Hoppa yfir valmynd
17. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

Úkraína í brennidepli á varnarmálaráðherrafundi NB8

Málefni Úkraínu voru til umfjöllunar á fjarfundi varnarmálaráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) í dag. Ríkin eru sammála um að sú staða sem þar er komin upp vegna umfangsmikillar hernaðaruppbyggingar Rússlands sé verulegt áhyggjuefni, ekki síst í samhengi við pólitískar yfirlýsingar rússneskra stjórnvalda að undanförnu.

Í gær sendi fastaráð Atlantshafsbandalagsins frá sér yfirlýsingu um stöðuna í og við Úkraínu þar sem áhyggjur af hernaðaruppbyggingu Rússlands eru undirstrikaðar og kallað eftir því að rússnesk stjórnvöld láti af aðgerðum og virði alþjóðlegar skuldbindingar. Stuðningur bandalagsins við Úkraínu er ítrekaður í yfirlýsingunni og réttur Úkraínu til að ákvarða eigin framtíð. Fastaráðið sé einnig reiðubúið að efla samskiptin við Rússland á grundvelli gagnkvæmni.

„Staðan í Úkraínu er uggvænleg og það hefur sýnt sig að hún getur breyst á skömmum tíma, án fyrirvara. Ekki má gleyma því að stöðugleiki í Úkraínu er hagsmunamál fyrir öryggi okkar heimshluta. Því er róið að því markmiði öllum árum innan Atlantshafsbandalagsins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Yfirlýsingu fastaráðs Atlantshafsbandalagsins er að finna hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta