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris. Í athugasemdum með 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 segir orðrétt:

Talið er mikilvægt að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim er ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda er eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi er Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta. Kæmi sá hluti því ekki til frádráttar. Er því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þegar foreldri hefur hærri tekjur en hámarkstekjurnar sem lagt er til að verði miðað við skv. 3. mgr. þá er gert ráð fyrir að hærri greiðslur en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr sjóðnum. Þó er heimilt að taka tillit til tiltekinna breytinga sem geta orðið á tekjum foreldra á þeim tíma sem líður frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram til upphafs fæðingarorlofs foreldris og geta talist vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Með þessum hætti er verið að undirstrika tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem er aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki. Er með þessu enn fremur lögð rík áhersla á að foreldrar leggi sannanlega niður launuð störf á þeim tíma er þeir nýta sér rétt sinn samkvæmt lögunum.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram hvaða laun skuli telja með við útreikning á meðaltali heildarlauna. Samkvæmt ákvæðinu skal telja til launa hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald er stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A – liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 7. og 8. gr. laga um tryggingagjald er frekari upptalning á því hvað teljist til gjaldstofns tryggingagjalds skv. 6. gr. laganna og í 9. gr. er upptalning á því hvaða greiðslur séu undanþegnar tryggingagjaldi. Við mat á því hvaða greiðslur vinnuveitenda mega fara með og hvaða greiðslur mega ekki fara með greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er því nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar hvaða greiðslur það eru sem sjóðurinn telur með þegar fundið er út meðaltal heildarlauna foreldris.

Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, er fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. kemur fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í 3. mgr. er heimild til skuldajafnaðar ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta, og vaxtabóta og í 4. mgr. er kveðið á um hvernig skuli fara með innheimtu ofgreidds fjár úr Fæðingarorlofssjóði. Í athugasemdum með 6. gr. segir svo um þetta:

Þannig er gert ráð fyrir að foreldri endurgreiði til Fæðingarorlofssjóðs þá fjárhæð sem ofgreidd var í þeim tilvikum er foreldri fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en því bar. Á þetta bæði við um þegar upplýsingar [Tryggingastofnunar ríkisins] hafa ekki verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda og þegar foreldri hefur fengið greiðslur úr sjóðnum án þess að hafa lagt niður störf. Enn fremur á þetta við um öll önnur tilvik þar sem af einhverjum ástæðum hefur verið ofgreitt úr sjóðnum. Þá verður það að teljast nauðsynlegt til að tryggja að samkeyrsla fæðingarorlofskerfisins við skattkerfið hafi tilætluð áhrif að lögin heimili skuldajöfnuð við útgreiðslur skattkerfisins, svo sem endurgreiðslu frá skattyfirvöldum hafi greiðsla foreldris verið meiri en sem nemur endanlega álögðum sköttum, barnabótum og vaxtabótum. Er þess vegna lagt til að í þeim tilvikum er foreldri ber að endurgreiða til [Tryggingastofnunar ríkisins] verði stofnuninni veittar heimildir til að leita aðstoðar innheimtumanns ríkissjóðs um skuldajöfnun við inneign foreldris hjá hinu opinbera. Í þeim tilvikum þegar skuldajöfnun verður ekki komið við og foreldri sinnir ekki áskorun um endurgreiðslu fer um innheimtu kröfunnar skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Er félagsmálaráðherra enn fremur gert heimilt að fela sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er fjallað um leiðréttingar á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir:

1. Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum skal Vinnumálastofnun senda út greiðsluáskorun til foreldris vegna fjárhæðarinnar ásamt viðbættu 15% álagi. Þegar foreldri telur að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um hærri greiðslur úr sjóðnum skal foreldri færa skriflega fyrir því rök innan fjögurra vikna frá því að greiðsluáskorun sannanlega barst foreldri. Vinnumálastofnun skal taka afstöðu til þess innan fjögurra vikna frá því að erindið barst stofnuninni hvort rök foreldris leiði til þess að fella skuli niður álagið. Ákvarðanir Vinnumálastofnunar samkvæmt ákvæði þessu eru kæranlegar til Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

2. Endurgreiði foreldri ekki ofgreiddar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt greiðsluáskorun, sbr. 1. mgr., skal innheimtuaðilum skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, falin innheimtan. Um skuldajöfnun á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt gilda almennar reglur um skuldajöfnuð og reglugerðir um barnabætur og vaxtabætur.

3. Endurgreiðsla foreldra á ofgreiddum greiðslum ásamt viðbættu álagi samkvæmt ákvæði þessu skulu renna í Fæðingarorlofssjóð.

Í samræmi við framangreind ákvæði og skýringar og með vísan til tilhögunar fyrirhugaðs fæðingarorlofs kæranda með barni fæddu X. janúar 2005, samskiptasögu stofnunarinnar við kæranda, innsendra launaseðla á meðan á fæðingarorlofi stóð í mars og maí 2006 og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá RSK verður ekki annað séð en að kærandi hafi ekki lagt niður launuð störf í samræmi við ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof á þeim tíma er hann hugðist taka fæðingarorlofi mánuðina mars og maí 2006.

1. Í mars 2006 var kærandi skráður í 100% fæðingarorlof og þáði X krónur frá Fæðingarorlofssjóði. Á sama tíma var kærandi með 100% mánaðarlaun frá vinnuveitanda ásamt því að fá greiddan fastan bílastyrk eða alls X krónur.

2. Í maí 2006 var kærandi skráður í 83% fæðingarorlof og þáði X krónur frá Fæðingarorlofssjóði. Á sama tíma var kærandi með 100% mánaðarlaun frá vinnuveitanda ásamt því að fá greiddan fastan bílastyrk eða alls X krónur. Í mánuðinum fékk kærandi einnig greiddar X krónur úr sjóðum VR en ekki er gerð athugasemd við þá greiðslu.

Á yfirliti úr Navision kerfi stofnunarinnar (er sýnir laun kæranda skv. staðgreiðsluskrá RSK tekjuárin 2006 – 2007 merkt nr. 1-6) kemur fram að kærandi er með föst laun X krónur mánuðina janúar – maí 2006 frá A. (nr. 4). Kærandi var því með sömu laun frá vinnuveitanda á tímabilinu óháð því hvort hann átti að vera í fæðingarorlofi eða ekki (skjöl nr. 1 og 4. Skjal nr. 1 sýnir heildarlaun kæranda tekjuárin 2006 – 2007 að frádregnum greiðslum Fæðingarorlofssjóðs mánuðina mars og maí 2006 og greiðslu frá VR í maí 2006 og skjal nr. 4 sýnir laun kæranda frá B). Á bréfi frá kæranda, dags. 9. apríl 2008 og bréfi frá fyrrum vinnuveitanda, dags. 11. apríl 2008 er því haldið fram að kærandi hafi verið í 49% starfi frá 1. mars – 26. júní 2006 sem stemmir ekki miðað við laun kæranda skv. staðgreiðsluskrá RSK, sbr. að framan. Af innsendum launaseðlum kæranda fyrir mánuðina mars og maí 2006 verður auk þess vart annað séð en að verið sé að greiða 100% mánaðarlaun sem og fastan bílastyrk. Á skjali nr. 7 (samskiptasaga TR við kæranda með barni fæddu X. janúar 2005) sést að borist hefur tilkynning frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 20. mars 2006. Er sú skráning í samræmi við tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs frá kæranda sem dagsett er 1. mars 2006 og barst Fæðingarorlofssjóði skv. stimpli stofnunarinnar 17. mars 2006. Á þeirri tilkynningu sem undirrituð er af kæranda og vinnuveitanda kemur greinilega fram að kærandi ætli að taka fæðingarorlof sitt allan mars 2006 og frá 6. maí – 31. maí 2006. Kæranda var í kjölfarið send greiðsluáætlun frá TR, dags. 21. mars 2006 þar sem kemur fram hvernig greiðslum fyrir mars og maí 2006 verði háttað. Ekki verður séð að neinar athugasemdir hafi borist við þeirri greiðsluáætlun, hvorki í samskiptasögu né í öðrum gögnum málsins.

Kæranda var því í samræmi við 1. mgr. 15. gr. a. ffl. og 1. mgr. 6. gr. rgl. nr. 1056/2004, send greiðsluáskorun, dags. 15. apríl 2008, þar sem hann var krafinn um framangreinda útborgaða upphæð frá Fæðingarorlofssjóði X krónur að viðbættu 15% álagi eða alls X krónur. Var kæranda jafnframt gefið færi á að senda Fæðingarorlofssjóði skrifleg rök fyrir því að fella skyldi niður álagið. Ekki hafa borist nein skynsamleg rök frá kæranda, hvorki þá né nú með kæru, sem gefa tilefni til að fella niður álagið.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kærandi hafi réttilega verið endurkrafinn um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs með barni fæddu X. janúar 2005 þar sem kærandi hafi ekki lagt niður launuð störf í fæðingarorlofi í samræmi við ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof.“

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. september 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 23. september 2008 þar sem ítrekaðar eru kröfur og röksemdir kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur sem hann fékk frá Fæðingarorlofssjóði mánuðina mars og maí 2006.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er fæðingarorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Samkvæmt 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris. Í athugasemdum við 9. mgr. 13. gr. segir í greinargerð að talið sé mikilvægt að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim sé ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda sé eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó sé gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi er Fæðingarorlofssjóði sé ekki ætlað að bæta. Kæmi sá hluti því ekki til frádráttar. Sé því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þó sé heimilt að taka tillit til tiltekinna breytinga sem geti orðið á tekjum foreldra á þeim tíma sem líður frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram til upphafs fæðingarorlofs foreldris og geti talist vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Með þessum hætti sé verið að undirstrika tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem sé aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki. Sé með þessu enn fremur lögð rík áhersla á að foreldrar leggi sannanlega niður launuð störf á þeim tíma er þeir nýta sér rétt sinn samkvæmt lögunum.

Í 2. mgr. 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004, segir að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem kærandi er endurkrafinn um er vegna barns sem fætt er X. janúar 2005. Samkvæmt greiðsluáætlun dagsettri 21. mars 2006 voru meðaltekjur kæranda viðmiðunarárin 2003 og 2004, X krónur og mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt því, X krónur. Samkvæmt tilkynningu kæranda um tilhögun fæðingarorlofs dagsettri 1. mars 2006 er tilkynnt um töku fæðingarorlofs 1. mars 2006 til 31 mars 2006 og 6 maí 2006 til 31 maí 2006. Í samræmi við það er í greiðsluáætlun gert ráð fyrir greiðslu í mars 2006, X krónur og í maí X krónur.

Af hálfu kæranda kemur fram að í samráði við vinnuveitanda hans, B hafi þessari tilhögun verið breytt á þann veg að hann hafi verið í 49% starfi þótt á launaseðlum sé tilgreint 100% starfshlutfall. Ástæða fyrir breyttu fyrirkomulagi hafi verið sameiningarferli sem hafi verið í gangi vegna sameiningar B og D sem hafi verið sameinuð 26. júní 2006. Hafi laun hans hækkað tímabundið vegna þessa. Liggur fyrir staðfesting fyrrverandi framkvæmdastjóra B og jafnframt fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóra D um að kærandi hafi á tímabilinu 1. mars til 26. júní 2006 starfað í 49% starfshlutfalli. Telur kærandi sig hafa tilkynnt um breytta tilhögun fæðingarorlofs til Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs en á samskipta-skrá hjá stofnuninni er ekki getið um slíka tilkynningu.

Mánaðartekjur kæranda frá vinnuveitanda, sem tryggingagjald var greitt af voru mánuðina janúar til maí 2006, X krónur og í júní voru þær X krónur. Eins og fram er komið voru meðal mánaðarlaun kæranda tekjuárin 2003 og 2004, X krónur og reiknaðar mánaðargreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns sem fætt var X. janúar 2005 samkvæmt því X krónur. Svo sem fram kemur í 9. mgr. 13. gr. ffl. koma greiðslur frá vinnuveitanda sem eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Mánaðargreiðsla frá vinnuveitanda sem væri umfram X krónur kæmi samkvæmt þeirri reglu til frádráttar. Frádráttur samkvæmt 9. mgr. 13. gr. væri þannig mun hærri en mánaðarlegar greiðslur samkvæmt greiðsluáætluninni. Fékk kærandi samkvæmt því hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en honum bar. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Það skal tekið fram að réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns og að launabreytingar sem verða eftir þann tíma geta ekki haft áhrif á útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Varakrafa kæranda er að álag sem hafi verið lagt á endurkröfuna verði fellt niður. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. a ffl. skal fella niður álag færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og því sem fram kemur í gögnum málsins um málsatvik þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um endurkröfu á greiðslum til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta