Hoppa yfir valmynd
14. október 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 337/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 337/2021

Fimmtudaginn 14. október 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs vegna umsóknar hans um greiðslur úr sjóðnum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags 4. maí 2021, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns síns sem fæddist X. Kærður er dráttur á afgreiðslu umsóknar, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. júlí 2021. Með bréfi, dags. 12. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 16. júlí 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. júlí 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að ekki liggi fyrir stjórnvaldsákvörðun í málinu en kærð sé málsmeðferð Vinnumálastofnunar. Kærandi greinir frá því að hann hafi sent inn umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tveimur mánuðum síðan. Það hafi tekið Vinnumálastofnun tvo mánuði að biðja um gögn sem vantaði í umsóknina en kærandi hafi ítrekað með tölvupósti og óskað þess að haft yrði samband við hann ef gögn skorti. Kærandi greinir frá bágri fjárhagsstöðu sinni og kveður vinnubrögð Vinnumálastofnunar ekki í lagi.

 

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærður sé afgreiðslutími Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi með umsókn, 4. maí 2021, sótt um fæðingarstyrk námsmanna vegna barns síns sem fæddist X.

Þann 6. maí hafði kærandi samband með tölvupósti og lét vita að hann þyrfti að fá greitt um næstu mánaðamót. Kæranda hafi verið svarað 10. maí 2021 þar sem hann hafi verið upplýstur um vinnslutíma umsókna og hann látinn vita að honum yrði sendur tölvupóstur ef gögn vantaði eða þegar vinnslu umsóknar hans væri lokið. Kærandi sendi ítrekun með tölvupósti þann 1. júní 2021 sem hafi verið svarað næsta dag og hann látinn vita að það væri verið að vinna í umsókn hans.

Þann 21. júní 2021 hafi kæranda verið sent bréf með tölvupósti þar sem honum hafi verið tilkynnt að hann þyrfti að skila staðfestingu á námsframvindu ásamt staðfestingu á forsjá. Kærandi sendi umbeðin gögn þann 6. júlí 2021. Eftir yfirferð á gögnum lauk afgreiðslu máls kæranda þegar honum var send greiðsluáætlun þann 13. júlí 2021 og greiðslur hófust í kjölfarið.

IV.  Niðurstaða

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi. Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í 27. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er fjallað um rétt foreldris í fullu námi til fæðingarstyrks. Fram kemur í ákvæðinu að foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laganna skal foreldri sækja um fæðingarstyrk til Vinnumálastofnunar þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 4. maí 2021 með umsókn. Með tölvupósti 6. maí 2021 óskaði kærandi þess að fá greiðslu næstu mánaðamót. Þann 10. maí 2021 var kærandi upplýstur með tölvupósti að vinnsla umsókna tæki 3-5 vikur. Þá var kærandi látinn vita 2. júní 2021 að verið væri að vinna í umsókn hans. Þann 21. júní 2021 var kærandi upplýstur með bréfi að ekki væri hægt að afgreiða umsókn hans þar sem gögn vantaði með umsókn hans. Umbeðin gögn bárust frá kæranda 6. júlí 2021 og lauk afgreiðslu málsins 13. júlí 2021.

Með vísan til framangreind er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Fæðingarorlofssjóður hafi unnið markvisst í máli kæranda og veitt viðeigandi upplýsingar á biðtímanum. Með vísan til þess getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ekki er fallist á að afgreiðsla Fæðingarorlofssjóð í máli A, hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta