Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2006 Innviðaráðuneytið

Sáu viðbragðskerfi í jarðgangaslysi virkjað

Eldsvoðar og slys í jarðgöngum sem orðið hafa á síðustu árum í Evrópu hafa beint sjónum yfirvalda að nauðsyn þess að herða öryggisviðbúnað og öryggisreglur. Hafa lönd Evrópusambandsins og fleiri Evrópulönd komið upp víðtæku eftirlits- og öryggiskerfi sem miðar að skipulögðu björgunarstarfi til að draga sem mest úr afleiðingum slysa.

Sviss-jardgong0018
Frá eftirlitsstöð við Gotthards-jarðgöngin í Sviss.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti sér síðastliðinn fimmtudag öryggismál og hönnun jarðganga hjá svissneskum vegamálayfirvöldum. Með í för voru þrír fulltrúar samgönguráðuneytisins og einn frá Vegagerðinni. Varð hópurinn vitni að því hvernig neyðarviðbrögð fóru í gang þegar slys varð í Gotthards-göngunum og í ljós kom að árekstur hafði orðið þar sem einn lést og tveir slösuðust alvarlega.

Hópurinn kynnti sér sérstaklega Gotthards-göngin, sem eru meðal lengstu bílajarðganga heimsins og liggja sunnarlega í Sviss og auðvelda umferð milli norður- og suðurhluta landsins og milli Ítalíu og Sviss. Þau eru 16,9 km löng. Við báða enda ganganna eru vaktmiðstöðvar sem mannaðar eru lögreglu og starfsmönnum Vegagerðarinnar. Er þaðan fylgst með umferð og sérstaklega litið eftir flutningabílum og búnaði þeirra.

Þegar hópurinn, sem var í fylgd fulltrúa lögreglu og rekstrarstjóra Gotthards-ganganna, hafði ekið í gegnum göngin var staldrað við í öryggismiðstöðinni sunnan megin. Þá hafði örfáum mínútum áður orðið slys og ekki vitað í fyrstu hvað gerst hefði. Fyrstu viðbrögð voru að senda slökkvibíla og sjúkrabíla inní göngin frá báðum endum og stöðva umferð inní göngin. Smám saman fengust nánari upplýsingar og kom í ljós að harður árekstur hafði orðið mili fólksbíls og flutningabíls. Tveir aðrir flutningabílar náðu ekki að hemla og lentu á hinum bílunum. Einn lést og tveir slösuðust alvarlega. Auk sjúkrabíla var einnig kallað eftir þyrlu sem lenti við gangaopið fáum mínútum síðar.

Fjöldi bíla var þegar inni í göngunum, meðal þeirra um 20 flutningabílar, en þeim sem þegar voru í göngunum var ekki hætta búin. Göngin voru lokuð í nokkrar klukkustundir og var gripið til þess ráðs að opna veginn yfir Gotthard-skarðið til að umferð gengi greiðlegar fyrir sig. Hafði skarðinu verið lokað daginn áður eins og alltaf að vetrarlagi enda snjór tekinn að falla þar en vegurinn fer í um 2.000 m hæð.

Slys í jarðgöngum eru fátíð en í sumum tilvikum, ekki síst ef eldur kemur upp, geta afleiðingarnar orðið hörmulegar. Í Sviss er tíðni slysa í jarðgöngum 0,35 miðað við hverja milljón ekinna kílómetra en á almennum vegum er tíðnin 0,47. Uppbyggingu og rekstri vega er í Sviss skipt milli sýslna og ríkis og undir ríkið falla m.a. hraðbrautir, um 3.000 brýr, 200 jarðgöng og hvers kyns vegsvalir og varnarmannvirki sem tengjast vegum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta