Hoppa yfir valmynd
21. desember 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Þjónustugjöld á sjúkrahúsum breytast um áramótin

Hlutdeild einstaklinga í greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu breytist um áramótin vegna tiltekinnar þjónustu. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur sett reglugerð sem breytir hlutdeild einstaklinga í kostnaði við tiltekna þætti heilbrigðisþjónustu og tekur hin nýja reglugerð gildi 1. janúar 2007. Reglugerðinni var síðast breytt í desember 2004 eða fyrir tveimur árum og breytingarnar á gjaldskrárflokkunum þremur nú eru í samræmi við breytingar á neysluverðsvísitölu.

Breytingarnar eru fyrst og fremst bundnar við breytingar á gjöldum vegna komu á slysa- og bráðadeildir sjúkrahúsa. Almennt gjald fyrir komu og endurkomu á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa hækkar þannig úr 3.320 í 3.700 krónur, og gjald fyrir hverja komu og endurkomu á göngudeild sjúkrahúsa vegna þjónustu annarra en lækna hækkar úr 1.777 í 1.887 krónur. Auk þessa hækkar almennt gjald fyrir keiluskurðaðgerðir úr 5.280 í 5.880 krónur og gjald fyrir hjartaþræðingu hækkar úr 5.280 í 5.880 krónur.

Engar breytingar verða á komugjöldum á heilsugæslustöðvar. Almennt komugjald er nú 700 krónur, en 350 krónur fyrir lífeyrisþega. Gjaldið breyttist síðast 2004 og er nú það sama í krónum talið og það var á árinu 1996.

Gjöld fyrir rannsóknir, geisla- og myndgreiningar og beinþéttnimælingar verða óbreytt.

Gjald fyrir bólusetningu hækkar í samræmi við breytingar á innkaupsverði bóluefnis en breytist að öðru leyti ekki.

Gjöld fyrir sérfræðilæknishjálp hækka ekki umfram umsamdar greiðslur til sérfræðilækna sem hækka um áramótin í samræmi við samning samninganefndar heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins við sérfræðilækna. Verð greiðslueininganna breytist samkvæmt þeim samningi og hækkar úr 220 í 235 krónur 1. janúar n.k. og í 240 krónur þann 1. júlí 2007.

Rétt er að taka fram að upphæðir og forsendur afsláttarkorta breytast ekki. Almennt greiða menn 2700 krónur vegna komu til sérfræðilæknis og 40% af kostnaðinum umfram þá upphæð. Lífeyrisþegar og börn greiða vegna sömu þjónustu 900 krónur og þriðjung af umframkostnaði þess sem greiðir almennt gjald.

Almenn afsláttarkort geta menn fengið þegar kostnaður við komur til lækna nær 18000 krónum. Lífeyrisþegar geta fengið afsláttarkort þegar heildarkostnaðurinn er 4500 krónur og afsláttarkort geta foreldrar fengið vegna barna um leið og samanlagður kostnaður vegna barna þeirra innan 18 ára nær 6000 krónum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta