Nr. 120/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 20. maí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 120/2020
í stjórnsýslumálum nr. KNU20010030 og KNU20010031
Beiðni [...] um endurupptöku
I. Málsatvik
Þann 16. janúar 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 23. september 2019 um að taka ekki umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.
Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 20. janúar 2020. Þann 27. janúar 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Jafnframt var óskað eftir frestun réttaráhrifa. Þann 3. febrúar sl. barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn þann 10. og 17. febrúar, 6. apríl og 19. maí 2020.
Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir aðallega á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Þá telji kærandi að málsmeðferðarreglur reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin) hafi verið brotnar sem og málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga.
Byggir kærandi á því að ranglega hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að Portúgal beri ábyrgð á umsókn hans enda hafi hann fengið útgefið dvalarleyfi í Frakklandi sem hafi verið endurnýjað ítrekað. Hann hafi dvalið þar í rúmlega 10 ár og m.a. stundað þar atvinnu. Byggir kærandi á því að ef stjórnvöld hefðu gætt að rannsóknarskyldu sinni og að andmælarétti kæranda þá hefðu þau ekki tekið efnislega ranga ákvörðun í máli hans. Kærandi hafi ítrekað upplýst stjórnvöld um að hann hafi haft dvalarleyfi í Frakklandi en stjórnvöld hafi hundsað þessar upplýsingar. Þá hafi hvergi komið fram í beiðni um viðtöku kæranda til franskra stjórnvalda að hann hafi upplýst íslensk stjórnvöld um að hann hafi haft dvalarleyfi í Frakklandi síðastliðin ár. Ákvörðun stjórnvalda að hundsa upplýsingar frá kæranda hafi leitt til þess að beiðni stofnunarinnar um endurviðtöku kæranda hafi verið byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum. Í ljósi þessa telji kærandi að ákvörðun um endursendingu hans til Portúgal sé brot gegn ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar og rannsóknarskyldu stjórnvalda. Í þessu samhengi vísar kærandi m.a. til dóms Evrópudómstólsins í máli nr. C-63/15 frá 6. júní 2016. Þá byggir kærandi á því að vegna brota íslenskra stjórnvalda á rannsóknarskyldunni hafi ábyrgð franskra stjórnvalda fallið niður, sbr. 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar nr. 1560/2003 frá 2. september 2003, um nákvæmar reglur um beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. breytingarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 118/2014. Vísar kærandi m.a. til dóms Evrópudómstólsins í máli nr. C-47/17 og C-48/17 frá 13. nóvember 2018. Þá byggir kærandi á því að framlagðar upplýsingar um dvalarleyfi sitt í Frakklandi séu forsenda fyrir endurupptöku máls hans, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Jafnframt byggir kærandi á því að rannsóknarreglan, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, hafi verið brotin þar sem að ófullnægjandi mat hafi verið lagt á aðstæður hans. Byggir kærandi m.a. á því að ranglega hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að hann sé ekki einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá telji kærandi að rökstuðningur Útlendingastofnunar er varðar mat á viðkvæmri stöðu hans hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til rökstuðnings stjórnvalda, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, en rökstuðningi Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant og á köflum þversagnakenndur. Í því sambandi byggir kærandi jafnframt á því að stofnuninni hafi verið óheimilt að koma í veg fyrir að aflað yrði faglegs sálfræðimats á andlegu ástandi kæranda og að það hafi verið í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þá hafi kærandi nú lagt fram ný heilbrigðisgögn sem staðfesti m.a. að hann glími við áfallastreituröskun og sjálfskaðahegðun. Telur kærandi að þessi nýju gögn staðfesti að Útlendingastofnun hafi lagt ófullnægjandi mat á heilsufar kæranda og þannig brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá bendir kærandi á að í úrskurði kærunefndar útlendingamála sé hvergi að finna sjálfstæða umfjöllun um það hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Telur kærandi að um frávik í málsmeðferð nefndarinnar sé að ræða sem sé í andstöðu við 11. gr. stjórnsýslulaga enda hafi nefndin í sambærilegum málum ávallt lagt sjálfstætt mat á eða tekið til skoðunar mat stofnunarinnar er þetta varðar. Vísar kærandi í þessu sambandi til dóms héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6459/2019 frá 20. desember 2019.
Þá byggir kærandi á því að stjórnvöld hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að engar sérstakar ástæður mæli með beitingu 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi annars vegar til þess að hefði heildstætt mat verið framkvæmt á heilsufari hans þá hefði það leitt réttilega í ljós að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Hins vegar vísar kærandi til þess að með því að byggja mat sitt eingöngu á viðmiðunarreglum reglugerðar nr. 276/2018 hafi stjórnvöld ekki framkvæmt skyldubundið mat samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda takmarki reglugerðin óhóflega mikið möguleika stjórnvalda til að framkvæma einstaklingsbundið mat á umsóknum um alþjóðlega vernd. Í því samhengi fjallar kærandi um einstaklingsbundnar aðstæður sínar og aðstæður í Portúgal og vísar m.a. til greinargerða á fyrri stigum málsins. Byggir kærandi á því að hefði heildstætt mat verið framkvæmt á aðstæðum hans í Portúgal þá hefði það leitt til þeirrar niðurstöðu kærunefndar að hann muni eiga erfitt uppdráttar í Portúgal og að staða hans verði verulega síðri en almennings þar í landi. Vísar kærandi jafnframt til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/2012) máli sínu til stuðnings.
Kærandi byggir jafnframt á því að mat stjórnvalda á aðstæðum hans, verði hann sendur til Portúgal, sé ófullnægjandi enda myndi endursending hans leiða til brots gagnvart 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Byggir kærandi aðallega á því að heildarmat á bæði almennum aðstæðum í Portúgal og á einstaklingsbundnum aðstæðum hans geri það að verkum að alvarleikastig í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu yrði náð ef hann yrði sendur til Portúgal. Beri að taka tillit til alvarlegrar andlegrar og líkamlegrar heilsu kæranda og nauðsyn þess að hann fái sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Þá eigi hann á hættu heimilisleysi og atvinnuleysi við endurkomu til Portúgals.
Byggir kærandi á því að vegna brots gegn rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, hefðu stjórnvöld getað komist að þeirri niðurstöðu að ekki eigi að beita 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi í þessu samhengi til dóms héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3973/2018 frá 25. nóvember 2019. Vegna framangreinds telji kærandi að mál hans hafi ekki verið nægilega upplýst og að ákvörðunin sé byggð á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga enda hafi kærandi sýnt fram á að endursending hans til Portúgal muni leiða til óafturkræfra afleiðinga fyrir sig.
Auk þess byggir kærandi á því að ákvæði 32. gr. a reglugerðar nr. 276/2018 sé ekki að efni til í samræmi við hina stjórnskipulegu lögmætisreglu, þar sem viðmiðunarreglur í ákvæðinu geri strangari kröfu um hvað teljast vera sérstakar ástæður en leiða af hinni efnislegu túlkun, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af þessari ástæðu byggir kærandi á því að stjórnvöldum hafi verið óheimilt að beita ákvæðum reglugerðarinnar í máli hans. Kærandi bendir m.a. á að fyrir gildistöku reglugerðarinnar hafi einstaklingsbundið mat á heilsu og áhrif endursendingar á heilsu umsækjanda, óháð heilbrigðiskerfi í viðtökuríki, ráðið niðurstöðu. Vísar kærandi í tiltekna úrskurði kærunefndar máli sínu til stuðnings.
Í greinargerð kæranda kemur jafnframt fram beiðni um leiðréttingu upplýsinga um fæðingardag hans en bent sé á að í gögnunum sé að finna misræmi er varðar fæðingardag hans.
Þann 10. febrúar 2020 barst viðbótargreinargerð frá kæranda þar sem m.a. var áréttuð sú afstaða kæranda að hann telji að rangar og ófullnægjandi upplýsingar um málsatvik og aðstæður hans hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að Portúgal en ekki Frakkland beri ábyrgð á umsókn hans og að hann teljist ekki vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Lagði kærandi fram ný gögn sem styðji fyrrgreinda afstöðu hans, m.a. vottorð frá lýtaskurðlækni, ljósrit af dvalarskírteinum og tölvupóst frá félagsráðgjafa. Þá barst kærunefnd sálfræðivottorð frá kæranda þann 17. febrúar 2020.
Þann 6. apríl 2020 barst kærunefnd tölvupóstur frá kæranda þar sem vísað var til yfirlýsingar dómsmálaráðherra, dags. 31. mars sama ár, varðandi breytt mat Útlendingastofnunar á því hvort taka beri Dyflinnar- og verndarmál til efnismeðferðar vegna áhrifa Covid-19 faraldursins. Með vísan til aðstæðna kæranda og framangreinds var þess farið á leit að málið yrði endurupptekið og vísað aftur til Útlendingastofnunar til efnismeðferðar.
Þann 19. maí barst tölvupóstur frá kæranda þar sem vísað var til þess að meira en 12 mánuðir væru liðnir frá því kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.
Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. maí 2019 og hefur hann ekki enn yfirgefið landið. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum.
Þann 15. maí 2020 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar frá Útlendingastofnun barst samdægurs og var það mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki tafið mál sitt meðan það hafi verið til meðferðar hjá stofnuninni. Þann 18. maí 2020 barst kærunefnd svar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra þar sem fram kom m.a. að kærandi hefði ekki verið kominn í framkvæmd hjá deildinni.
Af upplýsingum sem kærunefnd bárust frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun, varðandi fyrirspurn um tafir á málsmeðferð og flutningi kæranda, má ráða að þær tafir sem hafi orðið á málinu hafi ekki verið af völdum kæranda. Að auki hefur kærunefnd farið yfir málsmeðferð í máli kæranda og er að mati kærunefndar ekkert sem bendi til þess að kærandi verði talinn bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknar sinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 16. maí 2019, er fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi þess að endurupptökubeiðni kæranda hefur verið samþykkt leiðir það til þess að upphaflegur úrskurður kærunefndar frá 16. janúar sl. hefur fallið úr gildi. Hefur það því ekki þýðingu fyrir mál kæranda að taka beiðni hans um frestun réttaráhrifa á umræddum úrskurði til úrlausnar og er henni hér með vísað frá.
Úrskurðarorð
Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.
Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa er vísað frá.
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.
The appellant‘s request for re-examination of his case is granted.
The appellant´s request to suspend legal effects is dismissed.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.
Hjörtur Bragi Sverrisson Þorbjörg Inga Jónsdóttir