Heilbrigðisráðherra heimsækir Höfn
Samningur um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga var undirritaður í morgun við Heilbrigðisstofnun suðausturlands á Höfn í Hornafirði. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, skrifaði undir samninginn fyrir hönd ráðuneytisins og Guðrún Júlía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, fyrir hönd heilbrigðisstofnunarinnar. Samningurinn er efnislega samhljóða samningi sem gerður var við Heilbrigðisstofnun Austurlands á dögunum, en gerðir verða samningar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni við fjórar stofnanir á landsbyggðinni á næstunni. Heilbrigðisstofnun suðausturlands fær samkvæmt samningnum milljón á ári í tvö ár til að efla geðheilbrigðisþjónustuna við börn og ungmenni. Við það er miðað í samningnum að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustunni og að börn og ungmenni með geð- og hegðunarröskun og forráðamenn þeirra eigi þess kost að leita sér aðstoðar í grunnþjónustunni.
Í heimsókn sinni til Hafnar í Hornafirði kynnti Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sér starfsemi heilsugæslunnar, skoðaði sjúkradeildir og heilsaði upp á starfsfólk Heilbrigðisstofnunarinnar. Þá var í heimsókn ráðherra formlega tekinn í notkun röntgenbúnaður á heilbrigðisstofnuninni en einstaklingar og fyrirtæki söfnuðu og gáfu stofnuninni andvirði tækisins, kostuðu uppsetningu þess og breytingar á húsnæðinu sem gera þurfti. Á þrettándu milljón króna söfnuðust til tækjakaupanna og framkvæmdanna.
Ráðherra hitti í ferð sinni sveitarstjórnarmenn og kynnti sér þjónustu við aldraða á Höfn, en þar hafa menn verið að breyta áherslum í þjónustunni við aldraða. Dvalarrýmum hefur verið fækkað, aðstaða aldraðra bætt að sama skapi og vaxandi áhersla hefur verið lögð á heimaþjónustu og heimahjúkrun undanfarið þannig að aldraðir geta búið lengur heima hjá sér. – Við höfum verið að auka heimaþjónustu og heimahjúkrunar við aldraða, segir Guðrún Júlía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, sem kynnti ráðherra starfsemina í morgun, og bætir við að áherslubreytingarnar hafi mælst vel fyrir hjá öldruðum og aðstandendum þeirra.