Hoppa yfir valmynd
9. október 2008 Innviðaráðuneytið

Nýr vegur um Hrútafjarðarbotn

Nýr vegarkafli á Hringveginum í Hrútafjarðarbotni var formlega opnaður í gær. Á þeim kafla er ný brú yfir Hrútafjarðará og eru þar með allar einbreiðar brýr á Hringveginum milli Akureyrar og Reykjavíkur aflagðar.

Nýr vegur um Hrútafjarðarbotn vígður
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri nýtur aðstoðar Jóns Rögnvalds-sonar, fyrrverandi vegamálastjóra, við að klippa á borðann.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri klippti á borða og opnaði veginn formlega að viðstöddum gestum en Kristján L. Möller samgönguráðherra gat ekki verið viðstaddur vegna aukafundar í ríkisstjórn. Ný tenging milli Vestfjarða og Norðurlands styttir leiðina nokkuð og er jafnframt mikilvægur áfangi í fækkun einbreiðra brúa. Einnig má minna á nýlegan vegarkafla í Norðurárdal í Skagafirði sem tekinn var í notkun á liðnu hausti þar sem fjórar einbreiðar brýr voru aflagðar.

Nýi vegurinn um Hrútafjörð, sem leysir af hólmi eldri veg er lá mun sunnar fyrir fjörð, er 6,9 km langur og byrjar rétt sunnan við Brú og fylgir veglínu Djúpvegar norður undir Fögrubrekku þar sem hann þverar Hrútafjarðarbotninn með nýrri brú yfir Hrútafjarðará og endar við Brandagil rétt norðan Staðar. Samhliða þessu verki var gerð ný 1,6 km löng tenging við Djúpveg. Hringvegurinn styttist lítið sem ekkert við þessa framkvæmd, en hins vegar styttist vegtenging milli Vestfjarða og Norðurlands um tæpa 9 km.

Hringvegurinn er byggður í vegflokki B3, með heildarbreidd 8,5 m en þar af er akbrautin 6,5 m breið. Djúpvegurinn er byggður í vegflokki C1, með heildarbreidd 7,5 m og akbrautarbreidd 6,5 m. Tvær brýr, Ormsá og Selá, voru fyrir á þeim kafla sem áður var Djúpvegur. Brúin yfir Ormsá nýttist að mestu óbreytt, en ný brú var byggð yfir Selá. Vinnuflokkur Vegagerðarinnar vann það verk 2006. Samhliða þessu verki var byggð ný brú yfir Hrútafjarðará.

Hönnun vegarins var í umsjá veghönnunardeildar Vegagerðarinnar. Brúadeild Vegagerðarinnar í Reykjavík sá um brúarhönnun.

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar sá um smíði brúarinnar yfir Hrútafjarðará og hófst vinna við smíði hennar í október 2007. Brúin er með 8,5 metra breið og 62 metra löng með einum millistöpli. 

Vegagerð var boðin út í október 2007. Samið var við Skagfirska verktaka ehf. um verkið og hófust framkvæmdir skömmu síðar.

Eftirlit og umsjón með þessari framkvæmd var í höndum nýframkvæmdadeildar Vegagerðarinnar á Norðvestursvæði.


 Nýr vegur um Hrútafjarðarbotn vígður      
Þingmenn, fulltrúar sveitastjórna og fleiri gestir voru viðstaddir vígslu vegarins í Hrútafjarðarbotni.      
 

 Nýr vegur um Hrútafjarðarbotn vígður      
     
 Nýr vegur um Hrútafjarðarbotn vígður      
Að lokinni vígslu á nýju brúnni var safnast saman í hinum nýja Staðarskála. Kristinn Guðmundsson, sem rekur skálann fyrir hönd N1, er lengst til hægri.      

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta