Mál nr. 3/2016
Mál nr. 3/2016
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
Fræðagarður
gegn
Þjóðskjalasafni Íslands
Launamismunun.
Kærandi taldi að brotið hefði verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, þegar konu sem starfar hjá kærða voru greidd lægri laun en karlmanni með sama starfsheiti og sem gegndi sambærilegu og jafnverðmætu starfi. Kærði taldi ekki vera fyrir hendi aðstæður sem jafna mætti til mismunandi launakjara þeirra. Jafnframt taldi kærði að störfin, þ.e. sviðsstjóri skjalasviðs og sviðsstjóri upplýsingasviðs, teldust hvorki þau sömu né jafnverðmæt í skilningi laga nr. 10/2008. Kærunefndin taldi kærða hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki lægri röðun konunnar til fastra launa samkvæmt ákvæðum stofnanasamnings á umræddu tímabili. Hins vegar var það álit kærunefndar jafnréttismála að kærði hefði ekki sýnt með fullnægjandi hætti fram á að aðrir þættir en kynferði hafi ráðið ákvörðun um að greiða sviðsstjórum skjalasviðs og upplýsingasviðs mismunandi fjölda fastra yfirvinnustunda mánaðarlega á hinu kærða tímabili. Kærunefndin komst því að þeirri niðurstöðu að kærði hefði brotið gegn 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008 við ákvörðun um launakjör konunnar, þ.e. um fastar yfirvinnugreiðslur hennar, á umræddu tímabili, frá ráðningu hennar í starf sviðsstjóra upplýsingasviðs 22. apríl 2013 til 1. maí 2015.
Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 19. desember 2016 er tekið fyrir mál nr. 3/2016 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
Með kæru, dagsettri 26. maí 2016, kærði Andri Valur Ívarsson hdl. fyrir hönd Fræðagarðs ætlaðan mismun á launakjörum félagsmanns kæranda, konu er starfaði sem sviðsstjóri hjá Þjóðskjalasafni Íslands, og samstarfsmanns hennar, karlmanns, með sama starfsheiti. Kærandi telur að Þjóðskjalasafn Íslands hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ákvörðun um launakjör konunnar á tveggja ára tímabili, frá upphafi ráðningar hennar 22. apríl 2013 til 1. apríl 2015.
Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 2. júní 2016. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 8. júlí 2016, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 13. júlí 2016.
Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 2. ágúst 2016, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 5. ágúst 2016. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 19. ágúst 2016. Þær athugasemdir voru sendar kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 22. ágúst 2016. Með bréfi, dagsettu 1. september 2016, bárust viðbótarathugasemdir kæranda sem voru kynntar kærða með bréfi kærunefndarinnar, dagsettu 5. september 2016.
Með bréfi kærunefndar til kærða, dagsettu 6. október 2016, var óskað eftir viðbótarupplýsingum um röðun starfsmanna í launaflokka, ástæður að baki hækkunum þeirra og um fjölda yfirvinnustunda. Þær upplýsingar bárust með bréfi kærða, dagsettu 17. október 2016. Upplýsingarnar voru kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 20. október 2016, og honum gefinn kostur á að gera við þær athugasemdir. Lokaathugasemdir kæranda, sem bárust með bréfi, dagsettu 26. október 2016, voru sendar kærða til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu 28. október 2016.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
Við meðferð málsins voru lögð fyrir kærunefnd jafnréttismála gögn sem varða laun tiltekinna starfsmanna Þjóðskjalasafns Íslands. Í samræmi við 4. mgr. 7. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, tilkynnti kærunefndin umræddum einstaklingum bréflega að upplýsingar sem þá varða hefðu verið veittar nefndinni og að fyllsta trúnaðar yrði gætt við meðferð upplýsinganna.
Úrlausn máls þessa hefur tafist hjá kærunefnd jafnréttismála. Helgast drátturinn meðal annars af töfum við gagnaöflun, auk þess sem bæði formaður og varaformaður nefndarinnar véku sæti undir meðferð málsins og leita þurfti tilnefningar nýs formanns ad hoc frá Hæstarétti Íslands.
MÁLAVEXTIR
Kona sem er félagsmaður hjá kæranda var ráðin til kærða í apríl 2013 sem sviðsstjóri annars af tveimur fagsviðum kærða. Kærandi telur að henni hafi á tímabilinu 22. apríl 2013 til 1. apríl 2015 verið greidd lægri laun en karlmanni sem gegndi starfi sviðsstjóra hins fagsviðsins. Kærandi telur að launamismununin byggist á kynferði og að ekki hafi komið fram fullnægjandi skýringar af hálfu kærða sem réttlæti launamun þeirra á milli.
Kærði hafnar því að störf sviðsstjóranna tveggja hafi talist þau sömu eða jafnverðmæt í skilningi jafnréttislaga. Þá búi málefnalegar ástæður að baki þeim mun sem verið hafi á röðun þeirra til launaflokka og föstum yfirvinnugreiðslum. Telur kærði að hvorki hafi verið sýnt fram á né leitt líkum að því að brotið hafi verið gegn ákvæðum jafnréttislaga.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
Kærandi kveður A, félagsmann sinn, hafa leitaði til sín vegna launamismununar sem hún taldi sig hafa orðið fyrir í störfum sínum sem hún hóf sem sviðsstjóri upplýsingasviðs kærða í apríl 2013.
Kærandi greinir frá því að í upphafi hafi verið gerður tímabundinn ráðningarsamningur til eins árs þar sem A hafi verið raðað í launaflokk Y-N, auk þess sem hún hafi fengið 20 fastar yfirvinnustundir á mánuði. Í maí 2014 hafi verið gerður ótímabundinn ráðningarsamningur milli aðila þar sem A hafi verið raðað í launaflokk Z-N [sic], auk þess að fá áfram 20 fastar yfirvinnustundir á mánuði. Telur kærandi að hækkun um einn launaflokk hafi komið til sökum þess að grunnlaun A hefðu ekki náð þeirri fjárhæð sem rætt hafi verið um við ráðningu hennar.
Við gerð ótímabundins ráðningarsamnings í maí 2014 hafi A fengið veður af því að karlmaður sem var sviðsstjóri á skjalasviði, hinu fagsviði stofnunarinnar, hefði hærri laun en hún. Hafi hún óskað eftir því við þjóðskjalavörð að laun hennar yrðu jöfnuð við laun sviðsstjóra á skjalasviði. Ekki hafi verið orðið við því. Að mati kæranda sé um að ræða algjörlega sambærileg og jafnverðmæt störf.
Í nóvember 2015 hafi A fengið staðfest að sviðsstjóri á skjalasviði hefði hærri laun en hún. Í kjölfar starfsmannasamtals sem fór fram um þetta leyti hafi A sent þjóðskjalaverði erindi með tölvupósti, dagsettum 26. nóvember 2015, þar sem hún óskaði eftir endurskoðun og rökstuðningi á launaröðun sinni og afturvirkri leiðréttingu frá upphafi starfs, hefði verið um launamismunun að ræða. Þjóðskjalavörður hafi boðað A á sinn fund þann 30. nóvember 2015 þar sem hann hafi svarað erindinu munnlega og fallist á að fjölga föstum yfirvinnustundum A úr 20 í 30 afturvirkt frá 1. apríl 2015 en nýtt skipurit hafi tekið gildi hjá kærða í þeim mánuði. Fjöldi fastra yfirvinnustunda A hafi þannig verið færður til samræmis við þann fjölda yfirvinnustunda sem sviðsstjóri skjalasviðs hafði. Þess beri að geta að sviðsstjóri vörslusviðs, nýs sviðs samkvæmt skipuriti, hafi frá upphafi haft 30 fastar yfirvinnustundir.
Kærandi telji að leiðrétta hefði átt laun A afturvirkt, með vöxtum, frá upphafi starfs hennar hjá kærða enda hafi hún frá upphafi verið á lægri launum en hinn sviðsstjórinn. Þá vekur kærandi athygli á því að svo virðist sem endurskoðun á launasetningu A hafi verið lokið af hálfu þjóðskjalavarðar er hún sendi honum erindi sitt undir lok nóvember 2015. Í því sambandi bendir kærandi á að þann 1. desember 2015 hafi A fengið greitt samkvæmt nýrri launaröðun í samræmi við nýsamþykktan stofnanasamning, en afturvirk leiðrétting á föstum yfirvinnustundum hafi ekki komið til greiðslu fyrr en um næstu mánaðamót þar á eftir.
Kærandi hafi sent kærða bréf, dagsett 12. janúar 2016, þar sem meðal annars hafi verið óskað skýringa á þeim launamun sem að framan er lýst. Í svari kærða, dagsettu 18. febrúar 2016, hafi meðal annars komið fram að með skipulagsbreytingum í apríl 2015 hefði sviðsstjórum verið fjölgað úr tveimur í þrjá. Með breytingunum hafi hið nýja svið, vörslusvið, tekið yfir hluta verkefna sem áður hafi verið á hendi sviðanna tveggja. Var kröfu kæranda um afturvirka launaleiðréttingu frá upphafi starfs A til apríl 2015 hafnað. Að mati kæranda standist ekki skoðun sá rökstuðningur kærða að við það að fjölga sviðsstjórum úr tveimur í þrjá sé komið tilefni til að jafna laun upp á við. Sé því um eftir á gefna skýringu að ræða að mati kæranda.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
Kærði greinir í greinargerð sinni með sama hætti frá ráðningu A og launakjörum hennar við ráðningu, en þar kemur fram að við fastráðningu hennar í maí 2014 hafi henni verið raðað til launaflokks Z-O, auk 20 fastra yfirvinnutíma á mánuði, eins og áður. Um laun og önnur starfskjör A hjá kærða hafi meðal annars farið samkvæmt kjarasamningi Fræðagarðs og fjármálaráðuneytisins f.h. ríkissjóðs, sem og stofnanasamningi Fræðagarðs og Þjóðskjalasafns Íslands. Kærði vekur athygli á því að nýr stofnanasamningur milli Fræðagarðs og Þjóðskjalasafns hafi verið undirritaður 8. október 2015 og gildi frá 1. maí sama ár. Heiti launaflokks, Z-O, vísi til launaflokks Z og launaþreps O.
Þá hafi C verið ráðin sviðsstjóri skjalasviðs árið 2009 og gegnt því starfi til 28. apríl 2015. Við það tímamark hafi tekið gildi skipulagsbreytingar hjá stofnuninni og hafi C þá tekið við starfi sviðsstjóra vörslusviðs. Á því tímabili, sem vísað er til í kæru hafi C verið í rannsóknarleyfi og B gegnt starfinu á sama tímabili. Í afleysingu C á því tímabili sem krafa A taki til, hafi B notið launagreiðslna samkvæmt launaflokki Y-O auk þess hann hafi fengið greiddan sama fjölda fastra yfirvinnstunda á mánuði og C, eða 30 stundir. Mánaðarlaun A, B og C hafi verið ákveðin á grundvelli ákvæða kjarasamnings Fræðagarðs og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og stofnanasamnings Fræðagarðs og Þjóðskjalasafns Íslands. Laun húsnæðisstjóra og fjármálastjóra, þ.e. yfirmanna hinna tveggja stoðdeilda stofnunarinnar, hafi verið ákveðin samkvæmt kjarasamningi Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og á grundvelli stofnanasamnings sama stéttarfélags og Þjóðskjalasafns.
Af hálfu kærða er sérstaklega vísað til kjarasamnings Fræðagarðs og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, en einkum þó til ákvæða stofnanasamnings Fræðagarðs og Þjóðskjalasafns Íslands sem tekið hafi gildi á því tímabili sem um ræði í máli þessu. Ákvæði stofnanasamnings mæli fyrir um grunnröðun starfsheitis, persónu- og tímabundna þætti, sérstaka umbun o.fl. Af framangreindum samningum leiði að kærða hafi borið að meta þá þætti sem þar komi fram, eftir atvikum samkvæmt einstaklingsbundnu mati, og ákvarða laun með hliðsjón af niðurstöðu þess. Eðli máls samkvæmt geti mismunur því komið upp á mánaðarlaunum starfsmanna í samræmi við matsbundna þætti í stofnanasamningi.
Kærði kveðst hafna sem rangri þeirri umfjöllun kæranda þar sem gefið sé í skyn að hækkun launa A úr launaflokki Y-N í Z-O frá maí 2014 megi rekja til þess að grunnlaun hennar hefðu ekki náð þeirri fjárhæð sem um hafi verið rætt við ráðningu hennar. Við gerð ráðningarsamnings hafi röðun hennar verið yfirfarin og þess getið að við fastráðningu yrðu launin endurskoðuð. Kærði áréttar að sviðsstjórar hjá stofnuninni, þ.e. C, B og A, hafi öll notið launa samkvæmt sama launaflokki um það leyti sem A hafi verið ráðin.
Kærði bendir á að ákvörðun um fjölda fastra yfirvinnustunda B hafi byggt á launaákvörðun C, sem sviðsstjóra skjalasviðs. Það sé afstaða kærða að málefnalegar og hlutlægar ástæður hafi búið að baki mismun á yfirvinnugreiðslum til sviðsstjóra þessara tveggja sviða á því tímabili sem um ræðir.
Í þessu sambandi bendir kærði á að starfsemi stofnunarinnar hafi á undanförnum árum verið í stöðugri endurskoðun þar sem leitað hafi verið leiða til að auka skilvirkni og hagkvæmni í starfsemi stofnunar. Starfsemin og skipurit hafi tekið nokkrum breytingum á liðnum árum. Árið 2010 hafi þrjú fagsvið stofnunarinnar (rannsókna- og þjónustusvið, skjalavörslusvið og útgáfu- og upplýsingasvið) verið sameinuð í tvö ný fagsvið, þ.e. skjalasvið og upplýsingasvið. Á því tímamarki hafi starfsmenn skjalasviðs verið níu, starfsmenn upplýsingasviðs níu og starfsmenn rekstrarsviðs (fjármál og húsnæðismál) fjórir. Við endurskoðun á skipuriti árið 2012 hafi sömu verkefni haldið áfram á skjalasviði og upplýsingasviði en umfang starfsemi skjalasviðs hafði þá vaxið nokkuð vegna aukinna verkefna og hafði starfsmönnum þá einnig fjölgað. Umfang verka upplýsingasviðs hafi verið að breytast, til dæmis hafi vinnu við skráningarverkefni á Austurlandi 2011–2012 verið að mestu lokið um mitt ár 2012 en áfram hafi verið þungi í afgreiðslum skjala Rannsóknarnefndar Alþingis. Rekstrarsviði hafi verið skipt upp í tvær stoðdeildir, annars vegar húsnæði og geymslur og hins vegar fjármál og rekstur.
Við ráðningu A árið 2013, sem sviðsstjóra upplýsingasviðs, hafi ekki verið gerðar sérstakar breytingar á starfsemi stofnunarinnar. Kærði vekur athygli á því að sviðsstjóri upplýsingasviðs á þessum tíma, D, hafi samhliða gegnt sviðsstjórastarfi sínu starfi þjóðskjalavarðar vegna veikindafjarvista og tekið við því embætti í desember 2012. Við ráðningu A sem sviðsstjóra upplýsingasviðs hafi ekki verið gerðar breytingar á skipuriti en sú breyting gerð á verkefnum sviðsins að rannsóknir vegna heimildaútgáfu hafi farið undir þjóðskjalavörð. Þannig hafi tveir starfsmenn upplýsingasviðs færst frá sviðinu samhliða ráðningu A og heyrt frá sama tíma undir þjóðskjalavörð. Fráfarandi þjóðskjalavörður hafi verið ráðinn til rannsókna er hann lét af starfi þjóðskjalavarðar og heyrt undir eftirmann sinn. Jafnframt hafi þjóðskjalavörður tekið með sér verkefni frá upplýsingasviði sem fólust í yfirumsjón og samningagerð vegna reksturs starfsstöðvar í Héraðsskjalasafni Ísfirðinga. Þessu til viðbótar hafi þjóðskjalavörður sinnt áfram ráðgjöf og afgreiðslu sértæks erindis frá tveimur lögfræðistofum vegna gagna Rannsóknarnefndar Alþingis. Af framangreindu leiði að á því tímamarki sem A var ráðin sem sviðsstjóri upplýsingasviðs árið 2013 hafi verið nokkur munur á umfangi starfsemi og starfsmannafjölda þeirra sviða sem um hafi rætt í kæru, þ.e. átta starfsmenn hafi verið starfandi á upplýsingasviði og 13 starfsmenn á skjalasviði.
Í apríl 2014 hafi laun A verið endurskoðuð en þá hafi ekki verið gerðar breytingar á starfsemi stofnunarinnar.
Kærði vekur sérstaka athygli á því að A hafi notið hærri röðunar í launaflokk en B á tímabilinu frá 1. maí 2014 til 1. maí 2015. Ítrekar kærði að staðhæfingar í kæru um að þá hafi verið um að ræða hækkun til að umsaminni launafjárhæð yrði náð séu rangar og standist ekki skoðun. Matsbundnir þættir samkvæmt stofnanasamningi hafi ráðið röðun í þrep.
Hinn 28. apríl 2015 hafi nýtt skipurit öðlast gildi hjá stofnuninni. Sama ár hafi verið undirritaður nýr stofnanasamningur milli Fræðagarðs og Þjóðskjalasafns með gildistíma frá 1. maí 2015. Í tengslum við framangreint hafi farið fram endurskoðun launa.
Kærði kveður að við mat á sambærileika starfa sviðsstjóra, samanburði og umfangi starfa og starfsemi skjalasviðs og upplýsingasviðs almennt sé brýnt að horfa til ýmissa þátta í starfseminni á því tímabili sem um ræði. Veitir kærði í greinargerð eftirfarandi upplýsingar um starfsemi sviðanna:
Hvað varði starfsemi upplýsingasviðs nefnir kærði að helstu verkefni sviðsins í kjölfar ráðningar A hafi sem fyrr verið að reka grunnþjónustu og ráðgjöf við notendur safnkostsins, almenning og fræðimenn, með rekstri lestrarsalar. Árlegar heimsóknir þangað séu um 2.500–3.000. Fjöldi starfsmanna sem sinni lestrarsalnum séu tveir til þrír. Sviðið afgreiði beiðnir um aðgang að upplýsingum sem aðgangur sé takmarkaður að (einn til tveir starfsmenn). Helst beri að nefna (frá 2010) beiðnir um aðgang að skjölum Rannsóknarnefndar Alþingis. Afgreiðsla aðgangsbeiðna að gögnum með takmarkaðan aðgang megi telja vandasamasta lögbundna verkefni sviðsins og ákaflega tímafrekt. Að öðru leyti svari sviðið fyrirspurnum um upplýsingar í safninu (1.350 á ári) og útbúi afrit skjala fyrir þá sem óski þess. Að sama skapi hafi rekstur skanna, skönnun og miðlun mikið notaðra ritheimilda verið verkefni sviðsins. Fyrirferðarmikið verkefni sé viðhald og rekstur heimasíðu og annarra upplýsingavefja á borð við manntalsvef, jarðavef, dómabókagrunn, skólavef og skjaladagsvef (um 30.000 notendur á ári). Sviðið leiðbeini og stýri fjarvinnslu við uppskriftir sóknarmannatala á Ísafirði. Meðal verkefna sviðsins hafi verið kerfisstjórn, forritun, gerð og viðhald gagnagrunna ásamt tölvuþjónustu innan stofnunarinnar. Upplýsingasvið annist öll kynningarmál safnsins á vefjum og sjái einnig um sérstaka kynningarviðburði. Fastir viðburðir séu norræni skjaladagurinn og safnanótt og auk þess taki sviðið á móti hópum og þannig komi um 650 einstaklingar á ári í safnið. Sviðið annist gerð sýninga, einkum í tengslum við móttöku hópa, skjaladag og safnanótt. Útgáfumál og umsjón með prentun séu verkefni upplýsingasviðs.
Hvað varðar starfsemi skjalasviðs greinir kærði frá því að sé litið til verkefna sviðsins á tímabilinu frá breytingum á skipuriti árið 2012 til 1. apríl 2015 megi sjá að verkefni og starfsemi þess séu í senn bæði frábrugðin starfsemi upplýsingasviðs, nokkuð umfangsmeiri og beinist mikið að stofnunum og embættum. Helstu verkefni skjalasviðs hafi verið fólgin í móttöku skjalasafna, ráðgjöf við afhendingarskylda aðila og eftirlit með skjalavörslu þeirra, setningu reglna, grisjunarmál, flokkun, skráningu og pökkun safna, umsjón heildaskjalaskrár, forvarsla, námskeiðahald fyrir skjalamyndara, skjalafræðikennsla í Háskóla Íslands, samskipti við héraðsskjalasöfn, þjóðlendurannsóknir og rannsóknir í skjalafræðum og stjórnsýslusögu. Verkefni skjalasviðs snúi því fyrst og fremst að lögbundnum verkefnum stofnunar sem framkvæmdaraðili opinberrar skjalastjórnar og skjalavörslu hér á landi, þjónustu og eftirliti með þeim aðilum sem skili skjölum til safnsins og umfjöllun um eyðingu skjala. Í starfsemi skjalasviðs felist meðal annars ábyrgð á eftirliti, ráðgjöf og námskeiðahald fyrir alla afhendingaskylda aðila (stofnanir og embætti) hér á landi sem séu yfir 600 og umsjón með setningu reglna sem taki til allrar opinberrar skjalamyndunar á landinu. Við setningu reglna annist skjalasvið samskipti við umsagnaraðila (tæplega 500). Þá megi benda á að hluti starfseminnar felist í útseldri sérfræðiþjónustu, þ.e. sá hluti er taki til þjóðlendurannsókna fyrir Óbyggðanefnd (tveir til þrír starfsmenn), flokkun, skráning og frágangur skjalasafna fyrir þá sem óski þess að kaupa þá þjónustu (tveir starfsmenn) og starfsemi forvörsluverkstæðis (tveir starfsmenn). Einnig megi benda á að sviðsstjóri skjalasviðs sé tengiliður stofnunar við héraðsskjalasöfn, skipuleggi samstarf við þau og taki þátt í eftirliti með þeim. Jafnframt hafi sviðsstjóri yfirumsjón með heildarskjalaskrá safnsins sem þjónusti alla notendur þess. Auk þess afli skjalasvið u.þ.b. 2/3 hluta sértekna stofnunarinnar en upplýsingasvið afli óverulegra sértekna.
Kærði greinir frá því að í kjölfar stefnumótunarvinnu, sem lauk síðla árs 2014, hafi verið ákveðið að gera breytingar á skipan verkefna og skipuriti stofnunar. Nýtt skipurit hafi tekið gildi þann 28. apríl 2015. Efnislega hafi falist í breytingum fjölgun fagsviða um eitt og tilflutningur verkefna þeirra á milli. Þannig hafi sviðin orðið þrjú, þ.e. skjalasvið, vörslusvið og upplýsingasvið, og stoðdeildirnar áfram tvær, húsnæði og geymslur og fjármál og rekstur, en sú síðarnefnda hafi þá tekið við auknum verkefnum.
Í meginatriðum hafi gamla skjalasviðinu verið skipt í tvö svið, þ.e. skjalasvið og vörslusvið. Verkefni skjalasviðs lúti að viðtöku nýrra afhendinga, grisjun skjala, utanumhaldi á aðfanga- og skjalaskrám, eftirliti, ráðgjöf og námskeiðum fyrir afhendingarskylda aðila, skjalfræðikennslu á háskólastigi og samskiptum við héraðsskjalasöfn. Þar hafi jafnframt áfram verið skjalaflokkun og pökkun sem falli undir útselda þjónustu og þar með sértekjur stofnunar. Hið nýja vörslusvið hafi fengið það meginverkefni að sinna skjalaforðanum, forverja og gæta hans og á hendi þess sviðs verði að skrá gamlar afhendingar og að sjá um öryggisafritun og jafnframt aðra afritun. Þangað hafi einnig verið fluttar þjóðlendurannsóknir sem sé útseld þjónusta unnin fyrir óbyggðanefnd og skapi drjúgan hluta sértekna stofnunar. Með breytingum sé leitast við að sinna betur hinum afhendingarskyldu og innheimta það gríðarlega magn pappírsskjala sem sé ókomið til safnsins. Þetta styðji einnig við það markmið að fjölga afhendingum rafrænna gagna á skjalasviði. Með þessu sé einnig aukin áhersla á forvörslu og öryggi skjalaforðans, flokkun eldri afhendinga og öryggisafritun. Á vörslusviði séu einnig rannsóknir og heimildaútgáfa.
Á nýju upplýsingasviði sé meiri þungi á miðlun, sýningar og ímyndarmál, þar séu vefir, gagnagrunnar, fræðsla fyrir fræðimenn og almenning og móttaka hópa. Á sviðinu séu sem fyrr verkefni sem felist í að reka lestrarsal, veita fræðimönnum ráðgjöf, svara fyrirspurnum og afgreiða flóknari aðgangsmál. Verkefni sem flutt hafi verið af sviðinu séu afritun, kerfisstjórn og forritun. Tvö síðarnefndu verkefnin hafi verið flutt yfir á fjármál og rekstur, enda sé þar um að ræða verkefni sem liggi þvert á alla starfsemina. Afritun og rekstur skanna hafi færst yfir á vörslusvið. Með þessum tilfærslum hafi verið skapað svigrúm á upplýsingasviði til að bæta og auka þjónustu við notendur, svo sem með meiri fræðslu og miðlun.
Stoðdeildin fjármál og rekstur hafi tekið við kerfisstjórn og forritun, sem séu verkefni sem þjóni öllum sviðum svipað og önnur verkefni þar. Heitinu húsnæði og geymslur sé ætlað að draga fram tvö meginverkefni deildarinnar, þ.e. að sinna endurnýjun og viðhaldi alls húsnæðis og það sem lúti að umsjón og viðhaldi á geymslum og skráningum og röðun í þeim. Þá hafi verkefnin nýbyggingar, öryggismál og mælingar skjalaforðans verið tilgreind sérstaklega til áhersluauka.
Fjölgun sviða sé ætlað að auka afl í verkstjórn og bæta skipulag verkefna og skapa forsendur fyrir bættum árangri. Með breytingunum árið 2015 hafi ábyrgð og umfangi verkefna verið jafnað milli sviða og í dæmaskyni megi nefna að starfsmannafjöldi hafi orðið svipaður, þ.e. á skjalasviði séu átta starfsmenn, á vörslusviði níu starfsmenn og á upplýsingasviði níu starfsmenn.
Með vísan til 25. gr. jafnréttislaga bendir kærði á nauðsyn þess að skoða þurfi launasetningu umræddra starfsmanna heildstætt en ekki með þeim hætti sem lagt hafi verið upp með í kæru. Í því sambandi beri að hafa í huga forsendur launaákvarðana, ákvæði kjarasamnings og stofnanasamnings og uppbyggingu þeirra samninga.
Það sé afstaða kærða að í máli þessu séu ekki fyrir hendi aðstæður sem jafna megi til mismunandi launakjara þeirra A og B fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Í fyrsta lagi megi segja að fyrir liggi að röðun A og B í launaflokk hafi verið sú sama frá ráðningu hennar árið 2013 og fram í maí 2014, þ.e. launaflokkur Y. Við það tímamark hafi röðun A hækkað um einn launaflokk en röðun B verið óbreytt. Svo hafi verið frá maí 2014 til maí 2015 er nýtt skipurit hafi öðlast gildi. Minnt sé á að matsbundnir þættir samkvæmt stofnanasamningi ráði röðun í þrep. Í öðru lagi, þótt fyrir liggi að B hafi notið greiðslu fleiri fastra mánaðarlegra yfirvinnustunda en A á tímabilinu frá ráðningu hennar árið 2013 og allt til í maí 2015, þá beri að líta til þess að fjöldi mánaðarlegra yfirvinnustunda sem B hafi notið hafi byggst á forsendum sem hafi verið ákvarðaðar vegna C sviðsstjóra sem B hafi leyst af. Vegna þessa sé það afstaða kærða að í raun eigi ágreiningur þessi ekki undir úrlausnarvald kærunefndar jafnréttismála.
Það sé afstaða kærða að störf sviðsstjóra skjalasviðs og sviðsstjóra upplýsingasviðs hafi ekki talist, á því tímabili sem um ræðir í kæru, sömu eða jafnverðmæt störf í skilningi laga nr. 10/2008. Af lýsingum á helstu verkefnum þeirra verði ráðið að starfsemi þessara tveggja sviða sé ólík, verkefni mismunandi og umfang starfsemi þeirra ekki sambærileg. Í kæru hafi því verið haldið fram að störfin séu algjörlega sambærileg og jafnverðmæt að mati kæranda. Sú staðhæfing fái ekki staðist og eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Í raun megi segja að umrædd tvö starfsheiti eigi það sameiginlegt að vera þau sömu og vera hjá sömu stofnun. Í því sambandi beri að hafa í huga að starfsheitið sviðsstjóri sé tilgreint sérstaklega í stofnanasamningi Fræðagarðs og Þjóðskjalasafns og einungis tiltekin lágmarksröðun ákveðin. Eðli og inntak þessara sviðsstjórastarfa sé ólíkt og umfang starfsemi þessara sviða hafi verið mismunandi á þeim tíma sem um ræðir og engin skörun á milli verkefna. Líti kærði svo á að mismunandi fjöldi greiddra yfirvinnstunda á mánuði hafi byggst á málefnalegum og starfslegum ástæðum.
Sé það á hinn bóginn afstaða kærunefndar jafnréttismála að mismunandi fjöldi greiddra yfirvinnustunda á mánuði til A og B verði ekki réttlættur á grundvelli framangreindra sjónarmiða, telur kærði ótvírætt að við mat á því hvort tilhögun hafi farið gegn ákvæði 25. gr. laga nr. 10/2008, þurfi að eiga sér stað sjálfstætt mat þar sem launakjör þeirra séu virt heildstætt. Í því felist að ekki verði hjá því komist að horfa til þess að A hafi notið hærri röðunar í launaflokk á tímabilinu frá maí 2014 til maí 2015.
Ekki sé óalgengt að innan sömu stofnunar og ráðuneyta sé að finna sambærileg eða sömu starfsheiti en mismunandi launaákvarðanir að baki þeim sem byggi á inntaki hlutaðeigandi starfa. Starfsheiti eitt og sér ráði ekki inntaki starfs og launaákvörðunum, enda mæli til dæmis stofnanasamningur fyrir um tiltekna starfaflokkun en jafnframt að tiltekið mat fari fram sem byggi á hlutaðeigandi starfi og persónubundnum þáttum hlutaðeigandi starfsmanns. Þá ítrekar kærði að ákvörðun um mismunandi fjölda fastra yfirvinnustunda á mánuði hafi byggt á mati á umfangi starfa og starfsemi sviða en stofnunin hafi metið það svo að umfang starfsemi skjalasviðs væri umtalsvert meira en upplýsingasviðs á þeim tíma sem um ræðir. Vísar kærði þar til fyrri umfjöllunar um starfsmannafjölda sviðanna og flutning verkefna af upplýsingasviði til þjóðskjalavarðar.
Í tilefni af þeirri athugasemd kæranda, að ekki fái staðist að við það að fjölga sviðsstjórum úr tveimur í þrjá sé tilefni til að jafna laun upp á við og að um eftir á gefna skýringu sé að ræða, bendir kærði á að skipulagsbreytingarnar 2015 hafi falið í sér tilflutning á verkefnum milli sviða og þeim verið dreift þannig að umfang og ábyrgð hafi orðið jafnari. Í sjálfu sér hefði mátt fækka föstum yfirvinnustundum sviðsstjóra skjalasviðs í stað þess að fjölga yfirvinnustundum hjá sviðsstjóra upplýsingasviðs, auk nýrrar stöðu sviðsstjóra vörslusviðs sem og fjármálastjóra. Stofnunin hafi hins vegar viljað tryggja sviðum og stoðdeildum svigrúm til að rækja skyldur sínar betur en áður, sinna framþróun og vera betur í stakk búin til að takast á við breytingar og nýjungar á viðkomandi vettvangi. Með fjölgun sviða hafi jafnframt verið stefnt að því að auka afl verkstjórnar, bæta skipulag verkefna og skapa forsendur fyrir bættum árangri. Í því sambandi sé bent á að í árslok 2014 hafi verið birt stefnumótun Þjóðskjalasafns fyrir árin 2014–2018. Um hafi verið að ræða fyrstu heildstæðu stefnumörkun safnsins með víðtækri þátttöku starfsmanna og notenda. Breytingum á skipuriti árið 2015 hafi verið ætlað að styðja við þessa stefnumótun og viðleitni til að tryggja framgang hennar. Það sé hins vegar svo að samhliða skipulagsbreytingum, sem feli í sér breytta verkaskiptingu auk nýrra áherslna í starfsemi sviða, þurfi jafnframt að horfa til launasetningar og launaákvarðana. Vissulega hefði kærði getað farið þá leið breyta launagreiðslum með því að fækka föstum mánaðarlegum yfirvinnustundum í stað þess að fjölga þeim. Sú leið hefði leitt til þess að stofnunin hefði þurft að beita uppsögnum á launalið, þ.e. að segja upp yfirborgunum með samningsbundnum uppsagnarfresti. Í ljósi þeirra markmiða sem kærði stefndi að með breytingum hafi sú ákvörðun verið tekin að fjölga fremur mánaðarlegum yfirvinnstundum sviðsstjóra upplýsingasviðs, auk sviðsstjóra vörslusviðs sem og fjármálastjóra. Það hafi verið mat kærða að sú leið væri fremur til þess fallin að tryggja að markmiðum með breytingum yrði náð.
Að lokum kveðst kærði hafna því alfarið að á umræddu tímabili hafi verið fyrir hendi launamunur milli A og B sem telja megi kynbundinn. Af hálfu kærða sé slíkum staðhæfingum mótmælt og telur stofnunin að hvorki hafi verið sýnt fram á né leiddar að því líkur að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA
Í athugasemdum kæranda er á það bent að kæran snúi að tímabili frá upphafi starfs A í apríl 2013 til apríl 2015. Kærða hafi virst mikið í mun að leggja á það áherslu að A hafi verið tímabundið ráðin fyrsta ár sitt í starfi. Kærandi bendi því á að samkvæmt lögum um tímabundna ráðningu starfsmanna, nr. 139/2003, skuli starfsmaður með tímabundna ráðningu ekki njóta lakari kjara en starfsmaður með ótímabundna ráðningu, sbr. 1. mgr. 4. gr. Það sé því tilefnislaust að vísa sérstaklega til þess að um tímabundna ráðningu hafi verið að ræða. Að auki bendir kærandi á að staða sviðsstjóra upplýsingasviðs hafi verið auglýst sem ótímabundið fullt starf hjá kærða. Að sögn A hafi aldrei verið rætt um annað í ráðningarferlinu eða við undirritun ráðningarsamnings en að um fasta stöðu væri að ræða. Fái kærandi því ekki séð að þetta atriði skipti máli.
Þá vekur kærandi athygli á því að á umræddu tímabili hafi tvö fagsvið verið hjá stofnuninni þar sem hvor sviðsstjórinn hafi starfað, A og B. Kæran snúi að þessum tveimur sviðsstjórum sem hafi haft sama starfsheiti og gegnt sambærilegu og jafnverðmætu starfi að mati kæranda. Hver launasetning húsnæðisstjóra og fjármálastjóra hafi verið á umræddu tímabili sé málinu óviðkomandi, enda hvorki um sambærilegar deildir, starfsheiti né störf að ræða.
Kærandi gerir athugasemd við samanburð kærða á upplýsingasviði og skjalasviði í greinargerð sinni og þá mynd sem kærði hafi varpað fram og sé ætlað að sýna fram á mismunandi umfang starfsemi og starfsmannafjölda sviðanna.
Kærandi bendir á að með greinargerð kærða hafi fylgt skipurit merkt júní 2013. Þar hafi komið fram að á upplýsingasviði hafi verið átta starfsmenn en að þeir hafi á sama tíma verið 13 á skjalasviði. Að auki hafi þrír starfsmenn heyrt beint undir þjóðskjalavörð. Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærandi hafi sé um villandi og hreinlega ranga mynd að ræða og nefnir kærandi dæmi um tvo starfsmenn upplýsingasviðs sem vanti. Það sé því ljóst að umrætt skipurit sýni ekki rétta mynd af stöðu mála í júní 2013. Hefði það verið miðað við júlí eða ágúst 2013 í stað júní, hefði starfsmannafjöldi á sviðinu verið 25% meiri en yfirlit kærða sýni. Kærandi leggur því áherslu á að taka þessum samanburði með hæfilegum fyrirvara auk þess sem starfsmannafjöldi á sviði sé einn og sér ekki mælikvarði á umfang starfs sviðsstjóra.
Kærandi bendir á tvær beinar tilvitnanir í greinargerð kærða, annars vegar þessa: „Jafnframt tók þjóðskjalavörður með sér verkefni frá upplýsingasviði sem fólst í yfirumsjón og samningagerð vegna reksturs starfsstöðvar í Héraðsskjalasafni Ísfirðinga.“ Hins vegar eftirfarandi: „Þá hafi þjóðskjalavörður tekið með sér verkefni frá upplýsingasviði umsjón með starfsemi á Ísafirði.“ Kærandi kveður þessar fullyrðingar vera í ósamræmi við svar þjóðskjalavarðar til hæstaréttarlögmanns sem hafi gert kröfu fyrir hönd starfsmanns á upplýsingasviði stofnunarinnar, um leiðréttingu á launum viðkomandi. Það mál hafi á engan hátt tengst kæru kæranda en um sé að ræða mál sem hafi komið á borð stéttarfélagsins og sé kæranda því kunnugt. Umræddur starfsmaður hafi haft umsjón með samstarfsverkefni Þjóðskjalasafns og Héraðsskjalasafns Ísfirðinga eins og glögglega komi fram í svarbréfi þjóðskjalavarðar þar sem segir: „Þannig er lýsing á hlutverki [starfsmannsins] í tengslum við framkvæmd verkefna ekki nákvæm, einkum að því er verkstjórn varðar. Var það sviðsstjóri sem leiddi verkefnin en [starfsmaðurinn] annaðist tiltekna þætti þeirra.“ Þarna sé staðhæft að það hafi verið sviðsstjóri sem leiddi verkefnin. Umræddur sviðsstjóri sé A, sviðsstjóri upplýsingasviðs.
Kærandi kveðst ekki gera athugasemd við þá staðhæfingu þjóðskjalavarðar að hann hafi haft samningagerð vegna þessa tiltekna verkefnis á sinni könnu enda sé það algengur háttur hjá stofnunum að forstöðumenn sjái um samningamál er snúi að fjárhagshlið verkefna, en að sviðsstjórar eða aðrir millistjórnendur leiði verkefnin.
Þá bendir kærandi á að í greinargerð kærða hafi verið fjallað um að hann hafi, auk fyrrgreind verkefnis, áfram sinnt ráðgjöf og afgreiðslu sértæks erindis frá tveimur lögfræðistofum vegna gagna Rannsóknarnefndar Alþingis. Af þessari framsetningu megi draga þá ályktun að verkefnið hafi verið fært af upplýsingasviði undir þjóðskjalavörð, en svo hafi ekki verið. Afgreiðsla mála er hafi varðað gögn rannsóknarnefndarinnar hafi áfram verið á upplýsingasviði og hjá starfsmönnum og stjórnendum þess þrátt fyrir að þjóðskjalavörður hafi vissulega veitt ráðgjöf og erindin því að einhverju leyti á hans borði.
Kærandi telur að kærða hafi virst vera mikið í mun að leggja áherslu á að A hafi notið hærri röðunar í launaflokk en karlkyns sviðsstjóri skjalasviðs á tímabilinu frá maí 2014 til maí 2015. Engin tilraun hafi þó verið gerð til að varpa ljósi á það af hverju A hafi notið hærri röðunar í launaflokka en karlkyns sviðsstjóri skjalasviðs á umræddu tímabili. Með kæru hafi fylgt yfirlit yfir launaröðun A frá 1. maí 2015. Um sé að ræða launaröðun eftir það tímabil sem kæra þessi beinist að. Engu að síður megi að mati kæranda sjá hver sé grundvöllur þeirra viðbótarlaunaflokka sem A hafi notið, þ.e. tveir launaflokkar vegna menntunar sem nýtist í starfi og sé umfram þær menntunarkröfur sem gerðar séu til starfsins samkvæmt stofnanasamningi. Þessa viðbótarmenntun hafi A haft frá því hún hóf störf hjá Þjóðskjalasafni. Geti þetta að mati kæranda skýrt af hverju A hafi um tíma notið hærri röðunar en B. Af hverju A hafi notið hærri röðunar í launaflokka í eitt ár af þremur kalli á frekari skýringar af hálfu kærða.
Kveðst kærandi telja það augljóst þegar litið sé til gagna málsins og samhengis að ekki hafi staðið til að leiðrétta yfirvinnu A, svo sem fram komi í kæru.
Kærandi bendir á að í greinargerð kærða hafi komið fram að í tengslum við nýjan stofnanasamning, sem undirritaður hafi verið í byrjun október 2015, hafi farið fram endurskoðun launa og sé þar birt tafla með launum millistjórnenda Þjóðskjalasafns í kjölfar endurskoðunar. Þá hafi jafnframt komið fram að sú ákvörðun hafi verið tekin að auka við mánaðarlegan fjölda yfirvinnustunda sviðsstjóra upplýsingasviðs auk sviðsstjóra vörslusviðs sem og fjármálastjóra. Því sé látið að því liggja að heildstæð endurskoðun hafi farið fram og leiðréttingar í kjölfarið. Kærandi geri athugasemd við þessa framsetningu og telji hana villandi, því kærandi hafi upplýsingar um að þessar leiðréttingar hafi farið fram á misjöfnum tíma. Fram sé komið að A hafi óskað ítrekað eftir svörum um fastar yfirvinnugreiðslur sviðsstjóra og eftir atvikum leiðréttingu ef misræmis hefði gætt þeirra á milli. Í tölvupósti sem A hafi sent kærða 26. nóvember 2015 hafi hún meðal annars óskað eftir þessum upplýsingum og afturvirkrar leiðréttingar ef misræmis gætti í föstum yfirvinnugreiðslum sviðsstjóra. Telja megi ljóst að á þessum tímapunkti hafi kærði ekki verið búinn að taka ákvörðun um að auka við mánaðarlegan fjölda yfirvinnustunda sviðsstjóra upplýsingasviðs, þ.e. A, enda hafi sú leiðrétting ekki komið til útborgunar fyrr en 30. desember 2015. Kærandi telji því rétt og eðlilegt að lögð séu fram afrit af launaseðlum þessara þriggja fyrrnefndu millistjórnenda þar sem sjá megi hvenær á árinu 2015 hver og einn þeirra fékk aukinn fjölda yfirvinnustunda í samræmi við þá heildarendurskoðun sem þjóðskjalavörður kveðji hafa farið fram. Slík gögn geti varpað ljósi á það hvort og þá hvenær heildarendurskoðun hafi farið fram og hugsanlega hvort staðið hafi til að leiðrétta yfirvinnutíma A. Hafa beri í huga að hver sem aðdragandinn hafi verið hafi leiðrétting farið fram og A fengið 30 yfirvinnustundir frá maí 2015. Sé því um að ræða tímabil utan þess tímabils er kærandi fjalli um í kæru sinni. Kærandi telur þó mikilvægt að fjalla um þetta samhengisins vegna þar sem þetta sýni að ekki hafi staðið til að leiðrétta laun A, en eftir ítrekaða ósk hennar hafi sú leið verið farin að leiðrétta laun hennar að hluta, þ.e. frá og með maí 2015.
Loks ítrekar kærandi þá kröfu sína að viðurkennt verði að brotið hafi verið gegn A þegar henni hafi verið greidd lægri laun en karlmanni sem hafi haft sama starfsheiti og gegnt sambærilegu og jafnverðmætu starfi á tímabilinu frá apríl 2013 til apríl 2015. Telji kærandi að kærði hafi ekki veitt nægjanleg svör heldur kalli svörin frekar á fleiri spurningar. Lögð hafi verið fram gögn sem sýni að A hafi notið hærri röðunar í launaflokk í eitt ár af þeim þremur sem liðið hafi frá ráðningu hennar fram að kærunni. Engin tilraun hafi verið gerð til að útskýra hvað hafi ollið því að þetta eina ár hafi A fengið hærri röðun í launaflokka.
Í greinargerð kærða hafi verið lagt upp með að gera sem minnst úr vægi upplýsingasviðs í samanburði við skjalasvið. Nefnd hafi verið dæmi um verkefni upplýsingasviðs sem sé lokið eða hafi tekið breytingum og látið sé að því liggja að litlar sem engar breytingar hafi orðið á verkefnum skjalasviðs. Þá hafi verið nefnd dæmi um verkefni og gefið í skyn að tiltekið verkefni heyri undir upplýsingasvið fyrst og fremst að nafninu til. Kærandi hafi hins vegar sýnt fram á að þetta sama verkefni fái allt aðra umsögn þjóðskjalavarðar í svari til annars starfsmanns kærða. Þar hafi sviðsstjóri verið sagður hafa leitt verkefnið. Þá hafi verið gerð tilraun til að sýna fram á minna vægi upplýsingasviðs með því að vísa í skipurit frá júní 2013 sem sýni mismunandi fjölda starfsmanna sviðanna. Kærandi bendi á að skipuritið sem lagt hafi verið fram sé rangt samkvæmt upplýsingum kæranda. Það sýni ekki réttan fjölda starfsmanna upplýsingasviðs. Kærandi ítrekar að starfsmannafjöldi á sviði sé einn og sér ekki mælikvarði sem ráði úrslitum um umfang starfs sviðsstjóra. Slíkur mælikvarði sé vissulega eitt af því sem líta þurfi til en þá þurfi að vera hægt að treysta því að skipuritin séu rétt.
ATHUGASEMDIR KÆRÐA
Kærði ítrekar að hann hafi þegar gert ítarlega grein fyrir launasetningu A og annarra sviðsstjóra til að varpa ljósi á hið stærra samhengi máls. Jafnframt hafi hann leitast við að svara þeirri röngu fullyrðingu sem fram hafi komið í kæru að A hafi ekki fengið þau laun sem um hafi verið rætt við hana í ráðningarferli og við ráðningu. Kærði áréttar að hann greiði eðli máls samkvæmt hliðstæð og sambærileg laun, hvort sem starfsmenn séu ráðnir tímabundið eða ótímabundið.
Kærði hafnar því að samanburður við launasetningu húsnæðisstjóra og fjármálastjóra stofnunarinnar sé málinu óviðkomandi. Umræddir starfsmenn séu stjórnendur stofnunarinnar og beri ábyrgð sem slíkir. Samhengis vegna sé eðlilegt að leggja fram upplýsingar um launasetningu stjórnendahópsins í heild sinni. Af upplýsingum megi meðal annars greina að munur sé á launasetningu innan hópsins á því tímabili sem um ræði og sé sá munur ekki einskorðaður við A.
Hvað varði athugasemd kæranda við fjölda starfsmanna á sviðunum, en hann hafi talið framsetningu vera villandi, ef ekki gefa ranga mynd af stöðunni í júní 2013, þá bendir kærði á að starfsmenn ráðnir með tímabundnum samningi (sumarstarfsfólk og verkefnaráðnir starfsmenn) séu ekki tilgreindir á skipuritum nema þess sé sérstaklega getið í sviga aftan við nöfn þeirra. Þannig hafi tveir starfsmenn með tímabundna ráðningu, sem leystu m.a. af starfsmann með lykilverkefni, verið tilgreindir á skipuriti í apríl 2015. Á fyrsta skipuriti frá 2009/2010 hafi verið athugasemd um að starfsmenn í tímabundnum verkefnum séu ekki tilgreindir. Láðst hafi að setja þessa athugasemd á skipuritin frá 2012 og 2013 og sé beðist velvirðingar á því.
Þá veitir kærði upplýsingar um þá tvo starfsmenn upplýsingasviðs sem kærandi bendir á að vanti á skipurit. Bendir kærði á að annar þeirra hafi komið í 60% tímabundið starf, tengt átaksverkefni, árið 2013 á upplýsingasviði, þ.e. í sex mánuði frá mars til október, framlengt til áramóta. Sami starfsmaður hafi komið aftur til starfa um mitt ár 2014, einkum til afleysingarstarfa, en hann hafi leyst af starfsmann í veikindum í tæpt ár í 70% starfi. Fullyrðing kæranda um að hinn starfsmaðurinn hafi komið til starfa á upplýsingasviði nokkrum vikum eftir dagsetningu skipuritsins í júní 2013 sé röng. Hið rétta sé að sá starfsmaður hafi verið ráðinn til að skrifa upp dómabækur á skjalasviði sumarið 2013 (1. júní–31. júlí). Hann hafi svo í kjölfarið verið ráðinn í 60% starf í fjóra mánuði á upplýsingasviði haustið 2013, þ.e. 1. september–31. desember.
Vafalaust megi halda því fram að með því að sýna einungis fastráðna starfsmenn á skipuritum sjáist ekki fyllilega umfang sviða en tilgangurinn hafi verið að sýna reglubundna meginstarfsemi sem unnin hafi verið af föstum starfsmönnum. Þannig sýni skipuritið í júní 2013 starfsemi safnsins við ráðningu A og jafnframt að þá hafi upplýsingasvið verið talsvert umfangsminna en skjalasvið. Alls hafi fimm sumarstarfsmenn verið ráðnir sumarið 2013, þrjár konur og tveir karlar. Um haustið hafi auk þess kona verið ráðin á skjalasvið í fullt starf í tvo mánuði við vinnu vegna þjóðlendurannsókna. Allir þessir starfsmenn hafi heyrt undir skjalasvið. Þá hafi tveir starfsmenn verið ráðnir í tengslum við átaksverkefni. Samantekið hafi fjöldi starfsmanna á upplýsingasviði í júlí og ágúst árið 2013 verið samtals níu (átta á skipuriti) en starfsmenn á skjalasviði á sama tímabili 19 (13 á skipuriti). Þetta leiði í ljós meiri umsvif á skjalasviði en ráða megi af áðurgreindu skipuriti. Á ársgrundvelli hafi þetta verið sem næst 2,2 stöðugildi á skjalasviði en um 0,7 stöðugildi á upplýsingaviði. Yfirstjórn safnsins hafi ákveðið vorið 2013 að þörfum starfseminnar yrði best borgið með þessum tímabundnu ráðningum. Þessi nánari greining á skipan tímabundið ráðinna starfsmanna á svið sýni, enn frekar en áður, hvar þunginn í starfsemi safnsins hafi verið mestur, þ.e. á skjalasviði. Í þessu sambandi megi enn fremur benda á að meginbreytingar á skipuriti stofnunarinnar árið 2015 hafi falist í því að skipta verkefnum skjalasviðs milli tveggja sviða, þ.e. skjalasviðs og vörslusviðs.
Jafnframt hafi kærandi reynt að gera tortryggilegar þær skýringar kærða að þjóðskjalavörður (fyrrverandi sviðsstjóri upplýsingasviðs) hafi tekið með sér verkefni af upplýsingasviði. Að hálfu kærða þyki rétt að árétta að lýsingar á verkefnum upplýsingasviðs í greinargerð stofnunar séu réttar. Umfang starfseminnar hafi verið að minnka um nokkurt skeið og enn hafi dregið úr henni er A hafi verið ráðin.
Kærði gerir í athugasemdum sínum nánari grein fyrir launaröðun A og karlkyns sviðsstjóra skjalasviðs, B, í tilefni af ákalli kæranda um frekari skýringar. Á þeim tíma sem kæra taki til hafi gilt stofnanasamningur milli aðila frá 19. maí 2006. Samkvæmt þeim stofnanasamningi hafi sviðsstjóri grunnraðast í launaflokk W-K en samkvæmt grein 3.3 geti starfsmaður raðast hærra með hliðsjón af þeim þáttum sem tilteknir séu í 4. gr. stofnanasamnings. Ákvæði greinar 4.1 og 4.2 í stofnanasamningi mæli fyrir um hækkun vegna viðbótarmenntunar, hæst 10% fyrir menntun sambærilega þeirri sem A hafi og starfsreynslu, hæst 10% eftir sjö ár. Grein 4.3 í stofnanasamningi kveði jafnframt á um heimildir til að taka tillit til annarra þátta, þ.e. árangurs og færni, frumkvæði, kennslu- og ráðgjafastarfa, alþjóðastarfa og samstarfshæfni. Sé litið til ákvæða 4. gr. stofnanasamnings, til dæmis um menntun og starfsreynslu, megi sjá að á þessum tveimur þáttum hafi laun getað hækkað um launaflokka og/eða launaþrep (5% munur á milli launaflokka og 2,5% munur á milli launaþrepa). Við röðun í launaflokka og launaþrep hjá stjórnendum hafi verið tekið fullt tillit til framangreindra þátta.
Fyrir liggi að C og B hafi uppfyllt, líkt og A, skilyrði um greiðslur vegna viðbótarmenntunar umfram lágmarkskröfur sem og starfsreynslu í sjö ár. Skýrist launamunur A og B, eftir launabreytingar A árið 2014, því ekki af greiðslum vegna viðbótarmenntunar til handa A eins og kærandi hafi haldið fram. Eins og áður hafi verið gerð grein fyrir hafi laun A verið hækkuð árið 2014, þ.e. úr launaflokki Y í launaflokk Z, nánar tiltekið Z-O, og hafi sú breyting byggst á ákvörðun forstöðumanns. Um mun á föstum yfirvinnustundum vísist til greinargerðar kærða.
Í greinargerð kærða hafi mánaðarlaun (launaflokkur og launaþrep) og fastar yfirvinnustundir stjórnenda verið tilgreindar. Nánari athugun hafi leitt í ljós að þær upplýsingar sem varði B hafi ekki reynst réttar að öllu leyti. Þannig hafi launagreiðslur til B reynst vera hærri en tilgreint hafi verið í greinargerð, annars vegar sem nemi einu launaþrepi á viðmiðunartímabilinu 1. maí 2013 og hins vegar tveimur launaþrepum frá viðmiðunartímabilinu 1. maí 2014. Ástæða þess að upplýsingar hafi ekki reynst réttar megi rekja til afturvirkrar leiðréttingar sem B hafi fengið 1. desember 2014, einkum vegna starfsaldursákvæða samkvæmt ákvæði greinar 4.2 í stofnanasamningi. Kærði vísar til fylgiskjals með athugasemdum sem sé samantekt á mánaðarlaunum þeirra beggja þar sem launaflokkur og launaþrep í hverjum einstökum mánuði á viðmiðunartímabili séu tilgreind auk yfirvinnugreiðslna. Þar hafi verið tekið tillit til breytinga er leiði af hinni afturvirku leiðréttingu. Jafnframt hafi verið tekið tillit til leiðréttinga sem A hafi fengið á viðmiðunartímabili. Fjöldi greiddra yfirvinnustunda á viðmiðunartímabili til A annars vegar og B hins vegar hafi verið réttilega tilgreindur í greinargerð og séu fjárhæðir yfirvinnugreiðslna einnig tilgreindar í fylgiskjali. Til áréttingar bendi kærði á að upplýsingar í fylgiskjali séu tvíþættar, annars vegar raunveruleg laun á hverju tímabili, að teknu tilliti til leiðréttinga, og hins vegar launagreiðslur eins og þær hafi verið inntar af hendi hverju sinni, án tillits til leiðréttinga. Um sé að ræða yfirlit yfir launagreiðslur til A og B á viðmiðunartímabili.
Loks hafi kærandi dregið í efa að til hafi staðið að leiðrétta yfirvinnugreiðslur A eins og síðar hafi verið gert og staðfest hafi verið af kæranda. Kærði ítrekar að hann vísi þessu á bug. Breytingar á yfirvinnugreiðslum til A hafi verið gerðar kjölfar árlegs starfsmannasamtals 25. nóvember 2015. Þessi samskipti og launaákvarðanir liggi utan þess tímabils sem kæra nái til og þyki kærða því ekki ástæða til að fjalla frekar um þetta atriði. Þá þyki kærða heldur ekki þjóna sýnilegum tilgangi í tengslum við meðferð þessa máls að leggja fram launaseðla varðandi tímasetningu leiðréttingar. Hins vegar ítreki kærði að stofnunin sé reiðubúin að leggja fram öll gögn sem máli skipti, þar með talda alla launaseðla.
VIÐBÓTARATHUGASEMDIR KÆRANDA
Kærandi bendir á að kærði hafi alveg skautað fram hjá því í athugasemdum sínum að sviðsstjóri upplýsingasviðs hafi leitt verkefni sem stýrt hafi verið frá starfsstöð stofnunarinnar, en þau unnin að hluta að öðru leyti annars staðar. Kærandi veki athygli á því að sú meginbreyting á skipuriti árið 2015, að skipta skjalasviði í tvennt, sé utan þess tímabils er kæra lúti að en jafnframt að við þessar skipulagsbreytingar hafi umfangsmikil verkefni verið tekin af upplýsingasviði, svo sem verkefni er hafi snúið að skönnun, öryggisafritun og kerfisstjórn. Umfang upplýsingasviðs hafi því minnkað í kjölfar skipulagsbreytinganna.
Tilgangur kæranda með umfjöllun sinni um skipuritin hafi ekki verið að sýna fram á að umfang upplýsingasviðs væri meira eða minna en umfang skjalasviðs. Tilgangurinn hafi fyrst og fremst verið sá að sýna að svar kærða hafi að mati kæranda ekki gefið skýra heildarmynd af stöðu mála. Til grundvallar báðum störfum liggi starfslýsingar. Sé um að ræða algjörlegar sambærilegar starfslýsingar sem sýni að um sé að ræða sambærileg og jafnverðmæt störf.
Kærði hafi vísað til þess að leiðrétting á yfirvinnu A hafi verið gerð í kjölfar árlegs starfsmannasamtals 25. nóvember 2015. Auk þess hafi kærði ekki talið það þjóna sýnilegum tilgangi að verða við áskorun kæranda og sýna fram á hvenær breyting hafi orðið á yfirvinnu annarra sviðsstjóra. Kærandi hafi lagt fram gögn sem sýni hvernig ferlið hafi verið. Megi nefna tölvupóst A þar sem hún ítreki ósk sína um upplýsingar um hvort misræmis gæti í föstum yfirvinnugreiðslum sviðsstjóra. Gögnin sýni einnig að launin hafi í kjölfarið verið leiðrétt í tvennu lagi. Annars vegar launaflokkar og þrep samkvæmt nýjum stofnanasamningi og við næstu útborgun á eftir hafi yfirvinnan verið leiðrétt afturvirkt. Það að leiðréttingin hafi farið fram í tvennu lagi veiti vísbendingar um að upphaflega hafi ekki staðið til að leiðrétta fasta yfirvinnu A.
Þá hafi kærði ekki talið það þjóna sýnilegum tilgangi í tengslum við meðferð þessa máls að leggja fram launaseðla, sbr. áskorun kæranda þar um. Ástæðan sé sú að um sé að ræða ákvarðanir sem liggi utan þess tímabils er kæran lúti að. Í þessu samhengi veki kærandi athygli á því að ákvörðun kærða marki það tímabil sem kæra lúti að. Sú ákvörðun hans í desember 2015 að leiðrétta fasta yfirvinnu A afturvirkt frá 1. maí 2015 hafi gert það að verkum að kæran afmarkist við tímabilið frá upphafi ráðningar til 30. apríl 2015 enda ekki um launamun að ræða frá þeim tíma. Í ljósi þessa telji kærandi mikilvægt að varpa ljósi á aðdraganda og ástæður þessarar afturvirku leiðréttingar, auk þess hvenær föst yfirvinna hvers og eins sviðsstjóra hafi tekið breytingum. Kærði hafi látið að því liggja í fyrri svörum sínum að heildstæð endurskoðun hafi átt sér stað í kjölfar skipulagsbreytinga og föst yfirvinna sviðsstjóra upplýsingasviðs og vörslusviðs, auk fjármálastjóra, hafi í kjölfarið verið aukin. Kærandi telji eðlilegt í þessu samhengi að varpa ljósi á það hvort þessir þrír fyrrnefndu millistjórnendur hafi allir fengið aukinn fjölda yfirvinnutíma frá og með desember, afturvirkt frá 1. maí, í samræmi við heildstæða endurskoðun kærða eða hvort sviðsstjóri vörslusviðs og fjármálastjóri hafi á þeim tímapunkti þegar fengið aukinn fjölda yfirvinnutíma og þá hvenær sú ákvörðun hafi verið tekin.
Að lokum áréttar kærandi að hann geri sér grein fyrir því að það njóti ekki allir sömu launakjara. Það sé eðlilegt og í samræmi við uppsetningu kjarasamninga og stofnanasamninga. Hins vegar leggi kærandi áherslu á að launamunur þurfi að jafnaði að eiga sér málefnalegar ástæður. Telji kærandi að í því tilviki sem kæra lúti að hafi munur á föstum reglulegum launum A, sem sviðsstjóra upplýsingasviðs, og B, sem sviðsstjóra skjalasviðs, ekki átt sér málefnalegar ástæður. Þá telji kærandi að svör kærða í máli þessu hafi ekki veitt fullnægjandi skýringar á launamun sviðsstjóranna.
VIÐBÓTARATHUGASEMDIR KÆRÐAÍ tilefni af beiðni kærunefndar 6. október 2016 um frekari skýringar gerði kærði í viðbótarathugasemdum sínum nánari grein fyrir röðun A og B til launaflokka, ákvörðun um fjölda yfirvinnustunda þeirra og fyrir fjölda yfirvinnustunda forvera A í starfi sviðsstjóra upplýsingasviðs og forsendum þeirrar ákvörðunar.
Kærði kveður að við upphaf starfs 22. apríl 2013 hafi A verið ráðin tímabundið til eins árs. Þá hafi laun A verið ákvörðuð á grundvelli gildandi kjarasamnings Fræðagarðs og fjármálaráðuneytisins fyrir hönd ríkissjóðs og stofnanasamningi Fræðagarðs og Þjóðskjalasafns Íslands frá 19. maí 2006. Í samningnum heiti starfið forstöðumaður sviðs og því lýst í grein 3.3: „Þeir sem starfa nánast eingöngu við stjórnun, áætlanagerð og samhæfingu við stefnu stofnunar. Í starfinu felist ábyrgð á samskiptum við ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki. Hér sé gert ráð fyrir að viðkomandi hafi að jafnaði kandídats- eða meistarapróf í fræðigrein sinni auk starfsreynslu. Þó megi gera ráð fyrir BA-prófi, ef viðkomandi hefur mikla starfsreynslu og sýnt í starfi að hann getur tekist á við ábyrgðarmikil verkefni.“ Starfið hafi grunnraðast í launaflokk W. Auk þess komi fram í 3. gr.: „Röðun innan starfsflokks er lágmarksröðun. Starf (eða starfsmaður) getur raðast hærra með hliðsjón af þeim þáttum sem tilteknir eru í gr. 4.“ Þá sé vísað í grein samningsins sem tilgreini hvernig meta skuli persónu- og tímabundna þætti til álags á laun, að hámarki 20%.
Launatöflur hafi verið byggðar upp á launaflokkum og þrepum. Bil milli flokka hafi verið 5% en milli þrepa 2,5%.
Launaröðun A hafi á þessum tímapunkti verið ákveðin launaflokkur Y-N og litið til eftirfarandi atriða stofnasamnings: Í fyrsta lagi grunnröðunar (flokkur-þrep): W-K. Í öðru lagi viðbótarmenntunar sem nýtist í starfi og sé persónubundið atriði (sbr. grein 4.1 sem hæst gat gefið 15% fyrir doktorspróf en 10% fyrir MA-próf). Auk BA-prófs í sagnfræði sé A með Cand.mag. og Cand.philol. í fornleifafræðum. Það hafi verið mat forstöðumanns að meta þessa viðbótarmenntun til 10% álags eða tveggja launaflokka. Hækkun í launaflokk X-K. Í þriðja lagi hafi verið litið til starfsreynslu sem sé annað atriði sem meta beri til launaálags, mest 10%, fyrir sjö ára starfsreynslu eða lengri reynslu. Starfsreynsla A við NTNU Vitenskapsmuseet í Noregi (tíu ár) hafi verið metin og þessi þáttur nýttur að fullu, eða alls til 10% álags, eins launaflokks og tveggja þrepa. Hækkun í launaflokk Y-M. Í fjórða lagi hafi verið litið til annars sem meta megi til álags og sé árangur og færni, frumkvæði, kennslu- og ráðgjafarstörf, alþjóðastarf og samstarfshæfni. Á grundvelli starfsreynslu A erlendis hafi alþjóðstarf verið metið til eins launaþreps (2,5% álags). Hækkun í launaflokk Y-N.
Við ráðningu A hafi henni verið greint frá því að þegar, og ef til fastráðningar kæmi, yrðu forsendur launa yfirfarnar. A hafi verið fastráðin 1. maí 2014 að undangengnu starfsmannasamtali hennar og þjóðskjalavarðar. Þar hafi verið farið yfir starfslýsingu, verkefnin, starfsþróun, samstarf og fleira. Jafnframt hafi verið farið yfir hvernig gengið hefði og hvort báðir aðilar vildu framlengja samstarfið. Það hafi verið niðurstaðan og í kjölfarið verið skrifað undir nýjan ráðningarsamning. Þjóðskjalavörður hafi boðið eins launaflokks hækkun í tengslum við frágang ráðningarsamnings en svo hafi farið að laun A voru hækkuð um einn launaflokk og eitt launaþrep til viðbótar. Jafnframt hafi verið ákveðið að hækkunin skyldi vera afturvirk frá 1. mars 2014.
Hækkunin hafi byggt á lið B í grein 4.3 í stofnanasamningi (frumkvæði og sjálfstæði í störfum) að því er launaflokk varði en jafnframt hafi verið litið til árangurs og færni, liðar A, og laun hækkuð um eitt launaþrep á þeirri forsendu. Þannig hafi laun A verið til 1. maí 2015.
Hvað yfirvinnugreiðslur varði þá hafi lengi tíðkast að greiða sviðsstjórum í Þjóðskjalasafni launagreiðslur í formi fastrar yfirvinnu vegna umfangs verkefna og álags eða til að mæta öðrum aðstæðum. Um þetta hafi ekki verið neinar skriflegar viðmiðanir og fjöldi fastra yfirvinnustunda hafi verið breytilegur eftir aðstæðum og umfangi verkefna. Áskilið sé að ekki komi til frekari yfirvinnugreiðslna. Rekur kærði fyrri umfjöllun um mismunandi umfang fagsviðanna tveggja við ráðningu A, en ekki er ástæða til að endurtaka þá umfjöllun hér.
Kærði bendir á að stofnanasamningur kveði á um röðun starfa eftir starfaflokkum. Þá mæli ákvæði stofnanasamnings fyrir um mat á persónu- og tímabundnum þáttum. Komi þar til eftirfarandi þættir; í fyrsta lagi menntun, í öðru lagi starfsreynsla, í þriðja lagi aðrir þættir (A-liður; árangur og færni, B-liður; frumkvæði og sjálfstæði í störfum, C-liður; kennslu-, leiðbeininga- og ráðgjafarstarfsemi innan stofnunar og utan, D-liður; alþjóðasamstarf og E-liður; samstarfshæfni) og í fjórða lagi tímabundnir þættir. Stofnanasamningurinn, eins og hann hafi verið úr garði gerður, hafi ekki haft að geyma bein ákvæði um mismunandi röðun eða álagsgreiðslur sem tækju mið af umfangi starfseminnar. Vegna þessa hafi kærða við slíkt mat bæði verið rétt og skylt að ákveða launagreiðslur með þeim hætti sem gert hafi verið, þ.e. í formi mismunandi fjölda yfirvinnustunda.
Hvað varði röðun B þá hafi hann verið ráðinn sviðsstjóri skjalasviðs frá 1. febrúar 2012 í þrjú ár til afleysingar fyrir C, sem hafi farið til rannsóknarstarfa þennan tíma. Mánaðarlaun B hafi þá verið ákveðin samkvæmt launaflokki Y-O. Auk þess hafi honum verið ákveðinn sami fjöldi fastra yfirvinnustunda og sá sem hann leysti af hafi haft, eða 30 stundir á mánuði.
Laun B hafi verið ákvörðuð á grundvelli gildandi kjarasamnings Fræðagarðs og fjármálaráðuneytisins fyrir hönd ríkissjóðs og stofnanasamningi Fræðagarðs og Þjóðskjalasafns Íslands frá 19. maí 2006.
Launaröðun B hafi sem fyrr greinir verið launaflokkur Y-O og litið til sömu atriða stofnanasamnings líkt og hjá A. B hafi flokkast í sama flokk og A, þ.e. í W-K við grunnröðun og varðandi viðbótarmenntun hafi hann jafnframt hækkað í launaflokk X-K. Hvað þriðja atriðið varðaði sem sé starfreynsla hafi B hækkað í launflokk Y-L og í fjórða lagi varðandi annað hafi hann verið hækkaður í launaflokk Y-O, á grundvelli liðar 4.3. C. um kennslu-, leiðbeininga- og ráðgjafarstarfsemi.
Í aðdraganda og undirbúningi að endurskoðun á stofnanasamningum Þjóðskjalasafns og félaga í Bandalagi háskólamanna, árið 2014, hafi verið farið yfir hvort þáverandi launasetning starfsmanna væri rétt miðað við stofnanasamninginn sem í gildi var (frá 19. maí 2006). Þá hafi meðal annars komið í ljós að B hafði ekki fengið aldurshækkanir með réttum hætti. Þessar upplýsingar hafi ekki legið fyrir þegar B tók við starfi C.
Þegar launasetning B hafi verið ákveðin í febrúar 2012 hafi ekki verið tekið tillit til starfsreynslu B áður en hann kom til starfa í Þjóðskjalasafni. Í raun hafi hann átt að hafa fengið þessar hækkanir nokkrum árum fyrr. Vegna skorts á upplýsingum hafi stofnunin ekki getað annað en látið starfsmanninn njóta vafans. Þessar vanefndir hafi verið leiðréttar 1. desember 2014 með afturvirkum hætti þannig að B hafi fengið 2,5% hækkun (eitt þrep) frá febrúar 2012 (farið úr launaflokki Y-O í Y-P). Jafnframt hafi laun B hækkað til viðbótar um 2,5% (eitt þrep) frá september 2013 (farið úr launaflokki Y-P í Y-Q.) Að því er síðari lið breytinga varði hafi verið litið til ákvæðis stofnanasamnings um árangur og færni.
Hvað varði yfirvinnugreiðslur til B þá hafi hann verið ráðinn til að leysa C af sem sviðsstjóri skjalasviðs 1. febrúar 2012 til þriggja ára á meðan hún fór til rannsóknarstarfa á vegum safnsins. Að mati stofnunar hafi verið einboðið að B nyti sömu föstu yfirvinnugreiðslna og sá sem hann leysti af. Þannig hafi B verið ákvarðaðar 30 fastar yfirvinnustundir á mánuði. Þessi fjöldi fastra yfirvinnustunda hafi verið óbreyttur þar til hann lét af afleysingarstarfinu 1. maí 2015.
Varðandi launaröðun forvera A þá hafi D verið ráðinn sviðsstjóri upplýsingasviðs 16. febrúar 2001. Frá 1. mars 2011 til 30. nóvember 2012 (í 21 mánuð) hafi hann verið settur þjóðskjalavörður en gegnt jafnframt störfum sviðsstjóra upplýsingasviðs. D hafi verið skipaður í starf þjóðskjalavarðar 1. desember 2012. Áfram hafi hann gegnt störfum sviðsstjóra upplýsingasviðs þar til í apríl 2013.
Kærði greinir frá því hvernig laun og yfirvinna sviðsstjóra upplýsingasviðs á tímabilinu 2007–2011 hafi verið ákvörðuð. Þegar hann hafi lokið starfi sviðsstjóra hafi laun hans, samkvæmt stofnanasamningi Þjóðskjalasafns og aðildarfélaga Bandalags háskólamanna frá 19. maí 2006, verið launaflokkur Y-Q og fastar yfirvinnustundir verið 40 talsins. Kærði kveður síðustu breytingar á yfirvinnutímum D hafa verið þegar yfirvinnustundum hans hafi verið fjölgað úr 35 í 40 undir árslok 2007, vegna tímabundinna skráningarverkefna úti á landi. Þeim greiðslum skyldi hætt við lok verkefnanna 2011. Það hafi gerst þegar D hafi verið settur í starf þjóðskjalavarðar 1. mars 2011.
Jafnframt greinir kærði frá því hvernig laun og yfirvinna sviðsstjóra upplýsingasviðs á tímabilinu 2011–2013 hafi verið ákvörðuð. Frá því að D hafi tekið við starfi þjóðskjalavarðar 1. mars 2011 hafi hann farið á launakjör þess sem hann leysti af, þ.e. laun þjóðskjalavarðar. Ekki er ástæða til að rekja hér upplýsingar sem veittar eru af hálfu kærða um laun D, eftir að hann var settur þjóðskjalavörður, samkvæmt ákvörðun Kjararáðs. Kærði tekur fram að setning D hafi nokkrum sinnum verið framlengd vegna óvissu um hvenær þjóðskjalasvörður kæmi til baka úr veikindum sínum og því hafi ekki þótt forsendur til þess að fá afleysingu í starf sviðsstjóra upplýsingasviðs.
Kærði kveður D engra sérgreindra launa hafa notið fyrir störf sviðsstjóra upplýsingasviðs frá 1. desember 2012 til loka aprílmánaðar 2013, eða þar til A tók við upplýsingasviði.
Kærði upplýsir jafnframt að ákvarðanir um launabreytingar starfsmanna, sem hér um ræðir, hafi ekki verið skjalfestar skriflega við hlutaðeigandi, með vísan til tiltekinna ákvæða í stofnanasamningi, á því tímamarki er þær hafi öðlast gildi. Því njóti ekki við skriflegra gagna um staðfestingu þessara breytinga.
Eins og framangreind umfjöllun sýni hafi A og B notið sambærilegra mánaðarlauna á því tímabili sem kæran taki til. Þriðjungsmunur hafi verið á föstum yfirvinnustundum. B hafi notið 30 stunda á mánuði en A 20 á grundvelli mismunandi umfangs verkefna sviðanna. Kærði bendir á að launasetning A og B, á grundvelli kjara- og stofnasamninga eins og áður hafi verið lýst, hafi í lok árs 2014, eftir fastráðningu A og leiðréttingar á launum B, verið sambærileg. A hafi þá notið launa samkvæmt launaflokki Z-O en B samkvæmt launaflokki Y-Q. Þá hafi taxtalaun A verið 2.284 krónum hærri en taxtalaun B.
Kærði áréttar að framangreind staða miðist við greiðslur í desember 2014 þegar leiðréttingar á launum B höfðu verið gerðar. A hafði notið þessara mánaðarlauna frá því að ráðningarsamningur hafi verið gerður við hana í maímánuði 2014 og launabreytingar til hennar hafi gilt með afturvirkum hætti frá 1. mars 2014. Beri að hafa í huga að tímabil það sem til skoðunar sé í máli þessu, þ.e. frá lokum aprílmánaðar 2013 til maímánaðar 2015, hafi verið fyrstu tvö ár A í starfi hjá Þjóðskjalasafni en sjöunda til níunda ár B í safninu. Sviðsstjórastarf hans hafði varað ári lengur en hennar. Þannig hafi verið jafnræði í mánaðarlaunum aðila á tímabilinu. Mat stofnunar hafi hins vegar verið það að umtalsverðum mun á umfangi sviðanna skyldi finna stað í ólíkum fjölda fastra yfirvinnustunda á mánuði. Þessum mun á fagsviðum hafi verið breytt 1. maí 2015. Þá hafi verkefnum verið jafnað á milli þriggja fagsviða og fastar yfirvinnugreiðslur orðið þær sömu.
LOKAATHUGASEMDIR KÆRANDAKærandi vekur athygli á því að engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu kærða því til stuðnings hvað réði viðbótarlaunaflokkum og þrepum á grundvelli greinar 4.3 í stofnanasamningi sem gilti á umræddu tímabili. Stéttarfélögin fagni því þegar félagsmönnum sé umbunað fyrir persónubundna þætti sem þessa en leggi mikla áherslu á að séu matsbundnir þættir lagðir til grundvallar launaröðun sé slíkt gert skriflega og með rekjanlegum hætti þannig að tilgreint sé hver grundvöllur flokka og þrepa sé. Að öðrum kosti sé engin leið að sannreyna síðar hvað ráðið hafi launaröðun viðkomandi. Séu engin gögn lögð fram þessu mati til stuðnings sé eðlilegt að vinnuveitandi beri hallann af því. Að öðrum kosti geti vinnuveitandi ávallt „fyllt upp í“ þá flokka og þrep sem upp á vanti með vísan til þátta eins og árangurs og færni, frumkvæðis og sjálfstæðis í störfum o.s.frv. Það sé óásættanlegt ef slíkur vafi falli vinnuveitanda í hag.
Kærandi ítrekar fyrri umfjöllun sína, þar sem hafnað sé að hluta umfjöllun kærða um mismunandi umfang fagsviðanna tveggja og flutning verkefna frá upplýsingasvið til þjóðskjalavarðar. Enn fremur ítrekar kærandi að umfjöllun kærða um fjölda starfsmanna sviða hafi verið villandi og ekki alltaf gefið rétta mynd af stöðu mála. Óumdeilt sé þó að við skipulagsbreytingu stofnunarinnar í maí 2015 hafi umfang upplýsingasviðs og skjalasviðs minnkað. Kærandi ítrekar að ekki hafi komið fram eðlilegar skýringar á þeirri ákvörðun að fjölga föstum yfirvinnutímum A í kjölfar þess að sviðum hafi verið fjölgað og umsvif sviðs hennar minnkað og á tímasetningu þeirrar ákvörðunar undir lok árs 2015.
Þá bendir kærandi á að upplýst hafi verið að forveri A í starfi hafi notið 40 fastra yfirvinnustunda á mánuði, sem hugsanlega hafi átt að fækka í 35 stundir. Bendir kærandi enn fremur á að kærða sé í lófa lagið að leggja fram frekari gögn til staðfestingar þess hver launaröðun forveranna hafi verið áður en B og A tóku við af þeim.
Að lokum áréttar kærandi að kæran snúi að því að félagið telji að A hafi verið mismunað með ólögmætum hætti er henni voru greidd lægri laun en karlmanni með sama starfsheiti er gegndi sambærilegu og jafnverðmætu starfi hjá kærða á tímabilinu apríl 2013 til apríl 2015. Í málinu hafi að mati kæranda ekki komið fram fullnægjandi röksemdir frá kærða sem sýni fram á að launamunurinn hafi átt sér málefnalega skýringu. Þessu til viðbótar hafi komið fram að fyrirrennari A í starfi, núverandi þjóðskjalavörður, hafi notið umtalsvert hærri launaröðunar en A er hann hafi gegnt starfinu. Hvað varði sviðsstjóra skjalasviðs hafi komið fram í máli kærða að einboðið hafi verið að sviðsstjóri skjalasviðs í afleysingum nyti sömu föstu yfirvinnugreiðslna og sá sem hann leysti af. Sé vandséð hvers vegna hið sama hafi ekki gilt um sviðsstjóra upplýsingasviðs, þótt um skipti á sviðsstjórum en ekki afleysingu hafi verið að ræða.
NIÐURSTAÐAÍ 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samkvæmt 19. gr. skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að karl og kona sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna.
Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 skulu erindi berast kærunefnd jafnréttismála skriflega innan sex mánaða frá því að ástandi sem talið er brot á lögunum lauk. Kæra þessa máls barst kærunefnd jafnréttismála 30. maí 2016. Fyrir liggur að undir lok árs 2015 voru launakjör þess félagsmanns kæranda sem kæran varðar, A, leiðrétt afturvirkt miðað við gildistöku nýs skipurits 1. apríl 2015. Gengið var frá leiðréttingu vegna fastra launa hennar við útborgun 1. desember 2015, til samræmis við stofnanasamning sem undirritaður var 8. október 2015, en afturvirk leiðrétting á föstum yfirvinnugreiðslum kom ekki til greiðslu fyrr en næstu mánaðamót þar á eftir. Að þessu virtu telst kæran fram komin innan kærufrests.
Í greinargerð kærða er þeirri skoðun lýst að ágreiningur máls þessa eigi ekki undir úrlausnarvald kærunefndar jafnréttismála. Vísar kærði þar til þess að fjöldi mánaðarlegra yfirvinnustunda sem B hafi notið sem sviðsstjóri skjalasviðs hafi byggst á forsendum sem hafi verið ákvarðaðar vegna þess sviðsstjóra, konu, sem hann leysti af. Þau rök varða efni málsins og leiða ekki til þess að ágreiningurinn falli utan úrlausnarvalds kærunefndarinnar. Verður kæran því tekin til efnismeðferðar.
Samkvæmt fyrirliggjandi skipuritum kærða voru fagsvið stofnunarinnar á því tímabili sem hér um ræðir tvö talsins, skjalasvið og upplýsingasvið. Kæran lýtur að mismun á launakjörum A, sviðsstjóra upplýsingasviðs, og B, sviðsstjóra skjalasviðs, og varðar tímabil frá ráðningu A 22. apríl 2013 til 1. maí 2015. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ákvörðun grunnlauna A og fjölda fastra yfirvinnustunda á tímabilinu.
Óumdeilt er að á öllu tímabilinu naut B 30 fastra yfirvinnustunda, en A 20 fastra yfirvinnustunda. Þá er óumdeilt að föst laun A voru á hluta tímabilsins lægri en B, þ.e. frá ráðningu hennar 22. apríl 2013 til 1. mars 2014. Miðuðust föst laun hennar við ráðningu við launaflokk Y-N en hækkuðu frá 1. mars 2014 í launaflokk Z-O. Föst laun B, að teknu tilliti til afturvirkra leiðréttinga sem gerðar voru 1. desember 2014, miðuðust á sama tímabili við launaflokk Y-P fram til 1. september 2013, en Y-Q frá þeim tíma. Voru föst laun B þannig tveimur til þremur þrepum hærri en föst laun A fram til 1. mars 2014. Í krónum talið voru föst laun A lægri svo munaði um 23–35.000 krónur á þessu tímabili, en frá 1. mars 2014 voru föst laun hennar um 2–3.000 krónum hærri, og var það svo fram til 1. maí 2015 er fagsviðum stofnunarinnar var fjölgað úr tveimur í þrjú og launakjör sviðsstjóranna jöfnuð.
Samkvæmt framanrituðu er ljóst að launakjör sviðsstjóranna tveggja voru mismunandi. Um sömu starfsheiti og algerlega sambærilega stöðu sviða í skipuriti kærða er að ræða. Hafa því verið leiddar líkur að því að störf sviðsstjóranna tveggja hafi verið jafnverðmæt og sambærileg í skilningi 2. mgr. 25. gr. jafnréttislaga. Við endanlega úrlausn þess atriðis verður að byggja á heildstæðu mati, en sönnunarbyrðin um annað hvílir á kærða, sbr. tilvitnað lagaákvæði.
Kærði byggir á því að mismunur sem var á föstum launum sviðsstjóranna tveggja réttlætist af persónubundnum þáttum samkvæmt stofnanasamningi, en mismunur á yfirvinnugreiðslum þeirra réttlætist af mismunandi umfangi sviðanna og þar með álagi á sviðsstjóra. Þrátt fyrir starfsheitin og hliðstæða stöðu sviðanna í skipuriti sé því ekki um sömu eða jafnverðmæt störf að ræða.
Hvað föst laun varðar er það einvörðungu tímabilið frá ráðningu A fram til 1. mars 2014 sem máli skiptir, en ljóst er að hún hefur notið ívið lægri röðunar en B á því tímabili. Samkvæmt skýringum kærða, sem raktar eru hér að framan, miðuðust föst laun þeirra beggja við sama launaflokkinn, launaflokk W samkvæmt stofnanasamningi frá 2006. Þá var menntun beggja metin til tveggja viðbótarlaunaflokka, þ.e. til launaflokks X og starfsaldur þeirra beggja innan og utan stofnunarinnar til eins launaflokks og tveggja þrepa til viðbótar, eða til launaflokks Y-M. Þar ofan á er upplýst að B hafi fengið þrjú launaþrep til viðbótar vegna C-liðar 4.3 í stofnanasamningi (kennslu-, leiðbeininga- og ráðgjafarstarfsemi) og því raðast til flokks Y-P, en á sama tíma hafi alþjóðastörf A verið metin henni til eins þreps hækkunar, að því er virðist á grundvelli D-liðar sömu greinar, og henni því raðað til flokks Y-N. B fékk síðan við endurskoðun launa á árinu 2014 eitt launaþrep til viðbótar, afturvirkt frá september 2013, vegna A-liðar sömu greinar, um árangur og færni, og raðaðist frá því tímamarki til Y-Q. A fékk við fastráðningu 1. maí 2014 eins þreps hækkun á sama grundvelli (árangur og færni), afturvirkt frá 1. mars 2014.
Samkvæmt framanrituðu liggur munur á launaröðun þeirra þannig annars vegar í mismunandi mati á persónubundnum þáttum (kennslu-, leiðbeininga- og ráðgjafarstarfsemi hans og alþjóðastörfum hennar). Hins vegar liggur munurinn í því að hækkun beggja um eitt þrep vegna árangurs tók gildi við fyrra tímamark í tilviki B, eða frá september 2013, en frá 1. mars 2014 í tilviki A.
Enda þótt kærandi bendi réttilega á að ekki hafa verið færð fram samtímagögn um þessar launaákvarðanir, hefur hann ekki leitast við að færa rök fyrir því að skýringar kærða á röðun sviðsstjóranna til launaflokka vegna persónubundinna þátta séu rangar eða ófullnægjandi. Að áliti kærunefndar verður að líta til þess að á því tímabili sem föst laun A voru lægri en B var A nýráðin til stofnunarinnar og því eðlilega ekki komin reynsla á þá persónubundnu þætti sem metnir voru henni til hækkunar er gengið var frá fastráðningu hennar á árinu 2014. B átti aftur á móti að baki um sjö ára starfstíma hjá stofnuninni.
Samkvæmt framanrituðu verður að telja kærða hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki lægri röðun A til fastra launa samkvæmt ákvæðum stofnanasamnings á umræddu tímabili.
Hvað mismunandi fastar yfirvinnugreiðslur varðar vísar kærði til þess að starfsemi skjalasviðs hafi verið orðin talsvert umfangsmeiri en starfsemi upplýsingasviðs um það leyti sem A var ráðin til starfa. Vísar kærði þar meðal annars til mismunandi starfsmannafjölda sviðanna, hvort heldur sem litið sé til tölu fastra starfsmanna sviðanna eða jafnframt til lausráðinna starfsmanna. Þá vísar kærði til þess að tiltekin verkefni hafi verið færð frá upplýsingasviði til þjóðskjalavarðar við ráðningu hennar. Loks bendir kærði á að í stofnanasamningi hafi ekki verið gert ráð fyrir því að launaröðun taki mið af mismunandi starfsálagi og því hafi verið farin sú leið að mæta mismunandi álagi með mismunandi fjölda fastra yfirvinnustunda.
Þótt fallast verði á það með kæranda að starfsmannafjöldi sé ekki einhlítur mælikvarði á umfang starfsemi, þá getur mismunandi starfsmannafjöldi milli sviða vissulega falið í sér vísbendingu um mismunandi umfang. Að teknu tilliti til athugasemda kæranda hefur kærði sýnt fram á að nokkur munur hafi verið á starfsmannafjölda skjalasviðs og upplýsingasviðs á tímabilinu. Þá styðja þær skipulagsbreytingar sem gerðar voru 2015 það að verkefni skjalasviðs hafi þá verið orðin meiri að umfangi en verkefni upplýsingasviðs. Á hinn bóginn þarf munur á starfsmannafjölda eða umfangi ekki nauðsynlega að þýða að misjafnt starfsálag hafi verið á forstöðumönnum sviðanna. Enn fremur þurfa stöku breytingar á verkefnum, eins og þær sem kærði bendir á að hafi orðið við ráðningu A, ekki endilega að þýða minnkað starfsálag á upplýsingasviði.
Kærunefndin leggur áherslu á að starfslýsingar sviðsstjóra beggja sviða voru á því tímabili sem hér um ræðir að öllu leyti sambærilegar, auk þess sem sviðin tvö voru algjörlega hliðsett í skipuriti. Þá liggur ekki nægjanlega fyrir að álag hafi í reynd verið svo misjafnt á sviðsstjórana tvo að réttlætt gæti mismunandi fastar yfirvinnugreiðslur til þeirra. Hefur því til dæmis ekki verið haldið fram af hálfu kærða að mælingar á raunverulegri yfirvinnu hafi réttlætt ákvörðun um mismunandi fjölda fastra yfirvinnustunda sviðsstjóranna.
Þá verður ekki hjá því litið að samkvæmt skýringum kærða naut forveri A í starfi, núverandi þjóðskjalavörður, 35 fastra yfirvinnutíma í starfi sem sviðsstjóri upplýsingasviðs til ársloka 2007, er þeim fjölgaði í 40 stundir. Naut hann þessa fjölda fastra yfirvinnutíma allt fram til þess er hann var settur tímabundið í starf þjóðskjalavarðar 1. mars 2011 samhliða starfi sínu sem sviðsstjóri upplýsingasviðs.
Þegar litið er til framanritaðs er það álit kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á að aðrir þættir en kynferði hafi ráðið því að ákvarða sviðsstjórum skjalasviðs og upplýsingasviðs mismunandi fjölda fastra yfirvinnustunda mánaðarlega á hinu kærða tímabili.
Ekki haggar það framangreindri niðurstöðu þótt launakjör A og B séu virt heildstætt, enda var óverulegur munur á föstum launum þeirra í krónum talið eftir 1. mars 2014.
Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008 við ákvörðun um launakjör A, þ.e. um fastar yfirvinnugreiðslur hennar, á því tímabili sem kæran lýtur að, frá ráðningu hennar í starf sviðsstjóra upplýsingasviðs 22. apríl 2013 til 1. maí 2015.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Þjóðskjalasafn Íslands, braut gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ákvörðun um fjölda fastra yfirvinnustunda félagsmanns kæranda, A, á tímabilinu 22. apríl 2013 til 1. maí 2015.
Hildur Briem
Þórey S. Þórðardóttir
Grímur Sigurðsson