Hoppa yfir valmynd
29. desember 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Styrkjum til kaupa á heyrnartækjum fjölgar

Fyrirkomulag sölu heyrnartækja breytist um áramótin þegar sala tækjanna verður gefin frjáls að uppfylltum faglegum skilyrðum. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur gefið út þrjár reglugerðir sem breyta sölufyrirkomulagi heyrnartækja. Í breytingunum felst að sala heyrnartækja til þeirra sem eru heyrnarskertir að skilgreindu marki verður gefin frjáls og takmörkun á fjölda niðurgreiddra tækja aflétt gagnvart einkafyrirtækjum. Frá árinu 2003 hefur einkafyrirtæki haft heimild ráðuneytisins til að selja 312 heyrnartæki á ári með greiðsluþátttöku ríkisins og frá áramótum bætist annað fyrirtæki við. Starfsemi og hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands verður áfram óbreytt.

Fyrirtæki sem selja heyrnartæki og tengda þjónustu þurfa að uppfylla faglegar kröfur sem landlæknir staðfestir og þau þurfa sömuleiðis rekstrarleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, en það er í samræmi við núgildandi lög um heilbrigðisþjónustu. Þá er einnig gert ráð fyrir að niðurgreiðslur ríkisins vegna heyrnartækja aukist verulega, en reiknað er með að fleiri einstaklingar á ári njóti heyrnartækjastyrks en fyrir breytingu.

Eftir breytinguna fá þeir sem uppfylla tiltekin skilyrði 30.800 krónur í styrk vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Styrkinn fá þeir sem hafa tónmeðalgildi á betra eyranu á bilinu > 30 dB<50dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz. Mörkin voru > 30 dB<70dB og eru því þrengd frá því sem var.

Tryggingastofnun ríkisins tekur að sér að endurgreiða styrki vegna tækja sem aðrir en Heyrnar- og talmeinastöð Íslands selur. Þannig verður sá sem kaupir tæki af öðrum að leggja út fyrir því og sækja í framhaldinu um styrk til Tryggingastofnunar ríkisins. Styrkumsókninni þarf að fylgja niðurstaða heyrnarmælingar, mat læknis á þörf fyrir heyrnartæki og fullnægjandi greiðslukvittun frá þeim sem seldi tækið.

Gert er ráð fyrir að fjárþörf til niðurgreiðslna aukist um 26 til 36 milljónir króna á ári þar sem styrkjum fjölgar. Samtals voru seld um 3.650 heyrnartæki á árinu 2005, en þar af voru ríflega 2.300 með greiðsluþátttöku ríkisins og fyrirséð að með breyttu fyrirkomulagi fjölgar tækjum sem eru niðurgreidd. Það ræðst svo af sölu heyrnartækja á næsta ári hvort styrkveitingarnar aukast um 26 eða 36 milljónir króna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta