Hoppa yfir valmynd
8. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Áttatíu ár liðin frá því stofnað var til stjórnmálasambands við Bretland

Bráðabirgðalausn á 50 mílna deilunni við Breta, október 1973. Við heimkomu sendinefndar Íslands frá London. F.v: Hannes Jónsson blaðafulltrúi, Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra, Hans G. Andersen, sendiherra. - mynd

Í kjölfar stofnunar utanríkisþjónustu Íslands 10. apríl 1940, komu Ísland og Bretland á stjórnmálasambandi milli ríkjanna tveggja. Þann 10. maí sama ár afhenti Howard Smith, sendiherra Bretlands, Hermanni Jónassyni forsætisráðherra, trúnaðarbréf sitt frá Georg konungi VI. Kringumstæðurnar voru um margt sögulegar enda sigldi hinn nýskipaði sendiherra með breska hernámsliðinu til Íslands og afhenti trúnaðarbréf sama dag og hernámið hófst. Má leiða líkur að því að það sé einstakt í sögunni að sendiherra afhendi trúnaðarbréf í skugga hernáms en sendiráð Íslands í London hafði raunar opnað nokkru fyrr og gegndi Pétur Benediktsson stöðu setts sendiherra.

„Bretland er ein af okkar nánustu samstarfsþjóðum og mikil vinaþjóð. Samband okkar í gegnum árin sýnir vel að þó snurða kunni að hlaupa á þráðinn eru böndin sem tengja okkur saman sterk,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í tilefni þessara tímamóta.

Bretland er stærsti einstaki útflutningsmarkaður Íslands hvað vöruviðskipti varðar og samskipti þjóðanna hafa alla tíð verið náin. Mikill fjöldi Íslendinga hefur sótt Bretland heim, bæði til ferðalaga en einnig hafa fjölmargir Íslendingar stundað nám í þarlendum háskólum. Margir eiga sér sitt lið í enska fótboltanum og Íslendingar eru duglegir að sækja sér menningu og afþreyingu frá Bretlandi. Af þeim ferðamönnum sem sækja Ísland heim á ári hverju kemur mikill fjöldi frá Bretlandi og þegar kemur að þjóðarrétti Bretlands, fiski og frönskum, eru yfirgnæfandi líkur á því að fiskurinn sé úr íslensku hafi dreginn.

Ráðherra sagði samstarf og samningaviðræður tengd útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sýna að mikill vilji sé fyrir hendi að styrkja enn frekar þetta nána samband til framtíðar.

„Bretar hafa sýnt Íslendingum vinaþel í verki undanfarnar vikur en þeir hafa hjálpað fjölda strandaglópa að komast til síns heima í gegnum sérstök borgaraflug breskra yfirvalda,” sagði Guðlaugur enn fremur. 

Nánar má lesa um hernámið og afhendingu trúnaðarbréfsins í sögulegri samantekt byggðri á bók Þórs Whitehead, Bretarnir Koma, á 80 ára afmælisvef utanríkisþjónustunnar.

  • Pétur Benediktsson gegndi stöðu setts sendiherra Íslands í London er stjórnmálasamband komst á milli Íslands og Bretlands árið 1940. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta