Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2023 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á Alþingi vegna stríðsins í Úkraínu 23. febrúar 2023

Herra forseti. Á morgun er liðið heilt ár síðan Rússland réðst með hervaldi á Úkraínu. Þá fyrir réttu ári komum við saman hér í þingsal, fulltrúar allra flokka á Alþingi Íslendinga, fordæmdum harðlega innrásarstríð Rússlands og lýstum yfir fullum stuðningi við Úkraínu. Það gerum við aftur í dag. Á hverjum degi í heilt ár höfum við fengið fregnir af mannfalli og eyðileggingu; tugþúsundir hafa látið lífið, hundruð þúsunda hafa misst heimili sín og milljónir eru á flótta. Öll stríð eru stríð gegn venjulegu fólki. Saklaust fólk hefur þurft að leita skjóls í myrkum kjöllurum undan sprengjuárásum sem hefur verið beint gegn óbreyttum borgurum, nauðgunum og pyndingum er beitt sem vopni, fjöldamorð hafa verið framin, fjölskyldum er sundrað, heimili eru í rúst og fólk er flutt með nauðung yfir landamærin til Rússlands.

Á þessum tímamótum vil ég enn og aftur ítreka að innrásarstríð Rússlands er skýlaust brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðalögum og á sér enga réttlætingu. Um þetta snúast grunnreglur alþjóðasamfélagsins, nákvæmlega þetta; friðhelgi landamæra, lýðræði, mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Íbúar Úkraínu, Zelenskí Úkraínuforseti og stjórnvöld í Kænugarði hafa sýnt hugrekki og þolgæði sem heimsbyggðin öll tekur eftir. Samstaða lýðræðisríkja sem hafa fylkt sér að baki Úkraínu sendir mikilvæg skilaboð til rússneskra stjórnvalda: Við fordæmum þessa ólögmætu innrás og henni verður að linna strax.

Við höfum líka á liðnu ári ekki einungis séð skelfilegan eyðingarmátt stríðs heldur líka hvernig hernaðarátök taka yfir allt annað, ryðja aðkallandi úrlausnarefnum til hliðar því auðvitað kemst ekkert annað að. Það er auðvitað þungbært að hugsa til þess að hnattrænar aðgerðir í loftslagsmálum hafa liðið fyrir stríðið og sama má segja um mörg önnur mál, mannréttindi, jafnréttismál, fæðuöryggi hefur verið ógnað í fátækustu ríkjum heims og orkuöryggi víða í uppnámi. Stríðið í Úkraínu sýnir okkur svo áþreifanlega að friður er forsenda allra framfara. Ef ekki ríkir friður þýðir lítið að tala um framfaramál, sjálfbærni eða jöfnuð. En friðurinn þarf líka að vera réttlátur. Friður má ekki byggjast á kúgun og yfirgangi þjóða yfir öðrum þjóðum.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þingmönnum á Alþingi Íslendinga fyrir þá breiðu samstöðu sem hér hefur ríkt um stuðning við Úkraínu og ég vil líka nota þetta tækifæri og þakka landsmönnum öllum sem hafa nýtt hvert tækifæri til að sýna stuðning, ljáð fólki á flótta liðsinni, veitt húsaskjól, aðstoðað þau sem hingað hafa komið við að finna sér stað í íslensku samfélagi eða prjónað og sent út vettlinga, því þótt við séum herlaus þjóð þá gátum við sent hlýju til Úkraínu og það skiptir svo sannarlega máli í vetrarkuldanum. Öll þessi aðstoð er ómetanleg.

Herra forseti. Stríðið gegn Úkraínu hefur ekki aðeins bein áhrif á okkur hér á landi. Það hefur líka áþreifanlega merkingu fyrir öll þau ríki sem eins og Ísland eiga allt undir starfhæfu alþjóðakerfi sem byggir á lögum og reglu, gagnkvæmri virðingu ríkja á réttindum almennings. Alþjóðalögin eru okkar fyrsta varnarlína og þess vegna höfum við lagt sérstaklega áherslu á virðingu fyrir grundvallargildum og reglum í starfi okkar á alþjóðavettvangi, hvort sem er í formennskunni í Evrópuráðinu, norrænu samstarfi eða annars staðar þar sem við störfum á alþjóðavettvangi. Að sjálfsögðu hefur stríðið vakið umræðu um öryggis- og varnarmál í okkar heimshluta og kallar ótvírætt á áframhaldandi virka vöktun og eftirlit á okkar stóra nærsvæði á siglingaleiðum, landhelgi og lofthelgi. Áfram munum við gæta vandlega að samfélagslega mikilvægum innviðum eins og netöryggi og neðansjávarköplum, en undanfarin misseri höfum við lagt sífellt meiri áherslu á að tryggja þær varnir okkar með auknum framlögum til netöryggismála og með lagningu nýs fjarskiptastrengs sem stóreykur fjarskiptaöryggi.

Herra forseti. Ég vil að lokum segja þetta: Ísland stendur með Úkraínu. Sá stuðningur hefur birst í verki. Íslensk stjórnvöld veittu í fyrra rúmlega 2,1 milljarð kr. í mannúðar- og efnahagsstuðning og stuðning við grunninnviði og varnir landsins, og við munum halda áfram á sömu braut. Ísland stendur með mannréttindum og alþjóðalögum. Það þarf að draga þá sem eru ábyrgir fyrir stríðsglæpum til ábyrgðar og við munum leggja á það áherslu í formennsku okkar í Evrópuráðinu. Síðast en ekki síst stendur Ísland með réttlátum friði, friði fyrir allt það fólk sem fyrst og fremst vill lifa sínu daglega lífi, sinna sínum störfum og sínu fólki, réttlátum friði sem svo sannarlega er forsenda allra framfara.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta