Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2006 Innviðaráðuneytið

Yfir 20 erindi á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar

Flutt var í gær 21 erindi á fimmtu ráðstefnu Vegagerðarinar um rannsóknir þar sem fjallað var um rannsóknir sem rannsóknasjóður Vegagerðarinnar hefur fjármagnað. Til sjóðsins rennur 1% af mörkuðum tekjum til vegamála, kringum 100 milljónir króna á ári, en umsóknir um styrki nema tvöfaldri þeirri upphæð.

Meðal umfjöllunarefna voru burður vega og þungatakmarkanir, hljóðvarnir, áhrif vetrarþjónustu á umferðaröryggi, aðferðir við mat á áhrifum framkvæmda á landslag og leiðbeiningar um hönnun 2+1 vega og fleira.

Í umfjöllun um hönnun 2+1 vega eru settar fram leiðbeiningar um hvernig standa skal að hönnun, greint frá reynslu erlendra þjóða og dregið fram hvernig slíkir vegir geta aukið afköst í umferð og aukið umferðaröryggi. Hefur Vegagerðin gefið út skýrslu um efnið í samvinnu við Línuhönnun og Fjölhönnun. Skýrsluna unnu Bryndís Friðriksdóttir og Haraldur Sigþórsson frá Línuhönnun, Erna Bára Hreinsdóttir og Auður Þóra Árnadóttir frá Vegagerðinni og Aldís Ingimarsdóttir og Þórunn Málfríður Ingvarsdótir frá Fjölhönnun.

Fyrsti 2+1 vegarkaflinn hérlendis var lagður á Hringveginum um Svínahraun fyrir rúmu ári, um 5 km langur, og ráðgert er að lengja hann allt milli Hólmsár og Hveragerðis. Fram kemur í skýrslunni að samkvæmt reynslu Svía megi búast við allt að 10% fækkun umferðaróhappa á 2+1 vegi án víravegriðs á miðju til að skilja að akstursstefnur en 2-30% fækkun óhappa og allt að 50% fækkun banaslysa eftir að hefðbundnum vegi hefur verið breytt í 2+1 veg með víravegriði.

Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, skýrði í lok ráðstefnunnar frá rannsóknastefnu Vegagerðarinnar. Helstu þættina sagði hann þá að hafa frumkvæði að rannsókna- og þróunarstarfi, að afla nýrrar þekkingar á sviði vega- og samgöngumála, að stuðla að því að niðurstöður rannsóknastarfs skili sér í staðla og breyttu verkferli og góðri sambúð vega og umferðar við umhverfi og íbúa. Sagði hann rannsóknir Vegagerðarinnar beinast að mannvirkjum, umferð, umhverfi og samfélagi og sé við úthlutun styrkja bæði horft til hagnýtra rannsókna og grunnrannsókna.

Útdrátt úr erindum má sjá á vefsíðu Vegagerðarinnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta