Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 315/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 315/2023

Fimmtudaginn 24. ágúst 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2023, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 27. maí 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. júní 2023. Með bréfi, dags. 23. júní 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 12. júlí 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júlí 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að samkvæmt Vinnumálastofnun skipti ástæður þess að hann hafi sagt upp starfi sínu ekki máli og því hafi hann fengið tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi þurft að segja upp starfi sínu vegna andlegrar og líkamlegrar heilsu sinnar. Stuttu eftir að hann hafi sagt upp hafi hann fengið hjarta- og ristilsvandamál. Hægt sé að staðfesta það af lækni. Kærandi hafi aldrei verið með slík vandamál áður og hann sé sannfærður um að ástæður veikinda hans hafi verið álag í starfi.

Kærandi hafi greint Vinnumálastofnun frá þeim aðstæðum sem hann hafi þurft að vinna við en stofnuninni hafi ekki þótt það mikilvægt. Hann skilji ekki hvernig stofnunin meti misnotkun og mismunun á fólki og vanlíðan í starfi í lagi. Kæranda hafi þess í stað verið kennt um að hafa sagt upp starfi sínu. Hann hafi upplifað mismunun á vinnustaðnum þar sem hann hafi verið eini erlendi starfsmaðurinn.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun, með hléum, á árunum 2020 til 2023. Þann 3. maí 2023 hafi kærandi hafið störf hjá B og hann hafi því verið afskráður hjá stofnuninni. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju þann 27. maí 2023. Á umsókn sinni um atvinnuleysisbætur hafi kærandi tilgreint að hann hefði sjálfur sagt starfi sínu lausu vegna framkomu samstarfsfólks í sinn garð.

Með erindi, dags. 13. júní 2023, hafi Vinnumálastofnun óskað eftir því að kærandi færði fram vottorð vinnuveitanda hjá B og frekari skýringar á ástæðum uppsagnar. Sérstaklega hafi verið óskað að kærandi veitti staðfestingu á því að hann hefði leitað til stéttarfélags síns, yfirmanns eða vinnueftirlitsins með umkvörtunarefni áður en hann hafi sagt starfi sínu lausu, ef við ætti. Frekari skýringar hafi borist frá kæranda 15. júní 2023. Það segi meðal annars að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu sökum þess að honum hafi liðið mjög illa á vinnustaðnum, samstarfsfólk hafi komið illa fram við hann og álag hafi verið mikið.

Mál kæranda hafi verið tekið fyrir fljótlega eftir að athugasemdir kæranda hafi borist stofnuninni. Niðurstaða stofnunarinnar hafi verið sú að skýringar kæranda á ástæðum starfsloka teldust ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og með bréfi, dags. 20. júní 2023, hafi kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn hans um atvinnuleysisbætur en með vísan til starfsloka hjá B hafi réttur kæranda verið felldur niður í tvo mánuði frá móttöku umsóknar. Ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Í 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“

Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik hafi fallið þar undir. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að með ákvæðinu sé verið að undirstrika það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þar sem annað starf sé ekki í boði. Þar sé jafnframt sérstaklega tekið fram að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki uppsögn séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Þó sé í athugasemdum sérstaklega fjallað um tvenns konar tilvik sem talin séu heyra til gildra ástæðna fyrir starfslokum. Annars vegar sé það þau tilvik þegar maki hins tryggða hafi hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hafi af þeim sökum þurft að flytja búferlum. Hins vegar séu það þau tilvik þegar uppsögn megi rekja til þess að atvinnuleitandi hafi sagt upp störfum af heilsufarsástæðum en sé að öðru leyti vinnufær. Í ljósi þess að um matskennda ákvörðun sé að ræða sé Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður hvers máls falli að umræddri reglu. Vinnumálastofnun beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Óumdeilt sé að kærandi hafi sagt upp starfi sínu hjá B. Ágreiningur snúi að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn í starfi teljist gildar í skilningi ákvæðis 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í fyrri úrskurðum sínum talið að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitenda þegar metið sé hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna.

Kærandi hafi ekki fært fram vottorð frá vinnuveitanda þrátt fyrir beiðni þess efnis. Þær skýringar sem kærandi hafi gefið fyrir uppsögn sinni lúti að framkomu starfsfólks, álagi á vinnustað og vanlíðan kæranda í starfi. Í þeim tilvikum sem óánægja starfsmanns með vinnuumhverfi sitt sé ástæða starfsloka, þurfi sá sem hlut eigi að máli að hafa gert tilraun til úrbóta með aðkomu yfirmanns á vinnustað, stéttarfélags síns og eftir atvikum Vinnueftirlitsins áður en hann taki ákvörðun um að segja starfi sínu lausu. Að öðrum kosti verði ekki fallist á að atvinnuleitandi hafi sagt starfi sínu lausu af gildum ástæðum í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi hafið störf hjá B þann 3. maí 2023 en hafi sótt aftur um atvinnuleysisbætur tæplega þremur vikum síðar eða þann 27. maí. Í ljósi fyrirliggjandi gagna í máli þessu og þess skamma tíma sem hafi liðið frá því að kærandi hafi hafið störf hjá fyrirtækinu og þar til hann hafi sagt starfi sínu lausu verði ekki séð að kærandi hafi gert tilraun til úrbóta eða veitt vinnuveitanda raunverulegt svigrúm til að bregðast við aðfinnslum sínum áður en hann hafi sagt starfi sínu lausu. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans skuli fyrst hefjast þegar kærandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án bóta í tvo mánuði.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður hans fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða.

Kærandi hefur gefið þær skýringar að hann hafi sagt upp starfi sínu vegna hrakandi andlegrar og líkamlegrar heilsu sinnar í kjölfar framkomu samstarfsfólks á vinnustaðnum.

Ekki liggur fyrir að kærandi hafði leitað einhverra úrbóta á aðstæðum áður en hann sagði upp starfi sínu, enda hafði hann einungis starfað á vinnustaðnum í rúmlega þrjár vikur. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggja því ekki fyrir gildar ástæður fyrir uppsögn í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006. Að því virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar hans um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta