Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 1995 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 57/1995

ÁLITSGERÐ

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

Mál nr. 57/1995

Skipting kostnaðar: Rafmagnstafla.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 25. september 1995, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili, um réttindi og skyldur eigenda í fjölbýlishúsinu X.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 27. september sl. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila hefur ekki borist, þrátt fyrir að gagnaðila hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um málið. Nefndin fjallaði um málið á fundi sínum 23. október og tók það til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Fjölbýlishúsið X er þríbýlishús, þ.e. kjallari, hæð og ris. Hlutfallstala kjallara er 36%, hlutfallstala hæðar er 50% og hlutfallstala riss er 14%. Ágreiningur málsaðila varðar skiptingu kostnaðar við nýja rafmagnstöflu fyrir húsið, þ.e. kostnað við efni og vinnu við uppsetningu á töflunni.

 

Krafa álitsbeiðanda er eftirfarandi:

Að kostnaði við uppsetningu rafmagnstöflunnar beri að skipta í þrjá jafna hluta.

 

Álitsbeiðandi rökstyður kröfu sína með því að ef allir eigendurnir í húsinu keyptu sér það efni sem þeir þyrftu í rafmagnstöfluna og sæju algerlega um sinn hluta hennar yrði kostnaður við efni og vinnu álíka mikill hjá hverjum fyrir sig.

Samkvæmt því sem fram kemur í álitsbeiðni telur gagnaðili hins vegar að þessum kostnaði beri að skipta eftir hlutfallstölum.

 

III. Forsendur.

Samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús er meginreglan sú að sameiginlegur kostnaður skiptist á eigendur eftir hlutfallstölum eignarhluta þeirra, sbr. A-lið 45. gr. Frá þessari meginreglu eru nokkrar undantekningar sem tilgreindar eru í B- og C-liðum 45. gr. Samkvæmt B-lið skal tilteknum kostnaði skipt að jöfnu og samkvæmt C-lið skal hvaða kostnaði sem er skipt í samræmi við not eigenda, ef unnt er að mæla óyggjandi not hvers og eins.

Þær undantekningar frá meginreglunni, sem upp eru taldar í 7 töluliðum í B-lið 45. gr., verður samkvæmt almennum lögskýringarreglum að skýra þröngt. Uppsetning á rafmagnstöflu er stofnkostnaður sem ekki verður talinn falla undir neinn töluliða B-liðar 45. gr.

Ákvæði C-liðar 45. gr. gildir samkvæmt orðalagi sínu því aðeins að unnt sé að mæla óyggjandi not hvers og eins eigenda. Þannig þurfa notin að vera nákvæmlega mæld. Þessi undantekningarregla hefur því þröngt gildissvið og kemur aðeins til álita í algerum undantekningartilfellum. Telja verður að skilyrði C-liðar sé ekki uppfyllt hvað varðar umrædda rafmagnstöflu.

Þar sem hvorki undantekningarregla B- né C-liðar 45. gr. á við um skiptingu kostnaðar við uppsetningu á rafmagnstöflu, gildir meginregla A-liðar, þ.e. skipting kostnaðar eftir hlutfallstölum.

 

IV. Niðurstaða.

1. Það er álit kærunefndar að kostnaði vegna uppsetningar rafmagnstöflu í fjölbýlishúsinu X beri að skipta eftir hlutfallstölum.

 

 

Reykjavík, 8. nóvember 1995.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Ingólfur Ingólfsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta