Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 33/2004

Mál nr. 33/2004

Þriðjudaginn, 18. janúar 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 9. júlí 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 21. júní 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 6. maí 2004 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Þann 6. maí 2004 fékk undirritaður, A, formlega synjun á umsóttu fæðingarorlofi vegna fæðingar D. Sótt var um fæðingarorlof frá 1. janúar 2004 til 31. mars 2004 og var A þennan tíma utan vinnumarkaðar. Óskað er eftir endurskoðun á þessari niðurstöðu og farið fram á greiðslur úr fæðingarorlofssjóði frá 1. janúar til 31. mars 2004 miðað við tekjur unnar inn á 12 mánaða tímabili, frá 1.11.2002-21.10.2003.

A sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði bréflega í byrjun 2. febrúar 2004. 23. mars 2004 barst bréf frá sjóðnum þar sem umsókninni var synjað á þeim forsendum að A hefði ekki verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þessi úrskurður er felldur samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK. Í símtali við Fæðingarorlofssjóð (E) var A tjáð að ekki væri um formlega synjun að ræða og að A gæti sent inn viðbótargögn til leiðréttingar. Í framhaldi þessa voru Fæðingarorlofssjóði sendar vinnuskýrslur, staðfestar og undirritaðar af viðskiptamanni B ehf., sem og staðfestir reikninga B frá árinu 2003 þar sem fram kemur vinnuframlag og tekjusköpun. Sjóðurinn taldi þessar upplýsingar ekki sýna fram á samfellda vinnu og sendi formlega synjun 6. maí 2004.

Til 1. mars 2003 var A starfandi hjá F á Íslandi. Í beinu framhaldi af því stofnaði A og hóf störf hjá eigin fyrirtæki, B ehf., og starfaði hjá því fyrirtæki óslitið út árið. Sérhver einstaklingur sem starfar hjá eigin fyrirtæki þarf að skila inn til skattstjóra síns umdæmis skýrslu vegna svokallaðs reiknaðs endurgjalds. Í tilfelli undirritaðs (miðað við eðli rekstrarins og stöðu undirritaðs í fyrirtækinu) gerir Ríkisskattstjóri ráð fyrir viðmiðunarendurgjaldi sem nemur G kr. á mánuði. Þar sem um var að ræða stofnár fyrirtækisins og tekjur þar með óvissar fór undirritaður fram á það í „Greinargerð um reiknað endurgjald starfsmanns lögaðila“ (eyðublað RSK 5.21, sjá viðhengi) að þurfa ekki að greiða sér svo há laun í upphafi þar sem óvíst væri að nægir fjármunir væru fyrir hendi. Þess í stað myndi undirritaður greiða sér mun hærri laun en viðmiðunarupphæðin segir til um síðustu mánuði ársins þegar reksturinn væri kominn vel af stað og stöðugu greiðsluflæði komið á fót. Skatturinn gerði engar athugasemdir við reiknað endurgjalds undirritaðs og greiddi undirritaður sér laun sem nema H kr. síðustu 3 mánuði ársins.

A fer því fram á að fá fæðingarorlof frá 1. janúar til 31. mars 2004 þar sem upplýsingar úr skrá RSK um vinnuhlutfall A séu ekki réttar. Innsend viðbótargögn staðfesta það án vafa að undirritaður hafi verið í fullu starfi samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Ekki er því nægjanlegt að miða eingöngu við RSK gögn þegar verið er að meta starfshlutfall undirritaðs.

Hjálagt eru bréfaskriftir við Fæðingarorlofssjóð, skýrsla til RSK um reiknað endurgjald, staðfestar vinnuskýrslur A sem og reikningar B. Álagningarseðlar vegna A og B ehf., liggja því miður ekki fyrir fyrr en seinni part ágústmánaðar. Kæran er þó send inn nú þar sem kærufrestur A rennur út 6. ágúst næstkomandi. Ef úrskurðarnefndin þarfnast frekari gagna mun A að sjálfögðu leggja þau fyrir. Fallist kærunefndin ekki á A um fullt fæðingarorlof fer A til vara fram á greiðslu fæðingarstyrks fyrir umrætt tímabil.“

 

Með bréfi, dags. 11. ágúst 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 2. september 2004. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 4. febrúar 2004, sem móttekin var 17. febrúar 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði frá 1. apríl 2004. Umsóknin varðar barn sem fætt er 31. október 2003. Með umsókninni fylgdu fæðingarvottorð, dags. 9. janúar 2004, launaseðlar fyrir nóvember og desember 2003 og janúar 2004 og bréf frá umsækjanda. Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu jafnframt fyrir upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 23. mars 2004, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að kærandi uppfyllti ekki skilyrði laga fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði um að hafa verið á innlendum vinnumarkaði samfellt í sex mánuði fyrir fæðingu barns

Þann 6. apríl 2004 var móttekið bréf kæranda, dags. 31. mars 2003 (mun eiga að vera 2004), þar sem hann gerði grein fyrir störfum sínum árið 2003. Bréfi þessu fylgdu annað bréf kæranda, ódags., þar sem hann gerði grein fyrir tekjum sínum árið 2003 og afrit vinnuskýrslna vegna tímabilsins 28. febrúar til 31. október 2003.

Þann 14. apríl 2004 var móttekið bréf kæranda, ódags., ásamt staðfestingu móður á umgengnisrétti forsjárlauss foreldris í fæðingarorlofi.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 6. maí 2004, var kæranda gerð grein fyrir að viðbótargögn sem borist hefðu frá honum breyttu ekki fyrri afgreiðslu umsóknar hans.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr, laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri á innlendum vinnumarkaði rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Eins og fram er komið er barn kæranda fætt 31. október 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 30. apríl 2003 til fæðingardags barnsins.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK var kærandi á viðmiðunartímabilinu aðeins með uppgefin laun í október 2003. Kærandi var þá starfsmaður einkahlutafélags hans og fékk greidd laun frá félaginu. Rétt þykir að taka fram að kærandi var ekki sjálfstætt starfandi og hafði ekki reiknað endurgjald árið 2003.

Í bréfi kæranda, dags. 31. mars 2003 (mun eiga að vera 2004), segir að hann hafi frá mars til desember 2003 verið í fullu starfi fyrir fyrirtæki sitt, einkahlutafélagið B, sem stofnað var í mars 2003, og unnið verkefni fyrir fyrirtæki sem heiti I fyrir milligöngu umboðsskrifstofunnar J. Bréfinu fylgdu vinnuskýrslur vegna þessara starfa á tímabilinu frá febrúarlokum til októberloka 2003. Í bréfinu kvaðst kærandi jafnframt hafa skilað greinargerð til skattstjóra vegna reiknaðs endurgjalds við eigin atvinnurekstur, þar sem fram komi ástæður þess að laun voru ekki greidd fyrr en undir lok ársins, fjöldi mánaðarlaunaeininga og upphæðir. Kvað hann skattstjóra engar athugasemdir hafa gert vegna greinargerðarinnar né framkvæmd launagreiðslna. Tilvitnuð greinargerð fylgdi bréfi kæranda og þar segir m.a. að miðað sé við að tekjur í byrjun starfseminnar fari í uppbyggingu og stofnkostnað svo að fyrirtækið hafi traustan starfsgrundvöll, þ.e. að launagreiðslur eigi sér ekki stað á fyrstu rekstrarmánuðum.

Með vísan til alls framanritaðs og framlagðra gagna, einkum þess að samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra verður ekki séð að kærandi hafi gefið upp laun vegna tímabilsins mars til september 2003 og greinargerðar kæranda til skattstjóra þar sem fram kemur að launagreiðslur eigi sér ekki stað á fyrstu rekstrarmánuðum einkahlutafélags hans, telur lífeyristryggingasvið kæranda ekki uppfylla skilyrðið um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og því hafi verið rétt að synja umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. september 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 16. júní 2004, en mótteknu af nefndinni 21. september 2004, þar segir meðal annars:

„Ekki er rétt sem fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar að undirritaður hafi ekki verið sjálfstætt starfandi og reiknað endurgjald 2003. Reiknað endurgjald ársins 2003 nam K kr.

Ennfremur telur undirritaður að framlögð gögn (vinnuskýrslur, reikningar o.s. frv.) sýni án nokkurs vafa að hann hafi verið á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu frá 30. apríl 2003 til 31. október 2003. Til stuðnings þessa vill undirritaður benda á að í skattskilum einkahlutafélags síns 2003, B, nemur tekjuskattur af hagnaði yfir 600 þús. krónum. Þetta hefði ekki verið mögulegt nema undirritaður hefði verið í fullu starfi á umræddu tímabili.

Þar sem lög um fæðingarorlof segja að umsækjandi verði að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í sex mánuði fyrir upphafsdags fæðingarorlofs telur undirritaður sig eiga rétt á fæðingarorlofi. Tryggingastofnun virðist ekki draga sannleiksgildi gagna undirritaðs (vinnuskýrslur o.s.frv.) um að hann hafi verið í fullu starfi á umræddu tímabili í efa. Ekki nægir að taka eingöngu staðgreiðsluskrá RSK sem viðmiðunargögn, önnur atriði s.s. skattgreiðslur einkahlutafélags undirritaðs sem og sannanir fyrir vinnu á tímabilinu hljóta einnig að vera tekin til greina. Að kærandi hafi ekki greitt sér laun allt tímabilið ætti bara að leiða til þess að fæðingarorlofsupphæðin væri lægri, ekki að orlofi sé algjörlega hafnað.

Undirritaður telur það varla geta verið í anda laganna að refsa umsækjendum fyrir frumkvæði á vinnumarkaði, sérstaklega þar sem undirritaður hefur greitt tekjuskatt af launum, tekju-, eigna-, og virðisaukaskatt af rekstri fyrirtækis vegna rekstrar á umræddu tímabili (30.04.03-31.10.03).

Að lokum vill undirritaður benda á að Tryggingastofnun tók ekki afstöðu til beiðni undirritaðs að fara fram á greiðslu fæðingarstyrks fallist kærunefndin ekki á greiðslu fæðingarorlofs.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 35. gr. ffl. er kveðið á um heimild félagsmálaráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sem sett er samkvæmt þeirri lagaheimild segir að með samfelldu starfi sé átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. 13. gr. ffl. er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem ljúki tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. byggir útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á upplýsingum er Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Jafnframt segir í ákvæðinu að telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skuli það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Barn kæranda er fætt 31. október 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 30. apríl 2003 fram að fæðingardegi barns. Samkvæmt staðgreiðsluskrá var á því tímabili eingöngu skráð launagreiðsla frá B ehf. L kr. í október 2003.

Af hálfu kæranda var framvísað vinnuskýrslum og reikningum útgefnum af B ehf. á viðmiðunartímanum. Þá hefur úrskurðarnefnd fæðingarorlofsmála við meðferð málsins aflað frekari gagna um atvinnurekstur kæranda, sem var í formi einkahlutafélags, og upplýsinga um launaframtöl og önnur framtöl til skattyfirvalda og skattskil.

Staðfest er að B ehf. er einkahlutafélag alfarið í eigu kæranda og á árinu 2003 var kærandi eini starfsmaður félagsins. Samkvæmt gögnum málsins seldi fyrirtækið út þjónustu sem fólst í vinnu kæranda allt viðmiðunartímabilið. Með hliðsjón af því telur nefndin nægilega staðfest að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um 6 mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir upphaf fæðingarorlofs.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda úr Fæðingarorlofssjóði með hliðsjón af 2. mgr. 13. gr. ffl.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A er hafnað. Greiða ber kæranda úr Fæðingarorlofssjóði með hliðsjón af 2. mgr. 13. gr. ffl.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta