Hoppa yfir valmynd
12. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2009

Fimmtudaginn 12. mars 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 23. janúar 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá Z f.h. A, dagsett 15. janúar 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 4. desember 2008 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„A óskar að kæra úrskurð fæðingarorlofssjóðs um fæðingarorlof tímabilið nóv. 2008 til apríl 2009. Samkvæmt úrskurðinum fær A 80% af X krónum sem eru meðaltekjur ársins 2007. A hafði í mánaðarlaun á árinu 2008 X krónur og óskar hann eftir því að fæðingarorlofið verði reiknað út frá þeirri upphæð sem gerir X krónur á mánuði.“

 

Með bréfi, dagsettu 13. febrúar 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 16. febrúar 2009. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 4. desember 2008, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla hans yrði X krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Í 2. og 3. mgr. 7. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) eru skilgreiningar á því hverjir teljast starfsmenn og sjálfstætt starfandi en samkvæmt ákvæðunum telst starfsmaður skv. lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er aftur á móti sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Á réttindatímabili kæranda, skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. er hann bara með reiknað endurgjald sem sjálfstætt starfandi foreldri og ber því að nota viðmiðunartímabil 5. mgr. 13. gr. ffl., með síðari breytingum, við útreikning á greiðslum til hans í fæðingarorlofi.

Í 5. mgr. 13. gr. ffl., sbr. d – liður 8. gr. laga nr. 74/2008, er nú kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. 3. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skuli miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Að öðru leyti gilda ákvæði 2. – 4. mgr. eins og við getur átt.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 11. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 1. desember 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds hans tekjuárið 2007. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og í reglugerð er ekki að finna neinar heimildir til að víkja frá því.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í skrám ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr skrám skattyfirvalda hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Á tímabilinu var kærandi með X krónur í reiknað endurgjald og engar aðrar tekjur.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 19. febrúar 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 4. desember 2008.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segir að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr., skal þó miða við þann dag er foreldrið hefur fæðingarorlof að því er það foreldri varðar.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a-e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. 3. mgr. 7. gr., nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Að öðru leyti gilda ákvæði 2.–4. mgr. eins og við getur átt.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. ffl. er starfsmaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. er sjálfstætt starfandi einstaklingur sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 1. desember 2008. Ágreiningslaust er að kærandi uppfyllti skilyrði um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barnsins, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. Tekjur hans á því tímabili voru reiknað endurgjald vegna eigin reksturs kæranda sem tryggingagjald var greitt af. Samkvæmt því var kærandi sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi 3. mgr. 7. gr. ffl.

Eins og fram er komið skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi einstaklings nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið á undan fæðingarári barnsins, sbr. 5. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008. Samkvæmt því er viðmiðunartímabil útreiknings launameðaltals kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði tekjuárið 2007. Samkvæmt gögnum málsins var reiknað endurgjald kæranda það ár X krónur eða meðalmánaðarlaun X krónur sem er grundvöllur ákvörðunar Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs. Ekki virðist ágreiningur um fjárhæð reiknaðs endurgjalds kæranda árið 2007 en í kæru kemur hins vegar fram ósk um að greiðslur til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði miðist við reiknað endurgjald hans á árinu 2008. Ákvæði ffl. heimila ekki að vikið sé frá reglum 13. gr. ffl. um viðmiðunartímabil útreiknings meðallauna og ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðsla til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta