Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 43/2008

Fimmtudaginn 20. nóvember 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 26. ágúst 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 25. ágúst 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 13. ágúst 2008 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Ég undirritaður er bæði launþegi við Z-vinnu og sjálfstætt starfandi .... Borga ég skatta og skyldur af mínum verktakagreiðslum sem sjálfstætt starfandi. Á síðasta ári greiddi ég um X krónur í skatta og önnur opinber gjöld af verktakagreiðslum mínum. Sem launþegi fékk ég árið 2007 í launatekjur og starfstengdar greiðslur X krónur og borgaði ég skatta og skyldur af þeim. Sem sjálfstætt starfandi fékk ég árið 2007 í hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri X krónur.

Í svari Fæðingarorlofssjóðs um útreikning á greiðslum í fæðingarorlofi, kemur fram að eingöngu sé tekið mið af tekjum mínum sem launþega en ekki tekjum mínum sem sjálfstætt starfandi með vísan í lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 með síðari breytingum. Því vil ég ekki una og kæri úrskurðinn.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 með síðari breytingum segir orðrétt

"III kafli 7.gr.

Starfsmaður er í lögum þessum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þó á hugtakið starfsmaður í VII. kafla við um alla sem vinna launuð störf í annarra þjónustu. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

IV. kafli 13. gr.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Þrátt fyrir 2. mgr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi aldrei nema hærri fjárhæð en 480.000 kr.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr. Að öðru leyti gilda 2.-4. mgr. eins og við getur átt."

Í lögum um fæðingar-og foreldraorlof nr. 95/2000 með síðari breytingum er ekkert að fínna sem heimilar ekki að einstaklingur fái greiðslur úr sjóðnum bæði sem launþegi og sjálfstætt starfandi, svo framarlega sem að mánaðarlega greiðsla Fæðingarorlofssjóðs sé ekki hærri en 480.000.

Í reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir orðrétt:

"II kafli 2. gr.

Mánaðarleg greiðsla til foreldris skv. 1. mgr., sem er starfsmaður og leggur niður störf, skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt teljast til launa þær greiðslur sem koma til skv. a-d-liðum 3. gr.

Mánaðarleg greiðsla til foreldris skv. 1. mgr., sem er sjálfstætt starfandi og leggur niður störf, skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr.

Mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi skal nema 80% af meðaltali heildartekna skv. 2. og 3. mgr."

Hér kemur skýrt fram að heimild er fyrir því að einstaklingar fái greiðslur úr sjóðnum bæði sem launþegar og sjálfstætt starfandi.

Að þessu gefnu óska ég eftir að umsókn mín verði endurskoðuð og endurreiknuð.

 

Með bréfi, dagsettu 1. september 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 7. september 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 13. ágúst 2008, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla hans yrði X krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Þar sem kærandi óskaði eftir að greiðslur til hans hæfust við fæðingu barns hefur ekki verið unnt að senda greiðsluáætlun á hann þar sem barnið er ekki fætt.

Þann 16. júní sl. voru birt lög nr. 74/2008 um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), með síðari breytingum. Með 8. gr. þeirra laga var ákveðið að skilja á milli viðmiðunartímabila við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi eftir því hvort um væri að ræða starfsmenn skv. 2. mgr. 7. gr. ffl. eða sjálfstætt starfandi einstaklinga skv. 3. mgr. 7. gr. ffl. Jafnframt að líta bæri til hverrar tegundar tekjurnar væru sem féllu til á viðmiðunartímabilunum.

Í 2. mgr. 7. gr. ffl. er starfsmaður skilgreindur sem hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 3. mgr. er sjálfstætt starfandi einstaklingur skilgreindur sem sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Á réttindatímabili kæranda, skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. er hann bara með greiðslur sem starfsmaður skv. 2. mgr. 7. gr. ffl. og ber því að nota viðmiðunartímabil 2. mgr. 13. gr. ffl., með síðari breytingum, við útreikning á greiðslum til hans í fæðingarorlofi.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. c – lið 8. gr. laga nr. 74/2008, er nú kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a-e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Í 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er skilgreint hvað skuli teljast til gjaldstofns tryggingagjalds. Í 1. mgr. 6. gr. kemur fram að stofn til tryggingagjalds séu allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tl. A – liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ekki skiptir máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum, vöruúttekt eða vinnuskiptum. [Til stofns teljist enn fremur endurgjald sem ber að reikna manni sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.] Í 7. og 8. gr. laga um tryggingagjald er frekari upptalning hvað teljist til gjaldstofns tryggingagjalds skv. 6. gr. laganna og í 9. gr. er upptalning á hvaða greiðslur séu undanþegnar tryggingagjaldi.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda er 9. september 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans, annarra en reiknaðs endurgjalds, á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur 6 mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns hans. Miðað við áætlaðan fæðingardag barnsins eru það mánuðirnir mars 2007 – febrúar 2008.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu tímabili er hann með mánaðarlaun sem starfsmaður alla mánuðina fyrir utan júlí og ágúst. Kæranda var sent bréf þann 13. ágúst 2008 og gefið færi á að sýna fram á að hann teldist ekki hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði umrædda mánuði, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 8. og 9. gr. laga nr. 74/2008. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði umrædda mánuði og ber því einnig að hafa þá með við útreikning á meðaltali heildarlauna hans.

Reiknað endurgjald kæranda, sem greitt hefur verið tryggingagjald af á framangreindu tímabili, skal undanskilja við útreikning á meðaltali heildarlauna hans þar sem það féll ekki til við störf hans sem starfsmanns heldur sem sjálfstætt starfandi einstaklings.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 13. ágúst 2008 og útprentun úr Navision kerfi stofnunarinnar, dags. 7. september 2008 og sú ákvörðun að undanskilja beri tekjur kæranda vegna reiknaðs endurgjalds, sem tryggingagjald hefur verið greitt af á viðmiðunartímabili hans sem starfsmanns, sé rétt og beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. september 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 13. ágúst 2008.

Í 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segir að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr., skal þó miða við þann dag er foreldrið hefur fæðingarorlof að því er það foreldri varðar.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a-e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. 3. mgr. 7. gr., nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Að öðru leyti gilda ákvæði 2.–4. mgr. eins og við getur átt.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. ffl. er starfsmaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. er sjálfstætt starfandi einstaklingur sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Fæðingardagur barns kæranda er X. september 2008. Ágreiningslaust er að kærandi uppfyllti skilyrði um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barnsins, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. Fékk hann á því tímabili greidd laun vegna starfa síns við Z- vinnu en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var ekki á þessu tímabili um að ræða reiknað endurgjald sem tryggingagjald var greitt af. Með hliðsjón af því öðlaðist kærandi rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr. ffl. Samkvæmt því er viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna tímabilið mars 2007 til febrúar 2008, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl, sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008. 

Ágreiningur er um hvort tekjur kæranda af eigin atvinnurekstri skuli reiknaðar með við útreikning meðaltals heildarlauna hans á viðmiðunartímabilinu. Samkvæmt skattframtali hans 2008 var reiknað endurgjald kæranda við eigin atvinnurekstur árið 2007, X krónur. Hreinar tekjur af atvinnurekstri kæranda það ár voru X krónur og þá fékk kærandi einnig greidd höfundalaun X krónur.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. teljast eins og áður er komið fram til launa hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald auk greiðslna vegna þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt stafliðum a-e, í 2. mgr. 13. gr. a. Við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda skal því að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála taka þær greiðslur á viðmiðunartímabili launaútreiknings sem myndað hafa stofn til greiðslu tryggingagjalds.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um tryggingagjald nr. 113/1990 er stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Undir 1. mgr. 1. tölul. fellur endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila og í 2. mgr. 1. tölul. segir að vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skuli hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila.

Samkvæmt framanrituðu verður að álykta að við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skuli reikna laun sem kærandi fékk greidd við Z- vinnu á viðmiðunartímabilinu og jafnframt reiknað endurgjald vegna starfa hans við eigin atvinnurekstur á því tímabili og sem tryggingagjald hefur verið greitt af.

Hreinar tekjur af atvinnurekstri kæranda eru skattskyldar skv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 og mynda því ekki stofn til greiðslu tryggingagjalds, sbr. 6. gr. laga nr. 113/1990. Samkvæmt því ber ekki að taka tillit til þeirra við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda. Sama gildir um höfundarlaun sem kærandi fékk greidd og skattskyld eru skv. 3. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Með hliðsjón af framanrituðu er hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs hrundið. Við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda á viðmiðunartímabilinu skal auk launagreiðslna til hans sem starfsmanns taka tillit til reiknaðs endurgjalds við eigin atvinnurekstur á því tímabili.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til A er hrundið. Við útreikning meðaltals heildarlauna og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skal taka tillit til reiknaðs endurgjalds við eigin atvinnurekstur tímabilið mars 2007 til febrúar 2008.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta