Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Til umsagnar: Reglugerðarbreyting varðandi lyfjatiltekt og lyfjagjöf á heilbrigðisstofnunum

Birt hafa verið til umsagnar drög að breytingu á reglugerð um val, geymslu og meðferð lyfja á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Með breytingunni er lagt til að auk lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, verði öðrum heilbrigðisstarfsmönnum einnig heimilt að taka lyf úr lyfjageymslu, sinna lyfjatiltekt og skammta sjúklingum lyf, að því gefnu að þeir uppfylli náms- og þjálfunarkröfur sem embætti landlæknis setur.

Landspítali beindi erindi til heilbrigðisráðuneytisins á liðnu ári þar sem óskað var eftir því að lyfjaumsýsla innan heilbrigðisstofnana yrði heimil öllum heilbrigðisstarfsmönnum en ekki aðeins læknum, hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Einnig barst ráðuneytinu erindi frá Sjúkraliðafélagi Íslands um að tryggja aukna ábyrgð sjúkraliða sem ljúka faglegu námi til diplómaprófs sem nýlega var sett á fót við Háskólann á Akureyri.

Helsti ávinningur áformaðra breytinga er að hægt verður að nýta mannauð í heilbrigðiskerfinu á skilvirkari hátt. Mikið álag er á hjúkrunarfræðingum innan heilbrigðisstofnanna og fer stór hluti þeirra vinnutíma í lyfjaumsýslu sem hægt væri að fela öðrum heilbrigðisstarfsmönnum að sinna uppfylli þeir lágmarkskröfur sem embætti landlæknis setur. 

Samráð við Lyfjastofnun og embætti landlæknis

Meðfylgjandi drög að reglugerðarbreytingu eru unnin að undangengnu samráði ráðuneytisins við Lyfjastofnun og embætti landlæknis. Þessar stofnanir hafa eftirlitshlutverki að gegna með framkvæmdinni og var afstaða þeirra jákvæð gagnvart breytingunni.

Heilbrigðisráðuneytið mun fela embætti landlæknis að móta náms- og þjálfunarkröfur, eftir mismunandi lyfjaformum og lyfjategundum, sem eru nauðsynlegar til að heilbrigðisstarfsmaður teljist hafa þá færni sem krafist er m.t.t. öryggis sjúklinga á heilbrigðisstofnunum.

Frestur til að skila inn umsögnum er til 24. febrúar næstkomandi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta