Hoppa yfir valmynd
18. mars 2020 Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis, Heilbrigðisráðuneytið

Úrskurður nr. 9/2020

I. Beiðni um undanþágu.

Með tölvupósti, dags. 15. mars 2020, barst heilbrigðisráðuneytinu beiðni frá Hrafnagilsskóla um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.

Í beiðninni er óskað eftir undanþágu í þremur liðum. 1) Í 10. bekk Hrafnagilsskóla séu 23 nemendur og er óskað eftir að stærð bekkjar fái að halda sér. 2) Í 6.‒7. bekk sé samkennsla og nemendur 24 en einungis 6 nemendur séu í 7. bekk og allt strákar. Óskað sé eftir að þetta fyrirkomulag fái að halda sér. 3) Frístund sé starfrækt eftir skóla fyrir 1.‒4. bekk klukkan 14:00‒16:00. Í ljósi aðstæðna hefur verið ákveðið að frístund verði eingöngu í boði fyrir 1. og 2. bekk, óskað er eftir undanþágu fyrir því að þeir krakkar fái að vera saman en stærð hóps er samtals 19 krakkar auk þriggja starfsmanna.

Þá er tekið fram að stjórnendur Hrafnagilsskóla hafi unnið að því að laga starfsemi skólans að breyttum aðstæðum. Þannig hafi skólanum verið skipti í þrjú „sóttvarnarsvæði“ sem hvorki starfsmenn né nemendur fara á milli. Starfsemi skólans hafi verið stytt til klukkan 12:45 og muni kennarar hafa meiri viðveru með nemendum sínum á þeim tíma en almennt gerist og þannig halda betur utan um sóttvarnir og annað slíkt. Nemendur fari ekki úr heimastofum sínum heldur komi verkefnin til þeirra. Þá verði þrískipt í mötuneyti og blandist bekkir aldrei í mötuneytinu auk þess sem aukasalur verði tekinn undir starfsemina og umsjónakennurum gert að fylgja nemendum sínum og snæða með þeim. Íþróttamiðstöð verði lokuð og íþróttastarf grunnskólans lagt af, þess í stað verði hreyfitímar bekkja framkvæmdir úti eftir því sem tök séu á eða innan tilgreindra „sóttvarnarsvæða“ viðkomandi sviðs. Æskulýðsstarf skólans skiptist eftir fyrrgreindum „sóttvarnarsvæðum“ og muni ekki verða blöndun milli bekkja. Inngangar séu þrír og skiptist eftir sóttvarnasvæðum. Skólaakstur hafi verið endurskipulagður og taki mið af því að hvergi séu fleiri en 20 krakkar í einum bíl. Þá séu foreldrar hvattir til að keyra og sækja börn sín sjálfir í skólann þar sem möguleiki er á.

 

II. Umsagnir.

Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir umsögnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sóttvarnasviðs Embættis landlæknis um undanþágubeiðnina. Í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir meðal annars eftirfarandi:

„Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar nr. 216/2020, er mjög skýr en fram kemur í 4. gr. hennar að grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, s.s. í mötuneyti eða frímínútum. Jafnframt skal gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins má ekki ráða af beiðninni af hverju ekki er unnt að skipuleggja skólastarf sbr. 1. og 2. lið erindisins, í Hrafnagilsskóla með þeim hætti að það sé í samræmi við 4. gr. auglýsingar um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Ráðuneytið leggur til að báðum liðum verði synjað. Vegna lið 3 er nemendafjöldi undir viðmiði 4. gr. og ekki því talin þörf á undanþágu. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.“

Af hálfu sóttvarnasviðs Embættis landlæknis kom fram að við mat á því hvort heimila eigi undanþágur frá fjöldatakmörkun 4. gr. auglýsingar nr. 216/2020 um að ekki skuli vera fleiri nemendur en 20 í bekk, geti haft þýðingu hversu rúm viðkomandi skólastofa sé. Ef hún er þröng skuli almennt ekki leyfa undanþágur en annars geti verið eðlilegt að leyfa smávægileg frávik.

 

III. Niðurstaða.

Samkvæmt 4. gr. auglýsingar nr. 216/2020 er grunnskólum heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, svo sem í mötuneyti eða frímínútum. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag. Samkvæmt 6. gr. getur heilbrigðisráðherra veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana.

Við mat á því hvort heimila eigi undanþágu skv. 6. gr. auglýsingar nr. 216/2020 þarf meðal annars að líta til þess hvort undanþágan sem slík setji í hættu ráðstafanir til að varna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins en jafnframt hvort undanþágan yrði fordæmi sem ekki væri unnt að fylgja eftir vegna þess að samþykkt allra sambærilegra tilvika myndi grafa undan framangreindum ráðstöfunum. Þá telur ráðuneytið, í ljósi auglýsingar nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, að undanþága yrði almennt ekki veitt nema með þeim skilyrðum sem gilda um takmörkun á samkomum.

Að mati ráðuneytisins kemur einkum til greina að veita undanþágur þegar um mjög sérstakar aðstæður er að ræða og að takmörkun á skólahaldi kæmi sérstaklega þungt niður á viðkomandi nemendum, kennurum eða aðstandendum, svo sem í tilvikum þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Enn fremur þegar aðstæður á viðkomandi stað gera það mun erfiðara en annars staðar að fylgja fyrirmælum ákvörðunarinnar og/eða um sé að ræða mjög lítil frávik frá auglýsingunni.

Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umsóknina og umsagnir umsagnaraðila. Varðandi 1. og 2. lið tekur ráðuneytið undir með mennta- og menningarmálaráðuneytinu að ekkert hefur komið fram í umsókninni um að erfiðara sé fyrir skólann en aðra að skipuleggja starfið með þeim hætti sem auglýsing nr. 216/2020 gerir kröfu um. Aftur á móti telur ráðuneytið að í ljósi þess að einungis einn 10. bekkur er í skólanum og að hann sé litlu stærri en mörk 4. gr. auglýsingarinnar kveða á um sé unnt að fallast á undanþágu samkvæmt þeim lið, að teknu tilliti til þeirra sóttvarnaráðstafana sem skólinn hefur ráðist í og lýst er í beiðninni. Þrátt fyrir það telur ráðuneytið ekki unnt að verða við beiðni samkvæmt 2. lið er lýtur að samkennsluhóp 6. og 7. bekkjar enda er þar um að ræða stærri hóp auk þess sem ekki er æskilegt að margir hópar yfir 20 nemenda séu í sama skóla. Verður skólinn að skipta þeim hópi upp. Hvað varðar 3. lið beiðninnar tekur ráðuneytið fram að fjöldatakmörkun 4. gr. auglýsingar nr. 216/2020 er miðuð við 20 nemendur án kennara. Þrátt fyrir að í frístund Hrafnagilsskóla sé gert ráð fyrir þremur starfsmönnum auk 19 nemenda telur ráðuneytið að það fyrirkomulag sé í samræmi við auglýsingu nr. 216/2020. Skólanum er því heimilt að haga frístundinni með þeim hætti sem fram kemur í auglýsingu.

Ráðherra getur, svo sem vegna breyttra aðstæðna í skóla, í viðkomandi landshluta eða á landinu öllu, í tengslum við útbreiðslu farsóttar afturkallað ákvörðun þessa.  

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Hrafnagilsskóla um undanþágur frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, samkvæmt 1. lið er samþykkt. 

Beiðni samkvæmt 2. lið er hafnað. 

Beiðni samkvæmt 3. lið er vísað frá þar sem ekki er talið að það fyrirkomulag fari í bága við ákvæði auglýsingar nr. 216/2020.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta