Hoppa yfir valmynd
13. mars 2020 Heilbrigðisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Takmarkanir á samkomu- og skólahaldi til að hægja á útbreiðslu Covid – 19

Forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra ásamt landlækni, sóttvarnalækni og fulltrúi ríkislögreglustjóra - myndHeilbrigðisráðuneyti - /ME

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur að tillögu sóttvarnalæknis ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur í fjórar vikur frá miðnætti 15. mars næstkomandi. Með takmörkun er átt við viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman og verða þeir óheimilir. Samhliða verður skólahald takmarkað, einnig í fjórar vikur. Ákvörðun heilbrigðisráðherra var kynnt á fundi ríkisstjórnar í morgun og á fréttamannafundi að honum loknum. Markmið aðgerðanna er að hægja á útbreiðslu Covid – 19 svo að heilbrigðisþjónustan muni eiga auðveldara með að takast á álag í tengslum við veirusjúkdóminn.

Samkomubannið tekur ekki til alþjóðaflugvalla eða alþjóðahafna. Þar verða sóttvarnaráðstafanir efldar enn frekar og rík áhersla lögð á úrræði til að draga úr smithættu.

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna  farsóttar verður birt í Stjórnartíðindum og sömuleiðis auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Auglýsingarnar eru meðfylgjandi og fela þær í sér nánari skýringar á því hvað takmarkanirnar fela í sér.

Eins og fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra hafa viðbrögð á Íslandi til þessa beinst að fljótri greiningu einstaklinga, einangrun sýktra og sóttkví þeirra sem grunaðir eru um smit. Má telja líklegt að þessar ráðstafanir hafi komið í veg fyrir fjölmörg innlend smit. Margvíslegar  aðrar ráðstafanir hafa verið gerðar með leiðbeiningum og upplýsingagjöf til almennings, stofnana og fyrirtækja til að sporna við útbreiðslu veirunnar. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að vernda viðkvæma hópa og verður svo áfram.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra miðar eins og fyrr segir að því að hægja enn frekar á útbreiðslu COVID-19 og viðhalda starfsgetu heilbrigðiskerfisins meðan á faraldri stendur. Auk þeirra gagna sem vísað er á hér að neðan varðandi ákvörðun ráðherra er hér einnig bent á nýja upplýsingasíðu hins opinbera um Covid-19 og aðgerðir stjórnvalda.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta