Einfaldari upplýsingagjöf fyrirtækja á Norðurlöndum
Nordic Smart Government 3.0 verkefnið miðar að því að Norðurlöndin verði gagnsætt og stafrænt svæði þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki geta miðlað efnahagsupplýsingum á öruggan hátt í rauntíma. Verkefninu var hleypt af stokkunum á fundi norrænu atvinnulífsráðherrana í Stokkhólmi 15. maí og er það til tveggja ára.
Verkefnið opnar alveg nýja möguleika fyrir fyrirtæki og stofnanir að fá lánaupplýsingar og eykur þetta þar með gagnsæi og auðveldar samstarf milli fyrirtækja. Upplýsingagjöfin á auk þess að geta átt sér stað þvert á norræn landamæri og búist er við að þetta auki nýsköpunarkraftinn á öllum Norðurlöndum.
Sem stendur er erfitt að fá nýjar fjárhagsupplýsingar um lítil og meðalstór fyrirtæki vegna þess að ársskýrslur þeirra eru oft einu heimildirnar og upplýsingarnar sem skýrslurnar veita geta verið úreltar. Þegar kerfið er gert sjálfvirkt verður hægt á öruggan hátt að fá nýjar upplýsingar um efnahagslega stöðu fyrirtækis.
„Ég bind miklar vonir við framgang þessa verkefnis enda mun það hafa í för með sér að stjórnsýslubyrði léttist og þeir sem þurfa á upplýsingum að halda geta nálgast þær á nánast rauntíma með öruggari hætti en áður. Þannig verður ákvarðanataka fyrirtækja og opinberra aðila byggð á traustari grunni“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
„Nordic Smart Government 3.0 styður sýn norrænu forsætisráðherranna um að Norðurlöndin verði samþættasta svæði heims. Verkefnið stuðlar að alþjóðlegri forystu Norðurlandanna og áætlunin getur sömuleiðis orðið vegvísir fyrir Evrópusambandið til þess að koma á fót fyrirtækjaumhverfi með meiri samkeppnishæfni, nýsköpun og hagvexti,“ segir framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Dagfinn Høybråten.
Gervigreind og snjallar samgöngur á dagskrá
Á fundinum í Stokkhólmi ákváðu ráðherrarnir einnig að auka samstarfið á sviði gervigreindar og snjallra samgangna.
Á samgöngusviðinu veittu ráðherrarnir stuðning sinn við verkefni sem snýr að grænum, stafrænum og samkeppnishæfum samgöngum og ferðum. Gert er ráð fyrir því að Norðurlöndin geti tengt saman samgöngukerfi sín fyrir fólk, vörur og eignir ásamt því að tengja saman upplýsingakerfi. Þetta er gert til þess að nýta hæfni hvers annars og ná heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.