Einstaklingur hreppti EDI bikarinn
Af aðalfundi ICEPRO 26. febrúar
27.2.2013
Aðalfundur ICEPRO var haldinn þriðjudaginn 26. febrúar 2013 í Snæfelli á Hótel Sögu. Skin og skúrir skiptust á og féllu nokkukr ummæli um veðurfarið. 32 manns mættu á fundinn og er það vel. (39 manns mættu á aðalfund í fyrra, en ekki 49 eins og misritaðist í aðalfundargerð frá í fyrra. Leiðréttist það hér með.)
Einnig voru mættir tveir nemendur frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði, með kvikmyndavélar og upptökutæki. Þeir tóku fundinn upp og birtu á nýju vefsetri sem heitir Netsamfélagið:
http://netsamfelag.is/index.php/lydhraedhi-og-stjornmal/icepro/264-edi-bikarinn-afhentur-i-17-sinn
Hjörtur Þorgilsson, formaður ICEPRO bauð menn velkomna og stýrði fundi.
Ávarp ráðherra
Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar ávarpaði fundinn. Hann bað menn að draga gluggatjöldin frá svo að sólargeislarnir kæmust inn og minnti á að borgarstjóri hafi hrósað ljósinu á aðalfundinum í fyrra, þegar borgin tók við EDI bikarnum.
Steingrímur sagði ICEPRO vera mikilvægan samstarfsvettvang í rafrænum viðskiptum, sem ætti sér sögu. Hann hvatti menn til að nýta sér hina stafrænu tækni til hagræðingar og minnti á að rafræn viðskipti tilheyrðu viðskiptahlutanum í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og er vel staðsett þar.
Ráðherra fagnaði væntanlegri reglugerð um bókhaldskerfi og rafræna reikninga, enda leysir hún af hólmi eldri reglugerð frá árinu 1999. ICEPRO hefur verið virkur vettvangur sem hélt m.a. kynningarfund um málið á nýliðnu ári og meðlimir hafa skilað inn umsögnum, en smiðhöggið verður innan fárra vikna. Ráðherra minnti á að Fjármálaráðuneytið og Fjársýslan hefðu komið að þessu verki ásamt fleirum.
Steingrímur kvaðst hafa sagt margt á aðalfundi ICEPRO í fyrra og sagðist hafa verið áhugamaður lengi um hina rafrænu tækni á viðskiptasviðinu. Hann vill nýta hana betur bæði í stjórnmálum og stjórnsýslu og vinna að málinu í Norðurlandaráði. Hann fagnaði því að nú væri kominn skriður á málin aftur og að þessum málaflokki hefði verið sinnt af meiri þrótti frá næstsíðustu áramótum, eða um eins árs skeið.
Afhending EDI bikarsins
Þá var komið að afhendingu EDI bikarsins. Þar var brotið blað í sögunni með því að einstaklingur tók við bikarnum í fyrsta skipti. Sá heitir Georg Birgisson og nú trónir nafn hans á EDI bikarnum við hlið stofnana, sveitarfélaga og stórra fyrirtækja.
Georg er vel að heiðrinum kominn. Hann hefur unnið ötullega að framgangi rafrænna viðskipta hér á landi, verið ritstjóri tækniforskrifta Fagstaðlaráðs í upplýsingatækni og ritstjóri hjá NES vinnuhópsins og einn af höfundum NES verklagsins. Hann var ritstjóri hjá CEN/BII Staðlasamtökum Evrópu og hefur unnið náið með ICEPRO, ráðuneytum og þjónustuveitendum við innleiðingu alþjóðlegra rafrænna viðskipta.
Georg tók saman handbók um viðskiptaferla og skeyti, sem nefnist „Rafræn innkaup með XML“. Bók þessi kom út í desember 2007 og hefur til þessa verið biblía þeirra sem innleiða rafræna reikninga hérlendis. Hann hefur verið ötull talsmaður evrópska PEPPOL netsins sem og reikitenginga á milli samskiptaneta hérlendis.
Georg flutti þakkarræðu og miðlaði nokkuð af reynslu sinni. Ræða hans birtist hér: Þakkarræða EDI verðlaun.doc.
Rafræn viðskipti Reykjavíkurborgar: Áskoranir og tækifæri
Jónas Skúlason, deildarstjóri bókhalds Reykjavíkurborgar tók næstur til máls. Hann flutti afar athyglisvert erindi um áskoranir og tækifæri í rafrænum viðskiptum hjá hjá borginni, sem hefur náð umtalsverðum sparnaði og hagræðingu, enda var borgin handhafi EDI bikarsins síðastliðið ár.
Borgin tekur nú á móti 80 þúsund reikningum rafrænt, þannig að nokkur bretti af pappír eru horfin úr skjalageymslu borgarinnar. Árlegur sparnaður fjármálasviðs er um 60-70 milljónir króna á ári, því skráning hverfur nánast, afstemming verður auðveldari og vinnuafl nýtist annars staðar, engum er sagt upp. Borgin hefur tekið upp græna og umhverfisvæna viðskiptahætti og allir græða!
Jónas rakti undirbúning rafrænna reikninga og bókhalds borgarinnar sem á sér langan aðdraganda. Gríðarlegir fjármunir geta sparast ef hlutirnir takast vel, en auk þess vinnst tímasparnaður hjá mörgum aðilum. Mikið var um prófanir á undirbúningstímanum, sem skiluðu sér vel. Nú er þjónusta skeytamiðlara og hugbúnaðarhúsa þannig að ferlið er nánast „plug and play“. Jónas minnti þó á að upptaka rafrænna reikninga er langhlaup, ýmislegt breytist í verkferlum innanhúss.
Jónas klykkti út með orðunum: „Tíminn er kominn, en líður hratt. Við drátt á rafrænum viðskiptum tapast gríðarleg hagræðing. Minn tími hér er liðinn, en vonandi kemur tími rafrænna viðskipta fyrr en síðar af meiri krafti en hingað til!“ Skyggnur Jónasar birtast hér: Aðalfundur ICEPRO 26022013.ppt.
Síðan tóku við hefðbundin aðalfundarstörf.