Hoppa yfir valmynd
6. október 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Starfsmenn telja tækifæri í sameiningu og auknu samstarfi

Ferðamenn við hver. - myndGolli

Stærstur hluti starfsmanna þeirra stofnana sem heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið telur tækifæri felast í sameiningu stofnananna ráðuneytisins og að mikil tækifæri séu í samþættingu verkefna eða samvinnu stofnana. Þetta er meðal niðurstöðu könnunar  Maskínu sem unnin var í tengslum við greiningu á stofnanaskipulagi ráðuneytisins sem nú stendur yfir.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra, ýtti í sumar úr vör vinnu við að greina stofnanaskipulag ráðuneytisins. Er meginmarkmið vinnunnar að  greina umbótatækifæri og áskoranir sem felast í núverandi stofnanakerfi ráðuneytisins, sem og hvernig megi efla, styrkja og samræma starf stofnananna.

Við greiningarvinnuna hefur verið lögð áhersla á gott samstarf við stjórnendur, auk þess sem  leitað hefur verið eftir sjónarmiðum og hugmyndum starfsmanna og var framgangur vinnunnar kynntur fyrir starfsfólki nú í vikunni. Samkvæmt könnun Maskínu telja 48% starfsmannanna mikil eða mjög mikil tækifæri liggja í sameiningu stofnana og 38,2% til viðbótar telja tækifærin í meðallagi. Þá telja 63% fremur mikil tækifæri vera í samþættingu verkefna eða samvinnu þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra.

Alls tóku 74% af 470 starfsmönnum stofnananna þátt könnuninni.

Tækifæri til að styrkja, efla og samræma starf stofnana

Verkefni stofnana umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins eru mikilvæg, bæði fyrir íslenskt samfélag og á alþjóðavettvangi. Tryggja þarf að stofnanirnar geti sinnt kjarnahlutverki sínu samhliða því að takast á við margvíslegar áskoranir, s.s. mannauðstengd verkefni, stafræna vegferð, fjármál og að tryggja góða þjónustu við samfélagið.

Einnig er lögð áherslu á að vinnustaðirnir séu öflugir og eftirsóknarverðir og að störfin séu ekki staðbundin, nema eðli þeirra krefjist þess. Þess má geta að 82% þeirra sem tóku þátt í könnun Maskínu kváðust jákvæð gagnvart fjarvinnu að hluta eða öllu leiti og sögðu 88% starf sitt þess eðlis að hægt væri að sinna því að hluta eða öllu leyti á hvaða starfsstöð sem er.

Þurfum að styðja byggðaþróun og valfrelsi í búsetu

„Það er ánægjulegt að sjá hversu stór hópur starfsmanna sér tækifæri í aukinni samvinnu og sameiningu. Verkefni stofnana umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins eru afar mikilvæg og við þurfum að efla, styrkja og samræma betur starf þeirra svo þær geti sinnt kjarnahlutverki sínu samhliða því að takast á við margvíslegar áskoranir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Við þurfum einnig að horfa til þess að opinber störf séu ekki staðbundin, nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega og styðja þannig við  byggðaþróun og valfrelsi í búsetu. Styrking starfsstöðva stofnana ráðuneytisins á landsbyggðinni er eitt af lykilatriðunum í þessari vinnu við styrkingu og einföldun stofnanaskipulagsins og mikilvægt skref var stigið í þá átt þegar aðsetur Vatnajökulsþjóðgarðs var flutt til Hafnar í Hornafirði fyrr á þessu ári.“

Stofnanir umhverfis- orku- og loftslagráðuneytisins eru 13 talsins og eru föst stöðugildi um 500 en fjöldi starfsmanna er meiri. Starfsemi stofnana er á um 40 starfsstöðvum víða um land og eru 61% starfanna á höfuðborgarsvæðinu. Þær stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eru: Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landmælingar Íslands, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, Orkustofnun, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður, Veðurstofa Íslands og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Gert er ráð fyrir að fyrir niðurstöður greiningarinnar liggi fyrir í lok þessa árs.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta