Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 564/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 564/2023

Miðvikudaginn 28. ágúst 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 og ákvörðun Tryggingastofnunar um greiðsluhlutfall ellilífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn frá Deutsche Rentenversicherung, dags. 21. október 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. ágúst 2022, var kæranda tilkynnt um að umsóknin hefði verið samþykkt frá 1. október 2021 og að greiðsluhlutfallið yrði 53,88%. Óskað var eftir nánari gögnum frá kæranda, meðal annars tekjuáætlun, skattframtali vegna ársins 2021 og launaseðlum frá þeim lífeyrissjóðum sem greiða honum lífeyri. Kærandi sendi Tryggingastofnun umbeðin gögn. Með bréfi, dags. 31. október 2022, var kærandi upplýstur um greiðslur ársins. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. apríl 2023, var meðal annars óskað eftir afriti af skattframtali kæranda vegna ársins 2022 frá búsetulandi. Kæranda var tilkynnt um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2022 með bréfi, dags. 28. ágúst 2023. Niðurstaðan var sú að kæranda hefðu verið vangreiddar bætur það ár að fjárhæð 12.286 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Viðbótargögn bárust frá kæranda 3. janúar 2024 sem voru send Tryggingastofnun ríkisins, dags. 10. janúar 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 10. janúar 2024 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 19. janúar 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. janúar 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda í tölvupósti 2. og 6. febrúar 2024 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. febrúar 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda í tölvupósti 8. febrúar 2024 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. febrúar 2024. Margvísleg viðbótargögn bárust frá kæranda í febrúar og mars 2024 og voru þau send Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 7. mars 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 23. apríl 2024, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 30. apríl 2024.

Með bréfi, dags. 2. maí 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir nánari rökstuðningi frá Tryggingastofnun ríkisins. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 17. maí 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 22. maí 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 28. maí 2024. Með bréfi, dags. 19. júní 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari upplýsingum frá Tryggingastofnun. Með bréfi, dags. 4. júlí 2024, bárust upplýsingar frá Tryggingastofnun og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. júlí 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 15. júlí 2024 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Ný kæra barst frá kæranda 22. júlí 2024 og með bréfi, dags. 24. júlí 2024, var kærandi upplýstur um að kæran yrði sameinuð kærumáli þessu. Með bréfi, dags. 29. júlí 2024, barst greinargerð frá Tryggingastofnun og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. júlí 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 30. júlí 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 6. ágúst 2024 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. ágúst 2024.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að Tryggingastofnun ríkisins hafi án heimildar dregið þýsk eftirlaun kæranda frá íslenskum ellilífeyri. Þess sé krafist að Tryggingastofnun greiði kæranda ellilífeyri án þess að draga þýskar eftirlaunagreiðslur hans frá íslenskum ellilífeyri.

Skömmu eftir að kæranda hafi borist fyrsta greiðsla ellilífeyris frá Tryggingastofnun, sem hafi verið greidd í evrum, án upplýsinga um fjárhæð greiðslna í íslenskum krónum, hafi kærandi óskað skýringa á útreikningnum. Tryggingastofnun hafi ekki svarað erindum kæranda.

Fyrir rúmlega hálfu ári hafi kærandi gert margítrekaðar og árangurslausar tilraunir til að fá aðgang að skjölum og upplýsingum frá Tryggingastofnun um ellilífeyri hans. Kærandi eigi ekki þann tæknibúnað sem nauðsynlegur sé til að sækja gögn á rafrænu formi til Íslands.

Kærandi hafi leitað aðstoðar þýsks lögmanns til að afla gagna frá Tryggingastofnun, nokkur skjöl hafi borist þann 6. nóvember 2023. Hann hafi svo sent þau til kæranda í tölvupósti 8. nóvember 2023. Eitt af þessum gögnum hafi verið svar Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 18. nóvember 2022. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um þetta skjal fyrr en það staðfesti beiðni hans um útskýringar á útreikningi ellilífeyris. Í svari Tryggingastofnunar segi: „Tekjur hafa áhrif á lífeyri frá TR. Samkvæmt skjali frá Finanzamt í þýskalandi sem þú sendir okkur voru lífeyristekjur þín í þýskalandi 25.102 evrur árið 2021. Þær tekjur leiða til lækkunar á lífeyri frá Tryggingastofnun.“

Tryggingastofnun hafi ekki lagt fram neina útreikninga eða annað er sýni með hvaða hætti erlendar lífeyristekjur lækki ellilífeyri stofnunarinnar. Rentenbescheid frá Deutsche Rentenversicherung Bund (DRV) sé skjal upp á tugi blaðsíðna sem skýri nákvæmlega alla útreikninga og vísi til viðeigandi laga og annarra ákvæða er hafi gildi á eftirlaun frá DRV.

Tryggingastofnun og DRV hafi skipst á upplýsingum um tryggingatíma kæranda í báðum löndum og því sé ljóst á grundvelli þess að einstaklingur geti ekki átt lögheimili í tveimur eða fleiri ríkjum samtímis. Tryggingastofnun og DRV hafi gengið úr skugga um að um mismunandi tryggingatímabil sé að ræða.

Ljóst sé að tilskipun EB nr. 883/2004 sé í fullu gildi á Íslandi. Sama eigi við um aðrar evrópskar tilskipanir, samninga og fleira á sviði almannatrygginga, auk bókana tengdum framangreindu.

Kærandi hafi gert ítrekaðar og árangurslausar tilraunir til að fá upplýsingar frá Tryggingastofnun, meðal annars um það hvort stofnunin beiti ákvæðum nefndrar tilskipunar við útreikning ellilífeyris kæranda og sér í lagi ákvæði 5. kafla tilskipunarinnar.

Málið snúist um hvenær fulltrúar Íslands hafi undirritað skjöl sem skuldbindi Ísland til að beita ákvæðum tilskipunarinnar og einnig annarra samevrópskra reglna sem hafi áhrif á útreikning á ellilífeyri kæranda.

Það sé mat kæranda að málið sé einfalt. Það varði í fyrsta lagi „samskonar bætur“ eða „annarskonar bætur“ og í öðru lagi „sama tryggingartímabil“ eða „annað tryggingartímabil“.

Kæran sé byggð á ákvörðun, dags. 18. nóvember 2022, þar sem Tryggingastofnun hafi dregið erlend eftirlaun kæranda frá íslenskum ellilífeyri frá stofnuninni.

Í athugasemdum kæranda frá 22. nóvember 2023 segir að kæran varði greiðslur ellilífeyris Tryggingastofnunar, sbr. ákvæði 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar frá 13. september 2022, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa og ákvæða 16. gr. laga nr. 100/2007 frá 20. apríl 2022, sér í lagi ákvæði 4. mgr. 16. gr. laganna.

Kæra varði annars vegar frádrátt Tryggingastofnunar á reiknuðum ellilífeyri kæranda vegna erlends lífeyris, sbr. bréf, dags. 8. nóvember 2023, og hins vegar svar Tryggingastofnunar frá 20. nóvember 2023 en þar segi: „Við skoðun málsins hef ég ekki orðið þess var að Tryggingarstofnun hafi aðhafst á hátt sem ólögmætur eða óréttmætur“.

Kærandi sé með lögheimili í Þýskalandi og þiggi þar ellilífeyri. Tryggingatímabil vegna réttar hans til ellilífeyris frá Tryggingastofnun sé annað en tryggingatímabil vegna þýsks réttar hans til eftirlauna.

Evróputilskipun nr. 883/2004 sé í fullu gildi á Íslandi og Tryggingastofnun beri framfylgja ákvæðum hennar, athygli sé sérstaklega vakin á 5. kafla tilskipunarinnar.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 3. janúar 2024, segir að kært sé að Tryggingastofnun hafi farið gegn eigin ákvörðun frá 9. ágúst 2022, en þar segi „allar skattskyldar tekjur“, með þeim hætti að misvirða ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 16. gr. laga um almannatryggingar og ákvæði 1. mgr. 19. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Þýskalands, sbr. ákvörðun, dags. 31. október 2022. Stofnunin hafi ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta af erlendum tekjum kæranda til ríkisskattstjóra, þ.e. tekjum sem falli aðeins undir ákvæði þýskrar skattalöggjafar, en stofnunin hafi reiknað erlendu tekjurnar til skattstofns til skila staðgreiðslu skatta á Íslandi. Tryggingstofnun skilgreini, án heimildar, þýskar lífeyristekjur kæranda sem íslenskar tekjur og sem skattskyldar tekjur Íslandi í þeim tilgangi einum að lækka greiðslu ellilífeyris kæranda, sbr. greiðsluskyldu stofnunarinnar samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar. Stofnunin „misvirði“ á augljósan hátt ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar þrátt fyrir að samkvæmt ákvæði 17. gr. sömu laga sé stofnuninni skylt að beita ákvæðum 4. mgr. 16. gr. laganna gagnvart kæranda.

Kært sé að Tryggingastofnun hafi ekki staðið skil á greiðsluyfirlitum ellilífeyris til skattstjóra og staðgreiðslu skatta ársins 2021 og ársins 2022. Kærandi hafi ítrekað þurft að krefja stofnunina um greiðsluyfirlit vegna ársins 2021 og hafi þurft að leggja það sjálfur fram hjá skattyfirvöldum þar sem þeim hafi verið ókunnugt um þær greiðslur þar til í desember 2023. Kæranda hafi fyrst borist greiðsluyfirlit vegna ársins 2021 frá stofnuninni þann 8. nóvember 2023 frá þýskum lögmanni kæranda. Háttsemi Tryggingastofnunar hafi leitt til þess að kærandi hafi ekki getað krafist endurgreiðslu ofgreiddra skatta ársins 2021 fyrr en í lok ársins 2023. Kæranda hafi ekki enn borist greiðsluyfirlit vegna ársins 2022 frá Tryggingastofnun en án þess geti hann ekki sinnt skyldum sínum til framtals tekna.

Kært sé að Tryggingstofnun hafi ítrekað neitað að upplýsa kæranda á hvaða grundvelli stofnunin hafi breytt ellilífeyri hans úr krónum í evrur og að veita upplýsingar um kaupverð og kostnað sem kæranda sé reiknaður við myntbreytingu og millifærslur til Þýskalands.

Kært sé að Tryggingastofnun hafi þrátt fyrir ítrekaðar fyrispurnir neitað að leggja fram upplýsingar um með hvaða hætti stofnunin dragi þýskar lífeyristekjur kæranda frá ellilífeyri hans. Hér sé átt við allar reiknireglur með öllum „konstöntum“ og breytum sem frádráttur þýskra lífeyristekna kæranda sé byggður á og heimilda sem útreikningurinn sé byggður á.

Þess sé krafist að Tryggingastofnun virði ákvæði laga nr. 90/2003, sbr. 16. gr. laga um almannatryggingar, og tvísköttunarsamnings Þýskalands og Íslands í samræmi við ákvæði ákvörðunar stofnunarinnar, dags. 9. ágúst 2022, og dragi hvorki þýskar lífeyristekjur kæranda frá ellilífeyri eða reikni þær tekjur honum til skattstofns við útreikning á staðgreiðslu skatta. „Allar skattskyldar tekjur“ verði aðeins skilgreindar á grundvelli íslenskrar skattalöggjafar sem séu tekjur eingöngu skattskyldar Íslandi. Tryggingastofnun sé fullkunnugt um að kærandi sé með lögheimili í Þýskalandi og hafi átt það frá byrjun árs 2000.

Þess sé krafist að Tryggingastofnun leggi fram skriflega greinargerð um á grundvelli hvaða ákvæða þýskra skattalaga, sér í lagi ákvæði AO (Abgabenordnung) og þýskra sérlaga, stofnunin byggi innheimtu á staðgreiðslu skatta þýskra lífeyristekna kæranda og skilgreini því þýskar lífeyristekjur kæranda sem skattskyldar tekjur á Íslandi sbr. ákvæði laga nr. 90/2003. Þess sé krafist að stofnunin sýni fram á hvernig hver og ein þýskra lífeyrisgreiðslna kæranda sé meðhöndluð að þýskum skattalögum og hvernig það hafi áhrif á flokkun þýskra lífeyrisgreiðslna kæranda eftir íslenskri löggjöf til útreiknings ellilífeyris, sbr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Þess sé krafist að Tryggingastofnun fari að ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um almannatrygginga og 4. mgr. 16. gr. sömu laga.

Þess sé krafist að Tryggingastofnun verði á aðfararhæfan hátt skuldbundin til að senda kæranda öll greiðsluyfirlit og greiðslu- og millifærsluskjöl sem stofnunin hafi til þessa ekki sent kæranda. Tryggingastofnun hafi sent lögmanni kæranda í Þýskalandi nokkur skjöl sem hafi verið móttekin 6. nóvember og 14. desember 2023. Kærandi hafi því nákvæmt yfirlit um hvaða skjöl stofnunin hafi sent og viti því nákvæmlega hvaða skjöl hún hafi ekki staðið skil á. Einnig sé þess krafist að kærufrestur verði reiknaður frá afhendingardegi framangreindra skjala. Einnig að Tryggingastofnun verði gert að skýra á hvaða grundvelli og hvernig stofnunin kaupi erlendan gjaldeyri í nafni og á kostnað kæranda frá upphafi. Auk þess að í framtíðinni komi fram á millifærsluskjölum kaupgengi og sundurliðaður kostnaður vegna millifærslna á reikning kæranda í Þýskalandi og að kærandi sjái upplýsingarnar á bankayfirliti sínu.

Þess sé krafist að Tryggingastofnun greiði strax vangreiddan ellilífeyri og uppbætur frá 1. október 2021 til 31. desember 2023, sbr. ákvæði 17. gr. laga um almannatryggingar auk hæstu mögulega vaxta og vaxtavaxta frá gjaldfellingu til greiðsludags. Þess sé krafist að stofnunin greiði einnig vexti með sama hætti á seinni greiðslu ellilífeyris 2023 í desember vegna leiðréttinga á greiðslu ellilífeyris þess árs. Auk þess sé krafist að stofnuninni verði gert óheimilt að draga þessar vaxtagreiðslur frá ellilífeyri til kæranda sem fjármagnstekjur hans.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi yfirlýsingu Tryggingastofnunar frá 18. nóvember 2022, sem kæranda hafi borist þann 8. nóvember 2023, um frádrátt erlendra lífeyristekna kæranda frá ellilífeyrisgreiðslum hans.

Tryggingastofnun hafi 9. ágúst 2022 samþykkt umsókn kæranda um ellilífeyri frá Deutsche Rentenversicherung Bund frá 1. október 2021. Umsóknin hafi verið send til stofnunarinnar 21. október 2020 á grundvelli ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004. Tryggingstofnun hafi 11. mars 2021 sent umsóknina án heimilda í lögum og án heimildar kæranda í rafbréfi til nokkurra lífeyrissjóða og þar hafi komið fram að um væri að ræða „umsókn frá öðru EES-ríki”. Það orðalagið segi ekkert annað en að Tryggingastofnun beri að starfa eftir ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sbr. ákvæði 3. mgr. 68. gr. laganna.

Kæranda sé ekki kunnugt um að í þeim skjölum sem Tryggingastofnun hafi borist frá DRV hafi verið að finna læknaskýrslu eða aðrar upplýsingar um heilsufar kæranda. Tryggingastofnun hafi eftir því sem kæranda sé best kunnugt um ekki krafist upplýsinga um heilsufar kæranda, hvorki frá kæranda sjálfum eða öðrum. Eða krafið kæranda til að láta kanna heilsufar sitt á vegum lækna stofnunarinnar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 31. október 2022, staðfesti augljóslega að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 sé í fullu gildi á Íslandi, enda sé sú stjórnvaldsákvörðun byggð á þeirri reglugerð og ákvæðum 18. gr. laga um almannatryggingar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 9. ágúst 2022, sé óaðfinnanleg, svo framarlega að Tryggingastofnun haldi sig við ákvæði eigin ákvörðunar. Stofnunin hafi í ákvörðuninni vísað til ákvæða 16. og 17. gr. laga um almannatryggingar 2022 frá 20. apríl 2022.

Bent sé á að þótt síðari/afleiddar stjórnvaldsákvarðanir séu ógildar og marklausar breyti það engu um að upphaflega stjórnvaldsákvörðunin haldi fullu gildi sínu. Öðru máli gegni ef upphaflega ákvörðunin sé ógild og marklaus. Því sé hér ekki fyrir að fara, upphaflega ákvörðunin frá 9. ágúst 2022 sé í fullu gildi.

Óaðskiljanlegur og bindandi hluti ákvörðunar stofnunarinnar frá 9. ágúst 2022 séu upplýsingar til nýrra ellilífeyrisþega sem séu búsettir erlendis. Þar segi um tekjuáætlun: „Tekjur hafa áhrif á útreikning ellilífeyris. Um er að ræða allar skattskyldar tekjur, þ.m.t. hvers konar lífeyris og fjármagnstekjur, umfram 300.000 ISK á ári. Atvinnutekjur umfram 1.200.000 ISK á ári hafa áhrif á útreikning.

Þessi framsetning Tryggingastofnunar, að um sé að ræða „allar skattskyldar tekjur“, geti ekki verið skilin á annan hátt en að hér sé um tæmandi upptalningu að ræða. Upptalningin sé bindandi hluti ákvörðunar stofnunarinnar, dags. 9. ágúst 2022. Tryggingastofnun hafi þar vísað sérstaklega til ákvæða 16. gr. laga um almannatryggingar. Það eitt staðfesti að stofnuninni beri að framfylgja ákvæðum þeirrar lagagreinar, þ.m.t. ákvæðum 4. mgr. og öllum ákvæðum II. kafla laga nr. 90/2003. Það skyldi stofnunina einnig til að framfylgja ákvæðum 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, sem og öllum öðrum ákvæðum þeirra laga. Eftir að stofnunin hafi fengið upplýsingar frá DRV um tryggingatímabil og lögheimili kæranda í Þýskalandi sé ljóst að skattskylda kæranda vegna þýskra lífeyristekna geti alls ekki fallið undir neinn fjögurra töluliða 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003.

Upplýsingaskipti Tryggingastofnunar og DRV hafi leitt í ljós í ljós tvö aðskilin tryggingatímabil í tveimur mismunandi lögsögum auk lögheimilis kæranda í Þýskalandi. Hafi Tryggingastofnun þrátt fyrir það ekki verið sannfærð um að þýskar tekjur kæranda falli ekki undir einhvern fjögurra töluliða 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 hafi stofnuninni borið skylda til að láta beita ákvæðum 2. mgr. 1. gr. laganna. Það hafi stofnunin ekki gert.

Tryggingastofnun geti ekki borið því við að hafa ekki haft vitneskju um íslenska löggjöf og beitingu íslenskra laga er snúi beint að starfsemi stofnunarinnar, sér í lagi skattalöggjafar, þ.m.t. alla tvísköttunarsamninga. Sjá hér einnig ákvæði laga nr. 45/1987, sér í lagi ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. þeirra laga.

Í 58. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um útflutning og skörun bóta. Ákvæði 2. mgr. 58. gr. laganna séu augljós og heimili frádrátt erlendra bóta frá íslenskum bótum „… fyrir sama tímabil og bætur séu greiddar fyrir hér á landi.” Slíkt sé í fullu samræmi við það að lífeyrisgreiðslur skyldutrygginga lífeyrisréttinda, sbr. lög nr. 129/1997 séu dregnar frá ellilífeyri frá Tryggingastofnun. Augljóslega sé þar um að ræða greiðslur vegna sama tryggingaratburðar og sama tryggingatímabil.

Ákvæði 58. gr. laga um almannatryggingar geti ekki verið skilin á annan hátt en að ekki sé heimilt að draga erlendar bætur fyrir annað tímabil frá íslenskum bótum vegna sama tryggingaatburðar. Áhætta kæranda, að verða fyrir því að verða gamalmenni, sé tryggð bæði á Íslandi og í Þýskalandi. Bæði ríkin beri sameiginlega bótaábyrgð gagnvart kæranda með þeim hætti sem kveðið sé á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004. Einstakir áhættuhlutar beggja ríkja byggist á mismunandi skýrt afmörkuðum tryggingatímabilum kæranda í hvoru ríki um sig án skörunar tryggingatímabila. Ef tvö ríki geti dregið bætur hins ríkisins frá eigin bótum fyrir mismunandi tímabil, sé ljóst að ef einstaklingur hafi hálfan rétt í báðum ríkjum fyrir mismunandi skýrt afmörkuð tímabil, og bæði ríkin dragi bætur hins ríkisins frá bótum þess ríkis, standi einstaklingurinn uppi bótalaus. Það sé ekki að koma í veg fyrir tvöfaldar bætur fyrir sama tryggingaratburð, sbr. ákvæði 53. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa. Það sé hreint út sagt ófyrirleitin tilraun til að komast hjá því að greiða yfir höfuð bætur fyrir tryggingaratburð.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa séu augljós. Þau verndi bótaþega sem tryggður sé að hluta í fleiru en einu ríki, og hvert ríki um sig beri aðeins hluta áhættunnar fyrir sama tryggingaratburð, í þessu tilfelli aldursmörk ellilífeyris, standi ekki uppi ótryggður og bótalaus. Augljóst sé að ákvæði 1. mgr. 54. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 finnist meðal annars í ákvæðum 2. mgr. 58. gr. laga um almannatryggingar.

Það sé augljóst að bótaskylda Tryggingstofnunar, bótaskylda skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. lög nr. 129/1997, bótaskylda DRV og þýskra lífeyrissjóða séu allt skuldbindingar sem hafi orðið til við einn og sama tryggingaratburð, þar sem áhættunni sé deilt á tvö ríki vegna tveggja skýrt afmarkaðra tryggingatímabila.

Lögsaga íslenskra stjórnvalda muni enn vera bundin við íslenska lögsögu eina og sér, en muni ekki gilda í lögsögum annarra ríkja. Íslensk stjórnvöld geti því ekki ákvarðað eða skorið úr um skattlagningu, framtals og skattskyldu tekna lífeyrisþega í öðrum ríkjum vegna búsetu lífeyrisþega í annarri lögsögu. Í 1. mgr. 19. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Þýskalands segir: „Eftirlaun og aðrar svipaðar greiðslur sem inntar eru af hendi til aðila, sem heimilisfastur er í aðildarríki, vegna fyrra starfs hans, skulu einungis skattlagðar í því ríki.“

Í þýskri löggjöf sé gerður skýr munur á þrennskonar ákvæðum: „Muss- Soll- og Kann-vorschriften“. Það veki athygli að þýski textinn segi „können nur im diesem Staat besteuert werden“.

Kærandi líti svo á að ákvæði 1. mgr. 19. gr. tvísköttunarsamnings Þýskalands og Íslands geti aðeins verið skilinn á þann hátt að hvort ríkið um sig ákvarði hvort og þá með hvaða hætti „eftirlaun og svipaðar greiðslur“ falli undir ákvæði skattalaga þess ríkis. Jafnframt að hvorugt ríkið um sig hafi rétt á að krefjast af hinu ríkinu að það meðhöndli „eftirlaun og svipaðar greiðslur“ á einhvern sérstakan hátt í eigin lögsögu, hvort sem snúi að skattlagningu eða öðrum réttarákvæðum. Tryggingastofnun hafi tekið einhliða ákvörðun um skattlagningu erlendra lífeyristekna kæranda án þess að hafa til þess heimildir, hvorki í íslenskri eða þýskri löggjöf.

Ljóst sé að „allar skattskyldar tekjur“ í skilningi ákvörðunar frá 9. ágúst 2022 geti aðeins verið tekjur sem séu skattskyldar á Íslandi, hvort sem þeirra hafi verið aflað í íslenskri lögsögu eða utan hennar, en eingöngu fyrir þá sem séu framtals- og skattskyldir á Íslandi vegna búsetu eða rekstrar, sjá ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 90/2003.

Ellilífeyrisþegar með lögheimili erlendis séu að öllu jöfnu skattskyldir í lögheimilislandi en ekki á Íslandi.

Í 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar sé að finna orðskýringar á tekjum, þ. á m. eftirfarandi: „einnig samskonar tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi. Íslenski löggjafinn geri skýran greinarmun á tekjum, skattskyldum tekjum og framtalsskyldum tekjum. Ljóst sé af þessu að íslensk lög þekkja erlendar tekjur sem ekki séu framtals- eða skattskyldar á Íslandi. Íslensk löggjöf bjóði ekki upp á þá möguleika að ákvarða á hvern hátt erlend ríki beiti eigin skattalöggjöf.

Í 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé talið upp hvað séu ekki tekjur þegar um ellilífeyri sé að ræða, sbr. ákvæði 17. gr. sömu laga. Þar segi meðal annars „greiðslur úr séreignarsparnaði viðbótartryggingarvernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“.

Ákvæði 68. gr. laga um almannatryggingar útiloki einhliða ákvarðanir Tryggingastofnunar að skilgreina að eigin geðþótta „sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við“, sbr. 4. mgr. 16. gr. um almannatryggingar, heldur sé stofnuninni skylt samkvæmt 3. mgr. 68. gr. laganna að framfylgja ákvæðum þar nefndra samninga, einnig öllu er varði skilgreiningar.

Hafi Tryggingastofnun ekki þekkingu á eðli erlendra lífeyrisgreiðslna beri stofnuninni skylda til að snúa sér til viðeigandi samstarfsstofnunar þess ríkis til úrlausna. Það hafi Tryggingastofnun ekki gert.

Augljóst sé að greiðslur DRV séu samsvarandi greiðslum Tryggingastofnunar en fyrir tvö afmörkuð tryggingatímabil. Þýskar lífeyrisgreiðslur „VBL“ og „DBV/AXA“ til kæranda séu greiðslur sem samsvari bótaskyldu trygginga skilgreindum í 5. mgr. 8. gr. og 9. gr. laga nr. 129/1997. Þær lífeyrisgreiðslur séu fyrir nákvæmlega skilgreint tryggingatímabil, sem sé allt annað tryggingatímabil en bótaskylda Tryggingastofnunar sé byggð á.

Hvort sem litið sé til mismunandi tryggingatímabila eða eðlis þýskra lífeyristekna kæranda (sams konar eða annars konar bætur) sé í öllum tilfellum óheimilt að draga þýskar lífeyristekjur kæranda frá ellilífeyri hans frá Tryggingastofnun.

Þess sé krafist að úrskurðanefnd velferðarmála úrskurði kærða ákvörðun ógilda og marklausa eða að Tryggingastofnun dragi ákvörðunina til baka, eða að stofnunin lýsi því yfir að ákvörðunin sé óvirk og marklaus.

Þess sé krafist að Tryggingastofnun taki nýja stjórnvaldsákvörðun í málinu á grundvelli stjórnvaldsákvörðunar stofnunarinnar frá 9. ágúst 2022 og ákvæða 17. gr. laga um almannatryggingar, eða öðrum samsvarandi ákvæðum sömu laga í samræmi við núgildandi útgáfu laganna.

Auk þess sé þess krafist að Tryggingastofnun sendi þýskum lögmanni kæranda umsvifalaust afrit allra læknaskýrslna og annarra heilsufarslegra upplýsinga um kæranda í vörslu stofnunarinnar sem hún hafi byggt ákvörðun sína frá 31. október 2022 á.

Ákvörðun frá 31. október 2022 sé byggð á ákvæðum 18. gr. laga um almannatryggingar. Án læknisfræðislegs mats á örorku kæranda hafði stofnunin ekki heimild til að taka stjórnvaldsákvörðun á grundvelli framangreinds ákvæðis.

Þess sé krafist að Tryggingastofnun nefni þau ákvæði sem upplýsingaskipti milli stofnunarinnar og DRV um mismunandi tryggingatímabil kæranda í báðum ríkjunum sé byggðar á.

Ákvörðun frá 31. ágúst 2022 sé svohljóðandi:

Tryggingastofnun hefur afgreitt umsókn þína um ellilífeyri, sem er dagsett 31. ágúst 2022, Sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr, 100/2007 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa.

Ljóst sé af framanrituðu að Tryggingastofnun hafi beitt ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 beint að fullu umfangi og án takmarkana við stjórnvaldsákvörðun sína frá 31. október 2022.

Ákvæði 18. gr. laga um almannatryggingar og 4. kafli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins EB nr. 883/2004 fjalla um örorku. Kærandi sé ekki öryrki og hafi aldrei sótt um bætur vegna örorku eða verið dæmdar örorkubætur, hvorki í Þýskalandi né á Íslandi. Auk þess sé kærandi eldri en 67 ára og hafi verið eldri en 67 ára þegar Tryggingastofnun hafi tekið stjórnvaldsákvarðanir sínar.

Ákvæði 17. gr. laga um almannatryggingar og 5. kafli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins EB nr. 883/2004 fjalli um bætur til kæranda vegna aldurs kæranda.

Ef íslenskt stjórnvald veiti stjórnvaldi annars ríkis eða stofnunum þess ríkis upplýsingar um persónulega hagi íslensks ríkisborgara sé rétt að minna á ákvæði persónuverndarlöggjafar. Upplýsingaskipti geti einungis farið fram á grundvelli skýrra lagaheimilda sem bæði ríkin beiti.

Kjósi Tryggingastofnun að halda fast við ákvörðun frá 31. október 2022 sé ljóst að afleiðing þess sé sú að stofnuninni beri skylda að lögum að beita ákvæðum 3. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar frá 13. september 2022 gagnvart kæranda vegna greiðslna bóta til hans.

Í athugasemdum kæranda frá 23. apríl 2024 segir meðal annars að Tryggingastofnun hafi hvorki sýnt fram á með skjölum né tilvitnun í lög að lífeyrisgreiðslur kæranda frá öðrum en DR-Bund séu ekki nákvæmlega samsvarandi séreignarsparnaði og viðbótartryggingarvernd samkvæmt ákvæðum laga nr. 129/1997. Sér í lagi ákvæði 3. mgr. 8. gr. laganna. Íslensk löggjöf taki ekki tillit til þess hvort greiðsla iðgjalda sé ráðandi heldur á hvern hátt iðgjaldi skyldutrygginga lífeyrisréttinda sé ráðstafað til skyldutryggingar, séreignarsparnaðar og viðbótartryggingarverndar. Því sé ljóst að þýskar lífeyrisgreiðslur kæranda frá öðrum en DR-Bund séu samsvarandi íslenskum ákvæðum um séreignarsparnað og viðbótartryggingarvernd enda sé ljóst að greiðendur lífeyrisgreiðslna aðrir en DR-Bund falli ekki undir ákvæði SGB, sem séu þýsk almannatryggingalög. Samskiptagögn Tryggingastofnunar og DR-Bund staðfesti að aðrir greiðendur þýsks lífeyris til kæranda falli ekki undir ákvæði þýskra almannatryggingalaga. Það séu þau gögn sem Tryggingastofnun neiti að leggja fram í málinu.

Í athugasemdum kæranda frá 28. maí 2024 segir meðal annars að kært sé að Tryggingastofnun reikni ekki greiðsluhlutfall ellilífeyris eftir þeim upplýsingum sem stofnunin hafi aflað á grundvelli eigin framkvæmda á ákvæðum reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins nr. 883/2004 og 987/2009 og í samvinnu við önnur aðildarríki heldur einhliða á upphugsaðri tölu Tryggingastofnunar um lögheimilistíma á Íslandi.

Þá segir að kært sé að Tryggingastofnun hafi fyrir hönd kæranda sótt um lífeyrisgreiðslur frá þremur lífeyrissjóðum þann 11. mars 2021 í samræmi við ákvæði 14. gr. laga nr. 129/1997. Tryggingastofnun skorti allar heimildir til að framkvæma gjörninga í nafni kæranda og/eða breyta réttarstöðu hans gagnvart þriðja aðila. Meðal annars sé kært skjalafals í skilningi almennra hegningarlaga þar sem Tryggingastofnun hafi augljóslega gefið lífeyrissjóðum þær upplýsingar að stofnunin kæmi fram í umboði og á ábyrgð kæranda.

Kært sé að Tryggingastofnun hafi sent trúnaðarskjöl DR-Bund til þriggja lífeyrissjóða þann 11. mars 2021 án þess að hafa til þess heimildir, hvorki frá DR-Bund né kæranda. Einnig sé kært að Tryggingastofnun láti þriðja aðila án heimildar draga millifærslukostnað frá ellilaunum kæranda vegna millifærslu stofnunarinnar á ellilaunum á bankareikning kæranda.

Í athugasemdum kæranda frá 15. júlí 2024 bendir hann á varðandi meinta búsetu hans í Þýskalandi frá árinu 1988 að á þeim tíma hafi verið tvö þýsk ríki í Evrópu. Hafi kærandi verið búsettur í Þýskalandi frá 1988 til 1996 ættu þýsk yfirvöld að hafa vitneskju þar um og skjöl DR-Bund ættu að sýna fram á slíka búsetu. Hér sé um að ræða skjöl sem Tryggingastofnun og úrskurðarnefndin virðist ekki hafa áhuga á að lögð verði fram í málinu. Kærandi ítreki þá kröfu sína að Tryggingastofnun leggi fram í málinu öll skjöl um samskipti stofnunarinnar við DR-Bund. Kærandi óski framlengingar skilafrest við greinargerð Tryggingastofnunar þar sem stofnunin hafi lagt fram samskiptagögn sín við DR-Bund.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæra varði útreikning á ellilífeyri kæranda á árinu 2022. Ágreiningur málsins lúti að því hvort stofnuninni hafi verið heimilt að skerða ellilífeyri kæranda vegna lífeyristekna hans frá Þýskalandi.

Í kærunni sé ekki tiltekið hvaða ákvörðun sé kærð. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna kæranda á árinu 2022 hafi verið birt kæranda með bréfi, dags. 28. ágúst 2023. Tryggingastofnun líti svo á að sú ákvörðun sé kærð í ljósi efnis kærunnar þar sem kvartað sé yfir meðferð erlendra lífeyristekna við útreikning á lífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Reglur um meðferð erlendra lífeyristekna hafi síðan þá verið breytt með lögum nr. 18/2023 sem hafi tekið gildi 12. apríl 2023. Útreikningur lífeyrisgreiðslna almannatrygginga hafi tekið mið af þeirri breytingu frá og með 1. maí 2023. Kæranda hafi verið tilkynnt um breytta meðferð erlendra lífeyristekna með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. nóvember 2023.

Um útreikning ellilífeyris á umræddu tímabili hafi verið fjallað í III. kafla þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars ellilífeyris, sbr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. sömu greinar sagði að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi ellilífeyrir lækkað um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn féll niður, að teknu tilliti til frítekjumarka.

Í 4. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar sagði svo að þegar um væri að ræða ellilífeyri teldust ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Að lokum sagði að sama ætti við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hafi gert samninga við samkvæmt 68. gr. laga um almannatryggingar.

Í 68. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi komið fram að ríkistjórninni væri heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og að ráðherra semji við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skuli tekjur sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta sé nánar fjallað um í þeirri reglugerð.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl hafi verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011 frá 1. júlí 2011 um breytingu á VI. viðauka EES-samningsins (félagslegt öryggi), og vísað sé til í lið 1 viðaukans, og bókun 37 við EES-samninginn, sbr. einnig 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum, og bókun 1 við EES-samninginn.

Með reglugerð nr. 442/2012, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar, hafi öðlast gildi hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004.

Í a) lið, 5. gr. reglugerðarinnar segi:

,,Ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki.“

Í 1. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar segi:

,,Öll skörun bóta vegna örorku, elli og til eftirlifenda, sem eru reiknaðar eða veittar á grundvelli trygginga- og/eða búsetutímabila sem einn og sami einstaklingur hefur lokið, skal teljast skörun bóta sömu tegundar.“

Umsókn kæranda um ellilífeyri frá Tryggingastofnun hafi verið samþykkt með bréfi, dags. 31. október 2022. Samþykktar hafi verið afturvirkar greiðslur ellilífeyris aftur til 1. október 2021. Samhliða hafi kærandi þegið lífeyrisgreiðslur frá Þýskalandi. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 616/2022 hafi mánaðarleg fjárhæð fulls ellilífeyris verið 278.271 kr. á mánuði á tímabilinu frá 1. janúar til 31. maí 2022 og 286.619 kr. á tímabilinu frá 1. júní til 31. desember 2022. Full fjárhæð ellilífeyris á árinu 2022 hafi því verið 3.397.688 kr. Tekjur kæranda á árinu 2022 að teknu tilliti til frítekjumarka sem kveðið hafi verið á um í a-lið 2. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 23. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið samtals 1.420.795 kr. Þar sem fullur ellilífeyrir hafi lækkað um 45% af tekjum kæranda hafi tekjuskert fjárhæð ellilífeyris kæranda verið 2.758.330 kr. á árinu 2022. Búsetuhlutfall kæranda sé 53,88% og hafi reiknast réttur hans til ellilífeyris því í hlutfalli við búsetutímann. Kærandi hafi samkvæmt því átt rétt á ellilífeyri að fjárhæð 1.486.186 kr. Þar að auki hafi hann átt rétt á samtals 42.214 kr. í orlofs- og desemberuppbætur. Kærandi hafi því átt rétt til heildargreiðslna að fjárhæð 1.528.400 kr. á árinu 2022. Fjárhæð ellilífeyris kæranda frá Tryggingastofnun á árinu 2022 hafi lækkað meðal annars vegna lífeyrisgreiðslna hans í Þýskalandi.

Í kjölfar lagabreytinga sem hafi tekið gildi 12. apríl 2023 teljist lífeyrir almannatrygginga frá ríkjum sem Ísland hafi gert samninga við, í samræmi við nánari ákvæði samninganna, ekki til tekna við útreikning á lífeyrisgreiðslum laga um almannatryggingar. Fjárhæð ellilífeyris kæranda frá Tryggingastofnun hafi því ekki lækkað á sama hátt vegna lífeyrisgreiðslna hans í Þýskalandi frá 1. maí 2023.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi meðal annars eftirlaun og lífeyrir talist til tekna í skilningi laganna. Þá hafi mátt ráða af 4. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hafi skert ellilífeyri í samræmi við 23. gr. laganna. Aftur á móti hafi bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki skert ellilífeyri og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hafði gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna. Þýskaland sé ásamt Íslandi eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því hafi bætur frá Þýskalandi, sem hafi verið sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki skert ellilífeyri. Tekjur kæranda frá Þýskalandi hafi hins vegar verið sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafi sem slíkar því haft áhrif á rétt kæranda til ellilífeyris til lækkunar.

Af þágildandi lögum um almannatryggingar hafi mátt ráða að nauðsynlegt hafi verið að greina þær tekjur sem bótaþegar hafi aflað og flokka þær, enda hafi að öðrum kosti ekki verið hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hefðu samkvæmt lögunum. Við mat á því hvort lífeyrisgreiðslur kæranda frá Deutsche Rentenversicherung og Versorgungsanstalt des Bindis und der Länder í Þýskalandi væru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna, hafi stofnunin litið til þess að samkvæmt gögnum málsins hafi réttur til umræddra greiðslna frá Þýskalandi miðast við áunnin lífeyrisstig sem hafi reiknast meðal annars út frá tekjum bótaþega. Umræddir lífeyrissjóðir í Þýskalandi séu fjármagnaðir með iðgjaldagreiðslum og greiðendur ávinni sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna úr sjóðunum. Aftur á móti hafi réttur reiknast til ellilífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun í hlutfalli við búsetutíma samkvæmt 17. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Lífeyrisgreiðslur kæranda frá Þýskalandi úr framangreindum sjóðum hafi því meiri líkindi við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum heldur en ellilífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Skerðingaráhrifin samkvæmt lögum um almannatryggingar hafi því verið þau sömu og hafi gilt um áhrif greiðslna frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hér á landi. Tekjur sem aflað hafi verið erlendis og ekki hafi verið taldar fram hér á landi hafi þannig sætt sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og hefði þeirra verið aflað hér á landi, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar og 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Það leiði af 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, og bókun 35 við hann að samningurinn feli ekki í sér framsal löggjafarvalds. Hins vegar hafi meginmál EES-samningsins lagagildi hér á landi. Sé því eðlilegt að lögin sem hafi lögfest meginmál samningsins séu skýrð svo að einstaklingar eigi kröfu til þess að íslenskri löggjöf sé hagað til samræmis við EES-reglur. Í 3. gr. laga nr. 2/1993 sé mælt svo fyrir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum séu byggðar. Slík lögskýring taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast sé unnt ljáð merking sem rúmast innan þeirra og næst komist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. dóma Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010 og 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013. Ákvæðið geti þó ekki leitt til þess að litið verði fram hjá skýrum orðum íslenskra laga, sbr. Héraðsdóm Reykjavíkur 10. mars í máli nr. E-582/2021. Skýrt hafi verið kveðið á um meðferð erlendra tekna sem sambærilegar væru greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum í þágildandi lögum um almannatryggingar, sbr. 4. gr. 16. gr. þágildandi laga.

Meðferð Tryggingastofnunar á umdeildum lífeyrisgreiðslum kæranda hafi einnig verið í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 sé aðildarríki ekki heimilt að beita skerðingarákvæðum í sinni eigin löggjöf þegar um ræði skörun hlutfallslegra bóta sömu tegundar. Nánar tiltekið segi í 1. mgr. 53. gr. að öll skörun bóta vegna örorku, elli og til eftirlifenda, sem séu reiknaðar eða veittar á grundvelli trygginga- og/eða búsetutímabila sem einn og sami einstaklingur hafi lokið, skuli teljast skörun bóta sömu tegundar. Séu því bætur vegna örorku, elli og til eftirlifenda sem veittar séu á grundvelli sömu trygginga- og/eða búsetutímabila taldar vera bætur sömu tegundar í skilningi 1. mgr. 53. gr. Þegar umsækjandi um örorkulífeyri á Íslandi eigi einnig rétt til bóta í öðrum aðildarríkjum EES þurfi því að ákvarða hvort þær bætur séu vegna örorku, elli eða til eftirlifenda og teljist þar af leiðandi bætur sömu tegundar. Sé ekki um bætur sömu tegundar að ræða gildi sérregla 1. mgr. 54. gr. ekki um skörun bótanna.

Evrópudómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu í forúrskurðum sínum að um bætur sömu tegundar sé að ræða þegar tilgangur þeirra, grundvöllur útreiknings og skilyrði bótanna sé sá sami, sbr. efnisgrein 24 í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-107/00. Ræður því ekki úrslitum hvert heiti bótanna sé í löggjöf hlutaðeigandi aðildarríkis heldur þurfi að bera tilgang, grundvöll og skilyrði íslensks örorkulífeyris saman við tilgang, grundvöll og skilyrði bótanna sem um ræði í hlutaðeigandi aðildarríki. Bætur verða því einungis taldar vera sömu tegundar í skilningi 1. mgr. 53. gr. grunnreglugerðarinnar samkvæmt Evrópudómstólnum ef þessir áðurnefndir eiginleikar þeirra séu hliðstæðir. Erlendur lífeyrir sem hafi áunnist á grundvelli atvinnuþátttöku eða blöndu af atvinnuþátttöku og annarri ávinnslu og búsetutengdur lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar hafi í gildistíð þágildandi laga um almannatryggingar ekki verið taldar bætur sömu tegundar í skilningi 1. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar. Evrópudómstóllinn hafi einnig komist að þeirri niðurstöðu að bætur verði ekki taldar hafa sama tilgang ef fjárhæðir bóta, sem bera eigi saman, séu ekki báðar í einhverju samræmi eða hlutfalli við þá framfærslu sem bótaþegi hafði áður en hann hafi byrjað að þiggja bæturnar, sbr. efnisgrein 35 í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-453/14. Með öðrum orðum teljist tilgangur bóta sem ætlað sé að viðhalda sambærilegum lífskjörum og þeim sem bótaþegi hafi búið við áður ekki sá sami og bóta sem ætlað sé að tryggja lágmarksframfærslu.

Ellilífeyrir sé samkvæmt lögum um almannatryggingar ætlað að tryggja þeim framfærslu sem þess þurfi og fjárhæð ellilífeyrisins ráðist af þörfinni. Fjárhæð umdeilds lífeyris í Þýskalandi sé hins vegar í samræmi eða hlutfalli við framfærslu kæranda fyrir töku lífeyris þar sem fjárhæð ráðist jafnan af fjárhæð iðgjalda og tímalengd greiðslu þeirra. Af þeirri ástæðu hafi umdeildar lífeyrisgreiðslur kæranda frá Þýskalandi fremur verið taldar sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum en greiðslum ellilífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þegar sérreglu 1. mgr. 53. gr. Evrópureglugerðarinnar sleppi sé það meginregla hennar að ef lög um almannatryggingar og aðrar tekjur hafi tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skuli viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fáist samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað sé í öðru aðildarríki, sbr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004. Sömu reglu hafi verið að finna í íslenskum landsrétti, sbr. 2. máls. 4. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar og 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009, en þar segi að tekjur sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, skuli sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Sú flokkun á tekjum kæranda tryggi jafnræði greiðsluþega Tryggingastofnunar sem og þjóni markmiði Evrópureglugerðarinnar um samhæfingu en ekki samræmingu mismunandi almannatryggingakerfa aðildarríkjanna.

Með breytingalögum nr. 18/2023 við lög um almannatryggingar hafi verið kveðið á um að lífeyrir almannatrygginga frá ríkjum sem Ísland hafi gert samninga við, í samræmi við nánari ákvæði samninganna, skuli ekki teljast til tekna við útreikning á lífeyrisgreiðslum laga um almannatryggingar, sjá nú um tekjugrunn ellilífeyris í 4. tölulið 2. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar. Erlendur lífeyrir almannatrygginga frá samningsríkjum EES samningsins, hvort sem réttur til hans sé byggður á atvinnuþátttöku eða búsetu, muni því almennt verða skilgreindur sem bætur sömu tegundar í skilningi reglugerðar (EB) nr. 883/2004 og því ekki teljast til tekna við útreikning á lífeyrisgreiðslum laga um almannatryggingar frá 1. maí 2023. Setja verði þó fyrirvara við það ef tryggingatímabil á milli landa af einhverjum sökum skarast sem almennt ætti þó ekki að gerast nema í undantekningartilvikum.

Fyrir áðurnefnda lagabreytingu hafi erlendur lífeyrir sem hafi áunnist á grundvelli atvinnuþátttöku eða blöndu af atvinnuþátttöku og annarri ávinnslu og búsetutengdur lífeyrir samkvæmt almannatryggingalögum eins og áður segi ekki verið taldar sambærilegar bætur í samræmi við þágildandi 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Slíkur erlendur lífeyrir hafi hins vegar verið talinn sambærilegur lífeyrissjóðsgreiðslum hér á landi. Hafi slíkur erlendur lífeyrir því sömu áhrif á lífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar og lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi. Sú túlkun sé þrátt fyrir breytingu talin vera í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt ákvæðum EES-samningsins og reglugerðar (EB) nr. 883/2004 meðal annars þar sem markmið greiðslu lífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar hér á landi, sbr. 1. gr. laganna, og lífeyris sem byggður sé á atvinnuþátttöku sé ekki þau sömu. Löggjafinn hafi hins vegar ákveðið að tilefni væri til að breyta meðferð erlends lífeyris á fyrrgreindan hátt og gildi sú breyting frá og með næsta mánuði eftir gildistöku laganna frá 12. apríl 2023.

Þann 10. janúar 2024 hafi Tryggingastofnun borist viðbótarkæra, dags. 3. janúar 2024, í málinu. Kærandi geri þar ýmsar athugasemdir við afgreiðslu stofnunarinnar á lífeyrisréttindum hans. Þrátt fyrir þessa viðbót sé meginágreiningsefni kærunnar það sama að mati stofnunarinnar. Í ljósi þeirra athugasemda sem kærandi hafi gert telji stofnunin þó tilefni til þess að ítreka eftirfarandi.

Tryggingastofnun taki ekki ákvörðun um skattskyldu kæranda á Íslandi eða um útreikning á skattstofni. Tryggingastofnun standi eingöngu skil á staðgreiðslu af staðgreiðsluskyldum réttindum sem stofnunin greiði.

Launamiði þar sem endurreiknaðar greiðslur Tryggingastofnunar til kæranda á árinu 2021 komi fram hafi verið sendur til Skattsins 10. nóvember 2022. Launamiði þar sem endurreiknaðar greiðslur Tryggingastofnunar til kæranda á árinu 2022 komi fram hafi verið sendur til Skattsins 29. ágúst 2023.

Kvika banki hf. sé milliliður í greiðslum Tryggingastofnunar til greiðsluþega með erlenda bankareikninga. Bankinn leggi millifærslugjald á millifærslur á erlenda bankareikninga að fjárhæð 1.025 kr. Ekkert gjald sé tekið fyrir myntbreytingu.

Greiðsluskjöl og greiðsluáætlanir séu aðgengilegar kæranda inn á Mínum síðum á tr.is.

Lögbær yfirvöld aðildarríkja EES-samningsins deili upplýsingum sem séu nauðsynlegar vegna beitingar reglugerðar (EB) nr. 883/2004, sbr. 76. gr. reglugerðarinnar. Hvers kyns miðlun upplýsinga til yfirvalds eða stofnunar í viðtökuaðildarríkinu, svo og geymsla, breytingar eða eyðing gagna sem það aðildarríki hafi látið í té, falli undir löggjöf um gagnavernd í viðtökuaðildarríkinu, sbr. 77. gr. reglugerðarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu og í ljósi þess að erlendar lífeyrisgreiðslur sem byggðar hafi verið á atvinnuþátttöku eða iðgjaldagreiðslum hafi ekki verið taldar sambærilegar bótum laga um almannatryggingar í skilningi 4. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að lífeyrisgreiðslur kæranda frá Þýskalandi árið 2022 skyldu skerða ellilífeyri hans með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar dags. 28. ágúst 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2022 og meðhöndlunar á lífeyri kæranda frá Þýskalandi.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 17. maí 2024, segir að samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 hafi meginmál EES-samningsins, auk nánar tilgreindra gerða, lagagildi hér á landi. Í 3. gr. samningsins skuldbindi aðildarríki hans sig til að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af honum leiði og varast ráðstafanir sem teflt geti í tvísýnu að markmiðum samningsins verði náð. Í 7. gr. samningsins komi síðan fram að gerðir sem vísað sé til eða sé að finna í viðaukum við hann eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar bindi samningsaðila séu þær eða verði teknar upp í landsrétt með nánar tilgreindum aðferðum. Samkvæmt 119. gr. EES-samningsins séu bókanir við samninginn óaðskiljanlegur hluti hans. Af því leiði að þær hafi sama gildi og meginmál samningsins að þjóðarétti. Í bókun 35 sé fjallað um framkvæmd EES-reglna. Í því skyni að fullnægja þeim skuldbindingum sem felist í bókun 35 hafi áðurnefnd regla verið lögfest í 3. gr. laga nr. 2/1993. Í skýringum við þetta ákvæði í athugasemdum með frumvarpi sem hafi orðið að lögum nr. 2/1993 komi fram að innlend lög sem ættu sér stoð í EES-samningnum yrðu jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamrýmanlegum yngri lögum að því leyti að yngri lög vikju þeim ekki ef þau stönguðust á nema löggjafinn tæki það sérstaklega fram. Þetta væri nauðsynlegt til þess að tryggja samræmi í reglum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í bókun 35 væri og skýrt tekið fram að þessi skýringarregla skyldi ekki hafa í för með sér framsal á löggjafarvaldi og væri 3. gr. við það miðuð. Það sé því ekki um forgangsreglu að ræða.

Fyrrgreind regla í 3. gr. laga nr. 2/1993, um að skýra skuli lög og reglur til samræmis við EES-reglur, það sjónarmið að almennt verði að gera ráð fyrir að löggjafinn hafi metið gildandi lög í samræmi við slíkar skuldbindingar þegar undir þær hafi verið gengist og gætt hafi verið að þeim við síðari lagasetningu. Í nokkru mæli hafi reynt á skýringu laga með tilliti til EES-reglna eins og hér verði nánar rakið. Lögskýring eftir 3. gr. laga nr. 2/1993 taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast sé unnt gefin merking sem rúmaðist innan þeirra og næst kæmist því að svara til sameiginlegra reglna sem gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Hún geti á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið sé fram hjá orðum íslenskra laga. Niðurstaða um að lögskýring gæti ekki leitt til þess að litið yrði fram hjá orðum íslenskra laga hafi ítrekað verið staðfest af Hæstarétti, sbr. dóma réttarins 28. febrúar 2024 í máli nr. 24/2023, 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010, 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013, 10. maí 2013 í máli nr. 306/2013, 2. október 2014 í máli nr. 92/2013 og 26. nóvember 2015 í máli nr. 243/2015. Einnig megi vísa til dóma Hæstaréttar 24. maí 2006 í máli nr. 274/2006, 15. júlí 2014 í máli nr. 429/2014 og 5. maí 2015 í máli nr. 291/2015. Að frátöldum dómi réttarins 15. maí 2003 í máli nr. 477/2002 séu þess raunar ekki dæmi að Hæstiréttur hafi talið löggjöf sem innleiddi EES-reglu gangi framar öðrum lögum. Ef frá sé talinn fyrrgreindur dómur Hæstaréttar í máli nr. 477/2002 hafi 3. gr. laga nr. 2/1993 í dómaframkvæmd réttarins aðeins verið talin fela í sér reglu við lögskýringu um túlkun laga til samræmis við EES-samninginn. Þannig hafi ekki verið lagt til grundvallar að það ákvæði feli í sér almenna forgangsreglu í samræmi við bókun 35 við samninginn.

Ef ókleift sé að skýra íslensk lög til samræmis við EES-samninginn þannig að ósamræmi skapist annars vegar á milli lagareglu sem ætlað sé að innleiða EES-reglu hér á landi og hins vegar annarrar lagareglu þurfi að leysa úr því hvor reglan ráði niðurstöðu um það atriði sem sé til úrlausnar. Hér reyni á forgangsreglur sem leysa eigi úr slíkum árekstri til að koma í veg fyrir tvær eða fleiri niðurstöður um sama tilvik. Þessar forgangsreglur geti bæði verið skráðar og óskráðar. Sem dæmi um þær síðarnefndu megi nefna regluna um að æðri reglur gangi fyrir lægra settum reglum (lex superior) en samkvæmt henni gangi stjórnlög framar almennum lögum og almenn lög framar almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Einnig gildi sú óskráða forgangsregla að sérregla gangi framar almennri reglu (lex specialis) en mjög matskennt geti verið hvenær regla teljist almenn og hvenær sértæk. Þá sé einnig óskráð forgangsregla að yngri lög gangi framar eldri lögum (lex posterior).

Svo sem hér hafi verið rakið hafi skýrt verið kveðið á um meðferð erlendra tekna sem sambærilegar væru greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum í þágildandi almannatryggingalögum, sbr. 4. gr. 16. gr. þágildandi laga. Það verði heldur ekki talið að þessu verði hliðrað með skýringu til samræmis við EES-samninginn andstætt skýru og ótvíræðu orðalagi laga sem gefi ekkert svigrúm til þess, sbr. þá dóma sem raktir séu hér að framan. Tryggingastofnun geti því ekki virt að vettugi skýr og afdráttarlaus fyrirmæli laga nr. 100/2007 við ákvörðun um meðferð erlendra tekna. Verði þá jafnframt að hafa í huga að lögin hafi að geyma sérreglur um greiðslu almannatrygginga og að þau séu yngri en lög nr. 2/1993 sem hafi veitt EES-samningnum lagagildi. Jafnframt hafi reglugerð (EB) nr. 883/2004, sem tekin hafi verið upp í samninginn, aðeins verið innleidd með almennum stjórnvaldsfyrirmælum án þess að gerðar hafi verið samhliða breytingar á lögum nr. 100/2007 til samræmis.

Í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að stofnunin hafi litið til þess að samkvæmt gögnum málsins hafi réttur til umræddra greiðslna frá Þýskalandi miðast við áunnin lífeyrisstig sem hafi reiknast meðal annars út frá tekjum bótaþega. Umræddir lífeyrissjóðir í Þýskalandi séu fjármagnaðar með iðgjaldagreiðslum og greiðendur ávinni sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna úr sjóðunum. Úrskurðarnefndin hafi óskað eftir nánari rökstuðningi frá stofnuninni fyrir framangreindum fullyrðingum með bréfi, dags. 2. maí 2024. Rökstuðningurinn sé eftirfarandi.

Í 1. mgr. 63. gr. VI. kafla þýskra laga um almannatryggingar (þ. Sozialgesetzbuch (SGB) Sechstes Buch (VI) - Gesetzliche Rentenversicherung - Artikel 1 des Gesetzes v. 18. Dezember 1989, BGBl. I S. 2261, 1990 I S. 1337) segi að fjárhæð ellilífeyris skuli fyrst og fremst miðast við fjárhæð þeirra launa og atvinnutekna sem tryggð séu með iðgjöldum á tryggingartímabilinu. Í 2. mgr. sömu greinar segi að þóknun og tekjur af atvinnu sem tryggð séu með iðgjöldum á einstökum almanaksárum skuli umreiknuð í lífeyrisstig (þ. Entgeltpunkt). Trygging þóknunar eða atvinnutekna sem nemi meðallaunum almanaksárs veiti eitt lífeyrisstig. Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. VI. kafla laganna eigi tryggðir einstaklingar rétt á lífeyri ef lágmarkstryggingartímabili sem krafist sé fyrir viðkomandi lífeyri hafi verið náð sem og önnur skilyrði hafi verið uppfyllt. Samkvæmt 54. og 55. gr. VI. kafla laganna sé aðeins tekið tillit til tímabila (mánaða) lögbundinna framlaga í formi iðgjalda. Þá sé aðeins litið til tímabila án framlaga í sérstökum tilfellum, sbr. 58. gr. VI. kafla laganna. Sá ellilífeyrir sem kærandi hafi þegið á umdeildu tímabili í Þýskalandi sé því háður framlagi hans í formi iðgjalda á tryggingartímabilinu.

Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. júlí 2024, segir að úrskurðarnefndin óski í fyrsta lagi eftir nánari upplýsingum um að hvaða leyti tiltekin þýsk lagaákvæði eigi við um greiðslur til kæranda frá Þýskalandi en samkvæmt gögnum málsins fái hann bæði greiðslur frá B og D. Þá hafi nefndin óskað eftir upplýsingum um hvort fyrir liggi gögn frá umræddum stofnunum í Þýskalandi um að greiðslur til kæranda reiknist meðal annars út frá fyrri tekjum hans. Í málinu liggi ekki fyrir gögn frá umræddum stofnunum í Þýskalandi sem staðfesti að greiðslur kæranda reiknist meðal annars út frá fyrri tekjum hans. Tryggingastofnun hafi ekki aflað slíkra gagna þar sem ekki hafi verið deilt um þá staðhæfingu í málinu.

Í öðru lagi hafi nefndin óskað eftir upplýsingum og gögnum frá Tryggingastofnun um hvernig stofnunin hafi reiknað greiðsluhlutfall ellilífeyris í máli kæranda. Full réttindi til örorkulífeyris ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 ára til 67 ára aldurs samkvæmt 1. mgr. 17. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Í sömu grein segi að sé um skemmri tíma að ræða reiknist rétturinn til örorkulífeyris í hlutfalli við búsetutímann, sbr. 4. mgr. 18. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Kærandi hafi náð 16 ára aldri þann X. Frá þeim degi og þar til hann hafi flutt til Þýskalands X hafi hann verið búsettur á Íslandi eða í 17 ár og 126 daga. Kærandi hafi í kjölfarið verið búsettur í Þýskalandi til X eða í 8 ár og 288 daga. Kærandi hafi aftur verið búsettur á Íslandi frá X til X, eða í 4 ár og 81 dag, þar til hann hafi flutt aftur til Þýskalands þar sem hann hafi síðan verið búsettur. Kærandi hafi því frá 16 ára aldri samtals verið búsettur á Íslandi í 21 ár og 207 daga. Greiðsluhlutfall kæranda á Íslandi hafi þar af leiðandi verið ákvarðað 53,88%.Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 29. júlí 2024, segir að sá sem búsettur sé á Íslandi teljist tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. gr. laganna. Með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar. Skráning lögheimilis fari fram hjá Þjóðskrá Íslands, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 80/2018. Við útreikning á greiðsluhlutfalli líti Tryggingastofnun lögum samkvæmt til Þjóðskrár Íslands og skráningar stofnunarinnar á lögheimili.

IV.  Niðurstaða

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefndin telur að ágreiningur málsins varði tvær stjórnvaldsákvarðanir sem eru kæranlegar til nefndarinnar, þ.e. annars vegar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 og hins vegar ákvörðun Tryggingastofnunar um greiðsluhlutfall ellilífeyris.

Kærandi gerir einnig margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð og aðrar ákvarðanir Tryggingastofnunar. Kærandi byggir meðal annars á því að Tryggingastofnun hafi ekki lagt fram gögn um samskipti stofnunarinnar við DR-Bund í Þýskalandi og hefur ítrekað farið fram á að málinu verði frestað þar til gögnin hafi verið lögð fram. Úrskurðarnefndin hefur farið yfir samskipti kæranda við Tryggingastofnun og telur ekkert benda til annars en að stofnunin hafi veitt kæranda aðgang að þeim gögnum sem hann hafi óskað eftir. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að fresta málinu frekar.

Kærandi gerir jafnframt margvíslegar athugasemdir við skattalega meðhöndlun Tryggingastofnunar á ellilífeyrisgreiðslum til hans. Þá byggir kærandi á því að Tryggingastofnun hafi falsað skjöl og veitt upplýsingar án hans leyfis og þar með brotið gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að úrskurðarnefnd velferðarmála kveði upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra laga. Samkvæmt framangreindu ákvæði getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um ágreining samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, svo og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum.Framangreind ágreiningsefni um skattalega meðhöndlun greiðslna, meinta refsiverða háttsemi og persónuvernd varða ekki þau lög og því fellur það utan valdsviðs úrskurðarnefndar velferðarmála að úrskurða um þau.

A. Endurreikningur og uppgjör

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2022. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Lífeyrissjóðstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt.

Í þágildandi 4. mgr. 16. gr. laganna segir:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Á grundvelli 3. mgr. 33. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi sé meðal annars ósáttur við að ellilífeyrisgreiðslur sem hann fær frá Þýskalandi skerði greiðslur hans frá Tryggingastofnun. Um er að ræða greiðslur frá Deutsche Rentenversicherung (DRV) og Versorgungsanstalt des Bundes und der Länder (VBL).

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert ellilífeyri. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd ekki ellilífeyri og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt þágildandi 68. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Þýskaland er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Þýskalandi, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar eða greiðslum úr séreignarlífeyrissparnaði eða viðbótartryggingarvernd, ekki ellilífeyrinn.

Af gögnum málsins verður ráðið að Tryggingastofnun lítur á greiðslur kæranda frá Þýskalandi sem greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Í greinargerð Tryggingastofnunar segir um þá afstöðu stofnunarinnar að samkvæmt gögnum málsins hafi réttur til umræddra greiðslna frá Þýskalandi miðast við áunnin lífeyrisstig sem hafi reiknast meðal annars út frá tekjum bótaþega. Umræddir lífeyrissjóðir í Þýskalandi séu fjármagnaðir með iðgjaldagreiðslum og greiðendur ávinni sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna úr sjóðunum. Úrskurðarnefndin óskaði eftir nánari rökstuðningi fyrir þessum fullyrðingum með bréfi, dags. 2. maí 2024, og í svari Tryggingastofnunar var vísað til ákvæða í VI. kafla þýskra laga um almannatryggingar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júní 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvernig þau lagaákvæði ættu við um greiðslur kæranda frá Þýskandi og hvort fyrir lægju nánari gögn frá DRV og VBL sem staðfestu að greiðslur kæranda myndu reiknast meðal annars út frá fyrri tekjum hans. Í svari Tryggingastofnunar kom fram að slík gögn lægju ekki fyrir og stofnunin hefði ekki aflað slíkra gagna þar sem ekki hafi verið deilt um þá staðhæfingu í málinu. Spurningu um hvernig þýsku lagaákvæðin tengdust greiðslum kæranda frá Þýskalandi var ekki svarað.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála liggja ekki fyrir nægjanlegar upplýsingar um eðli þeirra ellilífeyrisgreiðslna sem kærandi fær frá Þýskalandi til þess að meta hvort umræddur lífeyrir sé sambærilegur bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar eða eftir atvikum greiðslum úr séreignarlífeyrissparnaði eða viðbótartryggingarvernd. Málið er því ekki nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefndin rétt að fella ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 úr gildi og vísa málinu aftur til stofnunarinnar til rannsóknar á eðli lífeyrisgreiðslna kæranda frá Þýskalandi.

Í þessu sambandi telur úrskurðarnefnd rétt að benda Tryggingastofnun á að í reglugerð (EB) nr. 883/2004, um samræmingu almannatryggingakerfa, er að finna fyrirmæli um það hvernig stjórnvöld almannatrygginga skuli afla upplýsinga til að skera úr um eðli erlendra bótagreiðslna. Þannig segir að í 6. mgr. 76. gr. að ef erfiðleikar koma upp við túlkun eða beitingu reglugerðarinnar, sem gætu teflt réttindum einstaklings, sem heyrir undir hana, í tvísýnu, skuli stofnun í lögbæru aðildarríki eða búsetuaðildarríki hlutaðeigandi einstaklings hafa samband við stofnun eða stofnanir í hlutaðeigandi aðildarríki eða aðildarríkjum.

B. Greiðsluhlutfall ellilífeyris

Svohljóðandi er 1. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um skilyrði og ávinnslu ellilífeyris:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna er búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur, nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Af framangreindu má ráða að réttur til ellilífeyris ávinnst með fastri búsetu á Íslandi á tímabilinu frá 16 ára til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með 40 ára búsetu en sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Fyrir liggja upplýsingar frá Þjóðskrá um að kærandi hafi verið með skráð lögheimili hér á landi eftir 16 ára aldur frá X til X og frá X til X. Útreikningur Tryggingastofnunar byggir á þeirri skráningu og leiðir til þess að búsetuhlutfall kæranda hér á landi sé ákvarðað 53,88%. Ellilífeyrisgreiðslur til kæranda taka mið af því. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að gera athugasemdir við ákvörðun Tryggingastofnunar um greiðsluhlutfall ellilífeyris í máli kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðsluhlutfall ellilífeyris í máli kæranda staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 er felld úr gildi og þeim hluta málsins er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, um greiðsluhlutfall ellilífeyris er staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 er felld úr gildi og þeim hluta málsins er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta