Að gefnu tilefni: Staðreyndir um hjúkrunarrými á Suðurlandi
Í Morgunblaðinu í gær birtist frétt um þjónustu við aldraða á dvalar- og hjúkrunarheimilum á Suðurlandi. Í fréttinni koma fram nokkrar staðreyndavillur um stöðu þessara mála sem velferðarráðuneytið telur skylt að leiðrétta.
Í fréttinni er haft eftir Unni Þormóðsdóttur, formanni færni- og heilsumatsnefndar heilbrigðisumdæmis Suðurlands, að 40 einstaklingar séu á biðlista eftir því að komast að á hjúkrunarheimili. Þetta er ekki rétt, heldur bíða 25 einstaklingar eftir hjúkrunarrými.
Rangfærslurnar eru fleiri því Unnur segir m.a. í fréttinni: „Síðast þegar ríkið úthlutaði fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra fengum við til dæmis ekkert úthlutað hér á Suðurlandi. Féð fór þá á Akranes og fleiri staði.“ Hið rétta er að árið 2012 bárust 14 umsóknir um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra og samþykkti velferðarráðherra fjárveitingar úr sjóðnum til níu þeirra. Fjórar umsóknir bárust af Suðurlandi og voru þrjár þeirra samþykktar.
Ekkert framlag var veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra til verkefna á Akranesi árið 2012 né heldur árið 2011. Af verkefnum sem úthlutað var til úr sjóðnum árið 2011 rann næsthæsta upphæðin til verkefna á Suðurlandi. Því má einnig bæta við að árið 2008 voru teknar í notkun tvær nýjar hjúkrunardeildir við Heilbrigðisstofnun Suðurlands með samtals 40 hjúkrunarrýmum. Hjúkrunarheimilið á Ljósheimum var þá lagt niður en þar voru 26 rými svo að með nýbyggingunni fjölgaði rýmum um 14.
Hlutfall hjúkrunarrýma á Suðurlandi
Í árslok 2012 voru 244 hjúkrunarrými á Suðurlandi af þeim tæplega 2450 rýmum sem eru á landinu öllu. Þetta svarar til þess að á svæðinu séu 79,6 hjúkrunarrými fyrir hverja 1000 íbúa sem eru 67 ára og eldri. Til samanburðar má geta þess að á höfuðborgarsvæðinu er þetta hlutfall 65,9 rými.