Ræddi samgöngumál við sveitarstjórn Skagafjarðar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra átti á laugardag fund með fulltrúum byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Var þar fjallað um ýmis mál er snerta byggðarlagið, meðal annars innanlandsflug, vegamál og sameiningu sýslumanns- og lögregluembætta.
Fundinn sátu auk ráðherra Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri, Bjarni Jónsson, forseti sveitarstjórnar, Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs, Jón Magnússon, fulltrúi í byggðaráði og Sigfús Ingi Sigfússon, verkefnastjóri í atvinnumálum.
Sveitarstjórnarmenn lýstu á fundinum áhyggjum sínum af því að flugfélagið Ernir skuli hafa hætt áætlunarflugi milli Sauðárkróks og Reykjavíkur og töldu brýnt að framhald yrði á fluginu með einhverju móti. Sögðu þeir það brýnt fyrir bæði atvinnulífið og heilbrigðisþjónustu og margir gætu nýtt sér ferðir þegar flogið er bæði kvölds og morgna. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem málið er rætt á fundum þessara aðila og verða allar leiðir kannaðar til að halda uppi áframhaldandi flugi. Kvaðst ráðherra styðja viðleitni sveitarstjórnarmanna í þá átt og verður unnið að málinu áfram á næstu vikum.
Þá minntust fulltrúar sveitarstjórnar á að nauðsynlegt væri að ljúka breytingum á Strandvegi um hafnarsvæðið á Sauðárkróki en hann er framhald Þverárfjallsvegar þar sem hann tengist bænum norðan við hafnarsvæðið. Þar sem vegarkaflinn er skilgreindur sem þjóðvegur í þéttbýli myndi kostnaður deilast milli ríkis og sveitarfélags en hann er áætlaður 50 til 60 milljónir króna. Einnig óskuðu sveitarstjórnarmenn eftir endurbótum á Skagafjarðarvegi sunnan Varmahlíðar eins og verið hefði á samgönguáætlun en ekki komist í framkvæmd.
Í lokin var fjallað um skipulagsbreytingar á embættum lögreglustjóra og sýslumanna og hafa sveitarstjórnarmenn lagt til að verði breytingar gerðar á embættunum yrðu lögregluembættin á Norðurlandi vestra sameinuð í eitt í samræmi við sóknaráætlun landshluta.
Auk þess að eiga viðræður við sveitarstjórnarmenn heimsótti innanríkisráðherra samgönguminjasafn Skagafjarðar í Stóragerði. Gunnar Þórðarson hefur byggt upp safnið síðustu ár ásamt konu sinni Sólveigu Jónasdóttur. Gunnar hefur lengi safnað bílum og bílhræjum og gera upp marga bíla. Kveðst hann enn eiga marga bíla sem þarfnist endurnýjunar.