Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2005

Fimmtudaginn, 12. janúar 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Úrskurður


Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 14. september 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 12. september 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 1. september 2005 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanns. Með bréfi dagsettu 10. október 2005 tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni eftir að mál hennar hafði verið endurskoðað. Í framhaldi af því greinir kærandi úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála í tölvuskeyti 17. október 2005 frá því að hún geti ekki fallist á útreikninga stofnunarinnar á greiðslum fæðingarstyrksins.

 

Með bréfi, dagsettu 19. september 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 28. október 2005. Í greinargerðinni segir:

Í framhaldi af greinargerð lífeyristryggingasviðs, dags. 10. október 2005, þar sem fram kom að hin kærða ákvörðun hefði verið endurskoðuð og samþykkt að verða við beiðni kæranda um fæðingarstyrk námsmanna, barst lífeyristryggingasviði frá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála athugasemdir kæranda við útreikning lífeyristryggingasviðs á mismun á fjárhæð fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, og þess fæðingarstyrks sem kærandi fær greiddan í B-landi.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk í allt að þrjá mánuði, hvort um sig, vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur fengið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Í 2. mgr. 19. gr. laganna er kveðið á um að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k fimm ár fyrir flutning. Njóti foreldri greiðslu vegna sömu fæðingar í búsetulandinu kemur hún til frádráttar fæðingarstyrknum, sbr. 3. mgr. 33. gr. laganna.

Í fyrrnefndri greinargerð lífeyristryggingasviðs, frá. 10. október 2005, var fallist á að kærandi uppfyllti skilyrði um fullt nám og undanþáguheimild frá því að eiga lögheimili á Íslandi.

Í 3. mgr. 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem vísað er til í lokamálslið 2. mgr. 19. gr. laganna segir m.a. að greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil skuli koma til frádráttar við greiðslu fæðingarstyrks skv. 19. gr. Ákvæði sama efnis er að finna í 1. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem lífeyristryggingasviði hafa borist frá Tryggingastofnun í B-landi eiga báðir foreldrar rétt á helmingi fæðingarorlofsgreiðslna sem greiðast fyrir 480 daga. Hvort foreldri um sig á rétt til fæðingarorlofs í 60 daga sem það getur ekki framselt til hins foreldrisins en hina 180 dagana getur það framselt hinu foreldrinu. Kærandi mun hafa sótt um fæðingarorlof í B-landi á tímabilinu 1. ágúst 2005 til og með 31. janúar 2006 og hefur verið samþykkt þar að hún fái fæðingarorlofsgreiðslur á þessu tímabili fyrir 132 daga.

Samhliða áðurnefndri greinargerð lífeyristryggingasviðs var kæranda sent bréf, dags. 10. október 2004, sem bar með sér að umsókn hennar um greiðslu fæðingarstyrks hefði verið samþykkt og hafði að geyma greiðsluyfirlit yfir greiðslur til hennar, sem byggðist á útreikningi greiðslna til hennar þar sem tekið hafði verið tillit til þeirra fæðingarorlofsgreiðslna sem hún fékk greiddar frá B-landi. Í kjölfar athugasemda kæranda til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofslaga var útreikningur þessi tekin til endurskoðunar og kom þá í ljós hann var rangur.

Greiðslur fæðingarstyrks námsmanna til kæranda hafa nú verið reiknaðar að nýju og byggist útreikningurinn á því að lífeyristryggingasvið lítur svo á að á sex mánaða tímabili hafi kærandi tekið 60 daga í fæðingarorlof í B-landi sem tilheyri hennar óframseljanlega rétti og 72 daga af sameiginlegum rétti foreldranna, þ.e.a.s. 20% af sameiginlegum rétti þeirra þar.

Þó að í 3. mgr. 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segi að greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil skuli koma til frádráttar greiðslu fæðingarstyrks, sbr. og 1. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, telur lífeyristryggingasvið ekki unnt að reikna greiðslur til kæranda með þeim einfalda hætti að reikna út sex mánaða greiðslurétt hennar hér á landi og draga frá þeirri fjárhæð þær fæðingarorlofsgreiðslur sem hún fær greiddar í B-landi á sex mánaða tímabili. Telur lífeyristryggingasvið að líta verði til þess að meðan kærandi hefur aðeins sótt um að nýta 20% af sameiginlegum rétti foreldra í B-landi geti kærandi einungis fengið sama hlutfall reiknað af sameiginlegum rétti foreldra hér á landi til fæðingarorlofsgreiðslna, enda liggur ekki fyrir hvort eða hvernig kærandi og barnsfaðir hennar ætla að nýta þau 80% af sameiginlegum rétti þeirra sem eftir standa í B-landi.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið rétt að reikna greiðslur til kæranda með neðangreindum hætti og er þá miðað við að gengi B krónunnar þann 10. október sl. þegar hinn rangi útreikningur var gerður, sem mun hafa verið 7,974. Þar sem fæðingarorlofsgreiðslur til hennar í B-landi reiknast vera sek. 180 á dag er í neðangreindum útreikningum greiðslur til kæranda í B-landi reiknaðar sem íkr. 1.435.

Kærandi hefur nýtt sjálfstæðan rétt sinn að fullu sem þýðir að frá þriggja mánaða sjálfstæðum rétti hennar hér á landi dragast frá greiðslur í B-landi sem tilheyra sjálfstæðum rétti hennar eða D krónur.

Þar sem 20% af þeim sameiginlega rétti sem hún nýtir reiknast vera hér á landi E krónur, sem er lægra en sú fjárhæð sem hún fær greidda í B-landi fyrir fæðingarorlof í 72 daga, þ.e. F krónur telur lífeyristryggingasvið rétt að miða við hlutfall daga í stað hlutfalls fjárhæða. Hér á landi reiknast 20% af sameiginlegum rétti foreldra samsvara 18 dögum og því telur lífeyristryggingasvið rétt að reikna út mismun þeirra fjárhæða sem 18 daga fæðingarstyrkur veitir annars vegar hér á landi og hins vegar í B-landi, þ.e. G krónur.

Mun því greiðsla fæðingarstyrks námsmanna til kæranda reiknast vera H krónur.

Ný greiðsluáætlun, sem byggir á framangreindum útreikningi, hefur verið gerð fyrir kæranda og send henni.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 31. október 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 13. nóvember 2005, þar segir meðal annars:

„Ég, kærandi, tel það ekki rétt að Tryggingastofnun ríkisins geti byggt útreikninga sína á því hversu stórt hlutfall af sameiginlegum rétti mínum og unnusta míns til fæðingarorlofs hér á landi (B-landi) ég kem til með að hafa nýtt mér á fyrstu sex mánuðunum eftir fæðingu dóttur okkar.

Sameiginlegur réttur okkar hér er 360 dagar sem okkur er gefinn kostur á að nýta á átta ára tímabili og eru greiðslurnar þar að auki tekjutengdar. Á sama tíma er fæðingarstyrkur námsmanna ætlaður sem stuðningur við foreldri í fullu námi fyrstu sem mánuðina eftir fæðingu barnsins, þegar litlar líkur eru á að viðkomandi eigi rétt til sambærilegra greiðslna á sama tímabili. Ætti því eingöngu að miða við möguleika á greiðslum þessa tímabils.

Það gefur augaleið að ég sem námsmaður kem ekki til með að nýta mér eftirstöðvar af sameiginlegum rétti okkar hér í B-landi meðan á námi stendur þar sem þær greiðslur eru mun lægri en því sem nemur greiðslum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þess má einnig geta að til þess að öðlast rétt til hærri greiðslna, hærri en því sem nemur þeirri lágmarksupphæð sem ég fæ nú greidda, verð ég að hafa verið í fullu starfi í samfleytt 240 daga áður en greiðslna er krafist. Ég hef ekki séð mér fært um að stunda fullt nám á þessu tímabili og uppfylli því ekki skilyrði fyrir lántöku hjá LÍN.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanns.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004 eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði, hvort um sig, vegna fæðingar barns. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur fengið í heild eða foreldrar skipt með sér. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 7. mgr. 19. gr. ffl.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, skal foreldri að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Njóti foreldri greiðslu vegna sömu fæðingar í búsetulandinu kemur hún til frádráttar fæðingarstyrknum, sbr. 3. mgr. 33. gr. ffl.

Með umsókn dagsettri 25. maí 2005 sótti kærandi um fæðingarstyrk sem námsmaður í sex mánuði frá áætluðum fæðingardegi barns 26. júní 2005. Í umsókninni kom fram að kærandi hafi verið búsett í B-landi frá maí 2003. Barn kæranda fæddist þann 17. júní 2005. Samkvæmt tölvuskeyti 29. ágúst 2005 frá Tryggingastofnun í B-landi er staðfest að kærandi hafi sótt þar um greiðslu fæðingarstyrks „föräldrapenning“ fyrir tímabilið 1. ágúst 2005 til 31. janúar 2006 alls 132 daga og greiðsla fyrir tímabilið 180 skr. á dag verið samþykkt.  

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun í B-landi eiga foreldrar samkvæmt B lenskum reglum hvort um sig rétt til fæðingarstyrks í 60 daga sem ekki er framseljanlegur milli foreldra og auk þess sameiginlegan rétt í 360 daga til viðbótar.

Óumdeilt er að kærandi á rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður á grundvelli 19. gr. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004. Ágreiningur er hins vegar um útreikning Tryggingastofnunar ríkisins þar sem á því er byggt að meðan kærandi hafi einungis sótt um að nýta 20% (72 daga) af sameiginlegum rétti foreldra í B-landi geti hún einungis fengið sama hlutfall reiknað (18 daga) af sameiginlegum rétti foreldra hér á landi.

Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. ffl. koma greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil til frádráttar greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. og greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. og 19. gr. laganna. Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála á kærandi samkvæmt því rétt á greiðslu fæðingarstyrks í sex mánuði eða eins og umsókn hennar er háttað frá og með júní til og með nóvember 2005 að frádregnum greiðslum sem hún hefði átt rétt á frá Tryggingastofnun í B-landi fyrir sama sex mánaða tímabil.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslu fæðingarstyrks hafnað. Við útreikning greiðslu fæðingarstyrks skal draga frá sex mánaða greiðslurétt frá Tryggingastofnun í B-landi.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslu fæðingarstyrks til A, er hafnað. Við útreikning greiðslu fæðingarstyrks skal draga frá sex mánaða greiðslurétt hennar frá Tryggingastofnun í B-landi.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta