Margrét María Sigurðardóttir skipuð forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur skipað Margréti Maríu Sigurðardóttur forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, til fimm ára. Ákvörðun um skipun hennar er í samræmi við mat ráðgefandi nefndar sem mat hæfni umsækjenda.
Embættið var auglýst í júní sl. og rann umsóknarfrestur út 3. júlí. Umsækjendur voru tíu. Ráðgefandi nefnd sem mat hæfni umsækjenda skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra 4. september og mat Margréti Maríu vel hæfa til starfsins. Ákvörðun ráðherra um skipun hennar var tekin að undangengnum viðtölum við þá umsækendur sem nefndin mat hæfasta.
Margrét María lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1990, hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 1996 og lauk námi til kennsluréttinda frá Háskólanum á Akureyri árið 2010. Hún hefur einnig stundað ýmis konar styttra nám og sótt námskeið sem varða m.a. stjórnun, sáttamiðlun og réttindi barna.
Margrét María gegndi embætti umboðsmanns barna árin 2007 – 2017 og var framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu árin 2003 – 2007. Á árunum 1997 – 2003 starfaði hún við lögmennsku en sat sumarlangt sem sýslumaður og lögreglustjóri á ísafirði árið 2000. Hún hefur einnig starfað sem atvinnuráðgjafi og sem sýslumannsfulltrúi hjá fjórum sýslumannsembættum.
Í umsögn hæfnisnefndar segir m.a. að Margrét María hafi haldgóða og farsæla reynslu af stjórnun á efsta þrepi stofnana, sé lifandi, kröftug og helguð þeim málstað sem hún leggi lið hverju sinni.
Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin starfar á grundvelli laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu . Hlutverk hennar er að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar, jafnframt því að þjóna hlutverki þekkingarmiðstöðvar sem aflar og miðlar þekkingu á aðstæðum notenda í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Stofnunin skal hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru blindir eða sjónskertir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Hún skal einnig sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir. Nánar er fjallað um verkefni stofnunarinnar í 4. gr. laga nr. 160/2008.