700 milljóna króna viðbótarframlag Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlað fólk árið 2022
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 15. desember um úthlutun á sérstöku 700 milljóna króna framlagi á árinu 2022 vegna þjónustu við fatlað fólk.
Á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 1291/2021 er heimilt að veita sérstök viðbótarframlög til þeirra þjónustusvæða þar sem kostnaður við reksturinn er verulega íþyngjandi. Í greiðslu- og rekstraráætlun sjóðsins fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að viðbótarframlög á árinu geti numið allt að 700 milljónum króna.
Útreikningur á skiptingu framlagsins byggist á rekstrarniðurstöðu þjónustusvæða á árinu 2021 en Jöfnunarsjóður safnaði á haustdögum ítarlegum gögnum um rekstrarkostnað og -tekjur af málaflokknum.
Framlagið verður greitt út á næstu dögum.