Rannsókn á nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis
Í febrúar 2011 ákvað velferðarráðherra að sérstakri fjárveitingu skyldi varið til rannsóknar á nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum, en þar sem annars staðar á landinu jókst nauðungarsala á íbúðarhúsnæði. Ljóst var að frá árinu 2008 voru vanskil húsnæðislána og annarra lána meiri á Suðurnesjum en í öðrum sveitarfélögum. Málið var kynnt í ríkisstjórn og í framhaldinu var samkomulag gert milli velferðarráðuneytisins og sýslumannsins í Keflavík um framkvæmd verkefnisins sem var á ábyrgð sýslumannsins. Sérstakur starfsmaður var ráðinn til að vinna rannsóknina. Rannsókninni er lokið og niðurstöður hennar voru kynntar í ríkisstjórn í morgun.
Rannsóknin fjallar um nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum á árunum 2001–2011. Á tímabilinu voru 840 íbúðir á Suðurnesjum seldar á nauðungarsölu, þar af voru 595 (71%) í eigu einstaklinga á móti 245 (29%) í eigu lögaðila. Hlutfall nauðungarsölumála sem lauk með sölu eignar fór á fyrri hluta tímabilsins hæst í 10,5% á ári, en stighækkaði árin 2008–2011, úr 5,8% árið 2007 í tæp 43% árið 2011. Þess ber þó að geta að eftir árið 2008 er hærra hlutfall eigna sem selt er í eigu lögaðila, en fyrir þann tíma.
Á öllu tímabilinu er áberandi að fólk missir húsnæði sitt á nauðungarsölu einu til þremur árum eftir kaup. Á árunum 2001–2007 voru 22 íbúðir seldar að meðaltali á ári á nauðungarsölu, en á árunum 2008 –2011 voru á bilinu 47–215 íbúðir seldar á nauðungarsölu árlega, flestar árið 2010. Algengast er að íbúðir sem seldar voru á nauðungarsölu hafi verið keyptar tveimur til þremur undangengnum árum, til dæmis er 82% af íbúðarhúsnæði sem selt var á nauðungarsölu árið 2007 keypt á tveimur undangengnum árum og 79% af íbúðum sem seldar voru á nauðungarsölu árið 2008 voru keyptar á þremur undangengnum árum. Tæplega 60% íbúðarhúsnæðis í eigu einstaklinga sem selt var á nauðungarsölu árin 2003–2011 voru í eigu þeirra í þrjú ár eða skemur.
Meðalaldur þeirra einstaklinga sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu var á öllu tímabilinu um 40 ár og hefur farið hækkandi, úr 36 árum 2009 í 43 ár 2011. Fjölskyldugerð þeirra sem misstu íbúðir sínar á tímabilinu skiptist þannig að í um 40% tilvika voru eigendur í sambúð eða hjónabandi og í tæpum helmingi voru börn á heimilinu, alls 560 börn. Í rúmlega fimmtungi tilvika áttu börn lögheimili í hinni seldu íbúð. Eigendur voru í 45,2% tilvika með lögheimili í hinni nauðungarseldu íbúð á degi nauðungarsölunnar. Þegar lögaðili er eigandi húsnæðis sem selt er, er líklegast að leigutaki hafi misst húsnæði sitt við sölu. Ekki reyndist unnt að fá upplýsingar um stöðu þess hóps.
Niðurstöður rannsóknarinnar verða meðal annars nýttar til áframhaldandi skráningar, endurbóta á skráningarkerfum og sem fyrirmynd fyrir önnur sýslumannsembætti. Síðast en ekki síst verður unnin úrtakskönnun til að afla upplýsinga um aðdraganda að húsnæðismissi og afdrif einstaklinga og fjölskyldna, með sérstaka áherslu á barnafjölskyldur.