Haltur leiðir blindan
Ágætu tilheyrendur.
Ég vil byrja á því að óska þeim Bjarka Birgissyni og Guðbrandi Einarssyni innilega til hamingju með þann árangur sem þeir hafa náð hér í dag með því að ljúka göngu sinni í kringum landið. Við hittumst síðast við Mývatn þar sem þeir höfðu nýlokið göngu sinni um öræfin og voru glaðhlakkalegir á leið í sund. Þetta ferðalag félaganna, um 1100 km á 46 dögum, er mikið þrekvirki. Það eru ekki margir ófatlaðir einstaklingar sem gætu tekist á við áskorun af þessu tagi. Árangur þeirra Bjarka og Guðbrands er hálfu meiri þar sem þeir, þrátt fyrir fötlun sína, hafa tekist á við verkefni sem þaulreyndir göngu- og hlaupagarpar myndu telja sig fullsæmda af.
Með því að takast á við þetta verkefni undir yfirskriftinni Haltur leiðir blindan hafa Bjarki og Guðbrandur sýnt okkur öllum fram á það að rétt hugarfar og jákvæð lífsafstaða getur fleytt hverjum sem er yfir erfiðustu hindranir. Þeir eru því ekki einungis fyrirmyndir fyrir fólk með fötlun heldur einnig hina sem ekki eru fatlaðir.
Með göngu sinni hafa þeir Bjarki og Guðbrandur varpað ljósi á ýmis atriði sem skipta fólk með fötlun miklu máli í daglegu lífi þess. Mörg þessara atriða skipta kannski ekki svo miklu máli við fyrstu sýn, en eru þó veruleg hindrun fyrir fólk með fötlun við að komast leiðar sinnar og hafa aðgang að öllu því sem nútímasamfélag býður þegnum sínum upp á. Þeir hafa einnig varpað ljósi á það hve miklu máli aðgengi að byggingum og hvers kyns samgöngum skiptir þá sem eru hreyfihamlaðir. Einnig hve miklu máli það skiptir fyrir þá sem eru andlega fatlaðir að hafa möguleika til þess að geta valið sér lífsfarveg og tekist á við þá ábyrgð sem því fylgir.
Tilgangur ferðar þeirra Bjarka og Guðbrands um landið var meðal annars að kynnast lífi og aðstæðum fatlaðra barna og barna sem eru að takast á við langvarandi og erfið veikindi. Samhliða vildu þeir kynnast möguleikum fatlaðra til náms, menningarþátttöku og atvinnu og hvernig hægt sé að yfirvinna hindranir með réttum hjálpartækjum, þjálfun og stuðningi.
Það má segja að með þessu afreki sínu hafi þeir Bjarki og Guðbrandur kynnt fyrir okkur þá einföldu staðreynd að trúin ber okkur hálfa leið í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur. Jákvætt hugarfar og skilningur eru því lykilatriði á þessari vegferð.
Ég þakka Bjarka og Guðbrandi fyrir framlag þeirra til að breyta viðhorfum og viðmóti í garð fólks með fötlun og með því móti veita okkur nýja sýn á stöðu fatlaðra á Íslandi.