Hoppa yfir valmynd
16. desember 2019 Utanríkisráðuneytið

Rúmlega 53 milljónum ráðstafað til alþjóðlegra mannúðarverkefna

Frá Jemen. Ljósmynd: Save the Children. - mynd

Utanríkisráðuneytið hefur falið þremur frjálsum félagasamtökum að ráðstafa rúmlega 53 milljónum króna til þriggja mannúðarverkefna, í Sýrlandi, Jemen og meðal þjóðanna sem urðu verst úti í fellibylnum Idai fyrr á árinu. Félagsamtökin sem fá styrkina eru Rauði krossinn á Íslandi, Barnaheill – Save the Children og Hjálparstarf kirkjunnar.

Mannúðaraðstoð til stríðshrjáðra í Sýrlandi fær hæsta styrkinn á þessu sinni, rúmlega 31 milljón króna, en verkefnið er unnið af Rauða krossinum og hefur það meginmarkmið að lina þjáningar óbreytta borgara, særðra og sjúkra í Sýrlandi. Verkefnið beinist sérstaklega að því að vinna að því að tryggja stríðshrjáðum einstaklingum í Sýrlandi þá virðingu og vernd sem kveðið er á um í alþjóðlegum mannúðarlögum.

Barnaheill – Save the Children fær 15 milljóna króna styrk í neyðaraðstoð fyrir börn og fjölskyldur þeirra í Jemen. Markmið verkefnisins er að lina þjáningar fórnarlamba átaka í landinu en helstu verkefnaþættir snúa að fæðuöryggi, barnavernd og réttindum barna, heilsu, hreinlætisaðstöðu, næringu og menntun. Verkefnið verður unnið gegnum alþjóðasamtökin Save the Children.

Hjálparstarf kirkjunnar fær 7 milljóna króna styrk í mannúðaraðstoð vegna fellibylsins Idai sem reið yfir Mósambík, Malaví og Simbabve fyrr á árinu. Markmiðið með verkefninu, sem verður unnið er á grundvelli neyðarbeiðni ACT Alliance – alþjóðasamtaka kirkjulegra hjálparstofnana – er að draga úr varnarleysi og þjáningu þeirra sem hafa orðið illa úti vegna hamfaranna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
2. Ekkert hungur
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta