Hoppa yfir valmynd
14. mars 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 48/2005

Þriðjudaginn, 14. mars 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður


Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 14. nóvember 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 9. nóvember 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sem kynnt var kæranda með bréfi stofnunarinnar, dagsettu 25. nóvember 2005.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Í greinargerð með breytingarlögum nr. 90/2004, segir í athugasemdum við 4. gr. Með lengingu á viðmiðunartímabilinu um 12 mánuði er talið að meðaltal heildarlauna foreldra endurspegli betur rauntekjur foreldra enda fylgir því meiri fyrirhöfn að leiðrétta tekjur lengra aftur í tímann. Er með þessu lögð áhersla á að sjóðurinn er fjármagnaður í gegnum skattkerfið og er honum ætlað að bæta foreldrum raunverulegt tekjutap til samræmis við upplýsingar skattyfirvalda. Einnig segir: „Hafi foreldrar ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu er gert ráð fyrir að sami háttur verði hafður á við útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og verið hefur. Hafi foreldrar verið á innlendum vinnumarkaði skemur en 24 mánuði á umræddu tímabili skal miða við meðaltal heildarlauna þess yfir það tímabil sem foreldri hefur unnið á innlendum vinnumarkaði. Skal þá miða við almanaksmánuði.“

Ljóst er að markmið breytinganna frá meðaltali síðustu 12 mánaða frá fæðingardegi barns yfir í næstu 2 ár á undan fæðingarári barns er að greiðslur til foreldris endurspegli raunverulegt tekjutap. En þó nokkuð var um það fyrir breytingarnar að foreldrar reyndu að sýna sem hæstu tekjur síðustu mánuðina fyrir fæðingu til að hækka meðaltal sitt.

Í mínu máli er miðað við 2 ár næst á undan fæðingarári barnsins míns. Á stórum hluta þess tímabils var ég ekki einu sinni í sambandi við barnsmóður og unnustu mína. Það er nokkuð ljóst að ekki var með vinnu á því tímabili verið að reyna að hækka meðaltal til greiðslu úr fæðingarorlofssjóði. En á því tímabili var ég einnig í skóla 8 mánuði af þessu 24 mánaða tímabili. Ljóst er að tekjur á þeim tíma eru umtalsvert lægri en þegar ég var ekki í skóla. Ljóst er því að ef tekið er tillit til þeirra mánaða við útreikning meðaltals tekna minna að það mun ekki endurspegla rauntekjur mínar. Hvað þá ef miðað væri við síðustu 12 mánuði þegar ég hef verið launamaður hjá B.

Markmið laganna er að bæta raunverulegt tekjutap, ef miðað er við þann tíma þegar ég var í fullu námi mun það markmið ekki nást í mínu tilfelli. Því fer ég fram á það að sá tími þegar ég var í námi verði ekki tekinn með í útreikningi á meðaltekjum mínum.“

 

Með bréfi, dagsettu 6. desember 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 11. janúar 2006. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, ódags., sem móttekin var 8. júní 2005, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 26. júlí 2005.

Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 26. maí 2005, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 31. maí 2005 og launaseðlar fyrir apríl og maí 2005. Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 19. júlí 2005, var óskað eftir frekari gögnum frá honum og þann 3. ágúst 2005 var móttekið starfslokavottorð, dags. 28. júlí 2005.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 11. ágúst 2005, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 26. júlí 2005 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrám skattyfirvalda. Fram kom í bréfinu að útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda væri miðaður við tekjur hans á árunum 2003 og 2004.

Nýjar tilkynningar kæranda til vinnuveitanda hans um fæðingarorlof bárust lífeyristryggingasviði 31. ágúst og 17. nóvember 2005 og var honum af því tilefni sendar nýjar greiðsluáætlanir úr Fæðingarorlofssjóði, dags. 8. september og 25. nóvember 2005.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Enn fremur að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Þá segir þar jafnframt að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði og að aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Barn kæranda er fætt þann 4. ágúst 2005 og skal því, samkvæmt framangreindu ákvæði 2. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans árin 2003 og 2004.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.

Útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda var, í samræmi við framangreint lagaákvæði, byggður á tekjum kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK á árunum 2003 og 2004, enda taldist kærandi, samkvæmt þeim upplýsingum sem lágu fyrir, hafa verið á innlendum vinnumarkaði allan þann tíma, sbr. 3. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004.

Í þeim gögnum sem kærandi lagði fyrir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála er að finna staðfestingu á að kærandi hafi stundað fullt nám við D-framhaldsskólann á vorönn 2003 og vorönn 2004.

Samkvæmt fæðingar- og foreldraorlofslögum er ekki miðað við að foreldri sé í meira en 100% námi eða starfi, sbr. 6. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og 1. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 og því hefur, af hálfu lífeyristryggingasviðs, verið litið framhjá því að foreldri hafi verið í hlutastarfi samhliða fullu námi. Þar sem lög um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks gera ekki greinarmun á hvort starf sé 50 eða 100%, sbr. ákvæði 6. mgr. 13. gr. laganna og 7. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar hefur lífeyristryggingasvið litið svo á að hlutastarf í þessu sambandi skuli teljast starf sem ekki nær að teljast vera 50% starf samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 sem kveður á um starfshlutfall.

Á grundvelli þeirra gagna sem kærandi lagði fyrir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála og framangreindra sjónarmiða gaf lífeyristryggingasvið kæranda kost á að leggja fram gögn er vörðuðu störf hans þann tíma sem hann var í fullu námi í D-framhaldsskólann á viðmiðunartímabili útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, til að unnt yrði að leggja mat á hvert starfshlutfall hans hefði verið þá mánuði sem hann var jafnframt í fullu námi.

Samkvæmt gögnum sem kærandi lagði fram vann hann misjafnlega margar stundir í hverjum mánuði á vorönn 2003 og vorönn 2004. Á vorönn 2003 var ráðningarsambandi hans við vinnuveitanda hans þannig háttað að hann var ráðinn í breytilegt starfshlutfall en í janúar 2004 hóf hann störf hjá vinnuveitanda þeim sem hann starfaði hjá á vorönn 2004. Í febrúar og apríl 2003 og febrúar og mars 2004 vann kæranda færri stundir en 86 á mánuði og telst því hafa verið í innan við 50% starfi þá mánuði sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2005.

Á grundvelli þessara nýju gagna hefur lífeyristryggingasvið að nýju reiknað út greiðslur til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði, þar sem tekið hefur verið tillit til þess að hann hafi verið í fullu námi á vorönn 2003 og vorönn 2004, þannig að þeir mánuðir sem hann var í innan við 50% starfi meðan hann var í skóla, þ.e. febrúar og apríl 2003 og febrúar og mars 2004, hafa verið teknir út úr útreikningum.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 17. janúar 2006, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum, frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Barn kæranda er fætt 4. ágúst 2005. Viðmiðunartímabil meðaltals heildarlauna eru samkvæmt því árin 2003 og 2004, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Á framangreindu viðmiðunartímabili var kærandi í fullu námi við D-framhaldsskólann á vorönn 2003 og vorönn 2004. Kærandi vann með náminu og var vinnustundafjöldi hans misjafn milli mánaða og vikna. Samkvæmt ffl. er ekki miðað við að foreldri sé í meira en 100% starfi eða meira en fullu námi, sbr. 6. mgr. 13. gr. ffl. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Í ljósi þess og með vísan til þess sem að framan greinir telur nefndin að líta skuli framhjá því að kærandi hafi verið í hlutastarfi samhliða fullu námi sínu. Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á þá skýringu Tryggingastofnunar ríkisins að hlutastarf skuli eingöngu teljast starf sem ekki nær að teljast 50% starf á mánuði samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Með hliðsjón af framangreindu er útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði hafnað. Við útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði skal ekki taka með þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem kærandi var í fullu námi samhliða starfi.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til A er hafnað. Við útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði skal ekki taka með þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem kærandi var í fullu námi samhliða starfi.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta