Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2019 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 8/2018 - Úrskurður

Mál nr. 8/2018

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Þingvallanefnd

 

Ráðning í starf. Hæfnismat. Sönnunarbyrði.

Kærandi, sem er kona, taldi að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu karls í stöðu þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum. Að mati kærunefndarinnar töldust nægar líkur hafa verið leiddar að því í skilningi 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns þannig að sú skylda yrði lögð á kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun hans. Samanburður kærða á hlutlægum þáttum, sem lagðir voru til grundvallar í auglýsingu starfsins, gaf til kynna að kærandi og karlinn hefðu verið því sem næst jafn hæf. Við þær aðstæður bar að gæta sérstakrar vandvirkni við mat á huglægum þáttum sem leggja átti til grundvallar við ráðninguna samkvæmt auglýsingu kærða á starfinu. Að mati kærunefndarinnar gerði kærði það aftur á móti ekki með fullnægjandi hætti. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að kærða hefði ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Taldist kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 5. apríl 2019 er tekið fyrir mál nr. 8/2018 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 21. nóvember 2018, kærði A, ákvörðun Þingvallanefndar um að ráða karl í starf þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Þingvallanefnd brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 23. nóvember 2018, og óskað eftir afstöðu hans. Vegna beiðni kærða þar um var frestur til þess að skila greinargerð framlengdur til 28. desember 2018. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 27. desember 2018, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 3. janúar 2019.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 24. janúar 2019, með athugasemdum við greinargerð kærða. Var bréfið kynnt kærða með erindi kærunefndar, dagsettu 28. janúar 2019. Samhliða þessu óskaði kærunefndin eftir frekari gögnum frá kærða, þ.e. matsblöðum Capacent í heild einnig varðandi aðra umsækjendur, efnislegri samantekt Capacent um umsækjendur lægi hún fyrir og erindisbréfi/ráðningarbréfi frá kærða til Capacent ásamt öllum fundargerðum kærða þar sem fyrirhuguð ráðning var rædd. Vegna beiðni kærða þar um var frestur til þess að skila athugasemdum og gögnum framlengdur til 18. febrúar 2019. Athugasemdir kærða og umbeðin gögn bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 14. febrúar 2019, og voru þau kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. febrúar 2019. Með bréfi, dagsettu 1. mars 2019, sendi kærandi nefndinni frekari athugasemdir varðandi málatilbúnað kærða.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  6. Kærði auglýsti starf þjóðgarðsvarðar 11. ágúst 2018. Í auglýsingunni kom fram að óskað væri eftir að ráða öflugan og framsýnan leiðtoga í starf þjóðgarðsvarðar í þjóðgarðinn á Þingvöllum og að leitað væri að atorkusömum, metnaðarfullum og skipulögðum einstaklingi með góða hæfni í mannlegum samskiptum. Í auglýsingunni var helstu verkefnum þjóðgarðsvarðar lýst svo: Ábyrgð á daglegum rekstri þjóðgarðsins, skrifstofuhaldi og stjórnun starfsmanna; ábyrgð á fjárreiðum og áætlanagerð fyrir þjóðgarðinn; tengiliður á milli almennings, lóðarleiguhafa, ábúenda og Þingvallanefndar; tengiliður á milli Bláskógabyggðar og Þingvallanefndar; tengiliður á milli stofnana sem gegna lögbundnu hlutverki í málefnum sem varða þjóðgarðinn; ábyrgð á þjónustu við ferðamenn og aðra gesti. Þá voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur gerðar til starfsins í auglýsingunni: Háskólapróf sem nýtist í starfi. Framhaldspróf kostur; þekking og reynsla á sviði opinbers reksturs æskileg; þekking og reynsla á sviði náttúru, sögu og menningar æskileg; reynsla af störfum tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum æskileg; færni í mótun stefnu, lausna og hugmynda; frumkvæði, skipulögð vinnubrögð og sjálfstæði í starfi; mjög góð hæfni í mannlegum samskiptum og geta til að vinna undir álagi; gott vald á talaðri og ritaðri íslensku og ensku.
  7. Alls bárust 23 umsóknir um starfið en fjórir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka áður en mat á þeim hófst. Umsóknir 19 umsækjenda voru því metnar og ákveðið að boða þrjá umsækjendur í viðtal. Að viðtölunum afstöðnum var ákveðið að leggja raunhæft verkefni fyrir tvo umsækjendur, kæranda og þann karl sem ráðinn var. Að því loknu tók kærði ákvörðun um að bjóða karlinum starfið, sem hann þáði.
  8. Með tölvupósti, sendum 10. október 2018, óskaði kærandi eftir rökstuðningi kærða fyrir ákvörðuninni um ráðninguna sem og gögnum sem tengdust málinu. Með bréfi kærða, dagsettu 23. október 2018, var kæranda veittur rökstuðningur fyrir ákvörðuninni um ráðningu þjóðgarðsvarðar.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  9. Í kæru segir að rökstuðningur kærða fyrir ráðningunnni hafi verið settur fram af nokkrum klókindum. Við fyrstu sýn hafi matsgrunnurinn virst málefnalegur. Hann hafi verið settur upp á skematískan hátt og látið í veðri vaka að gerður hafi verið hlutlægur samanburður á umsækjendum. Nánari athugun hafi þó leitt í ljós að matsgrunnurinn hafi að öllum líkindum verið búinn til eftir að umsóknir hafi legið fyrir og ljóst hafi verið hvar styrkleikar umsækjenda lægju og hvaða þættir kynnu að skilja á milli þeirra að mati kærða. Þannig virðist sem innbyrðis vægi og matsforsendur hafi verið valdar gagngert í þeim tilgangi að rökstyðja þá niðurstöðu sem bersýnilega hafi verið upphaflega ætlunin að ná. Sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið geti ekki talist hafa sambærilegt hæfi á við kæranda þar sem karlinn hafi aðeins brot af stjórnunarreynslu kæranda, auk minni menntunar. Sú framganga sé að mati kæranda brot á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Rökstuðningur meiri hluta kærða og þau gögn sem honum hafi fylgt, sbr. 4. mgr. sömu greinar, bendi til þess að ómálefnalegar ástæður hafi legið til grundvallar við ákvörðun um ráðninguna og að hún hafi verið í andstöðu við ákvæði laga. Sönnunarbyrði hvað það varði hvíli á meiri hluta kærða.
  10. Með rökstuðningi kærða hafi fylgt tvö matsblöð sem bæði beri yfirskriftina grunnmat umsækjenda. Af samhengi rökstuðningsins verði ráðið að annað blaðið hafi verið lagt til grundvallar við val á umsækjendum fyrir fyrstu viðtöl en hitt innihaldið leiðrétta stigagjöf fyrri matsþátta að þeim viðtölum afstöðnum. Matsþættirnir virðist hafa verið lagaðir að hæfi þess umsækjanda sem síðar hafi verið ráðinn.
  11. Þótt starfið sé stjórnunarstaða sem feli í sér fjárreiðuábyrgð, áætlanagerð, stefnumótun og mannaforráð hafi stjórnunarreynsla umsækjenda ekki verið metin á fyrrnefndum matsblöðum. Yfirburðir kæranda á því sviði hafi þar með ekki verið teknir til álita en hún hafi umtalsverða stjórnunarreynslu, samanlögð 11 ár, auk stjórnunarnáms við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (30 ECTS). Þá skjóti einnig mjög skökku við að þær auglýstu hæfniskröfur sem tengist stjórnunarreynslu – færni í mótun stefnu, lausna og hugmynda; frumkvæði, skipulögð vinnubrögð og sjálfstæði í starfi; hæfi í mannlegum samskiptum og geta til að vinna undir álagi – hafi heldur ekki verið metnar með hlutlægum hætti og séu hvergi sjáanlegar á grunnmatsblaði. Þetta séu þó atriði sem samkvæmt auglýsingu hefðu átt að teljast nauðsynleg forsenda ráðningar en ekki bara æskileg eins og ýmislegt annað sem tekið hafi verið til mats.
  12. Í stað þess að líta til stjórnunarreynslu og hæfnisþátta sem henni tengist hafi verið litið til reynslu af opinberum rekstri. Á öðru matsblaðinu hafi báðum umsækjendum verið gefin 3 stig fyrir þennan þátt en sú stigagjöf leiðrétt síðar í 4 stig fyrir kæranda en óbreytt fyrir þann sem ráðinn hafi verið. Þarna hafi lítill munur verið gerður á umsækjendum, sem sé athyglisvert í samanburði við mat á reynslu af störfum tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum, þar sem kærandi hafi einungis fengið 2 stig en sá sem ráðinn hafi verið 4 stig. Samkvæmt gögnum virðist þó í reynd vera minni munur á umsækjendum varðandi reynslu af þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum heldur en á reynslu þeirra af opinberum rekstri þar sem yfirburðir kæranda ættu að vera augljósir í ljósi stjórnunarrreynslu hennar og þátttöku í opinberri stjórnsýslu. Við mat á reynslu af opinberum rekstri hafi verið litið til þess að sá sem ráðinn hafi verið hafi starfað í 17 ár við Þingvallaþjóðgarð, lengst af sem fræðslufulltrúi en eitt ár sem þjóðgarðsvörður. Kærandi eigi að baki 25 ára starf hjá hinu opinbera, þar af 11 ára samanlagða stjórnunarreynslu sem feli meðal annars í sér fimm ára reynslu sem forstöðumaður ríkisstofnunar með ábyrgð á fjárreiðum, fjárhagsáætlanagerð, stefnumótun, mannaforráðum, verklegum framkvæmdum og fleira, auk stjórnunarverkefna fyrir hið opinbera (Stofnun fræðasetra HÍ, forstöðumaður þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns og fleira). Í rökstuðningi kærða hafi þeim sem hafi fengið starfið verið talið til tekna að hafa komið að stjórnunarverkefnum þegar aftur á móti kærandi hafi beinlínis borið ábyrgð á og haft yfirumsjón með slíkum verkefnum. Störf hennar sem sveitarstjórnarmaður, þar með borgarráðsmaður í Reykjavík, og alþingismaður, þar með sem formaður umhverfisnefndar Alþingis, liggi óbætt hjá garði í mati á umsækjendum. Sá mikli munur sem í reynd sé á umsækjendum varðandi þetta atriði hafi verið gerður eins lítill og hægt hafi verið með því að gefa þeim jafnt vægi (3 stig) í fyrsta mati, en láta einungis muna einu stigi á milli þeirra í leiðréttu mati. Þó sé augljóst að kærandi hafi langtum meiri og fjölþættari reynslu af opinberum rekstri en sá sem ráðinn hafi verið, auk beinnar stjórnunarreynslu sem hafi ekki verið látin koma til álita.
  13. Samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 beri kærunefnd jafnréttismála við úrlausn málsins að taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa sé gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum og reglugerðum eða telja verði annars að komi að gagni í starfinu. Ætla megi að sá sem fari með veitingarvald í opinberar stöður beri sömu skyldur.
  14. Í auglýsingu um starfið hafi verið skilyrði um háskólapróf sem nýtist í starfi en tekið fram að framhaldspróf væri kostur. Þrátt fyrir þetta hafi enginn munur verið gerður á menntun þess sem ráðinn hafi verið og kæranda þótt hún hafi augljóslega mun meiri menntun á því sviði sem talið hafi verið sem kostur, hún sé með doktorspróf í menningarsögulegu fagi ofan á cand.mag gráðu í íslenskum bókmenntum og þjóðfræðum, 30 ECT stjórnunarnám og kennsluréttindi. Sá sem ráðinn hafi verið hafi lokið námskeiði/námsferð um málefni þjóðgarða.
  15. Starfið sé stjórnunarstaða og sá sem starfinu gegni hljóti að þurfa að hafa leiðtogahlutverki að gegna fyrir Þingvallaþjóðgarð. Við ráðningu í slíkt starf séu heimildir veitingarvaldshafa til að leggja áherslu á sérsjónarmið takmarkaðri en við getur átt í sérhæfðari störfum. Um sjónarmið varðandi þetta megi vísa til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 3882/2003, 3909/2003 og 3980/2003 og svo máls kærunefndar jafnréttismála nr. 4/2013. Hæstiréttur hafi staðfest niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. 364/2014 um að ekki megi handvelja sjónarmið, sem hygli tilteknum umsækjanda.
