Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 234/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 2. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 234/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20050016

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. maí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Alsír (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. apríl 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 78. gr. laga um útlendinga. Til viðbótar krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 17. desember 2018. Með ákvörðun, dags. 10. maí 2019 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til […] á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 7. nóvember 2019, var ákvörðunin staðfest. Með úrskurði kærunefndar þann 17. febrúar 2020 var fallist á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans. Var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál hans til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 10. mars 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 24. apríl 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 12. maí 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 28. maí 2020 ásamt fylgigögnum. Viðbótargreinargerð barst frá kæranda þann 19. júní sl. og viðbótarupplýsingar þann 2. júlí sl. vegna fyrirspurnar kærunefndar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna fjölskyldu fyrrverandi eiginkonu sinnar.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til framburðar hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Kærandi hafi greint frá ofsóknum stjórnvalda vegna uppruna hans vegna þess að hann sé […] og vegna trúarsannfæringar, en hann sé kristinn. Þá hafi hann greint frá árásum og hótunum fjölskyldu fyrrverandi eiginkonu hans sem stjórnvöld í heimaríki hafi ekki verndað hann gegn og sem hafi leitt til þess að hann hafi lagt á flótta frá heimaríki. Kærandi sé frá [...] í Alsír […] og hafi búið þar þangað til hann hafi flúið landið. Hann sé stuðningsmaður [...], tilheyri minnihlutahópi í heimaríki og hafi lýst mismunun og fordómum […] af hálfu bæði arabísks meirihluta landsins sem og stjórnvalda. Hafi kærandi lýst því hvernig vinur hans hafi verið beittur alvarlegu ofbeldi fyrir það eitt að spila á gítar í kirkju, hvernig kirkjunni sem kærandi tilheyrði hafi verið lokað með valdi og hvernig kristnir söfnuðir og kristnir einstaklingar verði að fara huldu höfði í landinu. Þá hafi kærandi greint frá árásum og hótunum sem hann hafi orðið fyrir af hálfu fjölskyldu fyrrverandi eiginkonu sinnar. Þegar fjölskyldan hafi komist að því að hann væri ekki múslimi hafi þau tekið eiginkonu hans af heimili þeirra og gengið hart á eftir því með hótunum og ofbeldi að kærandi skipti um trú, m.a. hafi kæranda verið rænt í tvígang og farið með hann á afvikna staði til að ógna honum. Hafi kærandi reynt að leita aðstoðar lögreglunnar í heimaríki en vegna spillingar og áhrifa fyrrverandi tengdafjölskyldu hafi hann enga aðstoð fengið frá yfirvöldum. Þá kemur fram að kærandi sé nú giftur íslenskri konu.

Kærandi gerir athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Hann mótmæli skilningi Útlendingastofnunar á einu svara hans sem finna megi í hinni kærðu ákvörðun, þ.e. um að hann óttist ekki alsírsk yfirvöld, sem og því vægi sem svarinu sé gefið í ákvörðuninni. Byggir kærandi á því að þegar höfð sé í huga ítarleg frásögn hans af þeim margvíslegu ofsóknum sem hann hafi mátt þola vegna stöðu sinnar í heimaríki sé röksemdarfærsla stofnunarinnar ofureinföldun á stöðu og skoðunum hans. Þá sé ranglega farið með í hinni kærðu ákvörðun þegar því sé haldið fram að hann hafi ekki verið virkur í að boða út boðskap kristinnar trúar. Hafi hann á opinberum vettvangi breitt út boðskap kristinnar trúar og stuðlað að trúarskiptum þeirra sem aðhyllast íslamska trú. Samkvæmt umfjöllun í hinni kærðu ákvörðun feli slíkt í sér fangelsisrefsingu. Þá mótmæli kærandi því mati Útlendingastofnunar að hann hafi ekki stutt mál sitt varðandi ofangreindar ofsóknir gögnum en hann hafi bent sjálfur á fjölmargar heimildir máli sínu til stuðnings.

Varðandi stöðu mannréttindamála í Alsír, m.a. stöðu kristinna […] í landinu, vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar, en þar sé m.a. fjallað um refsingu þeirra sem stuðli að trúarskiptum einstaklings sem aðhyllist íslamska trú.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi uppfylli skilyrði ákvæðisins enda séu það m.a. stjórnvöld í heimaríki sem standi að ofsóknum og þá geti stjórnvöld ekki, eða vilji ekki, vernda hann fyrir ofsóknum fyrrverandi tengdafjölskyldu sinnar. Kærandi sé líkt og áður greinir af sérstökum kynþætti og sérstöku þjóðerni og sé ljóst að staða hans sé töluvert lakari en hjá hinum arabíska meirihluta. Þá bendi heimildir til þess að þjóðarbrot hans sé undirokað í heimaríki og að hann verði fyrir alvarlegri mismunun þar sökum uppruna síns. Þá hafi kærandi tekið upp kristna trú og sé trúboði en slíkt brjóti gegn alsírskum lögum. Samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna geti ofsóknir vegna trúarbragða verið af margvíslegum toga, m.a. alvarleg mismunun. Þær ofsóknir sem kristnir verði almennt fyrir í heimaríki og þær ofsóknir sem kærandi hafi sjálfur greint frá gangi mun lengra en það. Þá vísar kærandi til ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli nr. 2018-02530 þar sem umsækjanda frá Alsír hafi verið veitt alþjóðleg vernd vegna trúarsannfæringar sinnar. Hvað varðar ofsóknir fyrrverandi tengdafjölskyldu sinnar vísar kærandi til þess að alsírsk lög banni hjónaband múslimskrar konu og karlmanns sem sé ekki múslimi og sé því ljóst að kærandi og fyrrverandi eiginkona hans hafi brotið gegn þarlendum lögum. Fyrir utan þá spillingu sem loði við alsírsk stjórnvöld sé ljóst að þar sem hjónabandið hafi brotið gegn fjölskyldulöggjöf Alsír geti kærandi ekki búist við vernd af hálfu þarlendra stjórnvalda. Þær ofsóknir sem kærandi standi frammi fyrir í heimaríki sé vegna eðlis þeirra, dauði eða óhófleg frelsissvipting, alvarleg brot á ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs, réttinn til frelsis og banni við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð og refsingu, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Með því að senda kæranda yrði jafnframt brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Sé raunæf ástæða til að ætla að kærandi eigi á hættu að sæta alvarlegu ofbeldi eða dauða af hálfu fyrrverandi tengdafjölskyldu sinnar, ómannúðlegri og vanvirðandi refsingu yfirvalda í heimaríki vegna trúarsannfæringar sinnar sem og útskúfun og alvarlegri mismunun vegna uppruna síns. Beri heimildum um ástand mannréttindamála í heimaríki kæranda saman um að pyndingar og ill meðferð yfirvalda sé alvarlegt vandamál í landinu og að hart sé brugðist við þeim sem skeri sig frá meirihlutanum, t.d. þeim sem boða kristna trú.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli að útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðara almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til greinargerðar með frumvarpi til laganna en þar komi fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður kæranda og yfirvöld í heimaríki telji kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt í máli hans. Þá sé íslenskum stjórnvöldum jafnframt óheimilt að senda einstaklinga til ríkja sem hafi farið illa út úr Covid-19 faraldrinum, a.m.k. þangað til ljóst sé að hann hafi gengið yfir og samfélagið hafi jafnað sig. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skv. 78. gr. laga um útlendinga en kærandi sé giftur íslenskum ríkisborgara […]. Þá hafi hann stundað atvinnu hér á landi og verið virkur samfélagsþegn.

Þann 19. júní sl. barst kærunefnd viðbótargreinargerð kæranda þar sem hann gerir viðbótarkröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 17. desember 2018 og því séu liðnir rúmir 18 mánuðir frá því að hann hafi lagt fram umsókn sína en hann hafi ekki enn fengið lokaniðurstöðu hjá íslenskum stjórnvöldum. Byggir kærandi á því að hann uppfylli öll skilyrði ákvæðisins til útgáfu dvalarleyfis. Loks ítrekar kærandi þær kröfur sem settar voru fram í greinargerð til kærunefndar þann 27. maí sl. Fallist kærunefnd ekki á þær telji kærandi ljóst að hann falli nú undir gildissvið ákvæðis 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þann 29. júní sl. óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum frá kæranda, t.a.m. um trúboð hans í heimaríki sem og um hjúskap hans við fyrrverandi eiginkonu. Í svari kæranda, dags. 2. júlí sl., kemur fram að eiginkona hans hafi í upphafi ekki vitað að hann væri kristinn en hann hafi tjáð henni það eftir giftingu. Hafi ekki verið um trúarlega athöfn að ræða heldur […] og hafi þau skráð hjónaband sitt opinberlega. Hafi hann leitað til dómstóla til þess að skilja við eiginkonu sína og hafi dómari málsins fallist á þá beiðni hans. Hvað varðar trúboð hans í heimaríki þá vísar kærandi til þess að um óformlegt og óskipulagt trúboð hafi verið að ræða. Hafi það farið fram í samtölum við fólk sem hann hitti og hafi því hvorki verið skipulagt né hafi það farið fram opinberlega í gegnum miðla. Þá ítrekar kærandi að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki vegna trúar sinnar en að þær hafi ekki verið persónulegar, þ.e. yfirvöld hafi ekki leitað hans persónulega eins og fjölskylda fyrrum eiginkonu hans gerði á þessum tíma, heldur beindust ofsóknir yfirvalda gegn öllum í hans stöðu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað alsírsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé alsírskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Alsír m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • World Report 2020 – Algeria (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);
  • Algeria 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Algeria 2019 Report on International Religious Freedom (U.S. Department of State, 10. júní 2020);• Algeria 2018 Report on International Religious Freedom (U.S. Department of State, 21. júní 2019);
  • BTI 2018 Country Report Algeria (Bertelsmanns Stiftung, 1. janúar 2018);
  • Freedom in the World 2020 – Algeria (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Terrorism in Africa. A Quantitative Analysis (Totalförsvarets Forskningsinstitut, 1. janúar 2017);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer: situationen per den 30 juni 2019 (Utrikesdepartementet, 30. júní 2019);
  • Country Policy and Information Note Algeria: Background information, including actors of protection and internal relocation (UK Home Office, ágúst 2017);
  • Consideration of reports submitted by States parties under article 9 of the Convention, Combined twentieth and twenty-first periodic reports of States parties due in 2015: Algeria (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination (CERD), 23. ágúst 2016);
  • Algerie - ID-dokumenter og offentlig forvaltning (Landinfo, 11. maí 2015);
  • Algerie: Sikkerhet og terrorisme (Landinfo, 9. desember 2015) og
  • Country of Origin Information Report – Algeria (UK Home Office, 17. janúar 2013).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Alsír fjölflokka lýðveldi með tæplega 44 milljónir íbúa. Alsír lýsti yfir sjálfstæði frá Frakklandi árið 1962 og gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum sama ár. Ríkið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna árið 1963, mannréttindasáttmála Afríku árið 1987 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1989. Árið 1989 gerðist ríkið jafnframt aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Fyrrgreindar skýrslur gefa til kynna að helstu mannréttindabrot í ríkinu snúi að takmörkunum á funda, fjölmiðla- og félagafrelsi, skorti á sjálfstæði dómsvaldsins, óhóflegri valdbeitingu lögreglu, útbreiddri spillingu og refsileysi opinberra starfsmanna. Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram að þrátt fyrir að handahófskenndar handtökur séu refsiverðar samkvæmt lögum séu dæmi um að stjórnvöld noti óljós lagaákvæði eða löggjöf gegn hryðjuverkum til að þagga niður í eða handtaka einstaklinga sem gagnrýni stjórnvöld landsins opinberlega. Stjórnarskrá ríkisins kveði á um að allir eigi rétt á réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum og að gengið sé út frá því að einstaklingur sé talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð. Þar að auki sé sjálfstæði dómstóla tryggt í stjórnarskrá landsins. Fram kemur í skýrslu Freedom House frá 4. mars 2020 að dómstólaráð, sem leitt sé af forseta landsins, skipi dómara og saksóknara og að dómstólar verði gjarnan fyrir þrýstingi frá stjórnvöldum. Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram að dómstólar séu ekki í öllum tilvikum hlutlausir og séu jafnvel spilltir. Lögum samkvæmt liggi allt að tíu ára fangelsisvist við spillingu í opinberu starfi en stjórnvöld fylgi lögunum ekki eftir með fullnægjandi hætti og refsileysi stjórnvalda sé vandamál í landinu. Rétturinn til funda- og félagafrelsis sé verndaður í stjórnarskrá Alsírs. Allir opinberir fundir eða samkomur verði þó að fá samþykki stjórnvalda. Lögregla landsins leysi reglulega upp óheimilar samkomur og séu skipuleggjendur óheimilla samkoma handteknir og þeim haldið í allt að nokkrar klukkustundir. Þá kemur fram að friðsamleg fjöldamótmæli hafi verið haldin víða um landið alla þriðjudaga og föstudaga frá 22. febrúar 2019 en krafa mótmælenda séu stjórnarfarsbreytingar. Hafi mótmælin að mestu gengið áfallalaust fyrir sig en þó hafi komið fyrir að lögregla hafi beitt táragasi og vatni úr brunaslöngum til þess að halda stjórn á mótmælunum. […].

Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins kemur fram að almennt verði […] ekki fyrir mismunun í Alsír, en mismunun á grundvelli þjóðernis sé bönnuð samkvæmt stjórnarskrá landsins. Í skýrslu UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination frá 23. ágúst 2016 kemur fram að ríkisstjórn landsins leitist við að stuðla að efnahagslegum-, félagslegum- og menningarlegum réttindum Alsíringa. […].

Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 séu engar marktækar tilkynningar um aðstæður í alsírskum fangelsum sem bendi til þess að mannréttindabrot eigi sér stað innan þeirra.

Þá sé bannað samkvæmt alsírskum lögum að vista einstaklinga í varðhaldi í öðru húsnæði en því sem sé sérstaklega ætlað til varðhalds jafnframt sem húsnæðið þurfi að vera á skrá saksóknaraembættisins, sem hafi það hlutverk að fylgjast með aðstæðum í fangelsum. Þá heimili alsírsk stjórnvöld Alþjóðaráði Rauða krossins og Rauða hálfmánanum (e. International Committee of the Red Cross), sem og innlendum mannréttindasamtökum, að skoða aðstöðu fanga í fangelsum, á lögreglustöðvum og herstöðvum landsins. Þá komi jafnframt fram í skýrslunni að stjórnvöld í Alsír hafi á síðustu árum bætt aðstæður í fangelsum ríkisins til að uppfylla alþjóðleg viðmið. Jafnframt hafi aðgangur fanga að heilbrigðisaðstoð tekið framförum. Á síðastliðnum árum hafi stjórnvöld unnið að því að fjölga fangelsum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að eldri fangelsin fyllist.

Í skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi frá árunum 2018 og 2019 kemur fram að ákvæði um trúfrelsi sé í stjórnarskrá Alsír. Meira en 99% af íbúum landsins séu súnní-múslimar. Sé hverjum einstaklingi heimilt að iðka sína trú svo lengi sem hann virðir allsherjarreglu og reglur landsins. Guðlast sé refsivert samkvæmt lögum og þá sé það lögbrot ef einstaklingur sem ekki er múslimi reynir að fá eða fær múslima til að snúa frá trúnni. Stjórnvöld hafi ákært fimm kristna einstaklinga fyrir að reyna að fá múslima til að snúa frá trúnni sem og fyrir að hafa framkvæmt trúarathafnir á óheimilum stað. Í desember 2018 hafi einstaklingarnir verið sýknaðir fyrir dómi. Í mars 2018 hafi tveir kristnir einstaklingar verið dæmdir fyrir að hafa meira en 50 biblíur á sér en saksóknari hafði ásakað mennina um að hafa ætlað sér að fá múslima til að snúa af trúnni. Voru mennirnir dæmdir til þess að greiða sekt. Þá var kristinn trúarleiðtogi ásamt öðrum kristnum einstaklingi dæmdur til þriggja mánaða fangelsisrefsingar og sektargreiðslu fyrir að stuðla að trúskiptum múslima. Þá kemur fram að stjórnvöld hafi lokað átta kirkjum og hjúkrunarheimilum með tengsl við mótmælendakirkju Alsír (e. Protestant Church of Algeria) fyrir að hafa starfað án heimildar, fyrir útgáfu rita og fyrir brot á byggingarreglugerð. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2020 kemur fram að á árinu 2019 hafi yfirvöld lokað níu kristnum kirkjum. Hafi þáverandi innanríkisráðherra sagt að þær kirkjur sem yfirvöld hefðu lokað væru ekki með leyfi til að halda samkomur. Þá hafi kristnir leiðtogar lýst því hvernig sumir fjölskyldumeðlimir hafi áreitt múslima sem hefðu skipt um trú eða sýnt kristinni trú áhuga. Einhverjir leiðtogar kristinna hópa kváðust eiga í góðum samskiptum við múslima í samfélagi þeirra og átt í samstarfi við leiðtoga þeirra. Þá kemur fram að sumir einstaklingar sem hafi tekið upp kristna trú fari leynt með það vegna ótta um eigið öryggi og vandamála tengdum fjölskyldu, atvinnu og félagslegri stöðu. Þó séu aðrir sem lifi og rækti hina nýju trú sína opinberlega.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Samkvæmt viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun og greinargerð til kærunefndar er umsókn kæranda um alþjóðlega vernd byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu þar sem hann óttist ofsóknir af hendi fyrrum tengdafjölskyldu sinnar sem hafi mikil áhrif. Jafnframt óttist hann ofsóknir vegna trúarsannfæringar, en hann sé kristinn og hafi stundað trúboð. Þá tilheyri kærandi […], sem sé minnihlutahópur í Alsír.

