Söguleg samþykkt um alþjóðlegan plastsáttmála
Ályktun um að hefja viðræður um gerð lagalega bindandi alþjóðlegs sáttmála um plast og plastmengun var samþykkt á 5. umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí, sem lauk í gær, 2. mars. Umboð til samningaviðræðna tekur ekki bara til plastmengunar í hafi og aðgerðir til að stemma stigu við henni, heldur á að berjast heildstætt gegn allri plastmengun, hvar og hvernig sem hún birtist, með aðgerðum sem beinast að öllum lífsferli plasts og stuðla að ábyrgri neyslu og framleiðslu. Þannig verður leitað leiða til að framleiðsla og notkun plasts og meðferð á plastúrgangi verði færð til betra horfs og hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið.
Ísland hefur verið í hópi ríkja sem hafa barist fyrir því að slíkur samningur um plastmengun sé gerður. Íslensk stjórnvöld studdu drög að ályktun þar sem gert var ráð fyrir umboði til að gera metnaðarfullan og víðtækan samning. Ályktunin sem hefur nú verið samþykkt tekur að miklu leyti mið af þeim drögum.
Stórt skref í hnattrænni umhverfisvernd segir ráðherra
„Þetta er sögulegt samkomulag og stórt skref í hnattrænni umhverfisvernd,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Plastmengun er ein stærsta ógnin sem steðjar að höfunum nú og skiptir eyríki eins og Ísland miklu máli. Við þurfum átak til að berjast gegn þessari vá, svipað og hefur tekist vel með samningum um að draga úr mengun sjávar af völdum kvikasilfurs og þrávirkra lífrænna efna. Við höfum vakið athygli á plastmengun á Norðurslóðum og sett á fót áætlun til að vakta vandann þar. Nú er að fylgja þessu skrefi eftir og ganga frá öflugum alþjóðasamningi.“
Ísland hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar í alþjóðlegri umræðu um plastmengun á undanförnum misserum m.a. með því að halda stóra alþjóðlega ráðstefnu um plast í hafi á Norðurslóðum, þar sem m.a. var dregið fram að plastmengun mælist víða í hafinu og lífríki á Norðurslóðum, langt frá uppsprettum. Á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík 2021 var síðan samþykkt ný vöktunaráætlun fyrir plastrusl og örplast á Norðurslóðum.
Ísland hefur einnig ásamt hinum Norðurlöndunum hvatt til gerðar metnaðarfulls samnings um plastmengun; gerð var skýrsla á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um hvernig slíkur samningur gæti litið út og henni fylgt eftir með fundum með öðrum ríkjum, í því skyni að greiða fyrir gerð ályktunar um málið.
Hægt að minnka plastúrgang í höfum um 80%
Samningaviðræður munu hefjast síðar á þessu ári og stefnt er að því að samningurinn liggi fyrir undir árslok 2024. Um 400 milljón tonn af plasti eru framleidd árlega og kann magnið að tvöfaldast fram til 2040, samkvæmt mati Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP. Stór hluti þess verður að úrgangi og mikill hluti úrgangsins endar í höfunum, bæði sem rusl í hafi og á ströndum og sem örplast, agnir sem myndast vegna niðurbrots plasts og berast í lífverur. Um 5-13 milljón tonn af plasti enda í höfunum á ári hverju. Að mati UNEP gæti hringrásarnálgun við framleiðslu og meðferð plasts minnkað innstreymi plastúrgangs í höfin um yfir 80% til ársins 2040 og minnkað frumframleiðslu plasts um 55% með tilheyrandi sparnaði í fjármunum og losun gróðurhúsalofttegunda.
Í skýrslu sem kom út 2021 um mengun hafsins við Ísland á vegum ráðuneytisins er m.a. fjallað um plastmengun í hafi og á ströndum við Ísland. Þar kemur m.a. fram að nær 90% af rusli á ströndum er plast af einu eða öðru tagi og að örplast hefur fundist í sjófuglum við Ísland.