Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 72/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 72/2015

Fimmtudaginn 28. apríl 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. desember 2015, kærir A til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, synjun Reykjavíkurborgar, dags. 23. september 2015, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 26. júní 2015, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 23. júní 2015 til 23. september 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 9. júlí 2015, á þeirri forsendu að réttur til fjárhagsaðstoðar væri ekki fyrir hendi ef einstaklingur ætti eignir, t.d. hlutabréf, sbr. 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 23. september 2015 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 23. desember 2015. Með bréfi, dags. 13. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 9. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. febrúar 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi krefst þess að synjun Reykjavíkurborgar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir sveitarfélagið að verða við umsókn hennar um fjárhagsaðstoð. Kærandi tekur fram að hún hafi leitað eftir aðstoð frá sveitarfélaginu þar sem hún hafi verið eigna- og tekjulaus vegna veikinda og hafi ekki átt rétt á bótum úr atvinnuleysistryggingasjóði.

Kærandi greinir frá því að verðmæti hlutafjár hennar í B ehf. sé ekki neitt, enda hafi félagið hvorki verið í rekstri né haft neinar tekjur síðastliðin ár. Samkvæmt ársreikningi fyrir fjárhagsárið 2013 hafi félagið átt ýmsar kröfur að fjárhæð X kr. en þær séu nú tapaðar og hafi ekkert fjárhagslegt gildi. Þá hafi félaginu verið tilkynnt að lögð verði á það sekt allt að 200.000 kr. þar sem ársreikningi fyrir rekstrarárið 2014 hafi ekki verið skilað. Kærandi tekur fram að hún hafi ekki haft fjármuni til að ljúka við gerð ársreikningsins.

Kærandi telur að Reykjavíkurborg hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og andmælareglu 13. gr. laganna þar sem hún hafi ekki haft tækifæri til þess að koma að sjónarmiðum sínum um fjárhagslegt verðmæti félagsins áður en ákvörðun hafi verið tekin. Þá telur kærandi að beiting Reykjavíkurborgar á ákvæði 12. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð, án þess að kanna áður hvort eign einkahlutafélagsins hafi í raun og veru fjárhagslegt verðmæti, brjóti gegn 76. gr. stjórnarskrárinnar. Verði  ekki fallist á framangreint telur kærandi að fjárhagslegt verðmæti félagsins geti ekki orðið meira en sem nemur eignum félagsins á árinu 2013, eða X kr. Kærandi eigi þannig rétt á fjárhagsaðstoð sem nemi mismun þeirrar fjárhæðar og grunnfjárhæðar samkvæmt 11. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu gildi sú meginregla að umsækjandi fái aðeins greidda fjárhagsaðstoð geti hann ekki framfleytt sér sjálfur, meðal annars af eignum sínum. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. og 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu á grundvelli 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð skuli meðal annars horft til 12. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig litið skuli til tekna og eigna umsækjanda. Við afgreiðslu umsóknar kæranda um fjárhagsaðstoð hafi komið í ljós að kærandi væri eigandi að hlutabréfum í B ehf. Samkvæmt rafrænni álagningarskrá ríkisskattstjóra fyrir árið 2015 ætti kærandi hlutabréf að verðmæti 500.000 kr. Kærandi hafi upplýst í bréfi, dags. 24. ágúst 2015, að fyrirtækið hefði aldrei verið í rekstri og ætti engar eignir. Þá hafi kærandi framvísað gögnum tengdum rekstri fyrirtækisins.

Í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans búi í og eina fjölskyldubifreið eða hann hafi nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ljóst sé að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra sé kærandi skráð eigandi að hlutabréfum í B ehf. að verðmæti 500.000 kr. Kærandi hafi ekki lagt fram ársreikning fyrir fjárhagsárið 2013 líkt og hún hafi tekið fram í kæru til úrskurðarnefndarinnar en gögn málsins beri með sér að félagið hafi ekki verið lagt niður formlega og sé enn skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Sveitarfélaginu sé skylt að byggja ákvörðun á þeim upplýsingum er fram komi í opinberum gögnum frá öðrum stjórnvöldum. Því verði að líta til þess að kærandi sé skráð fyrir hlutabréfum í fyrirtækinu B ehf. að fjárhæð 500.000 kr. Söluverðmæti hlutabréfanna sé óljóst og geti sveitarfélagið ekki lagt mat á verðmæti bréfanna, enda falli slíkt mat ekki innan starfssviðs þess. Samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra sé verðmæti hlutabréfanna skráð 500.000 kr. og sé slíkt ekki rétt sé nauðsynlegt að ganga frá þeim breytingum gagnvart réttum opinberum yfirvöldum, þ.e. skattyfirvöldum. Ekki verði litið fram hjá því að kærandi sé skráð fyrir umræddri eign samkvæmt opinberum gögnum. Því verði að líta svo á að umrædd eign sé til staðar og kæranda beri að nýta sér hana til framfærslu, enda sé fjárhagsaðstoð neyðaraðstoð til skamms tíma.

Reykjavíkurborg fellst ekki sjónarmið kæranda þess efnis að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og andmælarétti kæranda. Í kjölfar áfrýjunar kæranda til áfrýjunarnefndar velferðarráðs hafi henni verið gefinn kostur á að koma að öllum sínum sjónarmiðum sem og opinberum gögnum. Kæranda hafi því verið veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 23. júní 2015 til 23. september 2015.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 5. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að hún ætti hlutabréf að nafnvirði 500.000 kr. í B ehf.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að verðmæti hlutafjár hennar í B ehf. sé ekki neitt, enda hafi félagið hvorki verið í rekstri né haft neinar tekjur síðastliðin ár. Úrskurðarnefndin hefur byggt á því að jafnvel þótt umsækjandi um fjárhagsaðstoð hafi átt hlutafé í fyrirtæki sem ekki er í rekstri sé eðlilegt að nota skráð andvirði hlutafjáreignarinnar sem neyðarúrræði til framfærslu áður en fengin sé fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg nema sýnt hafi verið fram á að fyrirtækið hafi verið afskráð eða tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt skattframtali kæranda 2015 er hún skráð fyrir hlutabréfum í fyrirtækinu B ehf. að nafnvirði 500.000 kr.

Kærandi hefur gert athugasemd við vinnubrögð starfsmanna Reykjavíkurborgar og telur að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga sem og andmælareglu 13. gr. laganna þar sem hún hafi ekki haft tækifæri til þess að koma að sjónarmiðum sínum um fjárhagslegt verðmæti félagsins áður en ákvörðun var tekin.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Samkvæmt 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar skal með umsókn um fjárhagaðstoð meðal annars fylgja yfirlit yfir eignir og tekjur vegna síðastliðins árs. Við afgreiðslu umsóknar kæranda lá fyrir skattframtal ársins 2015 þar sem fram komu upplýsingar um eignir hennar. Að mati úrskurðarnefndinnar var með þessu aflað fullnægjandi upplýsinga um fjárhagsstöðu kæranda og málið þ.a.l. rannsakað í samræmi við 10. gr. ssl.

Kærandi telur einnig að andmælaréttur hennar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið virtur. Samkvæmt ákvæðinu skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun í því er tekin. Í því er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi réttur varðar einkum upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru. Eins og fram hefur komið lágu fyrir upplýsingar um hlutafjáreign kæranda að nafnvirði 500.000 kr. Samkvæmt ákvæði 5. mgr. 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð er ekki gert ráð fyrir að einstaklingar sem eiga eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið eigi rétt á fjárhagsaðstoð frá borginni. Var þess vegna bersýnilega óþarft að veita kæranda tækifæri til andmæla, enda hefðu andmælin ekki breytt neinu þar um.

Hvað varðar varakröfu kæranda um hlutfallslega fjárhagsaðstoð liggur fyrir að skráðar eignir kæranda voru umfram íbúðarhúsnæði og fjölskyldubifreið. Þegar af þeirri ástæðu og með vísan til 5. mgr. 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð verður ekki fallist á varakröfuna. Úrskurðarnefndin tekur fram að í málinu liggur ekkert fyrir um að kæranda hafi verið vísað á lánafyrirgreiðslu banka eða sparisjóða þegar henni var synjað um fjárhagsaðstoð, líkt og kveðið er á um í 5. mgr. 12. gr. framangreindra reglna, og gerir úrskurðarnefndin athugasemd við það.

Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð og kærandi hafi því ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 23. júní 2015 til 23. september 2015. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn A um fjárhagaðstoð er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta