Ráðstöfun aukaframlags til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2008
Samgönguráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um áætlaða úthlutun svokallaðs aukaframlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir yfirstandandi ár. Alls munu 1.400 milljónir króna renna til sveitarfélaganna.
Framlögunum er ætlað að jafna aðstöðumun sveitarfélaga sem talin eru í mestri þörf fyrir sérstakt viðbótarframlag vegna þróunar í rekstrarumhverfi þeirra og erfiðra ytri aðstæðna.
Úthlutunin byggist á reglum nr. 526/2008 og er við úthlutun framlagsins tekið mið af íbúafækkun í sveitarfélögum á tilteknu árabili, þróun útsvarsstofns, íbúaþróun og útgjaldaþörf sameinaðra sveitarfélaga.
Áætlunin nú tekur til alls framlagsins en áður hafði komið til úthlutunar og greiðslu framlags að fjárhæð 400 milljónir króna vegna íbúafækkunar, sbr. 2. gr. reglnanna. Greiðslufyrirkomulag á eftirstöðvum framlagsins er með þeim hætti að þegar hafa verið greiddar 500 milljónir króna til sveitarfélaga á grundvelli 3., 4. og 5. gr. reglnanna og afgangurinn, 500 milljónir, verður greiddur fyrir árslok þegar endanlegar upplýsingar um útsvarstekjur sveitarfélaga liggja fyrir og endurskoðun á úthlutun framlagsins hefur farið fram.
Nánar um úthlutun framlaganna
Framlag vegna íbúafækkunar (2. gr.)
Úthlutað var 400 milljónum króna til sveitarfélaga þar sem íbúum fækkaði árin 2003-2007. Framlagið kom til greiðslu 13. júní sl.
Framlag vegna þróunar útsvarsstofns (3. gr.)
Lagt er til að úthlutað verði 400 milljónum króna til sveitarfélaga þar sem hlutfallsleg þróun útsvarsstofns milli áranna 2002 og 2007 er lægri en heildarhækkun útsvarstofns allra sveitarfélaga fyrir sama tímabil.
Framlag vegna íbúaþróunar (4. gr.)
Lagt er til að úthlutað verði 350 milljónum króna til sveitarfélaga sem ekki hafa fylgt þróun Reykjavíkurborgar hvað varðar íbúafjölda árin 2003-2007.
Framlag til sameinaðra sveitarfélaga vegna þróunar útsvarsstofns o.fl.
Lagt er til að úthlutað verði 175 milljónum króna til sveitarfélaga þar sem hlutfallsleg þróun útsvarsstofns er með sama hætti og í 3. gr. og íbúaþróun með sama hætti og í 4. gr. Á grundvelli sömu forsendna er úthlutað 75 milljónum króna til sveitarfélaga þar sem tekið er tillit til sérstakrar útgjaldaþarfar sveitarfélaga sem halda þurfa úti þjónustu á fleiri en einum þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins. Við útreikning framlagsins koma til greina sveitarfélög sem hafa sameinast frá og með árinu 1984.
Einungis kemur til úthlutunar framlags hafi heimild sveitarfélags til útsvarsálagningar fyrir árið 2008 verið fullnýtt af sveitarstjórn. Í meðfylgjandi skjali gefur að líta heildaryfirlit yfir áætluð framlög til einstakra sveitarfélaga.
- Aukaframlag 2008. Áætlun um úthlutun (PDF)
- Reglur um ráðstöfun 1.400 milljóna króna aukaframlags til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2008, nr. 526/2008.