  16. Í tilviki ráðningarinnar virðist eins og áður segir ekki hafa verið lagt hlutlægt samanburðarmat á alla þá þætti sem í auglýsingu hafi þó verið sagðir forsenda ráðningar. Til dæmis séu engin gögn um að lagt hafi verið mat á eftirfarandi þætti í tilviki kæranda: Færni í mótun stefnu, lausna og hugmynda; Frumkvæði, skipulögð vinnubrögð og sjálfstæði í starfi; Hæfni í mannlegum samskiptum og getu til að vinna undir álagi. Þá sé ekki heldur að finna gögn um að hlutlægt mat hafi verið lagt á: Frammistöðu í viðtölum og við úrlausn verkefnis.
  17. Varðandi fyrstnefndu þrjú atriðin hafi beinlínis verið sagt í rökstuðningi meiri hluta kærða að hvorki hafi verið leitað til umsagnaraðila né gerð önnur matsblöð eða minnisblöð í ráðningarferlinu en þau sem látin hafi verið fylgja rökstuðningnum. Engu að síður sé til þess vísað í sama rökstuðningi að allt ofangreint hafi verið metið þeim sem ráðinn hafi verið til tekna. Verði ekki betur séð en að það hafi verið gert án þess að hlutlægur samanburður lægi fyrir á ofangreindum atriðum á milli þeirra umsækjenda sem valið hafi staðið um. Hefði þó verið eðlilegt að gera það, þannig að matsþættirnir kæmu fram í stigagjöf, hafi það verið ætlun meiri hluta kærða að komast að óvilhallri niðurstöðu um heildarhæfi umsækjendanna. Bent skuli á í þessu sambandi að fyrrgreind þrjú atriði hafi verið tilgreind sem skilyrði í auglýsingu um starfið, en samkvæmt matsblaðinu virðist ekkert mat hafa verið lagt á þau. Veki það athygli í ljósi þess að atriði sem hafi verið tilgreind æskileg en ekki nauðsynleg hafi verið látin vega ríflega 50% við mat á umsækjendum (17 stig af 33).
  18. Í raun hafi einungis ráðið vægi 6 auglýstra matsþátta (3 taldir æskilegir í auglýsingu) af 9 í niðurstöðu ráðningarnefndarinnar, þrátt fyrir að í auglýsingu hafi verið gefið til kynna að tekið yrði tillit til allra matsþátta.
  19. Enn eitt dæmi um óeðlilegt vægi matsþátta sé hvernig tungunmálakunnátta hafi verið metin. Gott vald á íslensku og ensku hafi verið einn matsþáttur í auglýsingu en á matsblaði hafi hann verið orðinn að tveimur með samanlögð 8 stig – jafnmikið vægi og gefið hafi verið fyrir menntun (háskólapróf sem nýtist í starfi, 8 stig); þyngri en þekking og reynsla á sviði opinbers reksturs (6 stig); þyngri en þekking og reynsla á sviði náttúru, sögu og menningar (6 stig) og þyngri en reynsla af störfum tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum (5 stig). Síðan mun þyngri en stjórnunarreynsla sem hafi alls ekki verið metin.
  20. Við mat á talaðri og ritaðri íslensku hafi báðum verið gefinn sami stigafjöldi. Kærandi hafi þó augljóst menntunarforskot varðandi þennan þátt sem íslenskufræðingur sem hafi bæði kennt og samið kennsluefni um íslenskt mál (ritun), auk útgefinna ritverka.
  21. Einn þeirra auglýstu matsþátta sem tekið hafi verið tillit til hafi verið reynsla af störfum tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum. Þeim sem ráðinn hafi verið hafi verið gefið fullt hús stiga fyrir þennan þátt vegna starfa hans sem fræðslufulltrúi Þingvallaþjóðgarðs áður en hann hafi verið ráðinn til eins árs sem þjóðgarðsvörður. Fyrir þennan þátt hafi kærandi einungis hlotið helming stiga sem skjóti vægast sagt skökku við í ljósi þeirrar reynslu sem lesa hafi mátt á starfsferilskrá hennar. Þar komi fram að hún hafi setið í umhverfisnefnd Alþingis og verið þar um skeið varaformaður og formaður. Starf hennar í nefndinni hafi meðal annars lotið að heildarendurskoðun náttúruverndarlaga, rammaáætlun um nýtingu auðlinda og þjóðlendumálefni í tengslum við endurskoðun stjórnarskrár, auk umhverfismála í víðum skilningi. Öryggismál ferðamanna hafi verið þar mjög á hennar könnu eins og fram komi í umsókn hennar. Hefði sú reynsla átt að nægja kæranda til þess að skora fullt hús stiga samanborið við einhæft starf fræðslufulltrúa Þingvallaþjóðgarðs. Sé þá ónefnd önnur reynsla kæranda af umhverfismálum og friðlýstum svæðum svo sem fararstjórn, björgunarsveitarstörf, ritun ferðabókar og tímaritsgreina sem tengist umhverfismálum og friðlýstum svæðum. Í ljósi þess hvernig staðið hafi verið að mati á menntun umsækjenda skjóti skökku við að sjá gerðan svo mikinn mun á stigagjöf þeirra varðandi þetta atriði.
  22. Í ljósi þess munar sem gerður hafi verið og nú hafi verið ræddur varðandi reynslu af umhverfismálum hafi verið einkennilegt að sjá jafn mörg stig gefin báðum umsækjendum þegar komi að þekkingu og reynslu á sviði náttúru, sögu og menningar. Sem fyrr segi hafi sá sem fengið hafi starfið verið fræðslufulltrúi þjóðgarðsins um árabil. Til mótvægis hafi kærandi doktorspróf á menningarsögulegu sviði, hafi kennt menningarmiðlun, íslenskar bókmenntir og þjóðfræði á háskólastigi um árabil, verið fararstjóri og leiðsögumaður, auk þess sem hún sé höfundur árbókar Ferðafélags Íslands árið 2017. Sé þá ótalinn fjöldi fyrirlestra og fræðigreina eftir hana um menningarsöguleg efni sem tengist náttúru landsins og þjóðháttum. Í þessu efni hafi kærandi augljósa yfirburði sem starfsveitandinn hafi vísvitandi sniðgengið af fyrrgreindum ástæðum, þ.e. vegna fyrir fram ákveðinnar niðurstöðu og augljósrar viðleitni til þess að teygja og toga matsþættina í átt að þeirri niðurstöðu.
  23. Bersýnilegt sé að frá upphafi hafi vísvitandi verið reynt að skapa forskot fyrir þann sem ráðinn hafi verið. Megi það ráða af því að ári áður hafi hann verið ráðinn til eins árs án auglýsingar í starf þjóðgarðsvarðar. Fyrir þeirri málsmeðferð hafi engar sjáanlegar málefnalegar ástæður verið þar sem forveri hans í starfi hafi verið að hætta vegna aldurs og það löngu vitað. Sé því af og frá að ófyrirsjáanlegar eða skyndilegar aðstæður hafi kallað á tímabundna ráðningu án auglýsingar á þeim tímapunkti. Við hina tímabundnu ráðningu hafi þegar verið augljóst að þar með hafi honum verið gefið forskot til þess að standast betur hæfniskröfur starfsins þegar kæmi að langtímaráðningu. Ráðningarferlið sem sett hafi verið í gang með auglýsingu sumarið 2018 hafi þess vegna verið sýndargjörningur. Vinnubrögðin sem hafi fylgt í kjölfarið sýni best að þannig hafi verið í pottinn búið.
  24. Svo virðist sem hæfniskröfur sem settar hafi verið fram í auglýsingu hafi jafnvel verið lagaðar að hæfi þess sem hafi átt að fá stöðuna. Til dæmis hafi verið farið fram á kunnáttu í ensku en ekki Norðurlandamáli, sem hefði þó mátt telja eðlilegt í ljósi þess að um sé að ræða norrænan þjóðgarð, eins og fyrr segi. Þegar umsóknir hafi legið fyrir hafi tungumálaþættinum verið skipt upp til þess að auka vægi enskunnar sem veitingarvaldshafinn hafi talið að kæmi betur þeim umsækjenda sem hafi verið ráðinn.
  25. Allir þeir sem hafi tekið ákvörðun um ráðninguna, að undanskildum starfsmanni Capacents, höfðu starfað með þeim sem ráðinn hafi verið í heilt ár áður en til ráðningarinnar hafi komið, en slík tengsl séu ekki til þess fallin að tryggja hlutleysi við ákvörðun um ráðningu. Annað dæmi þessu til sönnunar sé að við undirbúning mats kærða, bæði við undirbúning atvinnuviðtala sem og þess verkefnis sem hafi átt að ráða úrslitum um hæfi beggja að því loknu, hafi augljóslega verið reynt að skapa forskot fyrir þann sem ráðinn hafi verið. Að afstöðnum viðtölum við þrjá umsækjendur hafi kærða verið sendur tölvupóstur þar sem fram hafi komið að eftir viðtöl stæðu tveir umsækjendur jafnir að vígi, kærandi og sá sem ráðinn hafi verið. Kærandi telji raunar að það mat hafi verið rangt þar sem hún hefði þá þegar átt að standa hinum umsækjandanum mun framar á grundvelli reynslu og menntunar, eins og þegar hafi verið rakið. Það sé þó ekki kjarni þessarar efnisgreinar, heldur hitt, að samkvæmt fyrrgreindum tölvupósti hafi átt að leggja verkefni fyrir þessa tvo umsækjendur sem skyldi ráða úrslitum um hæfi þeirra. Verkefnið hafi umsækjendur átt að kynna fyrir kærða 5. október 2018 að viðstöddum öllum nefndarmönnum sem skyldu gera upp hug sinn í framhaldinu.
  26. Verkefnið hafi verið tvíþætt. Annars vegar að lýsa framtíðarsýn fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum og hvernig umsækjandi myndi innleiða hana í starfinu. Hins vegar hvaða árangri umsækjandi vildi hafa náð að tveimur árum liðnum og af hverju. Umfjöllunarefnið hafi verið þannig valið að sá sem ráðinn hafi verið hljóti sem starfsmaður þjóðgarðsins, að nýafstaðinni endurskoðun á framtíðarstefnu hans sem þá hafði staðið yfir í samstarfi við kærða allt undangengið ár, að hafa átt umrætt verkefni tilbúið í vinnutölvu sinni. Að minnsta kosti hljóti hafi hann að hafa haft tiltæk gögn og upplýsingar sem kærandi hafi þurft að afla sér með öðrum hætti. Í ljósi þess knappa tíma sem umsækjendum hafi verið gefinn, fjórir dagar, hljóti hann því að hafa verið mun betur í stakk búinn til að fjalla um þau álitaefni sem úthlutað hafi verið og hefði samkvæmt því átt að standa sig mun betur í umræddu verkefni. Hvort svo hafi verið geti kærandi þó ekki vitað því hvergi hafi verið lagt fram skriflegt mat á verkefnunum sem hafi átt að ráða úrslitum um hæfi umsækjendanna. Þegar til hafi komið hafi vantað tvo nefndarmenn á fundinn. Þess vegna hafi aldrei verið uppfylltur sá áskilnaður sem hafi fylgt verkefninu að það myndi ráða úrslitum um hæfi umsækjendanna.
  27. Annar hinna fjarstöddu alþingismanna hafi verið viðstaddur atvinnuviðtalið en hinn ekki. Sá hafi ekkert haft í höndum um það hvernig verkefnin hefðu verið leyst af hendi nema kynningarrit/greinargerð kæranda sem hún hafi skilið eftir að framsögu lokinni. Sá sem ráðinn hafi verið hafi ekki skilið eftir nein gögn fyrir fundarmenn, eins og síðar hafi komið fram í færslu eins nefndarmanns á samfélagsmiðlum í framhaldi af fréttaflutningi um vinnubrögð kærða. Það hafi því einungis verið starfsmaður Capacent sem hafi haft verkefnin undir höndum á þeim tímapunkti þegar kærði hafi tekið ákvörðun um ráðninguna síðar á sama fundi 5. október 2018 eftir að framsögurnar höfðu verið fluttar, þá með símaþátttöku nefndarmannanna tveggja sem hafi verið fjarstaddir kynningarnar. Lyktir málsins hafi ráðist á einu atkvæði, að öllum líkindum þess nefndarmanns sem hvorki hafi hlýtt á kynninguna né verið viðstaddur atvinnuviðtalið í aðdraganda hennar.
  28. Vinnubrögð kærða hafi orðið til þess að einn nefndarmaður hafi sagt sig úr nefndinni eins og hún hafi staðfest sjálf í samtali við kæranda skömmu síðar og fram hafi komið í fjölmiðlum. Með færslu á samfélagsmiðlum 9. október 2018 hafi sá nefndarmaður gagnrýnt vinnubrögð þess nefndarmanns sem hafi verið fjarstaddur kynningu og atvinnuviðtal kæranda.
  29. Tilefni færslunnar hafi verið frétt sem hafi birst sama dag á visir.is undir fyrirsögninni: „Missti af kynningu um Þingvelli framtíðarinnar en segir það ekki skipta máli“ og sé tilvitnun í umræddan nefndarmann sem fjarverandi var á fundi kærða. Þar hafi hann haldið því fram að hann hafi tekið afstöðu til umsækjenda á grundvelli umsagnar Capacents og fyrirliggjandi greinargerða frá umsækjendum sem hann hefði kynnt sér. Hvorugt fáist staðist. Capacent hafi ekki lagt fram tillögu að því hver skyldi ráðinn, heldur hafi það alfarið verið í höndum nefndarmanna. Kynningargögnum þess sem ráðinn hafi verið hafi ekki verið dreift til fundarmanna. Ummælin hafi afhjúpað fyrirframgefinn ásetning meiri hluta kærða sem hafi virst vera búinn að koma sér saman um lyktir málsins löngu áður en ráðningarferlið hafi farið af stað.
  30. Ljóst megi vera af fyrirliggjandi gögnum og rökstuðningi meiri hluta kærða að viðmót og frammistaða í viðtölum og úrlausn raunhæfs verkefnis og kynningar hefðu átt að ráða úrslitum um hvor umsækjendanna tveggja teldist hæfastur til starfsins að afstöðnu grunnmati. Þrátt fyrir þessa staðreynd liggi enginn skriflegur samanburður fyrir á umsækjendunum tveimur.
  31. Af öllu ofangreindu megi ljóst vera að val á milli umsækjendanna um starfið beri fyrst og fremst vitni um virðingarleysi veitingarvaldshafans, í þessu tilviki fulltrúa meiri hluta kærða, fyrir meðferð þess opinbera valds sem honum hafi tímabundið verið trúað fyrir. Þessi meðferð valdsins standist ekki mælistikur stjórnsýsluréttar og enn síður lögbundnar mælistikur laga nr. 10/2008, sérstaklega þegar horft sé til 5. mgr. 26. gr. laganna, sbr. úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 2/2018.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  32. Kærði segir að Capacent hafi tekið við umsóknum og að sviðsstjóri mannauðsstjórnar og ráðninga, auk ráðgjafa, hafi verið kærða til ráðgjafar í ráðningarferlinu. Alls hafi borist 23 umsóknir en fjórir umsækjendur dregið umsóknir sínar til baka áður en mat á umsóknum hafi byrjað. Í fyrstu hafi gögn allra umsækjenda verið metin í samræmi við þær kröfur sem hafi komið fram í auglýsingu og fyrir fram skilgreind matsviðmið og vægi. Eftir að mat á umsóknum hafi legið fyrir hafi kærði ákveðið að þeir þrír umsækjendur, sem samkvæmt umsóknargögnum hafi uppfyllt best menntunar- og hæfniskröfur, skyldu boðaðir í viðtöl. Viðtölin hafi verið tekin af sviðsstjóra og mannauðsstjóra Capacent og fulltrúum kærða. Þau hafi verið byggð á spurningalista sem hafi verið útbúinn og spurningar verið staðlaðar og tekið mið af þeim forsendum sem hafi komið fram í auglýsingu um starfið. Markmið viðtalanna hafi verið að meta alla hæfnisþætti sem krafa hafi verið gerð um í auglýsingu. Að afloknum viðtölum hafi það verið mat kærða að leggja raunhæft verkefni fyrir þá tvo umsækjendur sem þóttu uppfylla best hæfniskröfur og höfðu staðið sig best í viðtali. Umsækjendur hafi kynnt verkefni sín fyrir kærða og skilað honum kynningunni. Ákvörðun um ráðninguna hafi verið byggð á heildarmati á öllum hæfnisþáttum, frammistöðu í viðtali og úrlausn á raunhæfu verkefni. Kynbundin sjónarmið hafi hvergi komið nálægt þeirri ákvörðun.
  33. Sá sem ráðinn hafi verið hafi uppfyllt þær kröfur sem auglýsing um starfið hafi gert um menntun. Hann hafi lokið meistaragráðu í landslagsarkitektúr frá Háskólanum í Minnesota. Lokaverkefni hans í náminu hafi verið endurskoðun aðalskipulags og hönnun aðstöðu fyrir hestamenn/kúreka í þjóðgarði í Suður-Minnesota. Það sé nú í góðri nýtingu þar að hans sögn. Í náminu hafi hann meðal annars tekið námskeið tengt vistfræði, hönnun útivistarsvæða, sbr. aðalskipulag og svæðisskipulag. Hann sé jafnframt með BSc próf í landfræði frá Háskóla Íslands. Lokaritgerð í því námi hafi fjallað um þróun Þingvalla sem ferðamannastaðar. Það sé mat kærða að menntun hans hafi fallið vel að þeim verkefnum sem starfið byggi á.
  34. Háskólapróf hafi verið talið til almennra hæfisskilyrða. Bæði sá sem ráðinn hafi verið og kærandi séu með háskólapróf. Samkvæmt auglýsingu um starfið hafi framhaldspróf verið talið kostur. Bæði sá sem ráðinn hafi verið og kærandi hafi uppfyllt það að hafa slíkt framhaldspróf. Ekki hafi verið krafist sérstakrar menntunar á tilteknu sviði og þau bæði talin hafa menntun sem hafi uppfyllt kröfur samkvæmt auglýsingu. Við grunnmat á umsækjendum hafi þau því bæði fengið fullt hús stiga fyrir þennan þátt. Mestu skipti að leggja mat á hvernig sú menntun sem umsækjandi hafi aflað sér verði talin gera hann hæfari til að sinna starfinu. Að mati kærða hafi menntun þeirra beggja gert þau vel hæf, enda bæði hámenntuð. Fjöldi prófgráða hafi hins vegar ekki verið ráðandi í matinu og doktorspróf því ekki talið veita kæranda sérstakt forskot að þessu leyti, enda liggi til að mynda fyrir að lokaverkefni þess sem ráðinn hafi verið í framhaldsnámi hafi bæði verið tengd þjóðgörðum.
  35. Að því er varði þekkingu og reynslu á sviði opinbers reksturs þá hafi sá sem ráðinn hafi verið starfað í veigamiklu hlutverki hjá þjóðgarðinum á Þingvöllum um langt skeið, auk þess að hafa sinnt starfi þjóðgarðsvarðar undanfarið ár. Það ár hafi hann komið að allri áætlanagerð með þjóðgarðsverði. Sem settur þjóðgarðsvörður hafi hann komið að áætlanagerð vegna stefnumótunar ríkisaðila í A hluta til þriggja ára, unnið við innviðaáætlun í samvinnu við umhverfisráðuneytið og fleira. Frá árinu 2010 hafi hann mikið komið að og haft eftirlit með verklegum framkvæmdum á svæðinu. Þetta hafi falið í sér samskipti, bæði við hið opinbera og framkvæmdaraðila, hönnuði og aðra. Reynsla kæranda á sviði opinbers reksturs hafi verið metin meiri og hún því fengið hærra skor við grunnmat varðandi þann þátt.
  36. Sá sem ráðinn hafi verið hafi víðtæka reynslu af störfum tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum, auk reynslu og þekkingar á sviði náttúru, sögu og menningar þar sem hann hafi starfað hjá þjóðgarðinum síðan í apríl 2001. Fyrir þann tíma hafi hann starfað sem verkstjóri, landvörður og staðarhaldari á sumrin. Á árunum 2001 til 2017 hafi hann verið starfandi sem fræðslufulltrúi þjóðgarðsins og síðan í október 2017 sem settur þjóðgarðsvörður. Auk þessa sé nám hans og lokaverkefni í háskóla tengt þjóðgörðum. Í störfum sínum hafi hann komið að víðtækum verkefnum þessu tengdu, svo sem undirbúningi sýningar í gestastofu þjóðgarðsins, umhverfisstefnu þjóðgarðsins, umsóknum tengdum tilnefningu þjóðgarðsins á heimsminjaskrá UNESCO, skipulagi fræðsludagskrár þjóðgarðsins, auk þess að hafa annast ýmsa fræðslu sjálfur, bæði innan þjóðgarðsins og utan. Hann hafi leitað sér þekkingar erlendis um þjóðgarða og friðlýst svæði í gegnum tíðina, auk þess að hafa verið tengiliður þjóðgarðsins vegna málefna heimsminjaskrár innanlands og erlendis. Hann hafi sótt námskeið og námsferðir/ráðstefnur um umsjón þjóðgarða, til dæmis á Nýja-Sjálandi, og skrifað skýrslu sem vitnað hafi verið til í undirbúningi að þjóðgörðum á Íslandi.
  37. Við grunnmat á umsækjendum hafi verið talið að bæði sá sem ráðinn hafi verið og kærandi hefðu víðtæka þekkingu og reynslu á sviði náttúru, sögu og menningar, þótt ólíkt væri. Þau hafi því fengið fullt hús stiga fyrir þennan matsþátt. Þá hafi verið talið að sá sem ráðinn hafi verið hefði mjög mikla reynslu af störfum tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum þannig að það hafi skipað honum í efsta flokk í þeim matsþætti. Komi hér sérstaklega til skoðunar að hann hafi helgað sig málefnum þjóðgarðsins á Þingvöllum undanfarin 17 ár. Í þessu sambandi sé ljóst að þrátt fyrir reynslu kæranda sem meðal annars felist í setu í umhverfisnefnd Alþingis á árunum 2009-2013 og fararstjórn og björgunarsveitarstörfum, sem rakin séu í umsóknargögnum undir áhugamálum, ásamt ritun árbókar Ferðafélags Íslands, þá hafi kærði ekki talið að það gæfi tilefni til að færa hana ofar í grunnmati varðandi þennan þátt en gert hafi verið.
  38. Þá hafi þau bæði verið talin hafa sýnt fram á mjög gott vald á talaðri og ritaðri íslensku og ensku og því fengið fullt hús í grunnmati varðandi þessa þætti. Til að mynda sé ljóst að sá sem hafi fengið starfið hafi verið búsettur í Bandaríkjunum þar sem hann hafi verið í framhaldsnámi. Af umsókn og kynningarbréfi og með vísan til starfa hans sem fræðslufulltrúi um 16 ára skeið, hafi mátt ráða að hann hafi mjög gott vald á íslenskri tungu. Af umsókn og kynningarbréfi kæranda hafi einnig mátt ráða að hún hafi mjög gott vald á íslenskri tungu, bæði í mæltu og rituðu máli, sem hafi uppfyllt að öllu leyti þær kröfur sem hafi verið gerðar við grunnmat á umsækjendum.
  39. Ráðningarviðtal sé meðal annars nýtt til að kanna þá kosti og persónulegu eiginleika sem viðkomandi þurfi að vera búinn til að gegna starfinu. Í viðtölunum hafi meðal annars verið kannað hvernig umsækjendur uppfylltu þau skilyrði sem hafi komið fram í auglýsingu. Auk þess hafi gefist tækifæri til að kanna önnur atriði sem mögulega hafi ekki komið nægjanlega skýrt fram í umsóknargögnum.
  40. Af umsóknargögnum og ráðningarviðtali hafi mátt ráða að sá sem ráðinn hafi verið hafi mikla reynslu í mótun stefnu, lausna og hugmynda. Hann hafi meðal annars unnið að stefnumótun þjóðgarðsins ásamt öðru starfsfólki og setið vinnufundi og samráðsfundi hagsmunaaðila. Hann hafi sett endurskoðun stefnunnar í umsagnarferli vorið 2018 eftir nokkurt hlé á vinnunni. Hann hafi meðal annars unnið að umhverfisstefnu þjóðgarðsins, unnið handrit að margmiðlunarsýningu í fræðslumiðstöð, verið í stýrihópi um hönnun sýningar í Gestastofu, auk fjölda annarra verkefna. Í viðtalinu hafi honum orðið tíðrætt um hvernig síðustu ár hafi einkennst af því að bregðast við mikilli fjölgun ferðamanna. Þurft hafi stefnumörkun, samráð og lausnamiðaða vinnu til að leysa úr þeim áskorunum sem hafi skapast. Hann hafi komið vel fyrir í viðtali, svarað spurningum skýrt og greinilega og rökstutt mál sitt vel með dæmum úr reynslu sinni. Að mati kærða sé ljóst að í störfum hans hafi reynt á leiðtogahæfni, sjálfstæði í vinnu og frumkvæði en ekki síður á samvinnu og samstarf með öðrum, auk getu til að vinna undir álagi.
  41. Að loknum ráðningarviðtölum hafi þeim sem ráðinn hafi verið og kæranda verið boðið að leysa raunhæft verkefni. Að mati kærða hafi sá sem ráðinn hafi verið komið vel út úr þessum hluta ráðningarferlisins og kynning hans sýnt fram á að hann hafi skýra framtíðarsýn fyrir þjóðgarðinn, ýmsum nýjungum í starfsemi garðsins og mikla ástríðu fyrir honum. Kærandi hafi einnig komið mjög vel fyrir í ráðningarviðtali og sýnt fram á að góða þekkingu á málefnum þjóðgarðsins. Þá hafi hún leyst raunhæft verkefni með prýði og sýnt hvernig hún hugðist innleiða slíka framtíðarsýn í starfinu.
  42. Öll þau sjónarmið sem rakin hafi verið hér að framan, einkum reynsla og þekking þess sem ráðinn hafi verið, persónulegir eiginleikar hans og framtíðarsýn fyrir þjóðgarðinn, hafi verið metin heildstætt ásamt öðrum hæfniskröfum samkvæmt auglýsingu.
  43. Í ljósi þess að ekki sé um að ræða lögbundnar hæfiskröfur, umfram þær sem lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins tilgreini, þá hafi kærði ákveðið svigrúm til mats á því hvaða sjónarmið ráði för. Í því sambandi hafi hann í umrætt sinn tekið tillit til þess hvernig þarfir þjóðgarðsins yrðu best uppfylltar við ráðningu í starfið.
  44. Þau sjónarmið sem rakin hafi verið fyrir ráðningunni séu málefnaleg og uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til opinberra stofnana við ráðningu starfsmanna. Sá sem ráðinn hafi verið, hafi að því er varði þau sjónarmið sem nefnd hafi verið, staðið öllum umsækjendum framar, þar á meðal kæranda. Hvergi í ráðningarferlinu hafi kynferði umsækjenda komið til skoðunar heldur hafi verið staðið að ráðningunni í samræmi við viðteknar venjur og samkvæmt því svigrúmi sem opinberum aðilum sé játað í þessum efnum. Kærði telur þannig að hann hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 við umrædda ákvörðun.
  45. Nauðsynlegt sé að fjalla um og mótmæla sérstaklega ýmsum fullyrðingum og rangfærslum sem hafi komið fram í kæru.
  46. Kærði mótmæli því að sú staðreynd að tveir nefndarmenn af sjö hafi ekki verið viðstaddir kynningu umsækjenda verði talið hafa haft áhrif á lögmæti ráðningarinnar. Hið rétta sé að annar þeirra hafi ekki verið viðstaddur glærukynningar og hafi verið leitað eftir atkvæði hans símleiðis þegar ákvörðun hafi verið tekin um ráðninguna. Hann hafi greitt atkvæði með kæranda þannig að sú staðreynd að hann hafi ekki verið viðstaddur kynninguna verði ekki talið sýna fram á líkur þess að kynferði hafi ráðið för við ráðninguna. Kærði sé ályktunarbær þegar meiri hluti nefndarmanna sitji fund, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 848/2005 um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð. Hinn nefndarmaðurinn hafi hins vegar komið á fundinn skömmu eftir lok glærukynninga en í ljósi þess að umsækjendur höfðu skilið kynningargögn sín eftir hjá kærða hafi honum gefist tóm til að fara yfir slík gögn. Hann hafi verið viðstaddur þegar ákvörðun hafi verið tekin um ráðninguna og atkvæði greidd. Það sé því rangt að leitað hafi verið eftir atkvæðum tveggja nefndarmanna símleiðis. Þrátt fyrir að einn þeirra hafi ekki verið viðstaddur kynningarnar, þá hafi hann getað kynnt sér efni þeirra og haft til hliðsjónar þegar heildarmat hafi verið lagt á hæfni umsækjenda og atkvæði greidd um ráðninguna. Hið sama megi segja um ráðningarviðtölin en þau hafi verið rituð upp og nefndarmaðurinn því kynnt sér efni þeirra áður en komið hafi til atkvæðagreiðslu.
  47. Því sé harðlega mótmælt sem ýjað sé að í kæru að matsgrunnur sem nýttur hafi verið í umsóknarferlinu hafi að öllum líkindum verið búinn til eftir á. Þeir ráðgjafar frá Capacent sem hafi aðstoðað kærða í ráðningarferlinu hafi víðtæka reynslu og þekkingu af slíkum ráðgjafarstörfum og viðhaft vönduð vinnubrögð í öllu ferlinu. Ráðgjafarnir hafi unnið umræddan matsgrunn með fulltrúum kærða og það hafi ekki verið gert í nokkrum tengslum við umsóknir frá umsækjendum heldur út frá þeim kröfum og viðmiðum sem starfið krefjist. Öllum slíkum ásökunum kæranda sé harðlega mótmælt, enda algerlega órökstuddar og úr lausu lofti gripnar.
  48. Einnig sé því mótmælt sem röngu að matsþættir sem hafi verið lagðir til grundvallar í ráðningarviðtölum hafi verið lagaðir að hæfi eins umsækjandans. Að sama skapi mótmæli kærði þeim samanburði sem kærandi sjálf leggi fram með kæru sinni. Ekkert mark sé takandi á slíkum samanburði þar sem hann verði ekki talinn gefa raunsanna mynd af því hvernig hæfasti umsækjandi til að gegna tilteknu starfi sé fundinn. Til að mynda sé ógerningur að setja upp slíkan samanburð um hæfnisþætti sem felist í persónulegum eiginleikum umsækjenda, svo sem hæfni í mannlegum samskiptum eða skipulögðum vinnubrögðum og sjálfstæði í starfi. Þá sé því mótmælt að leggja eigi sérstakt mat á þætti sem kærandi telji sjálf að hefðu átt að koma til sérstakrar skoðunar, svo sem stjórnunarreynslu og dönskukunnáttu.
  49. Því sé mótmælt að minni munur virðist í reynd vera á kæranda og þeim sem ráðinn hafi verið varðandi reynslu af störfum tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum en hafi komið fram í grunnmati. Grunnmatið hafi verið byggt á ákveðnum forsendum og reynsla kæranda á þessu sviði ekki gefið tilefni til að færa hana ofar samkvæmt þeim matskvörðum. Mótmælt sé fullyrðingum um að reynsla kæranda af setu í umhverfisnefnd Alþingis hefði átt að nægja til að hún fengi fullt hús stiga í þessum matsþætti. Í því sambandi sé bent á að seta í nefndinni sem hluti af starfi alþingismanns verði ekki talin hafa sama vægi og reynsla af fullu starfi tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum eða umhverfismálum til lengri eða skemmri tíma. Það hafi verið málefnalegt sjónarmið að horfa til þeirrar reynslu sem sá sem ráðinn hafi verið hafi hlotið í störfum sínum sem fræðslufulltrúi þjóðgarðsins og síðar sem settur þjóðgarðsvörður.
  50. Auk þess sé því mótmælt að úrlausnir umboðsmanns Alþingis í málum nr. 3882/2003, 3909/2003 og 3980/2003 teljist fordæmisgefandi fyrir mál kæranda. Í þeim málum hafi verið fjallað um skipun í embætti dómara við Hæstarétt og af þeim verði ekki dregin sú ályktun að störf sem feli í sér stjórnun eða leiðtogahlutverk takmarki heimildir veitingarvaldshafa til að leggja áherslu á sérsjónarmið en geti átt við í sérhæfðari störfum. Að sama skapi verði mál kærunefndar jafnréttismála nr. 4/2013 og dómur Hæstaréttar í máli nr. 364/2014 ekki talin hafa nokkurt fordæmisgildi fyrir mál þetta. Í þeim málum hafi ekkert verið vikið að því að veitingarvaldshafi hafi handvalið sjónarmið til að hygla tilteknum umsækjanda heldur vísað til persónulegra eiginleika sem ráðandi sjónarmiðs, en ekki hafi tekist að styðja það með gögnum, svo sem framlagningu endurritaðra viðtala.
  51. Persónulegir eiginleikar séu þættir sem örðugt sé að setja í hlutlægan búning. Slík sjónarmið séu ávallt háð huglægu mati að mesti leyti og almennt ekki gerð krafa um að þau séu sett í hlutlægan búning. Kærði hafi lagt mat á alla slíka þætti, meðal annars með því að taka viðtöl og fela umsækjendum að þreyta raunhæft verkefni. Margir nefndarmenn þekki persónulega til starfa bæði kæranda og þess sem ráðinn hafi verið, svo sem eftir að hafa verið samstarfsmenn þeirra til lengri eða skemmri tíma. Það sé því eðlilegt að grunnmat hafi ekki fjallað um persónulega eiginleika, svo sem frumkvæði, skipulögð vinnubrögð og hæfni í mannlegum samskiptum. Þannig sé því mótmælt sem röngu að einungis 6 auglýstra matsþátta af 9 hafi ráðið niðurstöðu. Hið rétta sé að kærði hafi lagt heildarmat á alla þætti, bæði þá sem fjallað hafi verið um í grunnmati en einnig persónulega eiginleika og framtíðarsýn sem hafi meðal annars komið fram í ráðningarviðtali og kynningu.
  52. Kærandi telji að með því að setja þann sem ráðinn hafi verið tímabundið í starf þjóðgarðsvarðar hafi honum verið veitt forskot til að standast betur hæfniskröfur en slíkar fullyrðingar eigi ekki við nokkur rök að styðjast.
  53. Þá sé það hvorki ólögmætt né til þess fallið að kasta rýrð á ráðningarferlið að nefndarmenn kærða hafi starfað með þeim sem ráðinn hafi verið í heilt ár áður en til ráðningarinnar hafi komið. Í þessu sambandi skuli á það bent að það verði ekki talið að nefndarmenn verði vanhæfir til að taka ákvörðun um ráðningu í starfið þótt umsækjendur komi úr hópi starfsmanna þjóðgarðsins á Þingvöllum. Vísist um þetta til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 1310/1994, 1508/1995 og 1391/1995 þar sem umboðsmaður hafi vísað til þeirrar meginreglu að starfsmaður verði almennt ekki vanhæfur til meðferðar máls samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þótt á meðal umsækjenda sé samstarfsmaður hans eða undirmaður, nema ótvíræðar upplýsingar liggi fyrir um að náin vinátta hafi tekist með þeim. Ekkert liggi fyrir um að kærandi hafi sýnt fram á að náin vinátta hafi tekist með nefndarmönnum kærða og þeim sem ráðinn hafi verið þannig að vanhæfi komi til greina.
  54. Þeim skilningi kæranda að raunhæft verkefni, sem lagt hafi verið fyrir hana og þann sem ráðinn hafi verið, hafi átt að ráða úrslitum um hæfni þeirra sé mótmælt. Ákvörðun um ráðninguna hafi ráðist af heildarmati á öllum hæfnisþáttum sem raktir hafi verið í auglýsingu um starfið eða sem eðli máls hafi mátt leiða af henni. Úrlausn raunhæfra verkefna hafi verið einn þáttur í ráðningarferlinu og haft þann megintilgang að tryggja vandað ráðningarferli svo að hægt yrði að finna hæfasta umsækjandann. Því sé alfarið hafnað að sá sem ráðinn hafi verið hafi hlotið að eiga það verkefni sem lagt hafi verið fyrir tilbúið í vinnutölvu sinni. Það sé fjarstæðukennt að halda því fram að einn umsækjandi hafi verið tilbúinn með slíkt verkefni áður en það hafi verið lagt fyrir. Með slíkum aðdróttunum sé vegið að heiðarleika og heilindum bæði kærða og ráðgjafa Capacent sem hafi undirbúið verkefnið. Mat á úrlausn verkefnisins hafi falist í yfirferð nefndarmanna á kynningum og mati þeirra á frammistöðu umsækjenda. Slíkt mat hafi að öllu leyti byggt á huglægum sjónarmiðum sem hafi komið til skoðunar sem þáttur í hinu heildræna mati. Því sé mótmælt sem röngu að sá nefndarmaður sem hafi komið á nefndarfund eftir að kynningar hafi verið afstaðnar hafi ekki haft neitt í höndunum um það hvernig sá sem ráðinn hafi verið hefði leyst sitt verkefni af hendi. Hann hafi skilað umfjöllun sinni á blöðum sem hafi verið afhent ráðgjafa Capacent sem hafi setið fundinn. Kynning þess sem ráðinn hafi verið hafi því getað komið til skoðunar áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin.
  55. Að síðustu hafi úrskurður í máli kærunefndar jafnréttismála nr. 2/2018 ekki fordæmisgildi fyrir það mál sem hér sé til umfjöllunar, auk þess sem í ráðningarferlinu við ráðningu í starfið hafi legið fyrir endurrit ráðningarviðtala sem hafi að geyma staðlaðar spurningar til umsækjenda.
  56. Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi hæfasti umsækjandinn hlotið starfið og með því hafi ekki verið brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi hafi ekki leitt líkur að því að mismunun á grundvelli kynferðis hafi átt sér stað við ráðninguna en jafnvel þótt talið verði að sýnt hafi verið fram á slíkar líkur hafi framangreindar athugasemdir kærða sýnt fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hennar.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  57. Í athugasemdum kæranda segir meðal annars að í tölvupósti hennar þar sem óskað hafi verið eftir rökstuðningi kærða hafi jafnframt verið sett fram krafa um að fá afhent öll matsgögn sem hafi legið til grundvallar ráðningunni, þar með talið gögn sem hafi sýnt stigagjöf og forgangsröðun matsþátta sem og öll önnur vinnugögn sem ætla hafi mátt að hefðu haft áhrif á þann samanburð sem gerður hafi verið á kæranda og þeim sem ráðinn hafi verið. Hún hafi einnig óskað eftir að fá afhentar umsagnir meðmælenda, eða minnisblöð um slíkar umsagnir, hafi þau legið fyrir. Þá hafi hún sérstaklega tekið fram í tölvupóstinum að hún óskaði eftir umræddum gögnum um sjálfa sig og hvern þann samanburð sem gerður hafi verið á henni og þeim sem ráðinn hafi verið, þar á meðal samanburð á stigum og öðrum matsþáttum sem hafi haft áhrif á áðurnefnda ákvörðun.
  58. Með rökstuðningi meiri hluta kærða hafi fylgt tvö matsblöð sem höfðu að geyma upplýsingar um matsþætti, vægi þeirra og stigagjöf kæranda og þess sem ráðinn hafi verið. Frekari gögn hafi ekki fylgt með. Samkvæmt rökstuðningnum hafi fyrra matsblaðið átt að sýna stigaskor kæranda og þess sem ráðinn hafi verið varðandi þá hlutlægu hæfnisþætti sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið. Í rökstuðningnum segi að þetta stigaskor hafi eingöngu verið notað til að ákveða hverjir yrðu boðaðir í fyrsta viðtal. Seinna matsblaðið hafi hins vegar átt að sýna stigaskor sömu einstaklinga að afloknum viðtölum við umsækjendur þar sem fyllri upplýsingar hafi fengist í viðtölunum um atriði sem hafi snúið að þeim sex matsþáttum sem sérstaklega hafi verið tilgreindir á matsblöðum. Ekki liggi fyrir ástæður þess að frekari gögn hafi ekki fylgt rökstuðningum en það verði að teljast harla einkennilegt, ekki síst í ljósi þess að kærandi hafi sérstaklega óskað eftir því að fá afhent öll gögn sem lægju fyrir og hefðu haft áhrif á ákvörðun um ráðninguna.
  59. Með greinargerð kærða í máli þessu hafi hins vegar fylgt átta fylgiskjöl, þar á meðal spurningalisti vegna ráðningarviðtala, endurrit ráðningarviðtala og kynning þess umsækjenda sem síðar hafi verið ráðinn á raunhæfa verkefninu. Þessi gögn hafi kærandi fyrst séð þegar hún hafi fengið afrit af greinargerð kærða í byrjun janúar 2019. Sú staðreynd að hún hafi ekki fengið þessi gögn þegar hún hafi leitað eftir þeim veki upp áleitnar spurningar um hvort þau hafi legið fyrir með þeim hætti sem nú sé á þeim tíma sem hún hafi óskað eftir þeim. Kærandi hafi meðal annars upplýsingar um að sú kynning sem lögð hafi verið fram sem fylgiskjal með greinargerðinni hafi ekki verið afhent með skriflegum hætti að afstaðinni kynningu umsækjandans á verkefninu.
  60. Af gögnum megi ráða að við grunnmat á umsækjendum hafi verið útbúið sérstakt matsblað þar sem sex tilgreindir þættir hafi verið teknir til mats. Hverjum matsþætti hafi verið gefið ákveðið vægi, 4-8 stig af 33 samanlögðum heildarstigum, sem geri 12-24% fyrir hvern og einn matsþátt. Hverjum umsækjenda hafi síðan verið gefið stig fyrir hvern matsþátt fyrir sig og mest hægt að fá 4 stig fyrir hvern þeirra. Niðurstaða seinna matsblaðsins gefi til kynna að kærandi hafi fengið 22 stig en sá sem ráðinn hafi verið einu stigi meira. Grunnmatið hafi gefið til kynna að sáralítill munur hafi verið á milli þessara tveggja umsækjenda en þá hafði ekki verið tekið tillit til frammistöðu þeirra í ráðningarviðtali eða úrlausnar raunhæfs verkefnis. Þessi litli munur hafi gefið mun ríkari ástæðu en ella hefði verið til að vanda til verka við mat á hverjum matsþætti fyrir sig.
  61. Í auglýsingu hafi verið gerð krafa um færni í mótun stefnu, lausna og hugmynda, frumkvæði, skipulögð vinnubrögð og sjálfstæði í starfi, enda sé starfið stjórnunarstaða sem feli í sér fjárreiðuábyrgð, áætlanagerð, stefnumótun og mannaforráð. Þrátt fyrir þetta hafi stjórnunarreynsla umsækjenda ekki verið metin með hlutlægum hætti. Þetta séu þó atriði sem samkvæmt auglýsingu hefðu átt að teljast nauðsynleg forsenda ráðningar og vega mun þyngra en ýmislegt annað æskilegt sem tekið hafi verið til mats. Fyrir vikið hafi yfirburðir kæranda varðandi stjórnunarreynslu og menntun á sviði stjórnunar ekki verið teknir til álita.
  62. Í stað þess að líta til stjórnunarreynslu og hæfnisþátta sem henni tengist hafi verið litið til reynslu af opinberum rekstri. Í rökstuðningi kærða hafi meðal annars verið vísað til þátttöku þess sem ráðinn hafi verið í einstaka stjórnunarverkefnum en horft fram hjá áralangri reynslu kæranda af yfirumsjón, ábyrgð og skipulagi sambærilegra og stærri verkefna sem leiði af stjórnunarreynslu hennar sem sé mun þyngri og víðtækari en þau stöku verkefni sem sá sem ráðinn hafi verið hafi komið að.
  63. Á síðara matsblaðinu hafi lítill munur verið gerður á umsækjendum fyrir reynslu af opinberum rekstri. Það sé einkennilegt í samanburði við mat á reynslu af störfum tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum þar sem kæranda hafi einungis verið gefin 2 stig en sá sem ráðinn hafi verið fengið 4 stig. Samkvæmt gögnum virðist þó í reynd vera minni munur á umsækjendum varðandi reynslu af þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum heldur en reynsla þeirra af opinberum rekstri þar sem yfirburðir kæranda hefðu átt að vera augljósir í ljósi stjórnunarreynslu hennar, stjórnunarmenntunar og þátttöku í opinberri stjórnsýslu. Í matinu hafi hins vegar verið gerður meiri munur á reynslu umsækjenda af störfum tengdum þjóðgörðum heldur en stjórnunarreynslu. Sá áherslumunur sé óeðlilegur þegar litið sé til þess hvers eðlis starfið sé, ekki síst þegar litið sé til þeirrar stjórnunarábyrgðar sem því fylgi.
  64. Í greinargerð kærða sé meðal annars látið að því liggja að kærandi hafi verið óbreyttur nefndarmaður í umhverfisnefnd Alþingis sem ekki geti talist viðamikil reynsla af þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum. Í umsókn kæranda hafi þó komið fram að hún hafi gegnt formennsku og varaformennsku í umhverfisnefnd Alþingis sem útheimti mun ríkari starfsskyldur, ábyrgð og þekkingu á málefnasviðinu heldur en óbreytt nefndarseta. Í umsóknargögnum komi fram að meðal þeirra verkefna sem hún hafi haft með höndum hafi verið þátttaka í endurskoðun náttúruverndarlaga og gerð rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landssvæða. Þá hafi hún undirbúið, samið og flutt frumvarp til laga um upplýsingarétt í umhverfismálum og haft frumkvæði að umfjöllun nefndarinnar um öryggismál ferðamanna og samstarf viðbragðsaðila um þau efni en þar sé kærandi á heimavelli þar sem hún hafi árum saman starfað að björgunarmálum sem félagi í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Loks megi nefna skýrslu sem hún sé höfundur að og samin hafi verið fyrir umhverfisnefnd um upplýsingarétt í umhverfismálum og birt sé á vefsíðu Alþingis.
  65. Þeir þrír þættir sem ekki hafi komið til grunnmats á umsækjendum en sérstakur áskilnaður þó gerður um í auglýsingu hafi verið: 1) færni í mótun stefnu, lausna og hugmynda, 2) frumkvæði, skipulögð vinnubrögð og sjálfstæði í starfi og 3) mjög góð hæfni í mannlegum samskiptum og geta til að vinna undir álagi.
  66. Vegna áskilnaðar um fyrrgreinda hæfnisþætti hafi sú skylda hvílt á kærða að leggja mat á umsóknir út frá þeim menntunar- og hæfniskröfum sem hafi komið fram í auglýsingu. Af greinargerð kærða verði hvorki með nokkru móti ráðið með hvaða hætti mat hafi verið lagt á frammistöðu umsækjenda varðandi fyrrgreind atriði í ráðningarviðtölum né hvernig lagt hafi verið mat á frammistöðu þeirra við úrlausn verkefnisins. Til dæmis verði ekki ráðið hvor þeirra hafi staðið sig betur í viðtali eða við úrlausn á verkefninu. Í ljósi þess hve lítill munur hafi verið á þeim eftir grunnmatið hafi kærða mátt vera ljóst að viðtölin og úrlausn verkefnisins kæmu að öllum líkindum til með að ráða miklu um það hvor þeirra yrði talinn hæfari þegar lagt yrði heildstætt mat á allar þær menntunar- og hæfniskröfur sem áskilnaður hafi verið gerður um í auglýsingu. Kærða hafi borið skylda til að leggja mat á umsækjendur varðandi þessi atriði með nákvæmlega sama hætti og gert hafi verið varðandi aðrar hæfniskröfur til starfsins, og þá ekki síst í ljósi þess að um hafi verið að ræða atriði sem sérstakur áskilnaður hafi verið gerður um í auglýsingu. Gögn málsins gefi hins vegar til kynna að eiginlegt mat hafi ekki verið lagt á þessi atriði og sé það vægast sagt mjög einkennilegt þegar haft sé í huga hversu lítill munur hafi verið á þessum tveimur umsækjendum að loknu grunnmati. Því til viðbótar liggi einnig fyrir að ekki hafi verið leitað eftir umsögnum hjá meðmælendum, en þær umsagnir hefðu að öllum líkindum getað veitt nefndinni ákveðnar upplýsingar um fyrrgreind atriði.
  67. Kærunefnd jafnréttismála hafi í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að mikilvægt sé að í upphafi ráðningarferils séu fyrir hendi fyrir fram ákveðin viðmið til að varpa ljósi á frammistöðu umsækjenda í ráðningarviðtölum þannig að hægt sé að leggja eiginlegt mat á frammistöðu þeirra í slíkum viðtölum. Það sama eigi við varðandi úrlausn verkefna sem lögð séu fyrir umsækjendur og notuð séu til að meta ákveðna þætti varðandi hæfni þeirra. Af greinargerð kærða megi ráða að engin slík viðmið hafi verið til staðar í því máli sem hér um ræði.
  68. Umfjöllun kærða í greinargerðinni segi nákvæmlega ekkert til um það hvort og þá með hvaða hætti hafi verið lagt eiginlegt mat á frammistöðu umsækjenda í ráðningarviðtali og úrlausn verkefnisins, og þá heldur ekki hvort annar þeirra hafi staðið sig betur en hinn. Hafi það verið mat meiri hluta kærða að sá umsækjandi sem ráðinn hafi verið hafi staðið sig betur en kærandi í ráðningarviðtalinu og við kynningu á því verkefni sem hafi verið lagt fyrir umsækjendur, hafi honum borið að rökstyðja þá niðurstöðu með skýrum og gegnsæjum hætti þannig að hægt væri að meta hvort svo hafi verið. Þetta sé þeim mun mikilvægara þar sem fyrirliggjandi gögn gefi til kynna að þessi hluti ráðningarferlisins hafi að minnsta kosti að einhverjum hluta haft áhrif á niðurstöðu meiri hluta kærða varðandi ráðninguna. Sú staðreynd að ekki hafi verið vísað til þess að sá sem ráðinn hafi verið hafi á nokkurn hátt staðið sig betur en kærandi í fyrrgreindum viðtölum og verkefnum og rökstutt mat á frammistöðu að þessu leyti liggi ekki fyrir geri það að verkum að ógjörningur sé að átta sig á niðurstöðunni. Í greinargerðinni sé því einu haldið fram að heildstætt mat á þeim menntunar- og hæfniskröfum sem fram hafi komið í auglýsingu hafi ráðið úrslitum. Þau endurrit ráðningarviðtala og úrlausn/framsetning verkefnis sem nú fyrst hafi verið lögð fram styðji ekki þá fullyrðingu.
  69. Sá sem ráðinn var hafi haft ákveðið forskot á kæranda þegar komið hafi að úrlausn og framsetningu þess raunhæfa verkefnis sem hafi verið sett fyrir við lok ráðningarferlisins og lotið að framtíðarsýn fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum. Ekki liggi fyrir hvort og þá með hvaða hætti kærði hafi tekið tillit til fyrrgreindra atriða þegar hann hafi lagt mat á frammistöðu umsækjenda í ráðningarviðtali og við úrlausn verkefnisins. Sú fullyrðing í rökstuðningi að kærandi hafi staðið sig með prýði í viðtölum og raunhæfu verkefni ætti í ljósi framangreinds að gefa til kynna að frammistaða hennar hafi í raun réttri verið betri, sé fyrrgreindur aðstöðumunur umsækjendanna hafður í huga.
  70. Þótt vinnuveitendum hafi almennt verið veitt nokkurt svigrúm til að velja þau sjónarmið sem lögð séu til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum í tiltekið starf, hafi verið talið að þau sjónarmið verði að vera bæði málefnaleg og gegnsæ. Því sé hins vegar ekki fyrir að fara í því máli sem hér um ræði.
  71. Ekki verði hjá því komist að gera athugasemdir við lýsingu í greinargerð kærða á málsatvikum og svara athugasemdum hans þar sem látið sé í veðri vaka að kærandi fari ekki að öllu leyti rétt með lýsingu málsatvika.
  72. Fullyrt sé í greinargerð kærða að sá sem ráðinn hafi verið hafi að mati kærða staðið öllum umsækjendum framar í reynslu, þekkingu, persónulegum eiginleikum og varðandi framtíðarsýn. Áður en lengra sé haldið skuli á það minnt að ráðningin hafi verið ákveðin með eins atkvæðis mun, þannig að matið sem hér um ræði hafi þá verið mat meiri hluta kærða. Þess utan sé fullyrðingin athyglisverð þar sem ekkert hlutlægt mat hafi verið lagt á vissa þætti, til dæmis varðandi stjórnunarreynslu. Ekkert hlutlægt mat hafi heldur verið lagt á persónulega eiginleika, til dæmis með samtölum við umsagnaraðila, ítarviðtölum, persónuleikaprófi eða öðrum þeim matsaðferðum sem tíðkist í ráðningarferli sem þessu, sérstaklega þegar svo lítill munur sé talinn vera á umsækjendum. Framtíðarsýn þess sem ráðinn hafi verið hafi birst í verkefni því sem hann hafi kynnt á fundi kærða 5. október 2018 en það hafi ekki verið aðgengilegt öllum nefndarmönnum á fundinum þegar ákvörðun hafi verið tekin um ráðninguna þar sem skrifleg útgáfa verkefnisins hafi þá ekki legið frammi.
  73. Í greinargerð kærða segi að verkefnið sem sá sem ráðinn hafi verið hafi kynnt á fundinum hafi legið fyrir hjá starfsmanni Capacent og því hafi til dæmis einn nefndarmaður sem ekki hafi verið viðstaddur kynninguna getað kynnt sér verkefnið fyrir atkvæðagreiðslu. Fram hafi komið opinberlega að hann hafi ekki gert það. Það sanni færsla annars nefndarmanns á samfélagsmiðlum, en hún hafi gert alvarlegar athugasemdir við málsmeðferðina eftir fundinn og sagt sig úr nefndinni í framhaldinu.
  74. Þá sé í greinargerð kærða mikið gert úr því að umræddur nefndarmaður hafi í eigin persónu verið viðstaddur atkvæðagreiðsluna en ekki greitt atkvæði símleiðis eins og ráða hafi mátt af kæru. Beðist sé velvirðingar á þessari missögn sem að sögn kæranda hafi byggt á ónákvæmum upplýsingum í símtali formanns kærða við kæranda eftir fundinn. Rétt muni vera að tveir nefndarmenn hafi verið fjarverandi kynningarnar, einungis annar þeirra hafi greitt atkvæði í síma en hinn mætt til atkvæðagreiðslunnar að kynningum loknum. Það hvernig atkvæðagreiðslan hafi átt sér stað breyti þó engu um inntak málsins. Það sem máli skipti sé að tveir nefndarmenn hafi verið fjarstaddir umræddar kynningar og hafi annar þeirra hvorki verið viðstaddur ráðningarviðtölin né kynningu og þess vegna ekki haft neitt í höndunum varðandi frammistöðu umsækjenda hvað þessi atriði hafi varðað.
  75. Í greinargerð kærða segi að fyrrgreint verkefni hafi ekki átt að ráða úrslitum um hæfi umsækjenda. Þessi fullyrðing stangist á við fyrirliggjandi gögn. Í tölvupósti formanns kærða til nefndarmanna, sem sendur hafi verið eftir fyrstu ráðningarviðtöl 22. september 2018, hafi komið fram að umsækjendur hafi að mati valnefndar (fjögurra nefndarmanna undir forystu formanns) staðið því sem næst jafnir að vígi. Kærandi hafi raunar mótmælt því mati og talið að hún hafi þá þegar átt að vera metin ofar hinum umsækjendanum. Engu að síður hafi þetta verið mat valnefndar eftir fyrstu viðtöl og í tölvupósti tilkynnt að þess vegna skyldi lagt raunhæft verkefni fyrir umsækjendur sem kynnt yrði fyrir fullsetinni Þingvallanefnd. Í fyrrgreindum tölvupósti formanns til kærða segi meðal annars að eftir standi umræddir tveir umsækjendur. Þau hafi verið nokkuð jöfn í punktakerfinu og álíka hæf, en að nokkru á ólíkum forsendum. Því næst segi í tölvubréfinu:

    Ekki var eining um að velja annað hvort til að leggja fyrir nefndina sem sameiginlegan kandídat í stöðuna. Öll vorum við þar með sammála um að Þingvallanefnd fengi tækifæri til þess að hitta þau, hvort fyrir sig, með ákv. verkefni sem þau fá um heildarsýn þeirra á þjóðgarðinn og leysa á sinn hátt á fundi með nefndinni (og með góðum tíma fyrir spurningar --- og svo umræður okkar í milli eftir að þau hverfa af fundi) […]

  76. Síðan segi í sama tölvupósti um fundartímann:

    […] fundum við ekki annan tíma (m.a. vegna fjarveru sumra nefndarmanna og [þess karls sem síðar var ráðinn] þann 28. sept. […]) heldur en föstudaginn 5. okt. […]

  77. Af tölvupóstinum megi ráða að mikilvægt hafi þótt að allir nefndarmenn væru viðstaddir verkefnið og kynninguna vegna þess að þau hafi átt að ráða úrslitum um hæfi umsækjenda þar sem þeir hafi staðið eftir fyrsta viðtal því sem næst jafnt að vígi þó að á ólíkum forsendum hafi verið.
  78. Með hliðsjón af öllu framangreindu telji kærandi að hlutrænn samanburður á hæfni umsækjenda hefði átt að leiða í ljós að hún væri hæfari í starfið, meðal annars með hliðsjón af menntun og víðtækari starfsreynslu á þeim sviðum sem hefðu átt að skipta hvað mestu máli við mat á hæfni umsækjenda. Því til viðbótar telji kærandi að fyrirliggjandi gögn, svo sem endurrit ráðningarviðtala og úrlausn þess raunhæfa verkefnis sem lagt hafi verið fyrir umsækjendur, gefi til kynna að kærandi hafi einnig í þeim hluta ráðningarferlisins staðið sig mun betur en sá sem ráðinn hafi verið, ekki hvað síst þegar tekið sé tillit til þess forskots sem hann hafi haft hvað þessa þætti varði sem starfsmaður kærða til margra ára.
  79. Samkvæmt 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gildi sú sönnunarregla að séu leiddar líkur að beinni eða óbeinni mismunun við ráðningu í starf skuli atvinnurekandi eða handhafi ráðningarvaldsins sýna fram á að aðrar aðstæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Ekki verði séð að meiri hluti kærða hafi sýnt fram á að aðrar aðstæður en kynferði hafi legið til grundvallar þeirri ráðningu sem hér um ræði.
  80. Þá sé ástæða til að vekja athygli kærunefndar á því að verulega hallar á konur þegar litið sé til þess hverjir skipi stöður stjórnenda (forstöðumenn eða yfirmenn þjóðgarða) í þjóðgörðunum þremur í landinu, en þær stöður séu allar skipaðar karlmönnum.
  81. Eins og áður segir kom kærandi á framfæri frekari athugasemdum með bréfi, dagsettu 1. mars 2019. Þar kemur einkum fram að það sé rangt að allir nefndarmenn kærða hafi þekkt kæranda persónulega en hún þekki ekkert til fjögurra af þeim nefndarmönnum sem hafi tekið ákvörðun um ráðninguna á vettvangi kærða.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  82. Kærði kveðst hafa uppfyllt ákvæði laga um upplýsingarétt aðila máls, sbr. einkum 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af beiðni kæranda hafi mátt ráða að hún hafi verið að óska eftir matsgögnum og öðrum vinnugögnum sem ætla hafi mátt að kærði hafi nýtt við samanburð á umsækjendum. Þau gögn hafi verið afhent, þar á meðal slík gögn sem hafi varðað kæranda sjálfa. Ekki hafi verið leitað eftir umsögnum meðmælenda eða gerð önnur mats- eða minnisblöð í ráðningarferlinu. Ekki hafi því verið til að dreifa öðrum matsgögnum eða öðrum vinnugögnum um samanburð á milli umsækjenda.
  83. Í rökstuðningi kærða hafi sérstaklega verið vísað til þess að viðtöl hafi verið rituð upp, auk þess sem kynningar hafi legið fyrir við ákvörðun kærða. Með rökstuðningnum hafi hún verið upplýst um slík gögn. Hafi kærandi þá talið að beiðni hennar um rökstuðning og aðgang að tilteknum gögnum hafi einnig innifalið slík gögn hefði henni verið í lófa lagið að ítreka það gagnvart kærða eða skýra nánar þá ósk. Í tölvupósti sem kærandi sendi til formanns kærða 5. október 2018 hafi hún vísað til þess að henni hefðu borist umbeðin gögn og þar hafi hún óskað eftir að fá að sjá það mat sem lagt hafi verið á frammistöðu umsækjenda í viðtölum sem og vegna þess verkefnis sem innt hafi verið af hendi fyrir lokaákvörðun kærða. Ekkert hafi þar verið minnst á beiðni um aðgang að upprituðum viðtölum eða kynningargögnum umsækjenda.
  84. Eina gagnið sem ekki hafi verið minnst á í rökstuðningi til kæranda hafi verið spurningalisti sem hafi verið notaður í viðtölum við umsækjendur. Slíkt skjal verði þó hvorki talið falla undir matsgögn né önnur vinnugögn sem ætla hafi mátt að kærði hafi nýtt við samanburð á umsækjendum. Hins vegar megi ætla að slíkt gagn sýni fram á að samræmis hafi verið gætt í spurningum til umsækjenda í ráðningarviðtölum.
  85. Þótt munur á milli kæranda og þess sem ráðinn hafi verið hafi ekki verið mikill þegar matsþættir í grunnmati höfðu verið skoðaðir hafi engu að síður verið munur þar á. Ávallt beri að vanda vel til verka við mat á hæfni umsækjenda hver svo sem niðurstaðan sé í slíku grunnmati. Það hafi kærði enda gert í umrætt sinn.
  86. Val á matsþáttum hafi verið unnið með aðstoð sérfræðinga frá Capacent út frá þeim kröfum sem starfið krefjist. Ógerlegt hafi verið að setja fram samanburð á grunnmati á hæfnisþáttum sem felist í persónulegum eiginleikum umsækjenda. Mæling á þessum þáttum hafi verið gerð síðar í ráðningarferlinu, svo sem með viðtölum og raunhæfu verkefni. Þótt umsækjendur geti haft skiptar skoðanir á því hvernig grunnmat á hæfni þeirra sé framkvæmt verði það ekki talið leiða til þess að matið sé rangt.
  87. Þótt stjórnunarreynsla hafi ekki verið sérstakur hæfnisþáttur í grunnmatinu, enda ekki um að ræða hæfniskröfu samkvæmt auglýsingu, hafi slík reynsla engu að síður verið metin undir matsþættinum reynsla af opinberum rekstri. Kærandi hafi notið þeirrar reynslu sinnar, enda fengið fullt hús stiga undir þeim matsþætti.
  88. Kærandi telji að óeðlilegur áherslumunur sé á metinni reynslu umsækjenda af störfum tengdum þjóðgörðum miðað við reynslu þeirra af opinberum rekstri. Kærði mótmæli þessum skilningi og telji að ekki sé hægt að bera saman mismunandi matsþætti með þeim hætti sem kærandi geri. Þá árétti kærði að staðið sé við það grunnmat sem framkvæmt hafi verið og að það hafi verið framkvæmt í samræmi við viðteknar venjur í ráðningarmálum og með hliðsjón af ítarlegum umsóknargögnum. Ekkert í málflutningi kæranda gefi tilefni til að ætla að matið hafi verið byggt á röngum eða ófullnægjandi forsendum.
  89. Því sé mótmælt að sú staðreynd að kærandi hafi gegnt formennsku og varaformennsku í umhverfisnefnd Alþingis útheimti mun ríkari starfsskyldur, ábyrgð og þekkingu á málefnasviðinu heldur en óbreytt nefndarseta. Þetta sé ekkert frekar rökstutt af hálfu kæranda og verði heldur ekki séð þess stað í þingskaparlögum nr. 55/1991. Af þingsköpum megi vissulega ráða að formenn fastanefnda Alþingis hafi meiri ábyrgð sem snúi að starfi nefndanna, svo sem með því að boða til funda, ákveða dagskrá og stýra fundum. Hins vegar sé þar hvergi vikið að því að slík formennska útheimti mun ríkari þekkingu á viðkomandi málefnasviði heldur en eigi við um aðra nefndarmenn. Í raun séu því ekki gerðar neinar sérstakar kröfur um þekkingu, hvorki nefndarmanna né formanna fastanefnda Alþingis á málefnasviðum einstakra nefnda.
  90. Kærandi segi að hún hafi undirbúið, samið og flutt frumvarp til laga um upplýsingarétt í umhverfismálum. Við nánari skoðun verði hins vegar ráðið að hún hafi haft frumkvæði og forgöngu að frumvarpi að lögum nr. 24/2012 um breytingu á lögum nr. 26/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál í starfi sínu sem alþingismaður árið 2012. Án þess að kasta rýrð á þau störf kæranda sé nokkuð ólíku saman að jafna og full ástæða til að gæta að nákvæmni að þessu leyti.
  91. Það hafi verið mat kærða að ekki hafi verið þörf á því að leita eftir umsögnum hjá meðmælendum í umrætt sinn. Það hafi einkum helgast af því að margir nefndarmenn hafi þekkt persónulega til starfa bæði kæranda og þess sem ráðinn hafi verið, svo sem eftir að hafa verið samstarfsmenn þeirra til lengri eða skemmri tíma. Að mati kærða hafi rannsóknarskylda kærða verið uppfyllt og fullnægjandi upplýsinga um persónulega eiginleika verið aflað með ráðningarviðtölum og úrlausn raunhæfs verkefnis.
  92. Kærði mótmæli því að engin fyrir fram ákveðin viðmið hafi verið fyrir hendi varðandi annars vegar ráðningarviðtöl og hins vegar raunhæf verkefni. Hið rétta sé að slík viðmið hafi verið til staðar, annars vegar með því að umsækjendur hafi verið spurðir að sömu stöðluðu spurningunum og hins vegar með því að þeim hafi verið falið að leysa sama raunhæfa verkefnið. Með því hafi verið hægt að bera frammistöðu þeirra saman.
  93. Það hafi verið mat meiri hluta kærða að bæði ráðningarviðtal og úrlausn raunhæfs verkefnis hafi endurspeglað þá persónulega eiginleika í fari þess sem ráðinn hafi verið sem leitað hafi verið eftir í starfið. Það hafi verið heildrænt mat meiri hluta kærða að hann hafi sýnt fram á þessa eiginleika sína með skýrari hætti þannig að hann stæði kæranda framar að þessu leyti. Þá sé því mótmælt að kærði hafi ekki vísað til þess að hann hafi staðið sig betur í viðtali og við úrlausn raunhæfs verkefnis. Þvert á móti hafi það verið gert líkt og framangreindur rökstuðningur beri með sér. Í þessu sambandi sé rétt að taka fram að í rökstuðningi beri aðeins að greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið og ekki sé gerð krafa um að hann feli í sér samanburð á þeim sem ráðinn hafi verið gagnvart öðrum umsækjendum.
  94. Kærði mótmæli því að hafa borið að taka tillit til aðstöðumunar á milli umsækjenda og í ljósi þess að því hafi verið lýst að kærandi hafi leyst verkefni sitt með prýði þá gefi það til kynna að frammistaða hennar hafi í raun réttri verið betri en þess sem ráðinn hafi verið. Það sé fráleitt að leggja út af ráðningarferilinu og niðurstöðu meiri hluta kærða með þessum hætti. Annars vegar vísist til þess að ekkert liggi fyrir um að nefndarmenn hafi verið vanhæfir til að taka ákvörðun um ráðninguna. Hins vegar mótmæli kærði þeim skilningi kæranda að sá sem ráðinn hafi verið hafi átt að gjalda þess með einhverjum hætti að hann hafi verið starfsmaður þjóðgarðsins til margra ára. Það sé með öllu óskiljanlegt hvernig slíkur skilningur fari saman við meginreglur stjórnsýsluréttarins, svo sem meginreglur um jafnræði, meðalhóf og réttmæti.
  95. Ítrekað skuli að kynningargögn hafi verið skilin eftir fyrir nefndarmenn og þeim nefndarmanni sem ekki hafi verið viðstaddur kynningarnar hafi því gefist tóm til að fara yfir þau gögn. Í frétt Vísis um málið 9. október 2018 hafi verið haft eftir nefndarmanninum að hann hafi fengið kynningar beggja umsækjenda, auk annarra gagna frá Capacent. Því sé þar af leiðandi mótmælt sem röngu að hann hafi ekki kynnt sér gögnin.
  96. Kærði sé fjölskipað stjórnvald og um það gildi stjórnsýslulög, meðal annars hvað varði skipun og málsmeðferð. Niðurstaða meiri hluta kærða hafi byggt á heildrænu mati á þeim hæfnisþáttum sem auglýsing um starfið hafi kveðið á um. Það mat hafi verið byggt á umræðum þeirra nefndarmanna sem hafi skipað meiri hluta við umrædda ákvörðun þar sem fram hafi komið sameiginleg sjónarmið sem ákvörðunin hafi byggt á. Í því sambandi skipti máli að nefndarmenn hafi öll haft nauðsynleg gögn til að taka slíka ákvörðun. Það hafi hins vegar ekki vægi í þessu sambandi hvað hver og einn nefndarmaður kunni síðar að setja fram um hvernig hann hafi túlkað einstök umsóknargögn, ummæli í ráðningarviðtali eða sjónarmið sem fram hafi komið í úrlausnum umsækjenda á raunhæfum verkefnum. Hér þurfi að horfa til þeirra sameiginlegu sjónarmiða og hins heildræna mats sem meiri hluti kærða hafi fellt sig við og byggt ákvörðun sína á. Þá verði að horfa á skýringar og rökstuðning kærða en ekki sé byggjandi á ummælum einstakra nefndarmanna sem kunni eftir atvikum að vera sett fram í stöðuuppfærslum á samfélagsmiðlum.
  97. Það felist í stjórnunarrétti kærða að útfæra og leggja mat á þau sjónarmið sem ráði för við ráðningu í starfið. Það mat kærða hafi verið forsvaranlegt og í samræmi við kröfur laga um reglna og eðli starfsins.

    NIÐURSTAÐA

  98. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við nánara mat á þessu skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu, sbr. 5. mgr. 26. gr. laganna. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  99. Kærði auglýsti starf þjóðgarðsvarðar 11. ágúst 2018. Í auglýsingunni kom fram að óskað væri eftir að ráða öflugan og framsýnan leiðtoga í starf þjóðgarðsvarðar í þjóðgarðinn á Þingvöllum og að leitað væri að atorkusömum, metnaðarfullum og skipulögðum einstaklingi með góða hæfni í mannlegum samskiptum.
  100. Í fundargerð kærða, dagsettri 26. september 2018, kemur fram að eftir viðtöl við umsækjendur liggi fyrir að þrír umsækjendur séu taldir hæfastir og tveir þeirra séu með „næstum jafna punktastöðu“. Verkefni verði lagt fyrir umrædda tvo umsækjendur í seinni umferð ráðningarferlis. Var þar um að ræða annars vegar kæranda og hins vegar þann karl sem síðar hlaut starf þjóðgarðsvarðar. Í fundargerð kærða, dagsettri 5. október 2018, kemur fram að umræddir tveir umsækjendur hafi komið á fund nefndarinnar. Því næst segir í fundargerðinni að niðurstaða fundarins hafi verið á þá leið að meiri hluti nefndarinnar hefði ákveðið að ganga til samninga um stöðuna við karlinn. Ekki er að finna í fundargerðinni reifun á sjónarmiðum fundarmanna, rökstuðning fyrir niðurstöðu kærða eða upplýsingar um það hvernig atkvæði fundarmanna féllu. Á fundi kærða 17. október 2018 var ráðningarsamningur vegna stöðunnar staðfestur.
  101. Eins og áður greinir voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur gerðar til starfsins í auglýsingu kærða: Háskólapróf sem nýtist í starfi. Framhaldspróf kostur; þekking og reynsla á sviði opinbers reksturs æskileg; þekking og reynsla á sviði náttúru, sögu og menningar æskileg; reynsla af störfum tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum æskileg; færni í mótun stefnu, lausna og hugmynda; frumkvæði, skipulögð vinnubrögð og sjálfstæði í starfi; mjög góð hæfni í mannlegum samskiptum og geta til að vinna undir álagi; gott vald á talaðri og ritaðri íslensku og ensku.
  102. Mælt er fyrir um hlutverk og starfsskyldur þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum í 5. gr. reglugerðar nr. 848/2005 um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð, en þar segir:

      „Hlutverk og starfsskyldur þjóðgarðsvarðar eru eftirfarandi:

       a.         Hlutverk þjóðgarðsvarðar er að annast og bera ábyrgð á rekstri þjóðgarðsins á Þingvöllum.

       b.         Þjóðgarðsvörður ber ábyrgð á fjárreiðum þjóðgarðsins og gerir fjárhags-, rekstrar- og framkvæmdaáætlanir fyrir þjóðgarðinn í upphafi hvers starfsárs. Allar áætlanir skulu lagðar fyrir Þingvallanefnd til samþykktar.

       c.         Þjóðgarðsvörður fylgir fjárlagatillögum eftir til forsætisráðuneytis og kemur fram gagnvart ráðuneytinu varðandi einstök úrlausnarefni hverju sinni.

       d.        Þjóðgarðsvörður er tengiliður á milli almennings, lóðarleiguhafa, ábúenda og Þingvallanefndar.

       e.         Þjóðgarðsvörður er tengiliður á milli sveitarfélagsins Bláskógabyggðar og Þingvallanefndar.

       f.         Þjóðgarðsvörður er tengiliður á milli Fornleifaverndar, Umhverfisstofnunar, Náttúruverndar og annarra stofnana sem gegna lögbundnu hlutverki í málefnum sem varða þjóðgarðinn.

       g.         Þjóðgarðsvörður heldur utan um og skráir öll erindi sem berast Þingvallanefnd.

       h.        Þjóðgarðsvörður annast samningagerð við lóðarleiguhafa og hefur eftirlit með innheimtu lóðarleigugjalda og eftirlit með því að lóðarleiguhafar efni skuldbindingar sínar samkvæmt lóðarleigusamningi. Þjóðgarðsvörður annast einnig innheimtu gjalda svo sem vegna tjaldsvæða og veiðileyfa.

       i.         Þjóðgarðsvörður er ábyrgur fyrir þjónustu við ferðamenn og aðra gesti, sér um og skipuleggur fræðslustarf og gönguferðir fyrir gesti þjóðgarðsins. Þjóðgarðsvörður sér um gerð og viðhald göngustíga sem miða að því að tryggja öryggi og aðgengi gesta þjóðgarðsins.

       j.          Þjóðgarðsvörður sinnir öðrum verkefnum sem Þingvallanefnd felur honum og falla innan starfssviðs hans, í samræmi við starfslýsingu í ráðningarsamningi.“

  103. Ákvörðun kærða um ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til nokkurrar hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 3/2018.
  104. Þegar auglýsing kærða um stöðu þjóðgarðsvarðar er virt með hliðsjón af fyrrnefndri 5. gr. reglugerðar nr. 848/2005 fær kærunefndin ekki annað séð en að hæfniskröfur í auglýsingunni teljist málefnalegar og innan þess svigrúms sem kærði nýtur almennt við töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana á borð við þá sem fólst í ráðningu þjóðgarðsvarðar.
  105. Við ráðninguna studdist kærði við matsblað þar sem umsækjendum voru veitt stig á bilinu 0 til 4 fyrir hvern og einn matsþátt sem birtist á matsblaðinu, en þeir voru sex talsins. Matsþáttunum var þó ekki öllum veitt sama innbyrðis vægi. Þannig vógu stig fyrir menntun þriðjungi meira en stig sem veitt voru fyrir matsþáttinn „þekking og reynsla á sviði náttúru, sögu og menningar“, svo dæmi sé tekið. Allir matsþættirnir sex byggðu á þeim menntunar- og hæfniskröfum sem birtust í starfsauglýsingu kærða. Á matsblaðinu var þó ekki að finna þrjá matsþætti sem tilgreindir voru í starfsauglýsingunni, en nánar er vikið að þeim hér á eftir.
  106. Á endanlegu matsblaði kærða hlutu kærandi og sá karl sem ráðinn var í starf þjóðgarðsvarðar fullt hús stiga í öllum flokkum að undanskildu því að kærandi var talin standa karlinum framar í matsþættinum „þekking og reynsla á sviði opinbers reksturs“ (4 stig kæranda á móti 3 stigum karlsins), en karlinn var talinn standa henni framar í matsþættinum „reynsla af störfum tengdum þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og umhverfismálum“ (2 stig kæranda á móti 4 stigum karlsins). Samtals munaði því einu stigi á umsækjendunum tveimur af þeim 24 stigum sem að hámarki var unnt að hljóta. Þegar tekið er tillit til mismunandi innbyrðis vægis matsþáttanna var sá munur þó í reynd minni, enda vógu stig fyrir fyrrnefnda matsþáttinn, þar sem kæranda gekk betur en karlinum, 20% meira en stig fyrir síðarnefnda matsþáttinn.
  107. Þar sem umræddir umsækjendur stóðu að mati kærða því sem næst jafnt að vígi varðandi hlutlæga þætti hæfnismatsins var nauðsynlegt að kærði gætti sérstakrar vandvirkni við mat á huglægum þáttum sem leggja átti til grundvallar við ráðninguna samkvæmt auglýsingu kærða á starfinu, sbr. til nokkurrar hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 6/2012. Á fyrrgreindu matsblaði var aftur á móti ekki að finna neina umfjöllun um þá þrjá huglægu matsþætti sem tilgreindir voru í starfsauglýsingunni. Nánar tiltekið var hér í fyrsta lagi um að ræða „færni í mótun stefnu, lausna og hugmynda“, í öðru lagi frumkvæði, skipulögð vinnubrögð og sjálfstæði í starfi“, og loks í þriðja lagi „mjög góð hæfni í mannlegum samskiptum og geta til að vinna undir álagi“.
  108. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, bar kærða skylda til að kanna framangreinda þrjá þætti og taka mið af þeim við ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar. Í gögnum málsins er að finna spurningalista sem lagður var til grundvallar í viðtölum vegna ráðningar í starf þjóðgarðsvarðar. Þar er meðal annars spurt um atriði sem tengjast framangreindum þremur matsþáttum. Eigi að síður eru umsækjendurnir ekki metnir til stiga hvað þá varðar á matsblaði kærða. Kærði hefur byggt á því fyrir kærunefndinni að þetta ráðist af því að um huglæga þætti sé að ræða sem erfitt sé að meta til stiga. Umræddir þættir hafi eigi að síður verið metnir í viðtalinu og í tengslum við verkefni sem lagt var fyrir umrædda umsækjendur.
  109. Enda þótt fallast megi á það með kærða að erfitt geti verið að meta huglæga þætti til stiga, þá hvíldi sú skylda á kærða við framangreindar aðstæður að skrá niður helstu ákvarðanir um meðferð málsins og forsendur ákvarðana, enda kæmu þær ekki fram í öðrum gögnum málsins, sbr. 1. mgr. 27. upplýsingalaga nr. 140/2012. Verður ekki séð að kærði hafi fylgt þessu eftir auk þess sem fundargerðir kærða varpa ekki ljósi á sjónarmið um færni umsækjendanna tveggja, heldur lýsa einungis endanlegri niðurstöðu kærða um hver skyldi ráðinn í starf þjóðgarðsvarðar. Að þessu leyti var málsmeðferð kærða annmörkum háð. Þá hefur kærði í málatilbúnaði sínum fyrir kærunefndinni látið nægja að vísa almennt til huglægra sjónarmiða án þess að skýra með hvaða hætti þessir hæfnisþættir komu til skoðunar í heildarmati á umsækjendunum tveimur, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir.
  110. Við þetta bætist að kærði leitaði ekki umsagna í ráðningarferlinu. Þegar meta á atriði sem kærði telur sjálfur huglæg, svo sem frumkvæði, sjálfstæði í starfi eða hæfni í mannlegum samskiptum, verður að leggja til grundvallar að umsagnir fyrri vinnuveitenda eða eftir atvikum samstarfsmanna sem bent er á í slíkum tilgangi séu jafnan nauðsynlegur þáttur í slíku mati. Þetta á sérstaklega við þegar umrædd huglæg atriði hafa verið sett fram sem fortakslausar hæfniskröfur í starfsauglýsingu. Í gögnum málsins er að finna tilboð Capacent, dagsett 8. júní 2018, til kærða í ráðningu þjóðgarðsvarðar. Af tilboðinu verður ráðið að innifalið í því sé „umsagnaleit“. Fyrir liggur að kærði samdi í kjölfarið við Capacent um aðstoð í ráðningarferlinu. Þá tilgreindu báðir umræddir umsækjendur umsagnaraðila í umsóknum sínum. Verður því ekki annað séð en að kærða hafi verið í lófa lagið að kanna hvernig umsagnir umræddir umsækjendur hlytu frá þeim sem þeir bentu á sem umsagnaraðila.
  111. Að mati kærunefndarinnar er ekki unnt að fallast á það með kærða að samstarf ótilgreindra nefndarmanna við kæranda á einhverju stigi starfsferils hennar geti réttlætt þá ákvörðun að leita ekki til umsagnaraðila. Þannig er til dæmis ekki sjálfgefið að samstarfsmenn öðlist sambærilegt sjónarhorn á störf umsækjenda og yfirmenn þeirra. Í þessum efnum er einnig vert að benda á að opinber aðili sem ræður í starf er ekki bundinn við einungis þá umsagnaraðila sem umsækjendur benda sjálfir á heldur getur leitað umsagna annarra, enda sé viðkomandi umsækjanda gefinn kostur á að bregðast við því sem fram kemur í slíkri umsögn. Verður ekki önnur ályktun dregin en að framangreint verklag kærða hafi komið í veg fyrir að unnt væri að leggja heildstætt mat á færni kæranda varðandi matsþættina „frumkvæði, skipulögð vinnubrögð og sjálfstæði í starfi“ og „mjög góð hæfni í mannlegum samskiptum“. Enda þótt ekki sé unnt að útiloka að þetta vinnulag kærða hafi jafnframt komið niður á mati á matsþættinum „færni í mótun stefnu, lausna og hugmynda“, verður þó að fallast á það með kærða að sá þáttur hafi almennt séð getað komið til mats með verkefni og kynningu þess. Nánar er vikið að þeim matsþætti hér á eftir.
  112. Sú afstaða kærða að telja ekki þörf á ítarlegri rannsókn á umræddum hæfnisþáttum, sem tilgreindir voru í auglýsingunni, verður einnig að teljast mótsagnarkennd í ljósi þess að í bréfi kærða til kæranda, dagsettu 23. október 2018, sem sent var kæranda vegna beiðni hennar um rökstuðning, sbr. 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, voru karlinum sem ráðinn var í starf þjóðgarðsvarðar sérstaklega taldir til tekna eiginleikar sem lutu að framangreindum matsþáttum. Þannig rökstuddi kærði ákvörðun um ráðninguna meðal annars með vísan til þess að umræddur karl hefði mikla reynslu í mótun stefnu, lausna og hugmynda á vegum þjóðgarðsins. Þurft hefði stefnumörkun, samráð og lausnamiðaða vinnu til að leysa úr þeim áskorunum sem skapast hefðu í starfi hans. Í störfum hans hefði reynt á leiðtogahæfni, sjálfstæði í vinnu og frumkvæði en ekki síður á samvinnu og samstarf með öðrum auk getu til að vinna undir álagi. Sambærilegt mat kærða á færni kæranda birtist hvergi í gögnum málsins.
  113. Á fundi nefndarmanna kærða 26. september 2018 var ákveðið að verkefni yrði lagt fyrir umrædda umsækjendur með vísan til þess að þeir væru með „næstum jafna punktastöðu“. Mat kærða á þessum verkefnum umsækjendanna tveggja var aftur á móti sama marki brennt og mat hans á framangreindum huglægum þáttum að því leyti að kærði skráði ekki neitt niður um mat sitt í þessum efnum, sbr. þó skyldu til slíkrar skráningar í 1. mgr. 27. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá birtast ekki í málatilbúnaði kærða nákvæmar skýringar á því hvernig þetta mat fór fram. Af þeim sökum getur skírskotun kærða til þessa mats ekki ráðið úrslitum í máli þessu.
  114. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Í 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 kemur meðal annars fram að séu líkur leiddar að því að við ráðningu hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar skal kærunefndin við nánara mat á þessu taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.
  115. Að mati kærunefndarinnar bjuggu kærandi og sá sem ráðinn var í starfið að menntun og starfsreynslu sem var til þess fallin að nýtast vel í starfi þjóðgarðsvarðar. Enda þótt kærandi búi að meiri menntun en sá karl sem ráðinn var í starfið, þá bjó hann aftur á móti að sértækari menntun sem var líkleg til að nýtast sérstaklega í starfinu. Heilt á litið getur kærunefndin fallist á það mat kærða sem birtist á endanlegu matsblaði. Hróflar það ekki við þeirri niðurstöðu að vægi tungumálakunnáttu hafi verið óvenjulega mikið samanborið við aðra matsþætti, enda fær kærunefndin ekki séð að hallað hafi á kæranda við þann þátt matsins. Að öllu framangreindu virtu gefur samanburður á hlutlægum þáttum, sem kærði lagði til grundvallar í auglýsingu starfsins, til kynna að kærandi og karlinn hafi verið því sem næst jafn hæf. Við þær aðstæður var, eins og áður segir, nauðsynlegt að kærði gætti sérstakrar vandvirkni við mat á huglægum þáttum sem leggja átti til grundvallar við ráðninguna samkvæmt auglýsingu kærða á starfinu. Það gerði kærði aftur á móti ekki. Þvert á móti leiða framangreindir annmarkar á málsmeðferð kærða til þess að draga verður þá ályktun að kærði hafi ekki, svo séð verði, lagt málefnalegt mat á hæfni kæranda að þessu leyti og vegið hana á móti hæfni þess er ráðinn var. Við þær aðstæður sem uppi eru í málinu teljast nægar líkur hafa verið leiddar að því í skilningi 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns þannig að sú skylda verði lögð á kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
  116. Framangreind niðurstaða um þá hlutlægu þætti sem meta átti við ráðninguna leiddi til þess að endanleg ákvörðun um ráðninguna hlaut að ráðast af mati á þeim þremur huglægu matsþáttum sem ekki var að finna á matsblaði kærða. Í þeim efnum hefur kærði látið nægja að fjalla um hæfni þess sem ráðinn var á almennan hátt, svo sem með tilvísunum til persónulegra eiginleika hans, framtíðarsýnar og skýrra svara við spurningum, án nokkurs nánari rökstuðnings, svo sem með samanburði við eiginleika kæranda, sem rennt gæti stoðum undir málatilbúnað kærða. Heilt á litið nægir umfjöllun kærða að þessu leyti ekki sem sönnun þess að sá sem ráðinn var hafi staðið kæranda framar við ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar.
  117. Að öllu framangreindu virtu hefur kærði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Telst kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.
  118. Vegna málatilbúnaðar kæranda um að raunhæft verkefni hafi verið valið til að veita þeim sem ráðinn var óréttmætt forskot í ráðningarferlinu, þá telur kærunefndin loks tilefni til að taka fram að við val á verkefnum sem leggja á fyrir umsækjendur opinberra starfa ber að gæta málefnalegra sjónarmiða. Við undirbúning slíkra verkefna vegast einkum á tvö sjónarmið. Annars vegar verða umsækjendur sem starfa þá þegar hjá þeim vinnuveitanda, sem auglýsir starfið, að njóta sannmælis þannig að starf þeirra vinni ekki gegn þeim í ráðningarferlinu. Hins vegar verður að gæta jafnræðis á milli umsækjenda þannig að einum þeirra sé ekki veitt ómálefnalegt forskot í ráðningarferlinu. Að mati kærunefndarinnar getur slíkt ómálefnalegt forskot einkum skapast ef lögð eru verkefni fyrir umsækjendur þar sem aðgangur eins umsækjanda að innri vinnugögnum vinnuveitandans eykur líkur á því að hann geti skarað fram úr öðrum umsækjendum. Að virtri þeirri niðurstöðu sem að framan greinir um brot kærða á lögum nr. 10/2008 telur kærunefndin þó ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þetta atriði.
  119. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna gagnaöflunar kærunefndarinnar og veittra fresta til málsaðila.

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

         Við ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar í þjóðgarðinn á Þingvöllum braut kærði, Þingvallanefnd, gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta