Mál nr. 38/2020 - Úrskurður
KÆRUNEFND HÚSAMÁLA
ÚRSKURÐUR
uppkveðinn 9. júní 2020
í máli nr. 38/2020
A
gegn
B
Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.
Aðilar málsins eru:
Sóknaraðili: A.
Varnaraðili: B.
Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð 521.439 kr.
Með rafrænni kæru, sendri 4. apríl 2020, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 6. apríl 2020, var óskað eftir því við sóknaraðila að kæran yrði send á íslensku. Með tölvubréfi sóknaraðila, sendu 7. apríl 2020, barst kæran á íslensku. Með bréfi kærunefndar, dags. 16. apríl 2020, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Vegna beiðni varnaraðila var frestur til þess að skila greinargerð framlengdur til 6. maí 2020. Greinargerð barst ekki frá varnaraðila og með bréfi kærunefndar, dags. 18. maí 2020, var honum því veittur lokafrestur til 25. maí 2020 til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina. Með bréfinu var hann jafnframt upplýstur um að nefndin tæki málið til úrskurðar á grundvelli þeirra gagna sem lægju fyrir, bærist greinargerð ekki fyrir þann tíma. Greinargerð barst ekki frá varnaraðila.
I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. mars 2019 til 1. mars 2020 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C. Ágreiningur er um lok leigutíma og endurgreiðslu tryggingarfjár.
II. Sjónarmið sóknaraðila
Sóknaraðili segir að mánaðarleg leiga við undirritun leigusamnings hafi verið 173.813 kr. og tryggingarfé hafi verið ákveðið 521.439 kr. Í janúar 2020 hafi sóknaraðili upplýst varnaraðila að hann hefði ekki hug á að endurnýja leigusamninginn. Stuttu síðar hafi farið að bera á ýmsu sem þarfnaðist viðgerða í íbúðinni. Þar á meðal hafi vatn komið fram á ýmsum stöðum í baðherbergi með þeim afleiðingum að erfitt hafi verið að nota það. Varnaraðili hafi samstundis verið upplýstur um þetta. Hann hafi komið í íbúðina til að athuga málið. Bilunin hafi verið það stór að það hafi kallað á að sóknaraðili þyrfti að flytja út til að hægt væri að framkvæma viðgerðir. Aðilar hafi því komist að samkomulagi um að sóknaraðili fengi að flytja úr hinu leigða fyrir umsaminn leigutíma. Enn fremur hafi þeir samið um að leiga fyrir síðasta mánuðinn yrði greidd fyrir þá daga sem sóknaraðili byggi í íbúðinni. Síðan þá hafi sóknaraðili ekki getað haft nein samskipti við varnaraðila. Hann hafi hvorki svarað síma né tölvupósti.
Sóknaraðili fái enn senda greiðsluseðla vegna leigu, þrátt fyrir að vera fluttur út. Sóknaraðili fari fram á að þeir verði fjarlægðir úr heimabankanum, hann geti fengið að skila lyklum en enginn hafi tekið við þeim þegar hann hafi flutt út og einnig óski hann eftir endurgreiðslu tryggingarfjár sem hann hafi greitt varnaraðila.
III. Niðurstaða
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir kærunefnd og verður því úrlausn málsins byggð á þeim gögnum og sjónarmiðum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir nefndina.
Í 1. málsl. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusali skuli svo fljótt sem verða megi og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann geri kröfu í tryggingarfé samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. eða hafi uppi áskilnað um það, sbr. einnig 1. mgr. 64. gr. Hafi leigusali ekki gert kröfu samkvæmt 1. málsl. skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar og skal hann greiða leigjanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er fjórar vikur eru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu.
Samkvæmt gögnum málsins komust aðilar að samkomulagi um að leigutíma myndi ljúka fyrr en tímabundinn leigusamningur þeirra kvað á um vegna lélegs ástands baðherbergis hinnar leigðu íbúðar. Sóknaraðili flutti úr hinu leigða 7. febrúar 2020, sbr. rafræn skilaboð sóknaraðila send varnaraðila 4. og 12. febrúar 2020, en sóknaraðili hefur ekki enn náð sambandi við varnaraðila til þess að skila honum lyklum. Verður að miða úrlausn málsins við það að íbúðinni hafi verið skilað þann dag.
Varnaraðili hefur ekki endurgreitt tryggingarfé sem sóknaraðili lagði fram við upphaf leigutíma. Engin gögn liggja þó fyrir sem styðja það að varnaraðili hafi gert kröfu í tryggingarféð innan lögbundins frests, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Þegar af þeirri ástæðu ber honum að skila tryggingarfénu að fjárhæð 521.439 kr. ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar. Þá ber honum að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af tryggingarfénu frá þeim degi er fjórar vikur voru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Þar sem miðað er við að sóknaraðili hafi skilað hinu leigða 7. febrúar 2020 reiknast dráttarvextir frá 6. mars 2020.
Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. sömu greinar eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila tryggingarfé að fjárhæð 521.439 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 6. mars 2020 til greiðsludags.
Reykjavík, 9. júní 2020
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson