Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 254/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 254/2024

Miðvikudaginn 21. ágúst 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 31. maí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 13. mars 2024 um synjun bóta til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn sem barst Sjúkratryggingum Íslands 9. febrúar 2024, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítala árið X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 13. mars 2024, á þeim grundvelli að krafa um bætur úr sjúklingatryggingu væri fyrnd samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. maí 2024. Með bréfi, dags. 4. júní 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 10. júní 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. júní 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 20. júní 2024 og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. júní 2024. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að vilja segja söguna sína sem sé óásættanleg og mjög sorgleg. Sagan byrji X, þá hafi hún verið búin að vera í farsælu starfi í X ár. Þann X hafi hún runnið […] og lent harkalega á hnakkanum. Hún hafi […] ekki getað borið fyrir sig hendur. […]. Sama sé ekki hægt að segja um höfuðið á henni. Talið sé að hún hafi misst meðvitund í einhverja stund. Hún hafi verið flutt með sjúkrabíl á Landspítalann í Fossvogi þar sem teknar hafi verið myndir sem hafi sýnt mar, blæðingu og bjúg í framheila (contrecoup skaði). Í sjúkraskrá segi um niðurstöður X: „Rannsókn frá því í gærkvöldi til samanburðar. Eins og á samanburðarrannsókn þá er um að ræða contusionsblæðingar inferiort í hæ. frontal lob. Einnig er subdural blóðslikja, ca 3 mm á þykkt yfir svæðinu en teygir sig ekki hátt superiort. Í rauninni er um tvær nokkuð aðskildar contusionsblæðingar og er sú stærri lateralt í anterior lobnum en sú minni medialt og er lítilsháttar bjúgur þar í kring. Væg hliðrun er á miðlínu yfir til vinstri en heilahólf eru eðlilega víð og ekki að sjá önnur fyrirferðaráhrif.“

Hún sé inniliggjandi í einn sólarhring, frá X til X, og eftir rannsóknarniðurstöðu X hafi hún mátt fara heim. […]. Hún hafi átt að koma aftur í þriðju myndatökuna þann X. Niðurstaðan úr þeirri myndatöku hafi verið: „Til samanburðar er rannsókn frá X og eldri rannsókn. Contusionir frontalt hægra megin hafa heldur afmarkast frá síðustu rannsókn og byrjandi niðurbrot. Það er enn mjög væg miðlínutilfærsla yfir til vinstri líkt og við síðustu rannsókn. Útlit er að öðru leyti óbreytt frá síðustu rannsókn. Aðrar intracranialbreytingar hafa ekki greinst.“ Þar með hafi hún verið útskrifuð. Hún hafi hvorki fengið fræðslu né greiningu um heilaskaða eða hvaða afleiðingar slysið gæti haft. Fyrir […] hafi þetta bara verið eins og sár sem myndi gróa með tímanum. Hún hafi fengið læknisvottorð og samkvæmt sjúkraskrá hafi verið sagt við hana „Ég sagði henni að taka því rólega í 1-2 vikur og svo mætti hún gera það sem hún vildi“.

Fljótlega eftir að hún hafi farið í vinnu hafi farið að bera á vandamálum í vinnunni og hún hafi sagt upp X síðar. Hún hafi ekki verið með nýja vinnu heldur hafi hún sagt upp […]. Enginn hafi tengt við slysið sem hafi verið liðin tíð og „búið“. Henni hafi farið að ganga illa að einbeita sér og muna, hana hafi vantað orð, hún hafi hugsað hægt og ráðið illa við álag. Einnig hafi orðið persónuleikabreytingar. Hún hafi farið úr einni vinnunni í aðra og alltaf hafi henni gengið illa, […]. Henni hafi alltaf verið sagt upp. Eftir að hún hafi hætt hjá B, hafi hún unnið á X stöðum. Hún sé […] og hafi verið […]. Eftir X mánuði í vinnu hafi hún ekki getað meira, hún hafi verið komin í þrot. Hún hafi ekki ráðið við verkefnin og álagið og hafi liðið svo ofboðslega illa enda búin að berjast í mörg ár. Hún hafi farið í veikindaleyfi í X. Hún hafi verið búin að ræða þessi vinnuvandamál, samskiptavandamál og […], við heimilislækni lengi en aldrei hafi neinn að tengt við höfuðáverka. Þetta hafi bara verið mikill kvíði og streita, hún hafi ekki þolað álag og hafi verið ofurnákvæm, hún hafi líklegast verið með kulnun og þar með hafi verið komin ástæða fyrir einbeitingarerfiðleikum og minni. Virk starfsendurhæfing hafi verið lausnin.

Í X hafi verið sótt um fyrir hana hjá Virk og hún hafi fengið inni hjá þeim í X. Starfsendurhæfing hafi gengið illa og ráðgjafi hafi ekkert vitað hvað hún hafi átt að gera fyrir hana. Í lok X hafi […] talað um að það væri ákveðið mynstur hjá henni síðan hún hafi hætt í starfi X, hún sé bara alls ekki að fara að vinna aftur. Hún geti þetta ekki enda hafi orðstír hennar verið orðinn slæmur innan […] sem sé ömurlegt. Hún hafi sagt sálfræðingi það sem […] hafði sagt og sálfræðingurinn hafi spurt kæranda hvort hún hafi fengið höfuðáverka einhvern tímann. Kærandi hafi svarað því játandi og hafi sagt sálfræðingnum frá því sem kærandi hafi vitað frá X sem hafi verið mjög mjög lítið. Sálfræðingurinn hafi beðið kæranda að athuga hvort hægt væri að ná í gögnin sem hún hafi gert strax daginn eftir. Hún hafi sent póst á Landspítala og hafi fengið öll hennar gögn. Kærandi hafi sýnt sálfræðingnum gögnin og þá hafi boltinn farið að rúlla. Það hafi víst verið alvarlegur höfuðáverki sem hún hafði fengið, tvær blæðingar, bjúgur og mar. Þá hafi alla farið að gruna og aðeins að tengja. Hún hafi verið send í segulómun í lok X og þær myndir hafi verið bornar saman við myndir frá X og þar hafi verið staðfestur framheilaskaði. Niðurstaða úr segulómun, dags. X, hafi verið: „Fyrri TS LSH X, X og X X sýna contrecoup lesion með bjúg og hematomi einkum við þakið á orbita hægra megin (orbital gyri ) sem teygir sig niður í olfactory fossa hægra megin með contusion í gyrus rectus hægra megin og það er bjúgur sem teygir sig upp í lobus fontalis einkum medialt. SÓ dagsins sýnir vefjaeyðu eftir þennan áverka í gyrus rectus hægra megin sem mælist um 8 x 9x 10 mm sem einnig er medialt í orbital gyrus og er gliosu rönd í jaðri þessarrar breytingar (sjá coronal og axial FLAIR myndir) en ekki sést merki um leifar af blæðingu í þetta svæði við skoðun í dag á segulnæmri myndröð ( myndgallar frá paranasal sinusum). Það eru því allar líkur á að hvítaefnistbreytingar sem lýst er frontal báðum megin séu af post traumatiskum uppruna þrátt fyrir að ekki sé sýnt fram á hemorrhagiskan þátt í þeim á segulnæmri myndröð (myndröð 4) við skoðun í dag.“

Kærandi hafi verið að kljást við mikla vanlíðan frá slysi X. Hún hafi farið úr einni vinnunni í aðra vegna […] sem hafi alls ekki verið til staðar áður fyrr. Henni hafi gengið illa að fá vinnu og verið mikið atvinnulaus. Hún sé með lágt sjálfsmat vegna þess að hún hafi ekki ráðið við verkefnin sem aðrir […] ráði við og hún vinni hægar og mjög illa undir álagi en hún hafi aldrei tengt það við slysið, enda sé henni og […] aldrei sagt að slysið gæti haft einhverjar afleiðingar sem það vissulega hafi gert. Öll þreytan, öll tárin, svefnleysið og áhyggjurnar. Ef hún hefði fengið fræðslu, fengið að vita alvarleikann, endurhæfingu á C, sem læknar séu sammála um að hún hefði átt að fá, þá hefði hún lært betur inná sjálfa sig, lært leiðir eins og taugasálfræðingur á heilaskaðateymi D hafi komist að orði við hana. Henni hefði þá örugglega gengið betur í lífinu. Hún hefði getað rætt við vinnuveitendur, samstarfsmenn, fjölskyldu og vini um slysið og afleiðingar þess og þau hefðu örugglega öll sýnt því skilning. Hún hefði örugglega ekki fengið allar þessar uppsagnir eða […]. […]. Á þeim tímapunkti hafi hún farið til heimilislæknis og sagt honum að hún væri bara orðin svo […] og hún hafi orðað það nákvæmlega þannig, fjölskylda hennar sé henni allt, en enginn tengi.

Í dag sé kærandi öryrki og búið að sækja um fyrir hana í heilaskaðateymi D. Hún hafi orðið fyrir miklu tekjutapi, hún sé […] og hafi verið með ágætis laun þegar hún hafi verið í vinnu en henni reiknast að hún hafi verið í um X mánuði á atvinnuleysisbótum á tímabilinu frá X til X sem séu um X ár. Hún hafi flett því upp og það sé nokkurn veginn rétt. Henni hafi mjög oft verið sagt upp. Frá X til X eða um X til X mánuði hafi hún verið hjá Virk í starfsendurhæfingu sem hafi skilað litlum árangri og hafi verið á endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Í X hafi verið samþykkt fullt örorkumat hjá Tryggingastofnun og sé kærandi öryrki í dag á örorkulífeyri. Í dag sé hún á biðlista að komast inn á D.

Frá því í X hafi kærandi náð sér í öll gögn varðandi slysið og kallað eftir sjúkraskránni sinni. Hún sé með allar myndir, bæði þrjár tölvusneiðmyndir af heila frá X, segulómunarmynd frá X og svör úr öllum þessum myndum. Samanburður bendi til framheilaskaða sem hún hafi orðið fyrir í slysi X en hún hafi ekki vitað af honum fyrr en í X. Hún sé að auki með læknisvottorð, greinargerðir og matsgerðir frá öllum sem hafi komið að máli hennar frá því hún hafi byrjað hjá Virk. Hún geti afhent nefndinni það allt. Kærandi hafi aldrei fengið þjónustu, endurhæfingu, fræðslu, eftirfylgni eða hvað mögulega gæti orðið. Öll hennar vanlíðan, að hafa ekki vitað í öll þessi ár að hún væri með heilaskaða. Með réttri þjálfun hefði hún getað lært leiðir og lært inn á sig sjálfa og komið þannig í veg fyrir svo margt. Í hennar tilfelli hefðu læknar átt að vita betur. Það séu kannski margir sem nái sér að fullu sem betur fer en það sé líka hluti sem nái sér ekki. Kærandi hafi þetta eftir lækni Tryggingastofnunar, hún hafi verið sú óheppna. Ef læknar hefðu staðið rétt að málum þá hefði hún í fyrsta lagi fengið frekari meðferð, réttu meðferðina, fræðslu, þjálfun, eftirfylgni og þar með betri lífsgæði og líðan. Hún hefði lært leiðir til að takast á við framheilaskaðann. Í öðru lagi hefði hún vitað og getað sagt fjölskyldu, vinum, vinnuveitendum, samstarfsmönnum frá slysinu og skaðanum sem það hafi valdið og hún viti að það hefðu allir sýnt henni skilning og tekið tillit til þess. Í þriðja lagi hefði hún getað tilkynnt slys til tryggingafélags og/eða sjúkratrygginga strax eftir slysið og örugglega fengið einhverjar slysabætur. En það hafi ekki hvarflað ekki að henni. Hún hafi ekki vitað að um alvarlegt slys væri að ræða og hvað þá hvaða afleiðingar það myndi hafa. Hún hafi því ekki tilkynnt það. Í fjórða lagi sé það allt vinnutapið sem hún hafi orðið fyrir sem […] og orðsporið í hennar geira sem hafi beðið hnekki og henni finnist það mjög leiðinlegt. Frá árinu X hafi hún verið samtals X mánuði á atvinnuleysisbótum, í um X ár, X mánuði á endurhæfingarlífeyri þann tíma sem hún hafi verið hjá Virk, X mánuði á örorkulífeyri eða frá X, því hún sé alveg óvinnufær. Hún hafi verið í X vinnum. Árin fyrir slys hafi hún unnið í rúm X ár á sama vinnustað. Mismunur á launatekjum sem […] og þessum bótum, um X kr. á mánuði og það margfaldað með X (X+X+X) = X kr. tekjumissir. Í fimmta lagi hefði hún vonandi spáð betur í lífeyrissjóðsmálin sín á þeim tíma. Hún eigi lítinn sem engan lífeyrissjóð sem hún geti leitað í þó hún hafi greitt í lífeyrissjóð þann tíma sem hún hafi verið starfandi. Í sjötta lagi, í stað þess að vera að bíða eftir því í dag að komast að hjá heilaskaðateymi D, þá hefði hún átt að fá þá þjónustu á C eftir slysið X. Í sjöunda lagi þá sé í sannleika sagt búið að fara mjög illa með hana andlega og fjárhagslega. Það sé ekki réttlátt að segja við hana að eitthvað sé fyrnt. Hún hafi ekki vitað það. Maður geti ekki tilkynnt nema að vita, ef maður viti ekki geti maður ekki tilkynnt eða farið fram á eitthvað. Það sé ekki hægt að hlaupa með sár og tilkynna, það sé ekki hægt að tilkynna nema að halda eða telja að eitthvað sé alvarlegt. Þeim […] hafi aldrei verið sagt að þetta slys væri alvarlegt og hvað þá að afleiðingarnar gætu verið framheilaskaði. Í þeirra huga hafi þetta verið eins og að fá sár sem grói.

Kærandi vilji fá viðurkenningu á því að hún hefði átt að fá betri meðferð, það sé háalvarlegt mál að vera með framheilaskaða en vita ekki af honum og hún fari fram á bætur. Tekjumissir hennar sé augljós og hún haldi að öllum ætti að vera ljóst að þetta sé ömurleg staða sem hún hafi verið í og sé í.

Þeir læknar og meðferðaraðilar sem kærandi hafi þurft að leita til séu E, heimilislæknir hennar frá árinu X. Hann hafi sent umsókn inn til Virk, læknisvottorð til Tryggingastofnunar og læknisvottorð til lífeyrissjóðs. Hún hafi rætt við hann um vinnuvandamálin sín og hversu leiðinleg hún hafi verið. Hann hafi hjálpað henni mikið. F endurhæfingarlæknir hjá Virk hafi metið hana og skilað greinargerð til Virk þar sem fram komi að endurhæfing hjá Virk sé óraunhæf. G taugasálfræðingur í heilaskaðateymi D hafi metið hana og skrifað greinargerð um hana til Virk. Hann segi meðal annars að hún sé haldin innsæisleysi sem sé stórt vandamál hjá þeim sem hljóti framheilaskaða. Þá hafi hann sagt að endurhæfing hjá Virk sé óraunhæf. H sálfræðingur, sem starfi einnig fyrir Virk, hafi metið kæranda og skrifað greinargerðir um kæranda til Virk. Hún hafi sagt að endurhæfing hjá Virk sé óraunhæf. I læknir sem starfi sem matslæknir fyrir Tryggingastofnun hafi metið hana til fullrar örorku hjá Tryggingastofnun í X. Þá hafi hún leitað til J læknis sem starfi sem matslæknir fyrir K lífeyrissjóðinn. Umsókn kæranda sé í vinnslu þar. Einnig hafi hún leitað til L ráðgjafa hjá Virk. Hún hafi verið ráðgjafi kæranda þessa X til X mánuði hjá Virk. Hún hafi skilað lokaskýrslu til Tryggingastofnunar.

Kærandi uppfylli öll skilyrði til bótaréttar. Í 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu segi að kröfur um bætur samkvæmt lögunum fyrnist þegar fjögur ár séu liðin frá því að tjónþoli hafi fengið eða hafi mátt fengið vitneskju um tjón sitt. Krafan fyrnist þó eigi síðar en þegar tíu ár séu liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér. Kæranda langi að minnast á að lög nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu hafi verið sett með það að markmiði að bæta réttarstöðu sjúklinga og auka bótarétt þeirra vegna tjóns sem þeir verði fyrir í tengslum við rannsókn eða læknismeðferð. Markmiðið með setningu þessara laga hafi verið að auka bótarétt sjúklinga sem bíði heilsutjón vegna áfalla í tengslum við læknismeðferð og jafnframt gera þeim auðveldara fyrir að ná rétti sínum. Það sem hún sé að fara fram á sé réttlæti. Hún hafi ekki vitað fyrr en í X að hún hefði fengið heilaskaða sem sé vítavert.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 9. febrúar 2024. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem hafi farið fram á Landspítala árið X. Með ákvörðun, dags. 13. mars 2024, hafi umsókn kæranda verið synjað á þeim grundvelli að bótakrafan væri fyrnd samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu. Synjun á bótaskyldu sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands komi afstaða stofnunarinnar til kæruefnis fram með fullnægjandi hætti í ákvörðunum stofnunarinnar, dags. 13. mars 2024. Því þyki ekki efni til að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 13. mars 2024, segi svo um forsendur niðurstöðu:

„Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þarf að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo skilyrði séu fyrir greiðslu bóta.

Í 19. gr. laganna er að finna reglur um fyrningu bótakrafna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins fyrnast kröfur um bætur úr sjúklingatryggingu þegar fjögur ár eru liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að krafan fyrnist þó eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér. Í ákvæðinu felst því að krafa um bætur fyrnist þegar tíu ár eru liðin frá sjúklingatryggingaratviki, óháð því hvenær tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt.

Í umsókn er kvartað yfir mistökum í meðferð sem fram fór árið X. Tilkynning umsækjanda barst SÍ þann 9.2.2024 en þá voru meira en 10 ár liðin frá atvikinu. Með vísan til þess sem kemur fram í umsókn er ljóst að 10 ára fyrningarfrestur 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu var liðinn er tilkynning barst SÍ. Þar sem krafan er fyrnd samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu verður málið ekki skoðað frekar efnislega.“

Í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar segi svo:

„Með vísan til þess sem að framan greinir og fyrirliggjandi gagna málsins er það mat Sjúkratrygginga Íslands að krafa um bætur úr sjúklingatryggingu sé fyrnd samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Ekki er því heimilt að verða við umsókn umsækjanda um bætur úr sjúklingatryggingu.“

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Til álita kemur í máli þessu hvort kærandi geti átt rétt til bóta úr sjúklingatryggingu vegna meints sjúklingatryggingaratviks sem hafi átt sér stað við meðferð kæranda á Landspítala árið 2007. Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að fyrningarfrestur 19. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi verið liðinn þegar tilkynning hafi borist Sjúkratryggingum Íslands.

Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu segir að kröfur um bætur samkvæmt lögunum fyrnist þegar fjögur ár eru liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Í 2. mgr. 19. gr. segir að krafan fyrnist þó eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem tjón hafði í för með sér.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu er það lögbundin forsenda fyrir bótarétti, sbr. 3. gr. laganna, að kröfu hafi verið haldið fram áður en fjögur ár voru liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Þó fyrnist krafan eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Í ákvæðinu felst því að krafa um bætur fyrnist þegar tíu ár eru liðin frá sjúklingatryggingaratviki, óháð því hvenær tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt.

Umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu barst Sjúkratryggingum Íslands 9. febrúar 2024. Kærandi vísar til þess að meint tjónsatvik hafi átt sér stað á árinu X. Voru því liðin um sautján ár frá því að hið ætlaða sjúklingatryggingaratvik átti sér stað.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Sjúkratryggingum Íslands hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu þar sem umsóknin var ekki lögð fram innan lögbundins tíu ára fyrningarfrests sem kveðið er á um í 2. mgr. 19. gr. laganna. Bótaskylda samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu vegna þess atviks er því ekki fyrir hendi. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta