Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2011 Dómsmálaráðuneytið

Lögreglustjórinn á Hvolsvelli og almannavarnanefnd fengu nýsköpunarverðlaun

Lögreglustjórinn á Hvolsvelli og almannavarnanefnd umdæmisins hlutu í dag nýsköpunarverðlaun í opinberum rekstri 2011 vegna verkefnisins: Skipulag rýmingar vegna jökulhlaupa sem fylgja eldgosum í Kötlu og Eyjafjallajökli. Samstarf íbúa og almannavarnayfirvalda.

Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri og Kristín Þórðardóttir, fulltrúi hjá embættinu, ræða við Ögmund Jónasson í heimsókn á gosstöðvarnar í vor.
Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri og Kristín Þórðardóttir, fulltrúi hjá embættinu, ræða við Ögmund Jónasson í heimsókn á gosstöðvarnar í vor.

Verðlaunin voru afhent á ráðstefnu sem bar yfirskriftina nýsköpun í opinberum rekstri – nýjar lausnir við nýjum áskorunum og tók Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli við þeim. Að verðlaununum standa fjármálaráðuneytið, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, Rannís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Alls voru 18 verkefni tilnefnd og voru þau kynnt í örfyrirlestrum á ráðstefnunni. Af þeim voru þrjú frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, verkefnið frá Hvolsvelli og verkefni frá Vegagerðinni.

Verkefnið felur í sér að gera viðbúnaðar- og rýmingaráætlun vegna yfirvofandi náttúruvá af völdum eldsumbrota í Kötlu og Eyjafjallajökli í samstarfi íbúa og almannavarnayfirvalda. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars eftirfarandi: ,,Notuð var ný og árangursrík aðferð til að leita samráðs við borgarana, fá hugmyndir og byggja upp samvinnu við þá til að bregðast við yfirvofandi umhverfisvá. Það skilaði sér í aukinni samábyrgð og valdeflingu borgaranna við að leysa vandasamt og flókið verkefni. Verkefnið mætti þörfum skilgreinds hóps sem skilaði góðum árangri þegar á reyndi og skipti þá miklu máli.”

Þá hlutu þrír aðilar viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberum rekstri: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fyrir notkun samfélagsmiðla (Twitter, Facebook), Landmælingar Íslands fyrir verkefnið örnefni á vefnum, nýjar aðferðir við söfnun og miðlun og Blindrabókasafn Íslands fyrir verkefnið yfirfærsla bókakosts Blindrasafns Íslands á stafrænt form.

Vidurkenningar-til-sysla

 

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra afhenti verðlaunin. Með honum eru frá vinstri: Kjartan Þorkelsson, sýslumaðurinn á Hvolsvelli, Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, Stefán Eiríksson, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður Blindrabókasafns Íslands.

Sjá má nánar um verkefnin á vefnum: nyskopunarvefur.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta