Hoppa yfir valmynd
25. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 26/2008

Fimmtudaginn, 25. september 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 20. júní 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 19. júní 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um viðmiðunartímabil meðaltals heildarlauna kæranda til útreiknings greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, sem tilkynnt var honum með bréfi dagsettu 10. júní 2008.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Viðmiðunarár eru ekki samkvæmt umsókn og reglum þess tíma er sótt var um. Samkvæmt hjálögðum gögnum og umsóknareyðublöðum er viðmiðunartímabil launa tvö ár. En samkvæmt minni úthlutun er miðað við eitt ár þó að í umsókninni sé tekið fram að miðað skuli við tvö ár og umsókninni skilað fyrir 1. júní 2008. “

 

Með bréfi, dagsettu 27. júní 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 8. júlí 2008. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 13. mars 2008, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 8. júlí 2008.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 14. apríl 2008, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 12. maí 2008. Launaseðlar frá B dags. 20. febrúar 2008 og launaseðlar frá D nr. 10, 11 og 12. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með tveimur bréfum Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 10. júní 2008, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X krónur á mánuði miðað við 100% orlof. Ekki var unnt að senda greiðsluáætlun á kæranda þar sem barn hans var ekki fætt og hann hugðist hefja töku fæðingarorlofs við fæðingu barns. Kæranda var jafnframt bent á að skv. skrám skattyfirvalda væri hann tekjulaus mánuðina janúar, mars, maí, ágúst og september 2007 og honum leiðbeint með framhaldið.

Ágreiningur í þessu máli snýr að því að kærandi telur að ekki séu notuð rétt viðmiðunartímabil við útreikning á meðaltali heildarlauna sinna. Þann 16. júní sl. voru birt lög nr. 74/2008 um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum (ffl.). Í 22. gr. breytingalaganna kemur fram að lögin eigi við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. júní 2008 eða síðar. Í samræmi við það og að áætlaður fæðingardagur barns kæranda er 8. júlí 2008 ber að afgreiða umsókn hans eftir þeim breytingum sem urðu á lögunum.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a.

Í 2. mgr. 13. gr. segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda er 8. júlí 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans mánuðina janúar – desember 2007, enda taldist kærandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa verið á innlendum vinnumarkaði allan þann tíma, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi hafi verið launalaus mánuðina janúar, mars, maí, ágúst og september 2007 en verið á innlendum vinnumarkaði , sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að áðurnefnd bréf til kæranda, dags. 10. júní 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og að notað hafi verið rétt viðmiðunartímabil skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 8. júlí 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Ágreiningur er um hvert skuli vera viðmiðunartímabil meðaltals heildarlauna kæranda til útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Af hálfu kæranda er talið að viðmiðunartímabilið skuli vera tvö ár og til rökstuðnings er vísað til umsóknar og reglna sem giltu þegar sótt var um fæðingarorlof. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er viðmiðunartímabilið talið vera tímabilið janúar til desember 2007.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Barn kæranda er fætt þann X. júlí 2008 en þá höfðu tekið gildi lög nr. 74/2008 um breytingu á þeim lögum. Breytingalögin voru birt þann 16. júní 2008 en í 22. gr. laganna segir að þau eigi við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. júní 2008 eða síðar. Breytingar sem urðu á ffl. með lögum nr. 74/2008 gilda því um rétt kæranda til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingar­orlofs­sjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistrygginga- sjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna sbr. a-e liði 2. mgr. 13. gr. A.

Eins og áður er komið fram er fæðingardagur barns kæranda X. júlí 2008. Samkvæmt því er 12 mánaða viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda mánuðirnir janúar til desember 2007. Samkvæmt því ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs hvað það varðar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um viðmiðunartímabil meðaltals heildarlauna kæranda til útreiknings greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta