Fjarskipta- og siglingaráðherra Indlands á fundi með innanríkisráðherra
Ráðherra Indlands á sviði fjarskipta, upplýsingatækni og siglingamála heimsótti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í dag ásamt fylgdarliði. Ráðherrann heimsótti einnig Vakstöð siglinga, Neyðarlínuna, Almannavarnir, Faxaflóahafnir og Eimskip og kynnti sér starfsemi þessara aðila.
Indverski ráðherrann, Shri Milind Deora, kom hingað til lands í gær og átti óformlegan kvöldverðarfund með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um borð í varðskipinu Þór í gær. Í morgun kynnti innanríkisráðherra fyrir indversku sendinefndinni helstu málefni ráðuneytisins á sviði fjarskipta og siglingamála ásamt Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra og Sigurbergi Björnssyni skrifstofustjóra innviða.
Þá kynntu þeir Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður siglinga- og hafnasviðs Vegagerðarinnar og Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, sína málaflokka.
Gísli Gíslason, forstjóri Faxaflóahafna, og Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, kynntu hafna- og siglingamál í víðu samhengi fyrir indversku sendinefndinni en indverski ráðherrann hafði meðal annars látið í ljós áhuga á að heyra um stöðu Íslands varðandi mögulega framtíðar siglingaleið um Norðurslóðir. Þá flutti Kristinn Hafliðason, verkefnastjóri hjá Fjárfestingarstofu, erindi um hvernig háttað er upplýsingagjöf og markaðsathugunum fyrir erlenda fjárfesta á Íslandi.
Einnig heimsóttu gestirnir ásamt fulltrúum ráðuneytisins stuttlega Vaktstöð siglinga, Neyðarlínuna og Almannavarnir í Skógarhlíð þar sem Halldór Nellet, skipherra hjá Landhelgisgæslunni og fleiri sögðu frá starfseminni. Myndina þar tók Jón Páll Ásgeirsson.