Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 20/2014, úrskurður 9. apríl 2014

Mál nr. 20/2014
Eiginnafn: Mathilda

 Hinn 9. apríl 2014 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 20/2014 en erindið barst nefndinni 28. febrúar:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Eiginnafnið Mathilda (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Mathildu. Afbökun á rótgrónu nafni er eitt af því sem getur brotið í bág við íslenskt málkerfi. Á mannanafnaskrá er nafnið Matthilda en Mathilda getur ekki talist vera afbökun þess þar sem fyrrnefnda nafnið (Matthilda) er einnig nýlegt í málinu og var ekki tekið upp í mannanafnaskrá fyrr en árið 2007. Framburður nafnstofnsins Mat- er einnig í samræmi við rithátt hans, þ.e. með löngu a-hljóði og samræmist íslenskum hljóðskipunarreglum. Nafnið telst einnig að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Mathilda (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta