Hoppa yfir valmynd
15. maí 2017 Matvælaráðuneytið

Ísland og EFSA leggjast á eitt gegn sýklalyfjaónæmi

Rannsóknir og vísindi - mynd

Í gær tók Matvælastofnun á móti sendinefnd Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA), með Dr. Bernhard Url forstjóra í broddi fylkingar. Tilefni heimsóknar EFSA til Íslands er að ræða sameiginlegar áherslur á sviði matvælaöryggis, lýð- og dýraheilsu og stuðla að samstarfi með íslenskum yfirvöldum og vísindasamfélagi. Helsta umfjöllunarefni heimsóknarinnar er vaxandi þol baktería gegn sýklalyfjum, ein helsta ógn sem steðjar að lýð- og dýraheilsu í dag. 

Sendinefndin hefur fundað með fulltrúum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og velferðarráðuneytisins um aðferðir og framtíðarsýn EFSA á sviði vísindasamstarfs, ásamt aðgerðum EFSA og aðildarríkja til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og matarsjúkdóma.

Dr. Url hefur einnig rætt við íslenska sérfræðinga á sviði matvælaöryggis, lýð- og dýraheilsu og íslenska sérfræðinga í vísindanefndum og tengslaneti EFSA. Þeim var gefinn kostur á að ræða þátttöku Íslands í vísindasamstarfi, rannsóknir, styrki og önnur verkefni er varða áhættumat og upplýsingagjöf innan Evrópu. EFSA og íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að hefja samstarf í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi með rannsókn á lyfjaþoli E. coli í gegnum DNA raðgreiningu, í samstarfi við norræn aðildarríki Evrópusambandsins.

Þessari fyrstu heimsókn EFSA til Íslands lýkur með opinni ráðstefnu sem haldin er í samstarfi við Matvælastofnun um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi. Ráðstefnan fjallar um stöðu sýklalyfjaónæmis á Íslandi og í Evrópu og leiðir til varnar frekari útbreiðslu á lyfjaþolnum bakteríum í matvælum, dýrum og mönnum. Dr. Url leggur áherslu á að sýklalyfjaónæmi sé alþjóðlegt vandamál sem krefst alþjóðlegrar lausnar. Það leysist eingöngu með samstarfi. EFSA vinnur náið með systurstofnunum og aðildarríkjum í að útvega stefnumótandi aðilum innan Evrópu vísindaráðgjöf með neytendavernd og dýraheilbrigði að leiðarljósi.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta