Hoppa yfir valmynd
12. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 24/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 24/2016

Fimmtudaginn 12. maí 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. janúar 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, frá 7. október 2015, á beiðni hennar um undanþágu frá tekjuviðmiðum vegna umsóknar um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 24. ágúst 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dagsettu sama dag, með þeim rökum að hún uppfyllti ekki skilyrði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Með bréfi, dags. 24. ágúst 2015, óskaði kærandi eftir undanþágu frá framangreindu skilyrði en var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 8. september 2015, á þeirri forsendu að skilyrði b-liðar 5. gr. reglnanna um undanþágu væri ekki uppfyllt. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 7. október 2015 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 5. janúar 2016. Með bréfi, dags. 26. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 22. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. febrúar 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún og sambýlismaður hennar hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði en þó aðallega sérstakar húsaleigubætur þar sem núverandi húsnæði þeirra sé of lítið. Þau eigi langveikt barn sem þurfi að nota mörg fyrirferðarmikil hjálpartæki og því sé stærð núverandi húsnæðis ekki viðunandi. Þau séu nú á biðlista eftir húsnæði hjá Öryrkjabandalagi Íslands en útlit sé fyrir að þau þurfi að bíða í tvö ár eftir íbúð.

Kærandi greinir frá fjárhagsstöðu fjölskyldunnar og tekur fram að þau hafi ekki tök á því að leigja dýrara húsnæði. Kærandi fer því fram á að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur til að hægt sé að leigja stærra húsnæði eða að þau fái úthlutað félagslegu leiguhúsnæði þar til þau fái húsnæði hjá Öryrkjabandalaginu.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda og fjölskyldu hennar. Vísað er til þess að í 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur séu sett fram tiltekin skilyrði sem uppfylla þurfi til að umsókn um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur taki gildi. Kærandi hafi verið yfir tekjumörkum c-liðar 4. gr. reglnanna, en þau séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár, og því hafi umsókn hennar verið hafnað.

Í 5. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sé kveðið á um undanþágu frá skilyrðum 4. gr. reglnanna. Samkvæmt b-lið 5. gr. reglnanna sé heimilt að veita undanþágu frá framangreindum tekjumörkum ef umsækjandi sé samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum. Ákvæðið sé heimildarákvæði og því ekki skylt að veita undanþágu. Þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að til langvarandi og mikils félagslegs vanda teljist meðal annars félagsleg einangrun, takmörkuð félagsleg færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og sértækir erfiðleikar, svo sem háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi eða meðferðarmál/barnaverndarmál. Viðkomandi þurfi að fá fjögur stig, sem sé verulegur félagslegur vandi, til að vera veitt undanþága. Aðstæður kæranda hafi verið metnar til tveggja stiga, sem sé nokkur félagslegur vandi, vegna fjárhagsstöðu hennar, lítils stuðningsnets og langvarandi atvinnuleysis. Ljóst sé að kærandi hafi átt við ýmsa erfiðleika að stríða en aðstæður séu þó ekki með þeim hætti að veita beri undanþágu á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna.

Með hliðsjón af öllu framansögðu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga hafi velferðarráð ekki talið unnt að veita kæranda undanþágu frá skilyrði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. 

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja beiðni kæranda um undanþágu frá tekjuviðmiði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur, sbr. 5. gr. sömu reglna. Umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur var synjað á þeirri forsendu að skilyrði c-liðar 4. gr. framangreindra reglna væri ekki uppfyllt þar sem tekjur kæranda og maka hennar væru yfir viðmiðunarmörkum. Þá taldi Reykjavíkurborg að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði undanþáguákvæðis 5. gr. reglnanna.

Í 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík kemur fram að sérstakar húsaleigubætur séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins. Fullnægi umsækjandi skilyrðum 4. gr. raðast umsóknir í forgangsröð eftir ákveðnum matsviðmiðum, sbr. fylgiskjal 1 með reglunum, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af núverandi húsnæðisaðstæðum, heilsufari, félagslegum aðstæðum og tekjum. Við lok greiningar eru síðan reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig, sbr. 6. gr. reglnanna.

Í c-lið 4. gr. reglnanna er kveðið á um tekju- og eignamörk og eru tekjumörk fyrir hjón og sambúðarfólk 4.695.058 kr. á ári og auk þess 561.269 kr. fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Tekjumörk eru miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Samkvæmt gögnum málsins voru meðaltekjur kæranda og sambýlismanns hennar síðastliðin þrjú ár yfir tekjumörkum c-liðar 1. mgr. 4. gr. reglnanna, eða 8.552.361 kr.

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og tekjuviðmið. Á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði 4. gr. um lögheimili og/eða tekjuviðmið sé umsækjandi samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5 c í matsviðmiði sem fylgir reglunum. Í þeim lið er ekki að finna neinar vísbendingar um hvað teljist til mjög mikilla félagslegra erfiðleika. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hafa þau viðmið mótast í framkvæmd að til langvarandi og mikils félagslegs vanda samkvæmt lið 5 c í matsviðmiði teljist meðal annars félagsleg einangrun, takmörkuð félagsleg færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og sértækir erfiðleikar, svo sem háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi eða meðferðarmál/barnaverndarmál. Félagslegar aðstæður kæranda og fjölskyldu hennar hafi verið metnar til tveggja stiga, sem sé nokkur félagslegur vandi, en skilyrði fyrir undanþágu er að félagslegar aðstæður séu metnar til fjögurra stiga sem er mjög mikill félagslegur vandi. Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að aðstæður kæranda hafi verið metnar til tveggja stiga vegna fjárhagsstöðu, lítils stuðningsnets og langvarandi atvinnuleysis. Í greinargerð starfsmanns Reykjavíkurborgar, dags. 23. september 2015, kemur fram að félagslegur vandi kæranda sé metinn til tveggja stiga vegna sömu atriða og nefnd eru í greinargerð Reykjavíkurborgar. Í greinargerðinni segir þó líka að um sé að ræða framtaksleysi hjá sambýlismanni kæranda og alvarleg veikindi hjá barni hennar, en hvoru tveggja er þar metið til fjögurra stiga. Mælir starfsmaðurinn með undanþágu frá tekjuviðmiði. Þarna er um að ræða ákveðið misræmi og ekki hefur verið rökstutt af hálfu Reykjavíkurborgar með fullnægjandi hætti hvernig aðstæður kæranda voru metnar sérstaklega með tilliti til framangreindra sjónarmiða.

Í málinu liggur fyrir að tekjur kæranda og maka hennar voru yfir viðmiðunarmörkum og að félagslegur vandi þeirra samkvæmt sérstöku mati Reykjavíkurborgar væri ekki slíkur að veita skyldi undanþágu, sbr. 5. gr., frá skilyrði c-liðar 4. gr. reglnanna. Í 5. gr. er mælt fyrir um heimild til undanþágu frá skilyrðum 4. gr. hvað varðar lögheimili og tekjuviðmið. Þótt um sé að ræða heimildarreglu verður Reykjavíkurborg að gæta samræmis og jafnræðis og að ákvörðun byggist á þeim þáttum sem koma til álita við ákvörðun um hvort veita skal undanþágu. Þar sem viðmiðin sem um ræðir koma ekki fram í reglum Reykjavíkurborgar er mikilvægt að vandað sé til matsins og niðurstaða þess sé skráð með viðhlítandi hætti. Umrædd regla byggir á mati stjórnvalds og tilvísun til hennar veitir umsækjenda aðeins takmarkaða vitneskju um hvaða aðstæður leiddu til niðurstöðu máls. Af þeim sökum er nauðsynlegt að stjórnvald greini frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það er forsenda þess að umsækjandi átti sig á því hvað felist í mjög miklum félagslegum erfiðleikum og að aðilar máls geti lagt fram gögn eða veitt upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að málið teljist nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Er það einnig forsenda þess að umsækjandi geti nýtt andmælarétt sinn, sbr. 13. gr. sömu laga.

Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir að aðstæður kæranda hafi verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Getur úrskurðarnefndin því ekki lagt mat á það hvort sú ákvörðun hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til nýrrar meðferðar

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, frá 7. október 2015, um synjun á beiðni A um undanþágu frá tekjuviðmiðum vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta