3G net opnað á miðunum við Ísland
Kristján L. Möller samgönguráðherra opnaði á sjávarútvegssýningunni í Kópavogi í morgun fyrir hönd Símans net langdrægra 3G senda á miðunum við Ísland. Netið veitir sjófarendum 3G samband á miðunum umhverfis landið.
Þetta nýja kerfi Símans mun leysa NMT kerfið af hólmi og langdræga kerfið opnar nýja möguleika fyrir sjómenn og útgerðarfyrirtæki með háhraðagagnaflutningi og meiri talgæðum í samanburði við NMT kerfið. Fram kemur í upplýsingum frá Símanum að sjómenn geti þannig verið í stöðugu sambandi við vini og vandamenn í landi, notað netið og þau þægindi sem því fylgir og skipin geta verið í góðu sambandi við útgerðarfyrirtækin.
Samgönguráðherra hringdi fyrsta símtalið í Gullbergið VE sem gert er út af Vinnslustöðinni. Þar var Sverrir Gunnlaugsson skipstjóri fyrir svörum sem lét vel af sér á sjónum.