Mál nr. 23/2020 - Úrskurður
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
mennta- og menningarmálaráðherra
Skipun í embætti. Hæfnismat. Ekki fallist á brot.
Karl leitaði til kærunefndar jafnréttismála vegna ákvörðunar mennta- og menningarmálaráðherra um að skipa konu í embætti skrifstofustjóra skrifstofu framhaldsskóla og -fræðslu í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Kærandi gerði athugasemdir við mat kærða á hæfni hans og þeirrar konu sem skipuð var í embættið. Að áliti kæranda hafði hann verið talinn hæfastur umsækjenda af ráðgefandi hæfnisnefnd, sem skipuð hafði verið á grundvelli 19. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands. Þá taldi kærandi m.a. að stjórnunarreynsla sín og reynsla af stjórnsýslu hafi verið vanmetin í samanburði við konuna. Óheimilt hefði verið af hálfu kærða að leggja reynslu og þekkingu konunnar sem skipuð var af málaflokkum skrifstofunnar til grundvallar skipun þar sem slíkt hafi ekki verið áskilið í auglýsingu eða ráðgert í áætlun sem gerð hafi verið um ráðningarferlið. Af hálfu kærunefndarinnar var litið svo á að hæfnisnefnd hafi ekki í lokaniðurstöðu sinni talið tilefni til að gera greinarmun á hæfni þriggja umsækjenda, þ.m.t. kæranda og konunnar sem skipuð var, þó kærandi hafi fengið flest stig við frummat umsókna. Eftir yfirferð á röksemdum kærða var það niðurstaða kærunefndarinnar að ekki var talið ómálefnalegt af hálfu mennta- og menningarmálaráðherra að taka við skipunina tillit til reynslu og þekkingar konunnar sem skipuð var í embætti skrifstofustjórans á málefnasviði skrifstofunnar og að hún hefði að því leyti til staðið kæranda framar. Teldust því ekki hafa verið leiddar líkur að því að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns þegar skipað hefði verið í embættið, sbr. 1. og 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 30. mars 2021 er tekið fyrir mál nr. 23/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, móttekinni 16. nóvember 2020, sbr. og erindi, dags. 13. nóvember 2020, kærði A skipun mennta- og menningarmálaráðherra á Björgu Pétursdóttur í embætti skrifstofustjóra hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu hinn 1. september 2020.
- Kærandi telur að með skipuninni hafi verið brotið gegn 18. og 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá var gerð krafa um hæfilegan málskostnað til handa kæranda.
- Kæran, ásamt fylgigögnum, var kynnt kærða, mennta- og menningarmálaráðherra, með bréfi, dags. 24. nóvember 2020, og óskað eftir afstöðu ráðherra til þeirra atriða sem fram komu í kærunni, auk þess sem óskað var eftir að kærunefnd yrðu látin í té öll gögn er vörðuðu skipun í stöðuna, svo sem nánar greinir í bréfinu.
- Greinargerð mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna kæru þessarar barst kærunefnd með bréfi, dags. 22. desember 2020. Þar gerði kærði grein fyrir sjónarmiðum sínum og kom á framfæri gögnum vegna málsins.
- Með bréfi kærunefndar, dags. 23. desember 2020, var kæranda send greinargerð mennta- og menningarmálaráðuneytisins og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 13. janúar 2021.
- Með bréfi, dags. 21. janúar 2021, voru athugasemdir kæranda sendar kærða til kynningar og óskað eftir athugasemdum, ef einhverjar væru. Athugasemdir bárust frá mennta- og menningarmálaráðuneyti með bréfi, dags. 11. febrúar 2021.
MÁLAVEXTIR
- Með auglýsingu í Lögbirtingablaði og á Starfatorgi 7. febrúar 2020 og hinn 8. sama mánaðar í dagblöðum auglýsti mennta- og menningarmálaráðuneytið laust til umsóknar embætti skrifstofustjóra skrifstofu framhaldsskóla og -fræðslu. Fram kom í auglýsingunni að skrifstofustjóri stýri starfsemi skrifstofunnar og annist almennan rekstur hennar. Skrifstofustjóri beri meðal annars ábyrgð á því að rekstraráætlanir stofnana ráðuneytisins séu gerðar og eftirlit sé með fylgni við þær. Þá leiði skrifstofustjóri samstarf við aðrar skrifstofur, önnur ráðuneyti, hagaðila og aðra innlenda og erlenda aðila sem koma að málefnum skrifstofunnar. Í auglýsingunni voru gerðar hæfni- og menntunarkröfur, nánar tiltekið varðandi stjórnunarreynslu, þekkingu á sviði rekstrar og starfsmannastjórnunar, kröfur um reynslu af verkefnastjórnun og þekkingu á sviði opinberrar stjórnsýslu. Þá var tekið fram að því er hæfni- og menntunarkröfur varðaði að áskilin væru jákvæð og lausnamiðuð viðhorf, þjónustulund og metnaður, góð kunnátta í íslensku, ensku og einu Norðurlandamáli og færni í mannlegum samskiptum. Að því er menntun varðaði var gerð krafa um meistaragráðu á háskólastigi sem nýtist í starfi. Varðandi helstu verkefni skrifstofustjóra var tekið fram að undir stöðuna félli meðal annars að bera ábyrgð á útfærslu stefnumarkandi ákvarðana er lúta að starfsemi skrifstofunnar, hafa umsjón með verkefnum sem undir hana falla, bera ábyrgð á réttri stjórnsýsluframkvæmd verkefna, fara yfir og samþykkja rekstraráætlanir og uppgjör undirstofnana, sjóða og annarra samningaðila, veita starfsfólki endurgjöf um frammistöðu og annast starfsmannaviðtöl. Þá var tiltekin þátttaka í innlendum og alþjóðlegum nefndum, vinnuhópum, ráðum og teymum.
- Umsóknarfrestur rann út 2. mars 2020 og bárust alls 20 umsóknir, frá 15 konum og 5 körlum. Með vísan til 3. gr. reglna nr. 393/2012 um ráðgefandi nefndir, er meta hæfi umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands, voru Eiríkur Tómasson, fyrrv. hæstaréttardómari, Halldór Árnason, hagfræðingur og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður hjá Háskóla Íslands skipuð í hæfnisnefnd. Áætlun nefndarinnar um ráðningarferlið var staðfest af mennta- og menningarmálaráðherra hinn 17. mars 2020. Í áætluninni kom meðal annars fram að mat nefndarinnar skyldi byggja á tilgreindum viðmiðunum, þ.e. stjórnunarreynslu og færni í því að skapa liðsheild á vinnustað, þekkingu á sviði rekstrar og starfsmannastjórnunar, reynslu af verkefnastjórnun og áætlanagerð, þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu og menntun og reynslu sem nýttist sérstaklega í starfi. Í matsviðmiðun kom fram að umsækjendum skyldu gefin stig fyrir nefnda matsþætti. Kærandi og sú sem skipuð var voru meðal sex efstu í greindu mati. Var þeim aðilum gefinn kostur á að halda áfram í ráðningarferlinu og jafnframt boðið í sérstakt starfsviðtal.
- Í 6. kafla skýrslu hæfnisnefndarinnar kemur fram að kærandi hafi ótvírætt mesta stjórnunarreynslu þegar tekið væri tillit til starfs hans sem Þjóðleikhússtjóra og annarra starfa sem hann hefur gegnt og hafa falið í sér mannaforráð. Tekið var fram að í viðtali við kæranda hafi komið fram víðtæk þekking hans og reynsla af rekstri og áætlanagerð og af umsóknargögnum megi sjá að hann hafi fengist í ríkum mæli við verkefnastjórnun. Víða hafi reynt á leiðtogahæfileika hans og samskiptafærni. Þá teljist honum til tekna að þekkja af eigin raun hlutskipti þeirra sem búa á landsbyggðinni og hindranir sem komi í veg fyrir að ungt fólk sæki sér menntun. Menntun kæranda sé margþætt, þótt hún myndi ekki nýtast beint í því starfi sem hér um ræddi. Að því er varðar þá sem skipuð var var tekið fram í samandregnum niðurstöðum að þrátt fyrir að viðkomandi hafi takmarkaða reynslu af stjórnun hafi hún öðlast mikla þekkingu á þeim málum, sem undir nefnda skrifstofu heyra, en hún hafi starfað í ráðuneytinu í 14 ár. Þá hafi hún viðað að sér þekkingu og reynslu af rekstri, verkefnastjórnun og áætlanagerð, auk þess sem hún hafi kynnst opinberri stjórnsýslu í störfum sínum. Af viðtali að dæma leggi hún áherslu á fagleg vinnubrögð og að hún búi yfir lausnamiðuðu viðhorfi. Styrkleiki hennar umfram aðra umsækjendur sé tvímælalaut þekking hennar á málaflokkum skrifstofunnar og að auki myndi menntun hennar nýtast einkar vel í starfinu. Sameiginleg niðurstaða hæfnisnefndar að loknu heildstæðu mati á sjónarmiðum sem leggja beri til grundvallar samkvæmt auglýsingu um starfið var sú að kærandi, sú sem skipuð var og einn annar umsækjandi væru öll mjög vel hæf og best til þess fallin að gegna embættinu. Samkvæmt 7. gr. reglna nr. 393/2012 er niðurstaða hæfnisnefndar ráðgefandi fyrir ráðherra við skipun í embætti hjá Stjórnarráði Íslands.
- Í kjölfar heildstæðs mats á ráðningarferli við skipun skrifstofustjóra, þ.e. skýrslu hæfnisnefndar, starfsviðtala og mats á umsóknargögnum, var það niðurstaða mennta- og menningarmálaráðherra að sú sem skipuð var væri best til þess fallin að gegna embætti skrifstofustjóra skrifstofu framhaldsskóla- og fræðslu, og var hún skipuð í stöðuna með bréfi, dags. 1. september 2020.
- Með tölvubréfi, dags. 2. september 2020, fór kærandi þess á leit við mennta- og menningarmálaráðherra að skipun í embætti skrifstofustjóra skrifstofu framhaldsskóla og -fræðslu yrði rökstudd, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 23. september 2020, var rökstuðningur veittur með vísan til 22. gr. laganna. Þar kemur fram að þegar litið væri til reynslu konu þeirrar sem skipuð var af málaflokkum skrifstofunnar, reynslu hennar af rekstri og opinberri stjórnsýslu innan ráðuneytisins, ásamt reynslu hennar af stefnumótun og áætlanagerð á málefnasviði hennar, hafi hún verið talin best til þess fallin að gegna embættinu til næstu 5 ára.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
- Í kæru til kærunefndar jafnréttismála byggir kærandi á því að við skipun skrifstofustjórans hafi ekki verið farið að gildandi lögum og reglum. Af hálfu kæranda er til þess vísað að kærði, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi skipað hæfnisnefnd til að meta umsækjendur og að í skýrslu til ráðherra hafi umsækjendum verið raðað eftir stigafjölda þar sem kærandi hafi verið metinn hæfastur, en tveir aðrir umsækjendur hafi og verið metnir vel hæfir. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið ráðgefandi fyrir ráðherra við skipun í embættið, sbr 19. gr. laga nr. 115/2011 og 7. gr. reglugerðar nr. 393/2012, en þar segi að við ákvörðun ráðherra beri að taka mið af fyrirliggjandi ráðningaráætlun, sbr. 2. og 3. mgr. 5. gr. Ætla megi að fyrir hendi verði að vera hlutlægar og málefnalegar ástæður ætli ráðherra að horfa fram hjá áliti hæfnisnefndar. Álit hæfnisnefndar geti þó ekki komið í veg fyrir sjálfstætt mat ráðherra heldur verði að hluta af þeim gögnum sem ráðherra skuli byggja mat sitt á. Ekki verði ráðið af gögnum málsins að til hafi komið veigamiklar hlutlægar og málefnalegar ástæður þess að ráðherra hafi litið fram hjá því mati hæfnisnefndar að kærandi hafi verið hæfasti umsækjandinn. Hæfnisnefnd hafi undirstrikað þetta mat sitt með því að raða umsækjendum í töluröð í töflu þar sem skilmerkilega hafi verið dregin saman þau matsstig sem leggja eigi til grundvallar. Vísar kærandi til nokkurra dóma og álita umboðsmanns Alþingis varðandi samspil dómnefnda og ráðherra við skipan dómara.
- Þá vísar kærandi til þess að ráðherra hafi tekið viðtöl við þrjá umsækjendur en ekki sé ljóst hvernig mati á viðtölum hafi verið háttað og ekki hafi verið skráð svör umsækjenda við stöðluðum spurningum. Stigagjöf, sem fram komi í fylgiskjali vegna viðtala ráðherra, hafi verið á skjön við niðurstöðu hæfnisnefndar og upplýsingar sem finna megi í umsóknargögnum. Ekki verði til dæmis séð hvernig sú sem skipuð var hafi fengið hærri einkunn en kærandi varðandi stjórnun þegar tekið sé mið af stjórnunarreynslu kæranda, en að teknu tilliti til þeirrar reynslu kæranda hafi hæfnisnefndin metið kæranda ótvírætt hæfastan umsækjenda að því er stjórnun varðaði.
- Þá verði ekki séð út frá fyrirliggjandi gögnum hvernig ráðherra hafi getað komist að þeirri niðurstöðu að sú sem skipuð var hafi verið talin hæfari en kærandi að því er þekkingu á og reynslu af innleiðingu á opinberri stefnu varðar. Kærandi hafi borið ábyrgð á innleiðslu og stefnumótun á opinberri stefnu og að stofnun sem hann hafi veitt forstöðu hafi verið með jákvæða rekstrarniðurstöðu öll þau ár sem hann veitti henni forstöðu, og hafi þar meðal annars verið meira traust á yfirstjórn en hjá nokkurri annarri sambærilegri stofnun hér á landi. Önnur stigagjöf úr starfsviðtali ráðherra veki og furðu. Í því sambandi vísar kærandi til tiltekinnar spurningar varðandi stjórnsýslu framhaldsskóla og -fræðslu og sem megi bæta innan gildandi laga, og svör sem hann og sú sem skipuð var hafi gefið, en ekki verði á nokkurn hátt séð hvernig einkunn þeirrar sem skipuð var hafi verið fundin, en hún hafi fengið 4 stig en kærandi 3 stig. Svör þeirrar sem skipuð var undir þessum lið virðist hafa verið forsenda niðurstöðu um þekkingu hennar á málefnasviði skrifstofunnar sem ráðið hafi úrslitum við skipunina. Engin tilraun hafi annars verið gerð til að kanna þekkingu kæranda og reynslu af málaflokknum. Þó hafi ýmislegt að því er varðar reynslu hans á málaflokknum komið fram í umsóknargögnum.
- Í kæru sinni vefengir kærandi mat á reynslu þeirrar sem skipuð var af opinberri stjórnsýslu. Kærandi hafi 10 ára reynslu sem forstöðumaður og framkvæmdastjóri stórrar ríkisstofnunar, auk starfa sem sérfræðingur í ráðuneyti. Kærandi hafi þannig í áratug farið með vald til mannaráðninga og verið forstöðumaður ríkistofnunar með þeim skyldum sem því fylgi lögum samkvæmt. Hafi kærandi borið persónulega stjórnunarábyrgð á rekstri og annarri starfsemi stofnunar, þar með talið rekstrarútgjöldum og rekstrarafkomu. Hafi kærandi haft umsjón með gerð árlegrar fjárhags- og starfsáætlunar vegna undirbúnings fjárlaga.
- Af hálfu kæranda er til þess vísað að af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og kröfu um heildstæðan samanburð á umsækjendum leiði að afla beri sambærilegra upplýsinga um umsækjendur. Ef ráðherra ákveði á lokastigi ráðningarferilsins að það sem greini á milli umsækjenda á hlutlægum grunni sé þekking umsækjanda á málaflokkum skrifstofu framhaldsskóla og -fræðslu ásamt reynslu af stefnumótun og áætlanagerð á því málefnasviði, verði veitingarvaldshafinn að afla fullnægjandi upplýsinga um þessi atriði hjá umsækjendum. Þannig myndist krafa um jafnræði sem leiði til þess að þeir umsækjendur sem til greina komi séu spurðir nánar út í tiltekin atriði er framangreint varðar. Þá bendir kærandi á að hvorki hafi verið áskilin í auglýsingu um embættið sérstök þekking á málaflokknum né hafi það komið fram í áætlun um ráðningarferlið, en við slíkar aðstæður kunni að skapast aukin skylda til rannsóknar máls. Í þessu sambandi vísar kærandi meðal annars til annarra auglýsinga vegna embætta hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Af þessum sökum hafi verið ómálefnalegt að byggja á þessu við mat á umsækjendum, hvað þá að gera þetta að úrslitaatriði sem vegi upp forskot kæranda í þeim hæfnisþáttum sem tilgreindir voru í auglýsingu um embættið og metnir hafi verið af hæfnisnefnd. Í framangreindu sambandi vísar kærandi meðal annars til álita umboðsmanns Alþingis varðandi kröfu um skýrleika auglýsinga um lausar stöður og að fyrir liggi hvaða kröfur séu gerðar af hálfu stjórnvalds sem auglýsir stöðu um hvaða atriði það ætli að byggja mat sitt á umsækjendum.
- Þá vísar kærandi til þess að nefnd staða hafi verið auglýst með mismunandi hætti í dagblaðaauglýsingum og á Starfatorgi. Fram hafi komið, meðal annars í auglýsingu, að ætlun kærða hafi verið að auka áherslu á stjórnun mannauðsmála, stafrænar breytingar, tölfræði og greiningar. Því veki furðu að ekkert tillit hafi verið tekið til þess að kærandi hafi lokið meistaragráðu í hagfræði og þar með í tölfræði og greiningu. Vísar kærandi og í meistararannsókn sína og til þess að til sín hafi verið leitað af stjórnvöldum í tengslum við kannanir á sviði áfengis- og vímuefnarannsókna. Vísar kærandi og til háskólagráðu sinnar í rafrænum viðskiptum og frumkvöðlafræði sem nýst geti við rafræna stjórnsýslu.
- Í rökstuðningi sínum vísar kærandi til þess að í auglýsingu á Starfatorgi hafi komið fram að veigamesti þáttur starfs skrifstofustjórans lúti að rekstri, mannauðsstýringu og stjórnun. Þetta sé og staðfest í áætlun hæfnisnefndar þar sem stjórnunarreynsla hafi fengið meira vægi en aðrir matsþættir. Í því sambandi vísar kærandi til meistaragráðu sinnar í stjórnun og rekstri, MBA, sem eðlilegt hafi verið að meta kæranda sérstaklega til tekna.
- Þá vísar kærandi og til þess sérstaklega að umrætt embætti hafi verið auglýst 7. febrúar 2020. Álit hæfnisnefndar hafi verið tilbúið 31. mars 2020. Ekki hafi verið skipað í embættið fyrr en 1. september 2020. Veki furðu að sú sem skipuð var hafi þannig um langan tíma setið í embættinu eða þar til skipunin hafi átt sér stað. Hafi hún þar með öðlast reynslu sem hún hafi notið umfram kæranda sem hafi verið metinn hæfastur af hæfnisnefnd.
- Sérstaklega er af hálfu kæranda vakin athygli á skýrslu Capacent, sem birt hafi verið í janúar 2020, og sem kærandi telur að ætla megi vera grunn að nýju skipulagi ráðuneytisins. Kærandi telur að skýrslan sé nokkur áfellisdómur yfir virkni stjórnskipulags ráðuneytisins. Skýrslan sé að mati kæranda ákall um að fá inn í ráðuneytið nýja þekkingu og greiningarhæfni og bætt vinnubrögð. Vekur kærandi og athygli á því að í skýrslunni komi fram að hlutfall kvenna í starfi hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sé 68% á móti 32% hlutfalli karla.
- Í samantekt kæruatriða telur kærandi að hefði réttum aðferðum verið beitt og rétt málefnalegt mat lagt á hæfni kæranda sé augljóst að hann hafi staðið framar í menntunar- og hæfniskröfum en sú sem skipuð var í embætti skrifstofustjóra. Gæta hafi þurft sérstakrar vandvirkni við mat á huglægum þáttum sem leggja hafi átt til grundvallar við skipunina og sérstaklega ef ætlunin hafi verið að taka tillit til annarrar þekkingar og reynslu en kom fram í auglýsingu. Af framangreindum ástæðum hafi kæranda verið mismunað við skipan í stöðuna og að ekki hafi verið sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið þar til grundvallar, sbr. 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
- Með bréfi, dags. 22. desember 2020, kom kærði, mennta- og menningarmálaráðherra, á framfæri sjónarmiðum af sinni hálfu ásamt gögnum sem skipunina vörðuðu.
- Í erindi kærða er því lýst að embættið hafi verið auglýst laust til umsóknar hinn 7. febrúar 2020 og þar hafi hæfni- og menntunarkröfur verið tilgreindar. Í auglýsingu hafi verið tekið fram varðandi nefndar kröfur að skrifstofustjóra hafi verið ætlað að vinna að því að ná fram markmiðum ráðuneytisins á sviði skrifstofunnar og að skrifstofustjóri bæri ábyrgð á að leiða faglegt starf og stýra daglegri framkvæmd starfa skrifstofunnar gagnvart ráðuneytisstjóra. Þá beri skrifstofustjóri ábyrgð á að starfsemi sé í samræmi við rétta stjórnsýsluframkvæmd. Þá falli undir ábyrgð skrifstofustjóra að samþykkja rekstraráætlanir og uppgjör undirstofnana, sjóða og annarra samningsaðila, með tilliti til fjárlaga tímabilsins. Skrifstofustjóri skuli veita starfsfólki endurgjöf fyrir frammistöðu og annast starfsmannaviðtöl. Þá skuli skrifstofustjóri taka þátt í innlendum og alþjóðlegum nefndum, vinnuhópum og ráðum.
- Tilgreint er að skrifstofan skuli halda utan um endurskoðun og innleiðingu laga og reglugerða, svo og kvartanir og kærur, námskrár og framkvæmd náms sem tengist lögum um framhaldsskóla, framhaldsfræðslu og lýðskóla. Þá sjái skrifstofan um nefndarskipanir, auglýsingar, samningagerð og tengiliðastarf við skóla á framhaldsstigi, auk þess að bera ábyrgð á rekstri opinberra framhaldsskóla.
- Í athugasemdum kærða er sjónarmiðum kæranda mótmælt og því hafnað að ráðuneytið hafi mismunað kæranda á grundvelli kyns. Þá er kröfum kæranda um málskostnað og hafnað, verði henni ekki vísað frá nefndinni. Af hálfu kærða er því vísað á bug að ekki sé að finna í gögnum málsins veigamiklar hlutlægar og málefnalegar ástæður ákvörðunar um skipan í stöðuna.
- Af hálfu kærða er á það bent að hæfnisnefnd sem skipuð hafi verið til að leggja mat á hæfni umsækjenda hafi ekki gert upp á milli þeirra umsækjenda sem nefndin hafi metið „mjög vel hæfa” til að gegna umræddri stöðu og því beri að leggja til grundvallar að nefndin hafi metið viðkomandi jafnhæfa. Þó að kærandi hafi fengið fleiri stig í matstöflu hafi munurinn ekki verið afgerandi. Matstaflan hafi endurspeglað frummat á umsóknum en samkvæmt ráðningaráætlun hafi það mat byggt á fimm viðmiðunum sem unnt hafi verið að meta á grundvelli skriflegra gagna. Þeir umsækjendur sem hafi fengið flest heildarstig hafi verið boðaðir til viðtals. Stigagjöfin hafi einungis verið höfð til viðmiðunar en nefndin hafi ekki gert upp á milli viðkomandi umsækjenda í skriflegum niðurstöðum sínum. Þannig hafi nefndin talið þrjá einstaklinga, þar með talin kæranda og konuna sem skipuð var, öll mjög vel hæf og best til þess fallin að gegna embættinu.
- Af hálfu kærða er á það bent að í yfirstjórn ráðuneytisins séu, auk ráðuneytisstjóra sem sé karl, sex skrifstofustjórar, þrír karlar og þrjár konur. Ef litið sé til niðurstöðu matsnefndar sérstaklega hafi líkur staðið til að skipa hafi átt konu með tilliti til svokallaðrar forgangsreglu sem mótuð hafi verið af Hæstarétti í máli nr. 339/1990, þ.e. að veita skuli konu starf ef hún sé að minnsta kosti jafnhæf og karlmaður sem við hana keppir um starf ef á starfsviðinu eru fáar konur.
- Í umsögn kærða er tekið fram að mennta- og menningarmálaráðherra hafi boðað þrjá umsækjendur til viðtals eftir að hafa farið gaumgæfilega yfir umsögn hæfnisnefndar. Hafi ráðherra að lokum komist að niðurstöðu um hvert þeirra þriggja teldist hæfast til að gegna embættinu. Eins og gefur að skilja hafi sú niðurstaða að einhverju leyti byggst á huglægu mati, enda umsækjendurnir allir taldir mjög vel hæfir samkvæmt hlutlægum skilyrðum sem lágu til grundvallar. Að undangenginni rannsókn ráðherra og heildstæðu mati á öllum gögnum málsins, þar með talinni skýrslu hæfnisnefndarinnar, hafi ráðherra komist að þeirri niðurstöðu að sú sem skipuð hafi verið væri hæfust og best til þess fallin að gegna embættinu.
- Í því sambandi vísar kærði til þess að ákvörðun um skipun í embætti skrifstofustjóra sé matskennd stjórnvaldsákvörðun. Þegar lögbundnum hæfnisskilyrðum og hæfniskröfum, sem fram koma í auglýsingu, sleppi byggist mat á hæfni umsækjenda oftar en ekki á huglægum þáttum. Hafi stjórnvöldum verið játað töluvert svigrúm til að meta hvaða umsækjandi teljist hæfastur miðað við þarfir stofnunar og eðli starfa sem um ræðir, að því gefnu að byggt sé á málefnalegum sjónarmiðum. Hafi lögum og reglum verið fylgt og sýnt þyki að hæfnismatið sé byggt á málefnalegum sjónarmiðum geti skipunin ekki talist fela í sér brot á jafnréttislögum. Almennt beri að játa ráðherra nokkurt svigrúm við mat á því hvaða málefnaleg sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda liggi fullnægjandi upplýsingar fyrir. Svo hafi verið í nefndu tilviki. Er því hafnað að kærandi hafi ekki verið metinn að verðleikum eða að kynferði hans hafi ráðið úrslitum.
- Að því er varðar stigagjöf vegna viðtals við ráðherra og hvernig að henni hafi verið staðið er vísað til fylgiskjals 1 með greinargerð um skipun í embættið. Áréttað er að stigagjöfin hafi einungis verið til viðmiðunar og hafi ekki haft úrslitaáhrif á skipun í embættið. Niðurstaða ráðherra hafi verið grundvölluð á heildstæðu mati á öllum gögnum málsins. Mat á stjórnun ásamt leiðtogafærni hafi verið hluti af fyrsta áhersluþætti viðtala ráðherra. Í greinargerð ráðherra um skipunina komi fram að kærandi hafi víðtæka stjórnunarreynslu, sem þar sé rakin, þar með talið að kærandi hafi verið Þjóðleikhússtjóri og stýrt leikhúsi í Noregi. Að því er varðar konu þá sem skipuð var komi fram að stjórnunarreynslu hennar megi rekja til starfs hennar sem deildarstjóra stefnumótunar og þróunardeildar í ráðuneytinu og sem teymisstjóri framhaldsskóla- og framhaldsfræðsluteymis, ásamt því að hafa verið sett skrifstofustjóri í ráðuneytinu.
- Að því er varðar mat á þekkingu og reynslu af innleiðingu opinberrar stefnu hafi spurning um það verið hluti af áhersluþætti í spurningu ráðherra varðandi þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu. Varðandi þennan áhersluþátt sé ótvírætt að kærandi og sú sem skipuð var hafi haft mikla þekkingu og reynslu af innleiðingu á opinberri stefnu, kærandi sem Þjóðleikhússtjóri og konan sem skipuð var með aðkomu að innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla sem og innleiðingu aðalnámsskrár framhaldsskóla. Ljóst sé að mat veitingarvaldshafa verði ekki alfarið reist á hlutlægum mælikvörðum og komið hafi í hlut ráðherra að leggja mat á hvernig umsækjendur féllu að þessum sjónarmiðum. Ráðherra hafi metið það svo að reynsla konunnar hafi fallið betur að þeim kröfum sem gera yrði til skrifstofustjórans, enda um sértæka reynslu að ræða á málefnasviði skrifstofunnar.
- Af hálfu kærða var til þess vísað, svo sem fram hafi komið í greinargerð um skipan í embættið, að sú sem skipuð var hafi haft mikla reynslu af útfærslu og innleiðingu stefnumarkandi ákvarðana innan stjórnsýslunnar og hafi til að mynda komið að innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla. Veruleg reynsla af verkefnastjórnun innan ráðuneytisins hafi og verið talin nýtast vel og hafi sú sem skipuð var til að mynda komið að gerð og innleiðingu aðalnámsskrár framhaldsskóla sem hafi krafist góðrar þekkingar á viðfangsefninu, auk mikils samstarfs með hagsmunaaðilum.
- Að því er varðar þá athugasemd kæranda að þekking konunnar sem skipuð var umfram hann á málaflokki nefndrar skrifstofu ráðuneytisins hafi ekki verið sannreynd og þau mótmæli kæranda að byggt hafi verið á þeim þætti, þótt hann komi ekki fram í auglýsingu eða áætlun um ráðningarferli, bendir kærði á að í auglýsingu um stöðuna komi fram að skrifstofustjóri skuli vinna að því að ná fram markmiðum ráðuneytisins á sviði skrifstofunnar og beri ábyrgð á að leiða faglegt starf og stýra daglegri framkvæmd gagnvart ráðuneytisstjóra. Í auglýsingu sé gerð krafa um að viðkomandi hafi þekkingu á málaflokki skrifstofunnar. Því geti ekki talist ómálefnalegt að byggja á þessum þætti við mat á umsækjendum, en þennan þátt hafi verið unnt að meta á grundvelli skriflegra gagna og svara í viðtölum. Umsækjendum hafi ekki getað dulist að reynsla og þekking á framhaldsskólum og -fræðslu kynni að koma til skoðunar þannig að slík reynsla yrði talin til tekna við matið. Það hafi því ekki verið einungis svar við umræddri spurningu sem hafi verið andlag mats á þekkingu og reynslu. Þá væri á það bent að sú sem skipuð var hafi verið settur skrifstofustjóri frá febrúar 2020. Áréttað er að eðlilegt sé að umsækjendur fái spurningar um málaefnasvið skrifstofunnar, þ.e. framhaldsskóla og framhaldsfræðslu og því eðlilegt að ráðherra spyrji umsækjendur út í stjórnsýslu framhaldsskóla og -fræðslu og um það hvort eitthvað í stjórnsýslu á þessu sviði megi bæta innan gildandi lagaramma. Ekki hafi því þurft að gefa viðmælendum sérstaklega kost á að undirbúa sig fyrir nefndar spurningar.
- Að því er varðar vefengingu kæranda á mati ráðherra á reynslu kæranda af opinberri stjórnsýslu, en hann hafi haft tíu ára reynslu sem forstöðumaður og framkvæmdatjóri stórrar ríkisstofnunar, vísar kærði til greinargerðar vegna skipunar í stöðuna og þess að kærandi hafi haft reynslu af opinberri stjórnsýslu og þekki vel til stjórnsýslulaga og reglna. Að því er varðar konu þá sem skipuð hafi verið í embættið er og tekið fram að hún hafi starfað innan ráðuneytisins í 14 ár og þekki vel til stjórnsýslulaga og réttar. Þá sé viðkomandi vel kunnug framhaldsskólalögum og námskrá framhaldsskóla þar sem hún hafi komið að breytingum og innleiðingu. Báðir umsækjendur hafi haft töluverða reynslu af stjórnsýslu samkvæmt skriflegum umsóknargögnum og svörum í viðtölum, en það hafi verið mat ráðherra að sú sem skipuð hafi verið hafi verið betur til þess fallin að gegna stöðunni. Sé það innan þess svigrúms sem játa verði ráðherra við mat á umsækjendum. Í því sambandi er tekið fram að reynsla konunnar sem skipuð var hafi staðið nær kjarna embættisins með tillti til starfa hennar í ráðuneytinu.
- Í greinargerð kærða til nefndarinnar er sérstaklega tekið fram, að því er varðar mat á meistaragráðu sem kærandi hefur í stjórnun og rekstri, að í skýrslu hæfnisnefndarinnar sé tekið fram að menntun kæranda sé margþætt en að sú menntun myndi ekki nýtast beint í viðkomandi starfi. Að því er varðar menntun þeirrar sem skipuð var telji nefndin að menntun hennar myndi nýtast einkar vel í starfinu. Kærandi sé með meistaragráðu í heilsuhagfræði og MBA, en sú sem skipuð var sé með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á náttúrufræðimenntun í framhaldsskóla.
- Af hálfu kærða er áréttað, með tilliti til athugasemda kæranda um að staðan hafi verið kynnt með mismunandi hætti í auglýsingum, að í auglýsingu í dagblöðum, sem tekið hafi og til fleiri starfa innan ráðuneytisins, hafi verið vísað til þess að frekari upplýsingar um stöðuna hafi verið að finna á Starfatorgi. Það sem fram komi í dagblaðaauglýsingu um að ráðneytið ætlaði að auka áherslu á stjórnun mannauðsmála, stafrænar breytingar, tölfræði og greiningar hafi því ekki myndað hluta af hæfnis- og menntunarkröfum sem gerðar hafi verið til umsækjenda um umrætt embætti skrifstofustjóra, heldur hafi það verið almenn yfirlýsing um áherslur ráðuneytisins til framtíðar.
- Í niðurlagi greinargerðar kærða er tekið fram að ástæða þess að dráttur hafi orðið á skipan í embættið, og sem kærandi hafi gert athugasemdir við, sé álag sem skapast hafi í ráðuneytinu í mars 2020 vegna COVID-19 mála, og hafi verið tilkynnt um tafir í bréfi til umsækjenda hinn 24. apríl 2020. Þá tekur kærði og fram að skýrsla Capacent, sem kærandi vísi til, sé óviðkomandi skipun í embætti það sem hér um ræðir. Skýrslan hafi verið unnin á vegum ráðuneytisins sem óskað hafi eftir hugmyndum um hvernig bæta mætti þjónustu og skilvirkni í vinnuumhverfi ráðuneytisins.
VIÐBÓTARATHUGASEMDIR KÆRANDA
- Með bréfi, dags. 13. janúar 2021, kom kærandi á framfæri við nefndina sérstökum athugasemdum við greinargerð kærða. Í athugasemdunum er meðal annars rakið að í greinargerð kærða sé samantekt á hæfnis- og menntunarkröfum eins og þær hafi birst í auglýsingu um stöðuna, en við það hafi verið bætt texta sem ekki hafi komið fram í auglýsingunni. Þar komi meðal annars fram að skrifstofa framhaldskóla og -fræðslu haldi utan um endurskoðun og innleiðingu laga og reglugerða, kvartanir og kærur og framkvæmd náms sem tengist lögum um framhaldsskóla. Þá sjái skrifstofan um nefndarskipanir og fleira, svo og að stefnumótun og fylgi eftir innleiðingu á stefnu ráðherra varðandi menntun á framhaldsskólastigi. Þessar upplýsingar hafi ekki komið fram í ráðningaráætlun eða í vinnu hæfnisnefndar og eigi því ekki erindi inn í þetta mál.
- Af hálfu kæranda er ítrekað að hann hafi verið metinn hæfastur að mati hæfnisnefndar en hann hafi fengið flest stig í stigagjöf nefndarinnar. Þá hafi verið tekin viðtöl við þá sem fremstir þóttu standa og í samandregnum niðurstöðum nefndarinnar komi fram að kærandi hafi ótvírætt haft mesta stjórnunarreynslu. Þegar niðurstaða nefndarinnar sé skoðuð heildstætt hafi kærandi verið talinn standa öðrum framar þó að þrír hafi allir verið metnir mjög vel hæfir. Hafi kærandi fengið flest stig í þeim matsþáttum sem markaðir voru af hæfnis- og menntunarkröfum samkvæmt ráðningaráætlun.
- Í tilefni af athugasemdum kærða varðandi stöðu kynjanna í stjórnunarstöðum í ráðuneytinu vekur kærandi athygli á því að við skipun í embættið hafi fjórir skrifstofustjórar verið starfandi í ráðuneytinu, tveir karlar og tvær konur, en að meirihluti starfsmanna ráðuneytisins hafi verið konur, eða tæp 70%. Þá er og í þessu sambandi bent á að beiting svonefndrar forgangsreglu, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4699/2006, sé háð því að ákveðin skilyrði séu uppfyllt og að stjórnvald þurfi með skýrum og ákveðnum hætti að gera grein fyrir því ef beitt er nefndri undantekningarreglu. Vekur kærandi athygli á því að við skipun í stöðuna hafi ekki verið vísað til jafnréttislaga að þessu leyti.
- Í athugasemdum sínum til nefndarinnar bendir kærandi á að stigagjöf ráðherra hafi ekki verið studd matsgrunni og ekki sé unnt að sjá hvernig hún hafi verið fengin. Matsnefndin hafi metið það svo að konan sem skipuð var hafi haft takmarkaða reynslu af stjórnun, en í stigagjöf ráðherra hafi konan hins vegar verið metin framar kæranda án þess að það sé rökstutt. Þá er og bent á að í greinargerð kærða sé vísað til þess að sú sem skipuð var hafi verið sett í embættið í febrúar 2020 og það talið henni til tekna, en vakin er athygli á því að umboðsmaður Alþingis hafi dregið í efa heimild til þess að setja ítrekað sama einstakling í embætti sem auglýst hafi verið laust til umsóknar, en fyrir slíku skorti lagagrundvöll.
- Í erindi kæranda til nefndarinnar er ítrekað að hvorki hafi komið fram í auglýsingu né í ráðningaráætlun að viðkomandi hafi þekkingu á málaflokki skrifstofunnar. Ómálefnalegt sé að gefa slíkum þætti sérstakt vægi. Vekur kærandi athygli á að slíkt hafi verið áskilið í öðrum auglýsingum ráðuneytisins en ekki í umræddu tilviki. Kærandi áréttar þó að hann hafi haft ágæta þekkingu á málefnum skrifstofunnar.
- Í athugasemdum kærða er tiltekið að minnispunktar ráðuneytisstjóra („viðtalspunktar”) séu ódagsettir og ekki skráðir í málaskrá. Því verði áreiðanleiki þeirra ekki metinn og í því sambandi er vísað til upplýsingalaga. Vekur kærandi athygli á misræmi í skráningu svara umsækjenda sem teknir hafi verið til viðtals og það skýrt með dæmum. Telur kærandi þetta sýna að mat ráðherra hafi verið illa undirbyggt.
- Kærandi tekur og fram, að því er varðar skýringar á málstöf við skipunina, að liðið hafi 107 dagar frá því að málið taldist fullrannsakað og til skipunardags, sem sé fáheyrður tími, og sem ekki verði skýrður með COVID-19 ástandi. Þá hafi verið skipað í tvær aðrar stöður á tímabilinu sem ekki styðji síðastnefnda skýringu kærða.
VIÐBÓTARATHUGASEMDIR KÆRÐA
- Í tilefni af athugasemd kæranda varðandi kröfu um þekkingu á málefnasviði skrifstofunnar og að slíkt hafi ekki komið fram í auglýsingu eða í ráðningaráætlun tekur kærði fram að þessar upplýsingar hafi verið settar fram í greinargerð kærða til skýringar á fyrirliggjandi máli, en fram hafi komið í auglýsingu að skrifstofustjórinn hafi átt að vinna að því að ná fram markmiðum ráðuneytisins á sviði skrifstofunnar og bera ábyrgð á faglegu starfi og daglegri framkvæmd gagnvart ráðuneytisstjóra. Þó að þetta hafi ekki komið fram í auglýsingu sé þetta sett fram til að varpa frekara ljósi á starfssvið skrifstofunnar.
- Af hálfu kærða er ítrekuð sú afstaða að í skýrslu hæfnisnefndar sé ekki gert upp á milli tilgreindra þriggja umsækjenda sem nefndin hafi talið mjög vel hæfa, en að stigagjöfin hafi verið hluti af frummati á hæfni umsækjenda sem síðan hafi verið boðaðir til viðtals. Stigagjöfin endurspegli ekki það heildarmat sem lá til grundvallar því að þrír umsækjendur hafi verið taldir mjög vel hæfir. Kærandi hafi því ekki verið talinn hæfastur nefndra aðila.
- Að því er varðar athugasemdir kæranda varðandi svokallaða forgangsreglu er áréttað að ráðherra hafi við ákvörðun sína um skipun í embættið byggt á mati á hæfasta umsækjandanum. Ekki hafi því verið byggt á nefndri forgangsreglu á sviði jafnréttislaga.
- Að því er varðar stigagjöf ráðherra vegna viðtala vill ráðherra taka fram að í mati sínu hafi kærandi og konan sem skipuð var fengið jafn mörg stig fyrir allar fjórar spurningar sem sneru að stjórnun og leiðtogahæfni að undanskilinni einni, sem sneri að verkefnastjórnun. Ítrekað sé að ákvörðun um skipunina hafi verið matskennd stjórnvaldsákvörðun og játa verði stjórnvöldum í framkvæmd töluvert svigrúm til að meta hvaða umsækjandi sé hæfastur miðað við þarfir stofnunar og eðli starfs sem um ræðir. Vísað var í þessu sambandi til leiðtogahlutverks sem sú sem skipuð var hafi haft innan ráðuneytisins og reynt hafi á færni hennar í að stýra teymi og skapa liðsheild. Þá hafi hún og haldið utan um fjárlagaliði innan ráðuneytisins um langt skeið.
- Ítrekað er af hálfu kærða, í tilefni af athugasemd kæranda um að þekking á málaflokki viðkomandi skrifstofu ráðneytisins hafi ekki verið áskilin í auglýsingu um stöðuna, að í auglýsingu hafi falist krafa um að skrifstofustjóri hefði þekkingu á málaflokkum skrifstofunnar þó að þær kröfur hafi ekki komið fram berum orðum. Ekki geti talist ómálefnalegt að draga sjónarmið um reynslu og þekkingu á þeim málaflokkum inn í endanlegt mat. Hafi verið vikið að helstu málaflokkum skrifstofunnar í upplýsingum um helstu verkefni og ábyrgð skrifstofustjórans. Hafi umsækjendum ekki getað dulist að reynsla tengd þessu kynni að koma til skoðunar og að hún yrði talin til tekna við matið.
- Að því er varðar viðtalspunkta ráðuneytisstjóra og skráningu svara í viðtölum leyfir kærði sér að benda á að viðtalspunktarnir séu skráðir í málaskrá ráðuneytisins. Punktarnir endurspegli að nokkru mat ráðuneytisstjóra á frammistöðu umsækjenda í viðtölum. Séu þeir hugleiðingar og minnispunktar úr viðtölunum en endurspegli ekki mat ráðherra og þaðan af síður það heildarmat sem liggur til grundvallar skipun í embættið.
NIÐURSTAÐA
- Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
- Kærði auglýsti í febrúar 2020 laust til umsóknar embætti skrifstofustjóra skrifstofu framhaldsskóla og -fræðslu hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
- Sérstök hæfnisnefnd var skipuð til að meta hæfni umsækjenda um embættið, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, sbr. jafnframt reglur nr. 393/2012 um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna, sbr. 7. gr. reglnanna, var niðurstaða hæfnisnefndar ráðgefandi fyrir ráðherra við skipun í embættið.
- Í kæru sinni til kærunefndar er á því byggt af hálfu kæranda að í skýrslu hæfnisnefndar hafi hann verið talinn hæfastur umsækjenda. Hafi umsækjendum verið raðað í röð eftir stigafjölda og hafi kærandi verið metinn hæfastur, en tveir aðrir umsækjendur einnig verið metnir mjög vel hæfir. Að því er þetta sjónarmið kæranda varðar ber að líta til þess að í skýrslu hæfnisnefndar kemur fram að nefnd stigagjöf hafi falið í sér frummat á umsóknum. Í niðurstöðum hæfnisnefndar kemur fram að það hafi verið sameiginleg niðurstaða hæfnisnefndar, að loknu heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum sem leggja beri til grundvallar samkvæmt auglýsingu um starfið, að kærandi og sú sem skipuð var, ásamt einum öðrum umsækjanda, hafi öll verið talin mjög vel hæf og best til þess fallin að gegna embættinu. Skilja verður því niðurstöðu nefndarinnar á þann veg að við lok málsmeðferðar nefndarinnar að þegar litið hafi verið til allra gagna sem fyrir lágu, hafi niðurstaða heildstæðs mats verið sú að nefndir þrír umsækjendur hafi verið taldir hæfastir og að ekki hafi verið gerður greinarmunur á þeim aðilum sérstaklega í niðurstöðunni og þar með í ráðgjöf nefndarinnar til kærða. Er því ekki fallist á með kæranda að stigagjöf hæfnisnefndarinnar leiði líkur að broti samkvæmt IV. kafla, sbr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
- Af hálfu kæranda er til þess vísað í kæru að ekki verði séð hvernig kærði hafi getað komist að þeirri niðurstöðu að gefa skyldi konunni sem skipuð var hærri einkunn en kæranda vegna svara hennar um stjórnun í starfsviðtali með vísan til þess að ljóst sé að kærandi hafði mjög mikla stjórnunarreynslu, en hæfnisnefnd hefði meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ótvírætt mesta stjórnunarreynslu umsækjenda. Með sama hætti gerir kærandi athugasemd við að sú sem skipuð var hafi fengið hærri einkunn en kærandi vegna spurningar um þekkingu á og reynslu af innleiðingu opinberrar stefnu. Gerð er grein fyrir því sem fram kom í viðtölum kærða við umsækjendur í greinargerð kærða vegna skipunar í embættið. Í fylgiskjali með greinargerðinni kemur fram að sú sem skipuð var hafi fengið 3,89 stig af 4 mögulegum, en kærandi hafi fengið 3,67 stig. Fyrir liggur að báðir umsækjendur fengu sömu einkunn fyrir svör sín í starfsviðtali nema í liðum er vörðuðu verkefnastjórnun og stefnumótun, og að því er varðar spurningu sem laut að stjórnsýslu framhaldsskóla sem bæta mætti innan gildandi laga, en í þessum liðum fékk sú sem skipuð var hærri einkunn en kærandi. Fallast má á með kæranda að ekki verði ráðið með afdráttarlausum hætti af gögnum málsins hvernig mati að baki einkunnagjöfinni var háttað. Þó má ráða það af skýringum kærða varðandi skipunina og rökstuðningi sem veittur var í tilefni hennar, og að nokkru af þeim svörum sem skráð voru í viðtölunum, að með tilliti til reynslu þeirrar sem skipuð var af málaflokkum skrifstofu framhaldsskóla og -fræðslu, reynslu hennar af rekstri og opinberri stjórnsýslu innan menntamálaráðuneytisins frá árinu 2006, ásamt reynslu af stefnumótun og áætlanagerð á málefnasviði skrifstofunnar, að hún væri best til þess fallin að gegna embættinu. Að mati nefndarinnar verður ekki annað ráðið en að mat kærða hafi að þessu leyti verið forsvaranlegt. Með vísan til framangreinds og þess svigrúms sem stjórnvöld hafa við mat á hæfni umsækjenda verður ekki talið að einkunnagjöf vegna starfsviðtala vegna skipunar í embættið hafi verið með þeim hætti að leiddar séu líkur að broti samkvæmt IV. kafla, sbr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Er hér og einnig litið til þeirrar ályktunar hæfnisnefndar að styrkleiki þeirrar sem skipuð var umfram aðra umsækjendur hafi tvímælalaust verið þekking hennar á málaflokkum skrifstofunnar.
- Í rökstuðningi kæranda er sérstaklega til þess vísað, að því er framangreint varðar, að ómálefnalegt hafi verið af hálfu kærða að leggja til grundvallar við ákvörðun sína reynslu þeirrar sem skipuð var af málaflokkum skrifstofunnar, en ekki verði séð að þekking hennar hafi verið umfram þekkingu kæranda, auk þess sem kærandi mótmælti því að byggt væri á þeim þætti sem hvorki hafi komið fram í auglýsingu um stöðuna né í áætlun um ráðningarferlið.
- Svo sem rakið er í auglýsingu vegna embættisins var sérstaklega gerð grein fyrir starfssviði skrifstofustjórans og helstu verkefnum skrifstofunnar. Kom fram að skrifstofustjórinn ynni að því að ná fram markmiðum ráðuneytisins, bæri ábyrgð á að leiða faglegt starf skrifstofu og stýrði daglegri framkvæmd gagnvart ráðuneytisstjóra. Þótt ekki sé tekið beint fram að reynsla af málaflokkum skrifstofunnar væri sérstaklega áskilin, eða talin æskileg, má telja það ótvírætt málefnalegt að líta til slíks við skipun í embættið. Óumdeilt er að sú sem skipuð var hafði starfað um árabil í ráðuneyti menntamála, eða frá árinu 2006, og að af þeim ástæðum mætti telja að hún hafi haft meiri reynslu og þekkingu á málefnum skrifstofunnar en kærandi. Má álykta af rökstuðningi kærða að reynsla hennar af áhersluþáttum auglýsingar, svo sem stjórnunarreynsla, reynsla af verkefnastjórnun og áætlanagerð og reynsla af opinberri stjórnsýslu hafi mótast í nefndu umhverfi, og hafi þannig haft mikilsverð áhrif á endanlegt mat kærða á verðleikum umsækjenda að þessu leyti. Verður ekki talið að sýnt sé að slíkt mat hafi verið ómálefnalegt við endanlegt val á milli umsækjenda sem hæfnisnefnd hafði talið mjög vel hæfa til að gegna embættinu. Er hér jafnframt haft í huga að játa verður ráðherra ákveðið svigrúm við endanlegt mat á hæfni umsækjenda, þar með talið að velja þau sjónarmið sem fá sérstakt vægi við endanlegt mat á hæfni umsækjenda um opinbert embætti, enda sé við slíkt val lagðar til grundvallar málefnalegar forsendur. Ekki er fallist á það með kæranda, þegar tekið er mið af þeirri starfsreynslu sem sú sem skipuð var hafði af störfum í ráðuneytinu, þar á meðal sem deildarstjóri um árabil, að skort hafi á rannsókn af hálfu kærða að þessu leyti við samanburð gagnvart kæranda. Hér ber og að hafa í huga að sú sem skipuð var hafði sem teymisstjóri gegnt leiðtogahlutverki í ráðuneytinu um nokkurra ára skeið áður en til skipunar kom. Verður því heldur ekki séð að dráttur á frágangi skipunar í embættið á árinu 2020 hafi haft hér áhrif sérstaklega.
- Með vísan til rökstuðnings kærða, sem fram kom í greinargerð vegna skipunar í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu framhaldsskóla og -fræðslu, rökstuðnings sem veittur var kæranda í tilefni af beiðni þar að lútandi, svo og greinargerðum kærða til kærunefndarinnar, og með tilliti til afstöðu kærunefndar til greindra atriða og sem að framan greinir, verður ekki talið að leiddar hafi verið líkur að því að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns er kona var skipuð í embætti skrifstofustjóra skrifstofu framhaldsskóla og -fræðslu hinn 1. september 2020.
- Samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla getur kærunefnd jafnréttismála ákveðið að sá sem kæra beinist gegn greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi fyrir kærunefndinni. Kærandi hefur haft uppi slíka kröfu í málinu. Skilyrði fyrir slíkri ákvörðun er að niðurstaða nefndarinnar sé kæranda í hag. Þar sem svo er ekki getur ekki komið til þess að nefndin ákvarði kæranda málskostnað.
Úrskurðarorð
Kærði, mennta- og menningarmálaráðherra, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kærandi var ekki skipaður í embætti skrifstofustjóra skrifstofu framhaldsskóla og -fræðslu í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem auglýst var laust til umsóknar hinn 7. febrúar 2020.
Hafnað er kröfu kæranda um að kærða verði gert að greiða honum málskostnað.
Andri Árnason
Margrét Vala Kristjánsdóttir
Anna Tryggvadóttir