Nr. 463/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 6. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 463/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18080027
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 21. ágúst 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. ágúst 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa henni frá landinu.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á Íslandi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara gerir kærandi kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 7. mars 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 12. mars 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 3. apríl 2018 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 15. ágúst 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 21. ágúst 2018 og kærði kærandi ákvörðunina samdægurs til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd 31. ágúst 2018 og viðbótargögn þann 22. og 26. október sl.
Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins, auk þess sem lögð var fram beiðni um öflun álits sálfræðings á andlegu ástandi kæranda sem og að nefndin sendi fyrirspurn til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sbr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Þá taldi nefndin, á grundvelli gagna málsins, að ekki væri ástæða til að afla sálfræðimats eða upplýsinga frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og henni skyldi vísað frá landinu. Flutningur kæranda til Svíþjóðar fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Hins vegar var það mat stofnunarinnar að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd því synjað um efnismeðferð, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Svíþjóðar.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 23. apríl sl. þar sem kærandi greindi frá aðstæðum sínum. Kærandi sé ríkisborgari […] og hafi upphaflega búið þar í landi ásamt fjölskyldu sinni. Er hún hafi verið [...]ára hafi faðir hennar verið myrtur af [...] sínum. Í kjölfarið hafi kærandi ásamt móður sinni og bróður flúið til […]. Kærandi hafi búið í […] í fjórtán ár. Þar hafi hún sætt ofbeldi af hálfu móðurbróður síns sem jafnframt hafi viljað þvinga sig í hjónaband með eldri karlmanni. Kærandi hafi flúið til Evrópu og sótt um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Kærandi hafi fengið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Svíþjóð og fyrir liggi ákvörðun sænskra yfirvalda þess efnis að vísa henni til […].
Hvað varðar málsástæður og lagarök kæranda bendir hún á að ótækt sé að senda hana frá Íslandi til Svíþjóðar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem hún njóti m.a. verndar 42. gr. laga um útlendinga og sambærilegrar grundvallarreglu þjóðaréttar sem leggi bann við beinni endursendingu einstaklings til ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu (e. direct refoulement) og jafnframt endursendingu til þriðja ríkis ef fyrirsjáanlegt er að það muni senda hann áfram í slíka hættu (e. indirect refoulement). Kærandi gerir ítarlega grein fyrir aðstæðum í […], m.a. hvað varðar stöðu og réttindi kvenna þar í landi, með hliðsjón af alþjóðlegum skýrslum. Kærandi, sem sé ung kona, ein á ferð og þekki ekki til í […], standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð verði hún endursend til Svíþjóðar þar sem hennar bíði brottvísun til heimaríkis.
Kærandi gerir grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum, auk þess að fjalla um hvað átt sé við með einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi, sem sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sé jafnframt ung og einstæð kona og eigi á hættu á að sæta ýmiss konar misnotkun, kúgun eða ofbeldi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi í þessu samhengi sérstaklega nefnt konur sem hafi lent í kynferðislegu ofbeldi, ungar konur og einstæðar mæður. Því skuli mál kæranda tekið til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Til stuðnings sjónarmiðum kæranda er vísað til fyrirliggjandi úrskurða kærunefndar útlendingamála, þ.e. nr. 446/2016, nr. 553/2017, nr. 582/2017 og nr. 241/2016.
Þá lýsir kærandi þeirri afstöðu að Útlendingastofnun hafi ekki fylgt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð máls hennar. Við mat á aðstæðum kæranda hafi Útlendingastofnun ekki rannsakað aðstæður í heimaríki hennar með fullnægjandi hætti og þá hafi stofnunin ekki tekið afstöðu til beiðni kæranda um að fá mat sálfræðings á líðan hennar. Verði ekki fallist á kröfu kæranda um að umsókn hennar um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi telur kærandi að kærunefnd beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og senda málið til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, 2. mgr. 23. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.
Kærandi gerir einnig nokkrar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi bendir m.a. á að hún sé ung kona af […] ættum sem hafi lítil sem engin tengsl við heimaríki sitt. Þá hafi hún ítrekað þolað ofbeldi, kúgun og verið ein á flótta. Í komunótum frá sálfræðingi komi fram að kærandi sé […]. Útlendingastofnun hafi metið kæranda í sérstaklega viðkvæmri stöðu en þó talið hægt að senda hana til Svíþjóðar. Þar í landi gæti kærandi t.d. lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun hafi þó m.a. ekki skoðað hvort kærandi væri í aðstöðu til að leggja fram slíka umsókn í ljósi persónulegra einkenna sinna. Vegna andlegs ástands kæranda og takmarkaðrar gjaldfrjálsrar lögfræðiaðstoðar muni hún eiga erfitt með að sækja um og halda uppi umsókn um viðbótarvernd í Svíþjóð. Til stuðnings framangreindu vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 446/2016.
Þá gerir kærandi athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Í hinni kærðu ákvörðun hafi stofnunin tekið fram að frásögn kæranda um ástæður þess að andleg heilsa hennar væri slæm væri að mestu bundin við […] og […]. Þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar hafi varðað endursendingu til Svíþjóðar yrði einkum byggt á því sem snerti aðstæður þar í landi, þó að jafnframt yrði litið til frásagnar kæranda varðandi […] og […]. Kærandi sjái ekki hvaða þýðingu framangreind sjónarmið Útlendingastofnunar hafi, enda skipti það m.a. ekki máli hvar ofbeldi eigi sér stað við mat á því hvort umsækjandi teljist til einstaklings í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.
Kærandi bendir m.a. jafnframt á að við meðferð umsóknar hennar um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hafi sænsk stjórnvöld ekki lagt heildstætt mat á aldur hennar. Við komuna til Svíþjóðar hafi kærandi kvaðst vera […] ára gömul, en hún hafi ekki þekkt fæðingardag sinn og ekki haft í fórum sínum skilríki eða önnur gögn er sýnt gætu fram á aldur hennar. Fæðingardagur kæranda hafi verið skráður […]. Þrátt fyrir óljósar upplýsingar um aldur hennar hafi sænsk stjórnvöld þó metið kæranda eldri en 18 ára, og fæðingarári hennar breytt í […]. Kærandi telur að sænskum stjórnvöldum hafi borið að framkvæma ítarlegra mat á aldri kæranda en annars ákvarða í máli hennar líkt og um fylgdarlaust barn hafi verið að ræða. Af hálfu kæranda er því haldið fram að þau gögn sem kærandi hafi skilað inn frá Svíþjóð séu dæmi um harða stefnu sænskra stjórnvalda hvað viðkemur umsóknum um alþjóðlega vernd frá […] og þau gefi til kynna hvaða aðstæður bíði kæranda verði henni snúið aftur til Svíþjóðar.
Enn fremur fjallar kærandi um ákvæði 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 með síðari breytingum og hvernig Útlendingastofnun hafi beitt ákvæðinu í hinni kærðu ákvörðun. Kærandi bendir m.a. á að af úrskurðum kærunefndar útlendingamála sé ljóst að nefndin hafi við túlkun sína á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga gert mun minni kröfur um alvarleika en gerðar séu í umræddri reglugerð við mat á heilsufari og sérstökum ástæðum. Þá sé m.a. ljóst af lögskýringargögnum með 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga að skilyrði reglugerðarinnar um sérstakar ástæður séu of þröng. Hvergi sé t.d. að finna kröfur um hátt alvarleikastig erfiðleika eða alvarlega mismunun. Kröfur sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar hafi því enga stoð í lögum og gangi gegn lögmætisreglunni.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.
Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Svíþjóðar er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.
Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.
Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.
Greining á hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu
Samkvæmt gögnum málsins er kærandi ung kona, einstæð og barnlaus. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 4. apríl sl. greindi kærandi frá því að hún hafi þegið þjónustu sálfræðings eða geðlæknis í Svíþjóð. Í viðtali hjá stofnuninni þann 23. apríl 2018 greindi kærandi m.a. frá því að hún […]. Þá hafi hún […]. Kærandi hafi […]. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. […], kemur m.a. fram að […].
[…]. Í samskiptaseðli frá Göngudeild sóttvarna, dags. […], kemur m.a. fram að kærandi gráti daglega og hafi óskað eftir að hitta sálfræðing með reglulegu millibili. Þá er þess m.a. getið í samskiptaseðli frá sálfræðingi á Göngudeild sóttvarna, dags. […], að kærandi sé […]. Þá benda gögn sem liggja fyrir um samskipti milli sálfræðings kæranda og talmanns hennar að sálfræðingur meti hana í nokkurri þörf fyrir sérstaka aðstoð.
Samkvæmt framansögðu þá liggja fyrir í málinu læknisfræðileg gögn sem varpa ljósi á heilsufar kæranda og ljóst er af þeim að kærandi glímir við talsverða andlega erfiðleika og hefur haft þörf fyrir læknis- og sálfræðimeðferð hér á landi. Með vísan til gagna málsins er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu slíkar að hún teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.
Aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
- Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- Annual Report on the situation of Asylum in the European Union 2017 (European Asylum Support Office, 18. júní 2018);
- Asylum Information Database, National Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, 28. mars 2018);
- Freedom in the World 2018 – Sweden (Freedom House, 28. maí 2018);
- Good Advice for Asylum Seekers in Sweden (The Swedish Network of Refugee Support Group, janúar 2018);
- Observations by the United Nations High Commissioner for Refugees Regional Representation for Northern Europe on the draft law proposal on restrictions of the possibility to obtain a residence permit in Sweden (The UN High Commissioner for Refugees, 10. mars 2016);
- Sweden 2017 Human Rights Report (United States Department of State, 20. apríl 2018);
- Upplýsingar af vefsíðu sænsku útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).
Í framangreindum gögnum kemur fram að sænska útlendingastofnunin (s. Migrationsverket) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Umsækjandi um alþjóðlega vernd á þess kost að bera synjun útlendingastofnunarinnar á umsókn sinni undir stjórnsýsludómstól (s. Migrationsdomstolen) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen). Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni hjá sænsku útlendingastofnuninni og framangreindum dómstólum, eiga þess kost að leggja fram viðbótarumsókn hjá sænsku útlendingastofnuninni, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef nýjar upplýsingar eða ný gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst verulega eða verulegir annmarkar hafa verið á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði fyrir viðbótarumsókn verið uppfyllt. Synjun sænsku útlendingastofnunarinnar um að taka viðbótarumsókn til skoðunar má kæra og engin takmörk eru á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Umsækjendur eiga rétt á takmarkaðri félagslegri aðstoð á meðan viðbótarumsókn er til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.
Svíþjóð er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt framangreindum skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Svíþjóð eiga þeir rétt á húsnæði, mataraðstoð og vasapeningum, geti þeir ekki framfleytt sér sjálfir. Þá kemur fram á áðurnefndri heimasíðu sænsku útlendingastofnunarinnar og í gagnagrunni Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð er tryggður aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu. Sveitarfélagið sem umsækjandi um alþjóðlega vernd dvelst í hefur milligöngu um að útvega umsækjanda lækni og aðra heilbrigðisþjónustu við hæfi. Þá er tekið tillit til þarfa einstaklinga sem teljast vera í viðkvæmri stöðu, þ. á m. að því er varðar sérfræðiaðstoð. Greiða þarf vægt komugjald vegna heimsóknar á heilsugæslu en innlögn á spítala er umsækjanda að kostnaðarlausu. Fari kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu fram úr ákveðinni upphæð er hægt að óska eftir fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Umsækjandi um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, sem fengið hefur neikvæða niðurstöðu í máli sínu hefur aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu fram að brottför en nýtur hvorki fjárhagsstuðnings til að greiða fyrir slíka þjónustu né lyf.
Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að sænsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd leggja fram umsókn um vernd í Svíþjóð í fyrsta skipti eiga þeir rétt á lögfræði- og túlkaþjónustu án endurgjalds þegar umsókn er til meðferðar hjá sænsku útlendingastofnuninni og á kærustigum málsins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga hins vegar ekki rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds við að leggja fram viðbótarumsókn en þeir geta átt rétt á að fá tilnefndan lögmann ef sænska útlendingastofnunin samþykkir að taka viðbótarumsóknina til skoðunar. Endurgjaldslaus túlkaþjónusta er ekki í boði við framangreinda málsmeðferð. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta einnig leitað til frjálsra félagasamtaka, t.d. ráðgjafarmiðstöðvar (s. Rådgivningsbyrån) sem veitir lögfræðiaðstoð og ráðgjöf.
Að mati kærunefndar bera gögn málsins það með sér að í Svíþjóð sé almennt veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement), sbr. IV. kafli sænsku útlendingalaganna (s. Utlänningslagen 2005:716). Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér, þ.m.t. gögn sem kærandi hefur lagt fram varðandi mál sitt í Svíþjóð, benda eindregið til þess að málsmeðferð sænskra yfirvalda sé fullnægjandi og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd, þ.m.t. umsækjendum frá […], viðunandi úrræði til að tryggja að réttur þeirra sé ekki brotinn og að einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður þeirra.
Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Svíþjóð bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og að þau úrræði séu raunhæf og virk, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þótt fyrir liggi að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinn um alþjóðlega vernd telur kærunefnd að gögn málsins gefi ekki til kynna að endursending kæranda til heimaríkis sé í andstöðu við 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.
Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda
Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hennar verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í greinargerð bendir kærandi m.a. á að meðferð eða úrlausn sænskra stjórnvalda eða dómstóla í máli hennar, einkum hvað varðar greiningu á aldri hennar og aðstæðum í heimaríki, hafi verið ófullnægjandi. Hvað varðar aldur kæranda bendir kærunefnd á að ákvörðun í máli hennar hér á landi sé m.a. tekin á þeim forsendum að kærandi sé fullorðinn einstaklingur og að fæðingardagur kæranda sé sá sami og kærandi hafi sjálf tekið fram. Í máli kæranda sé tekið mið af því að kærandi sé ung, þrátt fyrir að hún hafi verið fullorðin í skilningi íslenskra laga við komu hennar hingað til lands.
Nefndin áréttar að framangreindar landaupplýsingar um aðstæður í Svíþjóð benda til þess að kærandi geti lagt fram viðbótarumsókn, svo sem ef fram komi upplýsingar sem áhrif geti haft á mál hennar eða ef fyrri málsmeðferð eða úrlausn hafi verið ófullnægjandi. Þá geti kærandi eftir atvikum leitað ásjár þarlends umboðsmanns (s. Riksdagens ombudsman). Í framangreindum upplýsingum um aðstæður í Svíþjóð, þ.e. hvað varðar viðbótarumsókn, er þess þó m.a. getið að umsækjendur njóti ekki endurgjaldslausrar lögfræðiaðstoðar við að leggja fram slíka umsókn og þá sé gjaldfrjáls aðstoð túlks ekki í boði við málsmeðferðina. Telur nefndin því ljóst að kærandi yrði að reka mál sitt sjálf fyrir sænsku Útlendingastofnuninni, a.m.k. fyrst um sinn, en sé viðbótarumsókn samþykkt getur kærandi átt rétt á að fá tilnefndan lögmann.
Að mati nefndarinnar benda gögn málsins þó ekki til þess að heilsufar kæranda eða aðstæður hennar að öðru leyti séu þess eðlis að kærandi geti ekki sjálf lagt fram og haldið uppi slíkri umsókn. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd t.d. leitað aðstoðar hjá frjálsum félagasamtökum, líkt og rakið er að ofan í umfjöllun um aðstæður í Svíþjóð. Þó að túlkaþjónusta sé ekki í boði við meðferð viðbótarumsóknar bendir nefndin til hliðsjónar á að kunnátta kæranda í ensku tungumáli er ágæt, líkt og hún greindi frá í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 4. apríl sl. Telur nefndin því að leggja megi til grundvallar að kærandi sé a.m.k. fær um að hafa nokkur samskipti á því tungumáli, t.d. við starfsmenn sænskra félagasamtaka eða eftir atvikum stjórnvalda þar í landi, ákveði hún að leggja fram viðbótarumsókn.
Samkvæmt ofangreindu glímir kærandi við nokkur andleg veikindi sem þegar hefur verið greint frá. Það er þó mat kærunefndar, á grundvelli gagna málsins, að aðstæður kæranda teljist ekki til mikilla og alvarlegra veikinda sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hennar sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði fram hjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Einnig telur kærunefnd að af þeim gögnum sem nefndin hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð megi ráða að umsækjendur hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og er það mat kærunefndar að kærandi komi til með að hafa aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar í landi.
Í greinargerð kæranda er til rökstuðnings kröfum hennar og sjónarmiðum m.a. vísað til þriggja úrskurða kærunefndar útlendingamála, þ.e. nr. 446/2016 frá 10. nóvember 2016, nr. 582/2017 frá 24. október 2017 og nr. 553/2017 frá 10. október 2017, þar sem fallist var á kröfu kærenda, sem áður höfðu sótt um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, um að taka umsókn þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar benda gögn málsins ekki til þess að veikindi kæranda séu þess eðlis og jafnalvarleg og í framangreindum málum. Fellst nefndin því ekki á að þessir úrskurðir hafi fordæmisgildi í þessu máli.
Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 23. apríl 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hún lagði fram umsókn sína þann 7. mars 2018.
Rannsóknarregla stjórnsýslulaga
Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar, m.a. með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað mál kæranda með fullnægjandi hætti, t.d. hvað varðar aðstæður í heimaríki hennar og þá hafi ekki verið tekin afstaða til beiðni kæranda um sálfræðimat. Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemd við rannsókn málsins. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.
Gildistaka breytinga á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017
Með reglugerð nr. 276/2018, sem tók gildi 14. mars 2018 voru gerðar breytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Sem fyrr segir telur kærandi breytingarreglugerðina m.a. skorta lagastoð og þá séu skilyrði reglugerðarinnar hvað varðar sérstakar ástæður of þröngar í ljósi lögskýringargagna og úrskurða kærunefndar útlendingamála. Þá kveður kærandi m.a. að kærunefnd hafi gert vægari kröfur um alvarleika við mat á því hvort heilsufar teljist til sérstakra ástæðna, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Tilvitnuð ákvæði reglugerðar nr. 276/2018 eru sett með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem segir að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um framkvæmd 36. gr. laganna. Löggjafinn hefur framselt ráðherra vald til að útfæra framangreind ákvæði nánar og ljóst að reglugerðina skortir ekki lagastoð. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja henni um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg eins og að framan hefur verið lýst. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessar athugasemdir kæranda.
Frávísun
Kærandi kom hingað til lands þann 7. mars 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi skal flutt til Svíþjóðar eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Í máli þessu hafa sænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hennar um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Svíþjóðar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Erna Kristín Blöndal Árni Helgason