Kærandi kveðst hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda og annarra aðila í heimaríki vegna trúarskoðana þar sem hann sé kristinnar trúar. Hann hafi verið í kristnum söfnuði í heimaríki og hafi kirkju hans verið lokað og vinur hans hafi verið beittur ofbeldi eftir að hafa spilað á gítar í kirkju. Þá hafi hann rætt við fólk um kristna trú og mælt með því að þeir myndu koma á samkomu hjá kirkjunni. Kærandi lagði fram tvö bréf til þess að styðja við þessa frásögn sína, annars vegar frá bróður hans og hins vegar frá vini hans. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur yfirfarið er ljóst að kristnir eru í miklum minnihluta í Alsír og hafa kristnir söfnuðir lent í vandræðum með að fá viðurkennda skráningu hjá yfirvöldum og leyfi til að halda samkomur. Þá sé það refsivert fyrir fólk af öðrum trúarhópum að stunda trúboð þar í landi, þ.e. stuðla að trúskiptum múslima. Refsingin sé sekt og allt að fimm ára fangelsi. Kærunefnd útlendingamála telur ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi sé kristinnar trúar og hafi rætt opinskátt við vini sína og fjölskyldu um kristna trú og þannig haft áhrif á trúarsannfæringu þeirra með þeim afleiðingum að þeir hafi tekið upp kristna trú. Kærandi kvaðst ekki óttast að verða settur í fangelsi og var frekar óljós um það hvort og þá hvernig yfirvöld hefðu vitneskju um að hann væri kristinnar trúar. Trúfrelsi er í Alsír og njóta öll trúarbrögð verndar í stjórnarskrá landsins sem verndar einnig rétt einstaklinga til þess að iðka trú sína. Þrátt fyrir að stjórnvöld takmarki að einhverju leyti starfsemi trúfélaga í ríkinu verður ekki séð að kristnir einstaklingar sæti áreiti eða mismunun sem jafnað verður til ofsókna sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá er það mat kærunefndar að ekki verði lagt til grundvallar að kærandi hafi stundað trúboð með skipulögðum hætti og eigi af þeim sökum yfir höfði sér refsingu, einkum með vísan í frásögn kæranda sjálfs sem og gagna um heimaríki kæranda sem benda til þess að refsingar fyrir trúboð séu fátíðar og þrátt fyrir að einstaklingar séu handteknir og ákærðir í einhverjum tilfellum fyrir trúboð þá hafi dómstólar sýknað einstaklinga eða dæmt vægari refsingar í mörgum tilvikum.

Að því er varðar frásögn kæranda af því að hafa sætt ógnunum og ofbeldi af hálfu fyrrverandi tengdafjölskyldu sinnar vegna trúar hans hefur kærandi ítrekað vísað til umræddra atriða í viðtölum hjá Útlendingastofnun við meðferð máls hans. Telur kærunefnd að leggja megi þann framburð til grundvallar við úrlausn málsins. Hins vegar benda fyrirliggjandi gögn málsins til þess að kærandi geti leitað aðstoðar alsírskra yfirvalda vegna aðstæðna sinna. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem leiða að því líkur að ítök tengdafjölskyldu hans í heimaríki séu slík að hann geti ekki leitað verndar lögreglu vegna áreitis af þeirra hálfu. Fær það m.a. stuðning í framburði kæranda sjálfs um að hann hafi getað fengið skilnað við eiginkonu sína þar sem hann hafi haft lögin sín megin. Að mati kærunefndar hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki skorti vilja eða getu til að veita kæranda viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir.

Kærandi hefur borið fyrir sig að vera í minnihlutahópi í Alsír en hann sé […]. Líkt og áður greinir er mismunun bönnuð í stjórnarskrá Alsír. Þá benda framangreindar landaupplýsingar ekki til þess að […] eigi á hættu á mismunun eða áreiti sem nái því alvarleikastigi að fela í sér ofsóknir eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 37., sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærendur séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verði þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kærenda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 17. desember 2018. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 2. júlí 2020, eru liðnir rúmir 18 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi framvísaði alsírsku vegabréfi vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd árið 2018. Liggur afrit af því fyrir í gögnum málsins. Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er það mat kærunefndar að ákvæði a- til d-liðar 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. 

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest.

The Directorate of Immigration is instructed to issue the appellant a residence permit based on article 74(2) of the Act of Foreigners. The decision of the Directorate related to his application for international protection is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                    Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta